Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 15:11:44 (2092)

1996-12-12 15:11:44# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. 1. minni hluta SighB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:11]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frsm. meiri hluta sjútvn. tók þannig til orða áðan að þetta frv. hafi fengið mjög mikla umfjöllun og vandaða og miklar umræður og því væri engin ástæða til annars en að afgreiða það nú. En þá spyr ég: Hver var þá ástæðan fyrir því, herra forseti, að gert var klukkutíma starfshlé á fundi í dag þegar tilkynnt hafði verið að málið væri tekið fyrir og hv. frsm. meiri hluta sjútvn. ætti að taka til máls? Hann mætti ekki í ræðustól þegar hann átti að taka til máls og í framhaldi af því var gefið klukkustundar fundarhlé. Hvers vegna, virðulegi forseti? Var eitthvað sem var enn órætt, eitthvað óvænt sem hafði komið upp á? Eitthvað sem mönnum hafði yfirsést? Ber það vott um vönduð vinnubrögð og mikla umfjöllun að hv. frsm. meiri hluta sjútvn. mætir ekki hér þegar búið er að boða það að hann taki til máls til þess að rökstyðja afgreiðslu meiri hlutans? Síðan er í kjölfarið, rétt áður en fundur hefst dreift nýju nál. meiri hlutans þar sem búið er að breyta í veigamiklum atriðum út frá því nál. sem hafði legið fyrir og var kynnt af sjútvn. fyrir einum tveimur sólarhringum og enginn hafði gert minnstu athugasemdir við fyrr en nú, tveimur sólarhringum síðar. Ber þetta, virðulegi forseti, vott um að málið sé vandlega unnið og hafi verið skoðað frá öllum hliðum og nægileg umræða hafi farið fram? Það held ég ekki því að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í dag í umræðunni um þetta mál eru ekki þau sem venjulega eru tíðkuð hér á löggjafarsamkomunni. Þau bera þvert á móti vitni um það að til verksins hafi ekki verið sérstaklega vel vandað.

Það skyldi þó ekki vera að það væri ýmislegt fleira í frv. sem þyrfti að skoða betur? T.d. er ég alveg sannfærður um að hv. frsm. meiri hluta sjútvn. er þeirrar skoðunar í hjarta sínu og höfði líka að það hefði verið rétt að taka sér svolítið meiri tíma m.a. til að skoða þær athugasemdir sem bárust sjútvn. á síðustu stigum málsins frá Katli Sigurjónssyni lögfræðingi, kennara í hafrétti við lagadeild Háskóla Íslands, og hefði gjarnan viljað, ef hann hefði mátt ráða ferðinni sjálfur, að þau eðlilegu vinnubrögð hefðu verið viðhöfð að eftir að það álit lá fyrir þá tækju menn sér svolítið hlé í störfum nefndarinnar með þetta mál og létu skoða það betur hvort sú skoðun lögfræðingsins sé á rökum reist að sú afgreiðsla sem hér á að fara fram stangist gróflega á við nýfallinn dóm Hæstaréttar sem reis út af sambærilegri lagasetningu hér á Alþingi þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að löggjafarsamkoman væri að framselja óleyfilega lagasetningarvald til ráðherra. Þess vegna mótmæli að ég því að þetta mál hafi fengið vandaða og mikla umfjöllun þó svo að ég viðurkenni það fúslega að það sé búið að vera á dagskrá Alþingis síðan í fyrra.

[15:15]

Þá fannst mér það líka vera hálfundarlegt sem haldið var fram hér áðan af frsm. meiri hlutans að það væri einhver þumalfingursregla að hvarvetna þar sem fram færi íslensk starfsemi ætti hún að eiga sér stað samkvæmt íslenskum lögum. Það væru rök fyrir því að íslensk lög ættu að gilda innan fiskveiðilandhelgi annarra ríkja. Nú vill svo til að Íslendingar fara með starfsemi mjög víða innan lögsögu annarra ríkja, t.d. á Kamtsjatka og við rekstur Mecklenburger Hochsee\-fischerei. Er það þá skoðun hv. þm. að þessi atvinnustarfsemi eigi að fara fram samkvæmt íslenskum lögum en ekki lögum þeirra landa þar sem atvinnustarfsemin er stunduð? Hv. þm. kynni að halda því fram að hann ætti við það eitt að íslensk starfsemi skyldi fara fram samkvæmt íslenskum lögum sé um að ræða starfsemi fyrirtækis sem skráð er á Íslandi en ekki í öðrum löndum. Þá spyr ég: Er þá hv. þm. að halda því fram að t.d. íslensk verktakafyrirtæki sem skráð eru á Íslandi en starfa í öðrum löndum, að starfsemi þeirra þar eigi að fara fram samkvæmt íslenskum lögum? Ja, miklir menn erum við nú, Hrólfur minn, ef það á að vera niðurstaða okkar Íslendinga að íslensk lög séu rétthærri lögum annarra ríkja, ef íslenskir ríkisborgarar eða íslenskt fyrirtæki stundar atvinnustarfsemi sína annars staðar en í lögsögu okkar eigin lands, þá eigi íslensk lög að gilda. Ég er hræddur um að það kæmi skrýtinn svipur á ýmsar grannþjóðir okkar og jafnvel fleiri þó að lengra yrði leitað ef þessi túlkun hv. frsm. meiri hluta sjútvn. ætti að berast fram t.d. af sendimönnum Íslands á alþjóðavettvangi, að íslensk lög væru rétthærri lögum annarra þjóða þegar um Íslendinga væri að ræða sem stunduðu atvinnustarfsemi innan lögsögu annarra ríkja. Ég hef aldrei heyrt svona löguðu haldið fram og spyr hv. formann nefndarinnar hvort þetta sé virkilega hans skoðun eða hvort honum hafi orðið á þarna illileg mismæli og hann meini eitthvað allt annað en það sem hann segir því það segir sig auðvitað sjálft að ef íslenskt fiskiskip stundar veiðar innan lögsögu annarra ríkja eða annars ríkis, þá eru það auðvitað lög þess ríkis sem eiga við um þá atvinnustarfsemi. Ekki mundum við Íslendingar samþykkja að erlend fiskiskip gætu stundað veiðar innan íslensku fiskveiðilögsögunnar á þeim lagagrunni sem reistur er í heimalöndum viðkomandi skipa en þyrftu ekki að taka neitt tillit til íslenskra laga í því sambandi. Þetta er því algjörlega út í hött og engin rök og fáránlegt að þetta sé notað sem rökstuðningur fyrir því að íslensk lög eigi að gilda um veiðar íslenskra fiskiskipa innan fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Það er fráleitt. En öðruvísi voru ummæli hv. formanns nefndarinnar ekki skiljanleg. Hvað átti hv. þm. þá við ef hann átti ekki við þetta? Svona orðaði hann sína skoðun, en það getur vel verið að hugsun hans hafi verið allt önnur heldur en sú sem orðanna hljóðan lét í té.

Það frv. sem hér er til umræðu var til umfjöllunar á þinginu í fyrra og urðu þá miklar umræður um málið. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þær hér. Ég flutti þá langa ræðu um öll efnisatriði þessa máls sem ég vitna einfaldlega í án þess að fara að endurflytja þá ræðu hér, en vil aðeins staldra við það að þó svo að undirbúningur þessarar frumvarpssmíðar hafi hafist í sérstakri nefnd, sem hæstv. sjútvrh. skipaði með aðild allra þingflokka, þá er það einfaldlega staðreynd engu að síður að sú nefnd komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu þannig að frv. er ekki flutt sem samkomulagsmál í framhaldi af því nefndarstarfi. Þvert á móti var ágreiningur í nefndinni bæði um meginefnisatriði frv. og þar að auki um hverja einustu grein sem í frv. stendur.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem var fulltrúi Alþfl. í úthafsveiðinefndinni, lagði m.a. við lok nefndarstarfsins fram ítarlega greinargerð þar sem hún skýrði afstöðu sína og þingflokks Alþfl. og þar kom þetta ljóst og skýrt fram. Ég las þessa greinargerð alla á þinginu í fyrra og vitna til hennar án þess að ég ætli að fara að lengja umræðuna með því að lesa hana alla aftur. En þar kom það fram að af hálfu okkar alþýðuflokksmanna var ágreiningur um meginefni frv., þ.e. um hvort þörf sé fyrir að setja svona lög. Við teljum það ekki vera. Við teljum að í íslenskri löggjöf eins og hún er séu fullnægjandi heimildir til þess að stjórna veiðum á úthafinu innan þeirra marka sem samningar skuldbinda okkur til að sé gert. Enn fremur komu fram í greinargerð hv. þm. athugasemdir við allar einstakar efnisgreinar frv.

Sá ágreiningur sem var um málið í fyrra og kom m.a. fram hér á Alþingi og í störfum sjútvn. þá hefur alls ekki verið jafnaður því að þær tiltölulega fáu breytingar sem meiri hluti sjútvn. leggur til breyta ekki meginefnisatriði frv. þannig að ágreiningurinn, sem var uppi um málið, er enn til staðar og hefur ekki verið jafnaður. Það sem hefur hins vegar gerst í nefndarstörfum sjútvn. nú er að fram hafa komið nýjar upplýsingar sem ekki lágu fyrir í fyrra, sem gera það enn vafasamara en það var á síðasta þingi að afgreiða þetta frv. eins og frá því er gengið. Fram hafa komið upplýsingar á fundum sjútvn. er varða í fyrsta lagi það fordæmi sem verið er að gefa öðrum þjóðum og í öðru lagi hafa komið fram alvarlegar athugasemdir og ábendingar frá Katli Sigurjónssyni lögfræðingi, kennara í hafrétti í Háskóla Íslands, sem ekki lágu fyrir í fyrra. Og þessar upplýsingar eru það afdráttarlausar og það umhugsunarverðar að hafi ekki verið ástæða til að afgreiða frv. í fyrra, eins og varð niðurstaða Alþingis þá, þá er enn síður ástæða til að afgreiða það nú.

Í nefndaráliti 1. minni hluta sjútvn. er birt sem fskj. I dómur í Hæstarétti í máli Samherja hf. gegn íslenska ríkinu, nr. 110/1995, sem upp var kveðinn 10. okt. 1996. Niðurstaða Hæstaréttar er í stuttu máli sú að með þeim lögum sem þar er vitnað til hafi Alþingi óleyfilega framselt stjórnvaldi, stjórnvaldshafa, þ.e. ráðherra, lagasetningarvald, vald til þess að skerða atvinnufrelsi manna sem ekki standist ákvæði stjórnarskrár íslenska lýðveldisins um atvinnufrelsi o.fl. og bæri því að dæma ógilt. Og í fskj. II sem fylgir með nefndaráliti 1. minni hluta koma einnig fram nokkrar lögfræðilegar athugasemdir frá Katli Sigurjónssyni, kennara í hafrétti við Háskóla Íslands, við frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að það frv. sem hér á að afgreiða feli í sér sambærilegt valdaafsal frá löggjafarstofnun til stjórnvaldshafa eins og í lögum þeim sem dómur Hæstaréttar vék að í dóminum sem ég ræddi um áðan. Því er það niðurstaða Ketils Sigurjónssonar að sú afgreiðsla sem hér eigi að fara fram stangist jafnmikið á við ákvæði stjórnarskrár eins og löggjöf sú sem samþykkt var á Alþingi og Hæstiréttur dæmdi ógilda með dómi sínum frá því fyrir nokkrum vikum síðan. Og lögfræðingurinn bendir á að það sé meira að segja sama orðalag notað í því frv. sem hér á að fara að afgreiða sem lög frá Alþingi og Hæstiréttur dæmdi óhæft í lögunum sem komu til umfjöllunar Hæstaréttar í máli Samherja hf. gegn íslenska ríkinu þar sem dómur var upp kveðinn þann 10. okt. 1996.

Þessar ábendingar lögfræðingsins gera það að verkum að við sem skipum 1. minni hluta sjútvn. teljum að sú niðurstaða sé studd svo mörgum og skýrum rökum að telja verði að í frv. sé um að ræða ólögmætt framsal til ráðherra á lagasetningarvaldi og Alþingi geti ekki afgreitt frv. af þessu tagi eftir jafnskýra niðurstöðu Hæstaréttar og ég gat um áðan vegna þess að Alþingi megi eiga von á því að þeirri lagasetningu verði hrundið með sama hætti og Hæstiréttur hratt lagasetningu frá Alþingi með dómi sínum þann 10. okt. sl.

Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir, sem eru nýtt innlegg í þetta mál, þá óskuðum við stjórnarandstæðingar eftir því að málið yrði ekki látið ganga lengra að sinni heldur yrði óskað eftir umsögn hlutlauss málsmetandi aðila eins og t.d. Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort þessar athugasemdir kennarans við lagadeild Háskóla Íslands væru réttmætar. Það leyndi sér ekki að ýmsir þingmenn sem fylgja ríkisstjórninni að málum höfðu alvarlegar áhyggjur af málinu, en þeir treystu sér samt ekki til þess að taka hlé á afgreiðslu málsins á meðan beðið væri eftir jafnsjálfsögðum niðurstöðum eins og þeim sem álit Ketils Sigurjónssonar krefst af þingnefnd að eftir verði leitað.

Þegar kennari í lögum við Háskóla Íslands kemur fram með svona alvarlegar athugasemdir gagnvart þingnefnd sem fjallar um mikilsvert mál er varðar fjárhagslega hagsmuni mjög margra einstaklinga og félaga, þá er það skylda okkar alþingismanna að ganga úr skugga um það eins og best við getum að sú afgreiðsla sem við leggjum til að gerð verði á málum af þessu tagi standist grundvallarlög íslenska ríkisins, þ.e. stjórnarskrána, sem við verðum að vega okkar almennu lagasetningu eftir. Það er okkur til skammar að standa að málum eins og hér er gert, að ætla af brjóstvitinu einu saman að afgreiða frv. eins og þetta sem skerða mun atvinnufrelsi fjölmargra einstaklinga, sjómanna, útgerðarmanna og annarra, og leggja þar að auki í hendur hæstv. sjútvrh. vald sem löggjafarstofnunin hefur að mínu viti ekki heimild til þess að afsala sér með þeim hætti sem hér á að gera. Ég tel það til skammar fyrir sjútvn. Alþingis eða öllu heldur meiri hluta þeirrar nefndar að neita þeim sjálfsögðu tilmælum okkar í minni hlutanum að afgreiða svona mál ekki af brjóstvitinu einu saman, taka ekki þá áhættu ofan í dóm Hæstaréttar frá 10. okt. sl. að Alþingi skelli skollaeyrum við þeim niðurstöðum og afgreiði vísvitandi frv. sem sjútvn., sem um málið fjallaði, veit að er a.m.k. á hinu gráa svæði um hvað leyfilegt er að gera við afgreiðslu laga á Íslandi. Það nær engri átt að stjórnarmeirihlutinn í einni af nefndum þingsins, sem á að sjá til þess að málaumfjöllun sé vönduð og stangist ekki á við fyrirmæli íslensku stjórnarskrárinnar, skuli halda þannig á málum að ekki sé hægt að ganga úr skugga um hvort jafnalvarlegar athugasemdir og komu fram frá Katli Sigurjónssyni séu réttar eða rangar.

Þá er látið í veðri vaka við afgreiðsluna að niðurstaða úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem lauk í ágústmánuði á síðasta ári kalli á skjóta lagasetningu. Það er ekki rétt. Aðeins örfá ríki hafa enn staðfest samninginn þannig að umtalsverð bið kann að vera á því að hann hljóti alþjóðlegt lagagildi og á meðan eru í gildi sem alþjóðalög ákvæði núgildandi hafréttarsáttmála sem segja að veiði á úthafinu sé frjáls. Við getum ekki sett lög á Íslandi sem gera ráð fyrir því að alþjóðalög séu með öðrum hætti heldur en þau eru. Vel má vera að áður en langt um líður öðlist úthafsveiðisáttmáli Sameinuðu þjóðanna alþjóðalagastoð þegar nægilega mörg ríki verða búin að staðfesta hann til þess að svo verði, en svo er ekki enn og á meðan gilda þau lög sem eru í gildi og heimila frjálsar veiðar á úthöfum.

[15:30]

Ég óskaði eftir því á sínum tíma við hæstv. utanrrh. að hann aflaði upplýsinga frá öðrum ríkjum, þar á meðal ríkjum sem hafa staðfest úthafsveiðisáttmála Sameinuðu þjóðanna, um hvaða breytingar þau kunni að hafa gert á lögum sínum vegna staðfestingarinnar á úthafsveiðisáttmálanum svo að við Íslendingar sæjum hvort þeir væru að gera sambærilegar breytingar eða hefðu gert sambærilegar breytingar á sínum lögum eins og til stæði að gera hér. Hæstv. utanrrh. aflaði nokkurra upplýsinga um þetta og þær voru sendar sjútvn. Þær upplýsingar komu frá Kanada, Evrópusambandinu og Noregi og þar kom fram að sú vinna sem þar á sér stað er með allt öðrum hætti heldur en það frv. gerir ráð fyrir sem nú á að ganga til afgreiðslu á hér. Hvergi er að fullu lokið lagasetningu sem talið er nauðsynlegt að gerð verði vegna áhrifa úthafsveiðisáttmálans þannig að ef þetta frv. verður að lögum erum við fyrsta ríkið sem bindur í landslög sín ákvæði er varðar framkvæmd úthafsveiðisáttmálans. Út af fyrir sig er það allt í lagi að Ísland ríði á vaðið í þeim efnum. En spurningin er hins vegar sú hvort ástæða sé til þess að Íslendingar geri það með allt öðrum hætti og með allt aðra framkvæmd í huga heldur en önnur ríki sem eru að vinna að sama máli.

Í upplýsingunum frá utanrrn. kom fram að Kanada, sem enn hefur ekki fullgilt úthafsveiðisamninginn, er að vinna að breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða þar í landi, en þar er ekki enn búið að leggja fram neitt lagafrv. þar að lútandi þannig að þeir eru ekki komnir lengra en það. En þó var okkur tjáð hver væru þau efnisatriði sem þeir væru að vinna með og þau efnisatriði lúta fyrst og fremst að ákvæðum um eftirlit og beitingu eftirlits- og löggjafarvalds á úthafinu. Þar er ekki um að ræða jafnvíðtækt valdframsal til sjútvrh. eða stjórnvaldshafa eins og við erum að gera með þessu frv. til þess að stjórna úthafsveiðum. Eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið eru Kanadamenn eingöngu að fjalla um það eitt að breyta lögum sínum til þess að tryggja að hægt sé að hafa gagnkvæmt eftirlit með veiðum fiskiskipa á úthafinu, þ.e. að Kanadamenn geti beitt sínu eftirliti gagnvart skipum annarra ríkja með samþykki þeirra og öfugt. En eftir því sem best verður séð af þeim upplýsingum sem við fengum í hendur eru Kanadamenn ekki að vinna neitt sambærilegt verk og við erum hér að gera þar sem gert er ráð fyrir því að sjútvrh. fái sjálfdæmi um stjórnun á öllum þessum veiðum. Þar erum við einir á báti.

Við fengum líka upplýsingar frá Evrópusambandinu um að þar eiga menn enn langt í land með að fullgilda samninginn. Það sem menn eru þar að gera varðandi undirbúning að því að framkvæma úthafsveiðisamninginn er það sama og í Kanada, þ.e. menn eru fyrst og fremst að ræða um eftirlits- og lögregluvald á úthafinu. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða einhvers konar valdaafsal á stjórn veiðanna til stjórnvaldshafa, þá er skýrt tekið fram að þar sé um að ræða ákvörðun sem verði tekin sjálfstætt og sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig og gildi ekki sem almenn regla um heimild til stjórnunar fiskveiða á úthafi. Þetta er mjög athyglisvert því að menn hafa gjarnan haft það við orð að framkvæmdastjórnarmenn eða ráðherraígildi Evrópusambandsins væru ansi frekir til fjörsins og krefðust mikillar samhæfingar á stjórnun og mikilla valda. En jafnvel það mikla bákn, Evrópusambandið með valdamiðstöð í Brussel, gengur ekki jafnlangt og verið er að gera í þessu frv. með valdaafsali á heimildum til sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins til stjórna fiskveiða á úthafinu með þeim hætti sem hér er verið að gera ráð fyrir þannig að Evrópusambandið er ekki einu sinni hálfdrættingur á við sjávarútvegsráðherra á Íslandi í kröfum um valdframsal í sínar hendur.

Í upplýsingum frá utanrrn. kom fram að í Noregi hafa nokkrar breytingar þegar verið gerðar á lögum sem tengjast fullgildingu úthafsveiðisamningsins en ekki varð annað séð á þeim gögnum sem nefndinni bárust en að þar sé um að ræða aðrar aðgerðir af sama toga og í Kanada og hjá Evrópusambandinu, þ.e. að breytingarnar varði gagnkvæmar heimildir til beitingar eftirlits- og löggjafarvalds á úthafinu til samræmis við samninga þar um. Það verður a.m.k. ekki séð af þeim gögnum sem við fengum að Norðmenn séu að hugsa um slíkt valdaafsal um stjórn fiskveiða til ráðherra eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þannig erum við ekki aðeins algjörlega að ástæðulausu að verða fyrsta ríkið sem innleiðir lög sem á að framkvæma eftir úthafsveiðisáttmála sem enn hefur ekki öðlast gildi, við ætlum ekki bara að vera fyrsta ríkið til að gera það án samstarfs eða samráðs við aðra heldur ætlum við einnig að framkvæma það þannig, sem engir aðrir gera, að afhenda sjávarútvegsráðherra íslenska lýðveldisins slíkt vald til stjórnunar á veiðum íslenskra fiskiskipa á úthafinu að einsdæmi er, að óþekkt er frá öðrum sambærilegum fiskveiðiþjóðum, a.m.k. eftir þeim upplýsingum sem sjútvn. hefur. Og við ætlum að gera þetta með þeim hætti að virtir fræðimenn telja að það standist ekki ákvæði stjórnarskrár, að það sé um óleyfilegt valdaafsal að ræða. Og ég spyr: Hvaða nauður rekur Alþingi Íslendinga til þess að grípa til slíkra vinnubragða? Auðvitað rekur engin nauður Alþingi Íslendinga til þess að grípa til slíkra vinnubragða, en það er stjórnarmeirihlutinn sem gerir það, knúinn fram af vilja hæstv. ráðherra.

Það er því álit okkar sem skipum 1. minni hlutann að með þessu sé algjörlega að þarflausu verið að leggja hömlur á úthafsveiðiflota Íslendinga langt umfram það sem úthafsveiðiflotar annarra ríkja munu þurfa að búa við. Hér er í senn verið að takmarka möguleika íslenskra úthafsveiðimanna langt umfram aðra og einnig verið að koma í veg fyrir að Íslendingar geti aflað sér veiðireynslu og áhrifa til fiskveiðistjórnunar á úthafinu í framtíðinni. Við teljum að engin þörf sé á að takmarka þannig afkomumöguleika þjóðarinnar, ekki bara í samtíð heldur einnig til langrar framtíðar. Þá bendum við á að einnig er verið að innleiða sama kerfi fiskveiðistjórnunar á úthafinu og fylgt er í íslenskri fiskveiðilögsögu en það kerfi hefur sætt vaxandi gagnrýni, m.a. fyrir þá sök að með því sé verið að færa fáum aðilum mikil verðmæti á kostnað þjóðarheildarinnar. Og það er ein af þversögnunum í þessu máli að einn af þeim sem styður þetta frv. og á sæti í sjútvn. er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Þessi sami þingmaður flytur nú á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða ásamt öðrum samflokksmanni sínum þar sem hann leggur til að framsal aflaheimilda innan fiskveiðilögsögunnar verði bannað. Og hann er nýbúinn að mæla fyrir frv. þessu hér á þingi. Þessi sami þingmaður styður hins vegar mál um stjórn fiskveiða á úthafinu þar sem gert er ráð fyrir því, eins og í gildandi lögum um stjórn fiskveiða, að framsal aflaheimilda sé frjálst. Hann styður sem sé frjálst framsal aflaheimilda utan fiskveiðilögsögunnar en flytur tillögu um að banna það innan fiskveiðilögsögunnar. Það virðist vera háð því hvort hv. þm. stendur í hægri fótinn eða vinstri fótinn hvora skoðunina hann hefur, hvorum megin hann er við landhelgislínuna, hvort hann er innan 200 mílnanna eða utan 200 mílnanna. Það sem hann telur óhæfu í stjórn fiskveiða innan 200 mílnanna, telur hann sjálfsagðan og þarfan hlut utan 200 mílnanna. Eða hvernig ber að skilja þennan hv. þm.? Ég skil hann a.m.k. ekki. Ég held að hann skilji sig ekki sjálfur og er það ekkert nema skiljanlegt. Miðað við framkomu hv. þm. hér á Alþingi Íslendinga er ekkert skrýtið þó að hann skilji ekki sjálfan sig því það þarf meira en meðalgreindan mann til að gera það miðað við þennan málflutning.

Það eru ýmsar aðrar athugasemdir sem ástæða er til að benda á og komið hafa fram við skoðun frv. að þessu sinni sem ekki komu jafnglögglega fram við skoðun frv. á síðasta Alþingi. Í fyrsta lagi, og raunar var á það bent þá líka, er í athugasemdum og greinargerð með frv. ranglega látið að því liggja að nýja löggjöf þurfi til að uppfylla skyldur þær sem koma fram í úthafsveiðiákvæðum hafréttarsamningsins. Það er rangt. Enga nýja löggjöf þarf til að Ísland geti uppfyllt þjóðréttarlega skyldur sínar um veiðar á úthafinu.

Þá er í 4. gr. frv. rætt um það sem þar er kallað ,,þar til bær yfirvöld`` en þetta orðalag má skilja á þann hátt að íslensk skip þurfi í senn leyfi íslenskra yfirvalda og yfirvalda viðkomandi ríkis til að stunda veiðar innan lögsögu þess ríkis og samrýmist það einmitt því sem hv. frsm. meiri hluta sjútvn. sagði hér áðan að íslensk lög ættu að gilda um íslenska starfsemi hvort sem hún færi fram innan lögsögu annarra ríkja eða ekki. Þetta samrýmist því áliti. Og þessi grein eins og hún er er ekki skýr um þetta, hvort það beri að skilja hana svona eða ekki.

Á fundi sjútvn. kom fram hjá ráðuneytisstjóra sjútvrn. þessi skilningur, þ.e. að til þurfi að koma bæði leyfi íslenskra yfirvalda og yfirvalda viðkomandi strandríkis, ef íslenskt fiskiskip stundaði veiðar innan fiskveiðilögsögu þess. Þetta orðalag gæti átt við t.d. í þeim tilvikum þar sem samningar milli Íslands og annarra ríkja um veiðiheimildir innan lögsögu gerðu ráð fyrir slíku fyrirkomulagi, þ.e. að Íslendingar fengju heimild til að stunda takmarkaðar veiðar innan fiskveiðilögsögu annarra ríkja þannig að sjútvrn. yrði t.d. með einhverjum hætti að takmarka aðganginn, binda við einstök skip eða tiltekið leyfi og þá þyrfti að koma til bæði leyfi íslenskra yfirvalda og leyfi yfirvalda viðkomandi strandríkis. Það var hins vegar ekkert gert til þess að skýra og skerpa þetta orðalag, þ.e. að taka fram að það bæri að skilja nákvæmlega svona þannig að eins og frá orðunum er gengið, má túlka framkvæmdina alveg eins á þann hátt að ráðherra geti, ef hann svo kýs, krafist þess að í hvaða tilviki sem væri yrði skip sem skráð er á Íslandi að afla sér heimildar frá honum til að stunda fiskveiðar innan fiskveiðilögsögu annars ríkis þótt viðkomandi skip hefði allar heimildir þess ríkis til að stunda þar veiðar. Og það er algjörlega ástæðulaust af Alþingi Íslendinga að afgreiða lagaákvæði sem eru svo loðin að leggja megi þennan skilning í þau þegar að því kemur að framkvæma slík fyrirmæli.

[15:45]

Í 10. og 11. gr. frv. eru ákvæði um fiskveiðar erlendra skipa en samkvæmt gildandi þjóðarétti er það almenn regla að aðeins fánaríki hefur lögsögu yfir skipi sem statt er á úthafinu. En eins og segir í 11. gr. heimilar hún hins vegar íslenskum stjórnvöldum að grípa til ráðstafana gegn erlendum fiskiskipum á úthafinu hvenær sem það telst nauðsynlegt til að framfylgja samningum en slíkt ákvæði er andstætt þjóðarétti því að Ísland hefur ekki lögsögu í þessu tilviki heldur er það fánaríkið eitt sem hefur þá lögsögu. Ákvæðið er í andstöðu við ákvæði þjóðaréttar og bendir Ketill Sigurjónsson raunar á það.

Þá er einnig í frv. að finna ákvæði sem lúta að skipum undir hentifána en ekki er skilgreint hvað menn eigi við með orðinu hentifána og fer það þá væntanlega eftir aðstæðum. Í sumum tilvikum gæti því íslenski fáninn verið álitinn hentifáni, í sumum tilvikum ekki. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra eða varaformann sjútvn. og frsm. meiri hluta hvað menn eigi við, hvort einhver ríki séu tiltekin þar sem þjóðfáni viðkomandi ríkja skuli teljast hentifáni og hvaða ríki það séu, ellegar hvort menn eigi að skilgreina hvað sé hentifáni, þ.e. hvenær þjóðfáni sé þjóðfáni og hvenær ekki eftir aðstæðum, eftir ,,smag og behag`` og hvert eigi þá að vera það ,,smag og behag`` sem ræður ferðinni í þeim efnum og við hvaða aðstæður t.d. beri að líta svo á að íslenski þjóðfáninn sé ekki þjóðfáni heldur hentifáni. Ég vildi gjarnan fá því svarað frá hv. frsm. meiri hlutans í hvaða tilvikum hann telur að íslenski þjóðfáninn sé hentifáni og í hvaða tilvikum ekki þannig að það liggi fyrir ef einhverjar aðrar þjóðir skyldu taka upp á því að taka þessa lagasetningu sér til fyrirmyndar, þá liggi það fyrir a.m.k. af hálfu Alþingis Íslendinga eða frsm. meiri hluta sjútvn. í hvaða tilvikum sé óhætt að líta á íslenska þjóðfánann sem hentifána og í hvaða tilvikum ekki. Það væri líka fróðlegt fyrir íslensku utanríkisþjónustuna að vita hvaða lönd það eru sem Alþingi Íslendinga skilgreinir sem hentifánalönd, þar sem ekki eigi að taka mark á þjóðfánanum sem slíkum heldur skuli þjóðfáni viðkomandi ríkja skoðast sem hentifáni. Það væri áreiðanlega mjög fróðlegt fyrir Íslendinga, ekki síst á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða að geta flaggað slíkum skilgreiningum á þjóðfána þeirra ríkja sem þar eru og mætti þá búast við að einhverjir af þeim fánum færu að dragast í hálfa stöng sem flagga nú í fullri stöng fyrir utan byggingu Sameinuðu þjóðanna þegar Íslendingar væru búnir að skilgreina þau ríki sem væru í 1. flokki og þau ríki sem væru hentifánaríki.

Þessar athugasemdir, virðulegi forseti, og fjölmargar aðrar leiða til þeirrar niðurstöðu að frv. ber ekki að afgreiða, að okkar mati, eins og það er úr garði gert. 1. minni hluti sjútvn., sem eru þingmennirnir Sighvatur Björgvinsson og Lúðvík Bergvinsson, leggur til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Verði frávísunartillagan ekki samþykkt áskiljum við okkur rétt til að flytja brtt. við 3. umr. um málið. Guðný Guðbjörnsdóttir, sem situr fundi sjútvn. sem áheyrnarfulltrúi, er samþykk afstöðu okkar og styður frávísunartillöguna.