Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 11. desember 1996, kl. 16:30:05 (2073)

1996-12-11 16:30:05# 121. lþ. 40.12 fundur 173. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (sumarhús o.fl.) frv., Frsm. SF
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur

[16:30]

Frsm. félmn.(Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 303 og brtt. á þskj. 304 fyrir hönd félmn.

(Forseti (RA): Ég vil biðja menn að gefa ræðumanni hljóð en um leið vil ég vekja athygli á því að það verður haldinn nýr fundur strax að loknum þessum fundi. Það verður stuttur fundur. Og getur nú ræðumaður haldið áfram ræðu sinni.)

Í frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi um stofn til álagningar á sumarhús og nú gilda um útihús í sveitum. Stofn til álagningar fasteignaskatts á sumarhús verður þá fasteignamat þeirra. Jafnframt verði hætt að umreikna matsverð sumarhúsa til markaðsverðs sambærilegra eigna í Reykjavík. Þá er í frumvarpinu lagt til að í lögunum komi skýrt fram að sveitarstjórnir hafi sams konar heimildir til að undanþiggja sumarhús álagi á fasteignaskatt og gilda um aðrar fasteignir í dreifbýli.

Í vor var gengið frá samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga og í framhaldi af því gerðar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Frá því að umrætt samkomulag var gert hafa forsendur um lífeyrissjóðsskuldbindingar breyst. Kostnaður sveitarfélaga við að standa skil á lífeyrissjóðsskuldbindingum grunnskólakennara mun aukast og verða 225 millj. kr. umfram það sem áður var talið. Því hefur verið gert viðbótarsamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning tekna frá ríki til sveitarfélaga. Í ljósi þessa leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali, nr. 304. Þar er miðað við að útsvarshlutfall verði hækkað um 0,09% til viðbótar því sem þegar er kveðið á um.

Legg ég því til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fylgja á þskj. 304.