Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 15:03:29 (2091)

1996-12-12 15:03:29# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:03]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. sjútvn. um dagskrármálið. Álitið liggur fyrir á þskj. 301 og brtt. sem þar er fjallað um á þskj. 302. Meiri hlutinn gerir að tillögu sinni að breytingar verði gerðar á 5. og 6. gr. þess efnis að skilyrðin eigi við bæði um aflaheimildir á deilistofnum og öðrum stofnum. Því næst breyting við 10. gr., þar sem fjallað er um viðbrögð við skipum sem óheimilt á að vera að veita þjónustu, um að 2. málsl. 1. mgr. orðist eins og þar segir. Síðan í fjórða lagi að nýr kafli um viðurlög verði í samræmi við viðurlagaákvæði sem þegar hafa komið fram í öðrum lögum um stjórn fiskveiða og 5. liður brtt. er svo að þær greinar sem voru í frv. um viðurlög verði felldar niður.

Herra forseti. Frv. hefur þegar verið til umfjöllunar á fyrra þingi þannig að efni þess og viðfangsefnið sem það tekur til er hv. þm. vel kunnugt. Í hv. sjútvn. hafa nefndarmenn fjallað um það fyrr, bæði á síðasta vori eða fyrra vetrarþingi og nú í nokkrar vikur og fengið umsagnir og álit ýmissa aðila. Við teljum að sú umfjöllun sé orðin eðlileg. Hún hafi náð til þeirra þátta sem eðlilegt sé að komi til álita. Sótt hefur verið eftir athugasemdum aðila sem eiga undir að búa og þeirra sem til þurfa að koma við framkvæmd þegar frv. verður að lögum.

Það er vert að geta þess, herra forseti, að í umfjöllun nefndarinnar og í umræðum um málið fyrr á þinginu, og raunar líka á síðasta þingi, hefur mikið verið rætt hvort nauðsyn sé á þessari löggjöf og hvernig það muni snerta þá aðila sem við hana þurfa að búa. Okkur í meiri hluta nefndarinnar sýnist að nauðsyn sé fyrir löggjöf af þessu tagi. Ekki einasta vegna þess sem mest hefur verið spurt um að væntanlegt sé að gildi taki alþjóðlegur samningur um úthafsveiðar sem Ísland mun verða aðili að og sem ríkisstjórnin ætlar að við verðum raunar með fyrstu ríkjum til að verða aðili að og fullgilda. En einnig og ekki síður vegna annarra samninga sem Ísland er aðili að við önnur ríki, grannríki okkar, um stjórn veiða á stofnum sem eru okkur mjög mikilvægir á hafsvæðum í námunda við okkar lögsögu. Þar er um að ræða stofna sem við teljum að séu verulegar ástæður til að hafa áhyggjur af. Um þau svæði og um þær veiðar verður að segjast, herra forseti, að við þykjumst hafa orðið þess áskynja að ástæða sé til að Ísland hafi betri lagagrundvöll en verið hefur til afskipta af þeim veiðum. Þess vegna teljum við brýnt að þetta frv. verði að lögum. Varðandi atriði sem spurt hefur verið um í umræðum í hv. sjútvn. hvort þetta frv., þegar að lögum verður, muni hefta framgang sóknar íslenskra útgerða á hugsanleg ný mið eða áður ósótt af okkar mönnum, þá verður að koma fram að okkur virðist þetta frv. muni ekki hefta slíkar nýjar veiðar eða sókn á mið sem eru okkur ný.

Í þessu sambandi, herra forseti, hefur verið gripið á lofti að með frv. sé ætlunin að færa út með einhverjum hætti íslenska lögsögu allt til annarra meginlanda, um allan hnött og jafnvel víðar. Ég held að það sé sérstakt orðalag til þess að gera gys að því sem í raun hlýtur alltaf að eiga við, að þar sem íslensk starfsemi fer fram hlýtur hún að gegna íslenskum lögum og reglum. Um þetta er ekki nýmæli í lögunum að finna. Við teljum hins vegar skipta máli að í þessum lögum er að finna raunveruleg skilyrði fyrir því hvenær stjórnvöld geti og eigi að hafa afskipti af þessari starfsemi. Í núgildandi lögum um veiðar utan lögsögunnar eru slík skilyrði ekki sett. Og um þau lög mætti segja líkt og sagt er í dómi Hæstaréttar sem hefur komið til umræðu nokkuð í þessu sambandi. Þau lög eru án þeirra skilyrða sem Hæstiréttur telur að hafi skort í lögum sem hann fjallar um í máli nr. 110 frá 1995 og telur ámælisvert í löggjöf, að framkvæmdarvaldi, stjórnvöldum, sé heimilað að takmarka eða skerða atvinnufrelsi manna án þess að fyrir sé mælt í lögunum við hvaða aðstæður og hversu langt megi ganga. Slík skilyrði verða í lögum þegar þetta frv. verður að lögum. (Gripið fram í: Hvaða lögum?) Ég heyri að hv. þm. hefur ekki enn lesið frv. nægilega vel. En þau eru í þessu frv., þau eru í ákvæðum frv. sem við munum samþykkja að lokinni 3. umr.

Auk þess sem fram kemur í brtt. meiri hlutans, herra forseti, vill hann taka fram atriði sem honum finnst máli skipta um skilning ákvæða þegar til framkvæmda koma í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. þar sem verða heimildir til þess, eftir atvikum, að fara fram á að þeir sem fái heimildir, aflaheimildir utan lögsögunnar, í deilistofnum eða öðrum, láti af hendi rakna þess í stað aðrar. Og þar lætur meiri hlutinn fram koma það sem er hans skilningur, að það þurfi að liggja fyrir áður en slíkum ákvæðum verði beitt og að hann telji ekki einasta rétt að miða við þorskígildi sem byggjast á mismunandi verðmæti afla heldur einnig á mismunandi kostnaði við sóknina á fjarlæg mið, misjafnlega langt frá landi. Án þess að rekja nánar frá orði til orðs sem í nál. segir þá er þetta tilraun til þess að gefa nokkra fyrirsögn um það hvernig beita megi, ef beitt verði, þeim heimildum sem fjallað er um í 3. mgr. beggja þessara greina.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir tillögum meiri hluta nefndarinnar og atriðum sem þess utan koma fram í áliti hans og legg til að brtt. verði samþykktar.