Umferðarlög

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 16:09:37 (2066)

1996-12-11 16:09:37# 121. lþ. 40.4 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur

[16:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið upplýst hér af flutningsmönnum þessarar breytingartillögu að þeir telja sig mæla fyrir þögulan meiri hluta og sauðkindina á Íslandi og þá fer maður kannski að skilja samhengið. (Gripið fram í: Hvert er samhengið?) Hér er hins vegar mikið alvörumál á ferðinni og það ber að fagna því að við nánari skoðun hafa menn áttað sig á því að þessi tillaga stefnir í alranga átt. Það liggur fyrir úr vönduðum rannsóknum þeirrar stofnunar á Norðurlöndum sem mest hefur farið ofan í áhrif umferðarhraða á slysatíðni, Trafikk Økonomisk Institutt í Noregi, að afleiðingar af hraðaaukningu eins og hér um ræðir mundi þýða þrjá til fjóra fleiri látna árlega í umferðarslysum hér á landi og 20--25 fleiri alvarlega slasaða. Jafnframt liggur fyrir að hvergi á Íslandi eru vegir sem eru færir um að taka við auknum hraða miðað við þær reglur sem gilda almennt í Evrópu um þessi efni og það blasir við að þessi tillaga mundi leiða til mikils ófarnaðar. En hafa ber í huga, vegna þess sem talað er um að fara í 100 km að heimild er fyrir slíkt í 37. gr. umferðarlaga, ef aðstæður leyfa, m.a. öryggiskröfur. Ég segi nei.