Viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 13:38:14 (2082)

1996-12-12 13:38:14# 121. lþ. 42.91 fundur 139#B viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[13:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem hafa komið fram við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur varðandi málefni fatlaðra. Ég vil gjarnan að það komi fram að í því góða samstarfi sem hefur verið með þingflokksformönnum og forseta Alþingis hefur það verið rætt að eitt af því sem eigi ekki að eiga sér stað, en gerðist nokkuð oft á síðasta vetri, sé það að dreifa frumvörpum, jafnvel þýðingarmiklum og allt að því lagabálkum, annan daginn og þau væru komin á dagskrá í upphafi fundar næsta dag. Forseta er kunnugt um að okkur hefur fundist að þetta ætti ekki að gerast ef við vildum viðhafa góð vinnubrögð og ég hef gagnrýnt þetta harkalega. Þess vegna gagnrýndi ég það líka við forseta í dag að sjá að mál sem var dreift í gær væri komið hér á dagskrá í upphafi fundar og er mjög sátt við það að forseti hafi brugðist við með því að breyta röð mála.

Hins vegar vil ég að það komi fram að ég hef engan áhuga á því að tefja framgang í þeim mikilvæga málaflokki sem málefni fatlaðra er. Hann er mikilvægur, ætti að vera ræddur miklu oftar en raunin er hér á Alþingi. En, virðulegi forseti, ég hlýt að minna á það þar sem þetta mál kemur svo skjótt á dagskrá að þess var óskað að sérstök umræða, sem farið hafði verið fram á að beiðni hagsmunasamtaka fatlaðra, færi fram í tengslum við 3. des. Ekki var hægt að koma því við. Við ræddum þá um störf þingsins og báðum um að þessari umræðu yrði komið á næstu daga. Sú umræða fjallar um afmarkaða þætti í málefnum fatlaðra, ekki breytingu á löggjöfinni og á ekki heima undir umræðu um frv. sem slíkt. Þess vegna minni ég á það að sú umræða sem þá var beðið um er jafnþýðingarmikil í dag og hún var þá vegna þess að hún er óháð frumvarpsbreytingu. Og ég vil að það komi fram að félmrh. hefur í tvígang látið þau orð falla við mig að það skuli ekki standa á honum að taka þá umræðu sem beðið var um og að hann sé tilbúinn fyrirvaralítið að taka hana. Þess vegna hlýt ég að benda á að það virkar illa á sum okkar þegar slík umræða kemst ekki á dagskrá en frumvörp koma sisvona, dreift annan daginn og á dagskrá hinn.