Viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 13:35:39 (2080)

1996-12-12 13:35:39# 121. lþ. 42.91 fundur 139#B viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[13:35]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það kom reyndar fram í upphafsorðum forseta að rætt yrði við þingflokksformenn um 3. dagskrármálið en ég get ekki annað en lýst furðu minni á því að frv. um málefni fatlaðra skuli komið hér á dagskrá þingsins. Mér skilst að því hafi verið útbýtt í gær. Ég hef því miður ekki haft tíma til að kynna mér málið. En það sem vekur ekki minni furðu mína er að þegar kominn er 12. des. á að hefja umræðu um mál sem á að verða að lögum fyrir áramót. Mér finnst þetta ekki nógu góð vinnubrögð á hinu háa Alþingi að vera að byrja umræðu um slíkt mál. Ég átta mig ekki á hversu flókið það er en ég sé að þetta tengist reyndar breytingum á öðrum lögum sem hér eru til meðferðar. En ég spyr hæstv. forseta: Er það virkilega nauðsynlegt að þetta mál verði á dagskrá og verði að lögum fyrir áramót? Félmn. er nú að fást við mjög stór mál og mér finnst, hæstv. forseti, að þrátt fyrir góðan ásetning forseta þingsins um vinnubrögð hér, þá lendum við í sömu súpunni ár eftir ár. Á þessu verður að verða einhver breyting.