Viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 13:40:45 (2083)

1996-12-12 13:40:45# 121. lþ. 42.91 fundur 139#B viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[13:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að þessi mál verða rædd aðeins betur, þ.e. dagskrá í dag. Það er alveg fráleitt að setja svona mál á dagskrá yfirleitt án þess að ræða það áður á vettvangi formanna þingflokkanna. Það gengur ekki og er ástæðulaust að sitja þegjandi undir því. Það á ekki að ganga þannig frá málum á síðustu dögum þingsins, sérstaklega þegar um er að ræða mál sem er viðamikið og við höfum ekki haft aðstöðu til þess að kynna okkur miðað við það að fólk er hér stöðugt á nefndafundum svo að segja sólarhringum saman í ýmsum nefndum þingsins og stjórnarandstæðingar hafa staðið sig vel í því að mæta á fundum í þingnefndum við að afgreiða mál af margvíslegu tagi og oft miklu betur en stjórnarsinnar. Mér finnst því að það sitji satt að segja síst á meiri hlutanum og þingforustunni að koma fram við stjórnarandstöðuna með þeim hætti sem ég tel að sé gert með þeim dagskrártillögum sem liggja fyrir í dag og kannski síst af hæstv. félmrh. sem hefur fengið alveg sérstaklega góða þjónustu hér í þinginu undanfarna daga, að ekki sé meira sagt.

Þetta er þeim mun undarlegra og alvarlegra, hæstv. forseti, þegar frv. um málefni fatlaðra er undirbúið af stjórnarflokkunum og hagsmunasamtökum. Fulltrúar stjórnarflokkanna hafa séð þetta mál. Fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. hafa séð þetta mál í nefnd. En fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem áttu að byrja að ræða málið í dag, hafa aldrei séð þetta mál vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengu ekki að vera með í þeirri nefnd sem undirbjó þetta mál sem er algjörlega fráleitt og í raun forkastanleg vinnubrögð í máli af því tagi sem hér er uppi þar sem þarf að leita víðtækrar, faglegrar og pólitískrar samstöðu. Þess vegna á að gagnrýna þessi þröngu, lokuðu vinnubrögð stjórnarflokkanna í hverju málinu á fætur öðru, m.a. því máli sem hér er uppi. Þess vegna vil ég segja það, hæstv. forseti, að það eru öll rök sem mæla með því að þetta mál verði ekkert hér til umræðu í dag heldur komi bara til umræðu eftir helgi með eðlilegum hætti ásamt fleiri málum.