Viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 13:45:22 (2085)

1996-12-12 13:45:22# 121. lþ. 42.91 fundur 139#B viðvera ráðherra og frumvarp um málefni fatlaðra# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[13:45]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka það fram í tilefni af orðum hæstv. félmrh. að ég ber mikla virðingu fyrir samtökunum Þroskahjálp. Þau eiga ekki fulltrúa á Alþingi. Alþfl. á hins vegar fulltrúa á Alþingi, eins og kunnugt er, (Gripið fram í.) þannig að þessi uppsetning mála af hálfu hæstv. ráðherra er misnotkun á þeim trúnaði sem hagsmunasamtök sýna honum. Svo einfalt er það. Og að ætla sér að líta þannig á að fulltrúi Þroskahjálpar sé fulltrúi einhvers stjórnarandstöðuflokks er algjör fjarstæða í máli af þessu tagi. Ég hef reyndar séð að hæstv. ráðherrar hafa leikið þennan leik gagnvart ýmsum öðrum nefndum og starfshópum. Það er óeðlilegt og ég vísa því almennt á bug. Ríkisstjórnin á að sjá sóma sinn í því að kalla til fulltrúa stjórnarandstöðuflokka þegar kemur að málum sem þurfa víðtæka, pólitíska og faglega samstöðu eins og málefni fatlaðra.

Hér er um að ræða gríðarlega stórt mál líka sem er flutningur á málaflokknum yfir til sveitarfélaganna. Það er ekkert smámál og það er ekkert einfalt mál. Það tekur örugglega þó nokkurn tíma að ræða það mál, hæstv. forseti.