Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 15:49:56 (2093)

1996-12-12 15:49:56# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:49]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég óska að veita hv. síðasta ræðumanni andsvar við tveimur atriðum sem komu fram í máli hans en um önnur atriði verður fjallað síðar í umræðunni.

Þau tvö sem ég kýs að svara er spurning sem hann beindi til mín vegna þess sem ég sagði um skyldu íslenskra útgerða til að fara að íslenskum lögum. Þau orð voru sögð í ljósi þess að við ræðum hér frv. til laga um veiðar utan lögsögu. Mér sýnist að utan lögsögu geti varla gilt lög annarra ríkja um starfsemi íslenskra veiðiskipa. Ég tel alveg ljóst að íslensk veiðiskip munu á þeim hafsvæðum hljóta að gegna íslenskum lögum rétt eins og þau hljóta að gera í okkar eigin lögsögu.

Við vitum auðvitað, herra forseti, að um það hvaða lög skuli gilda um starfsemi aðila innan lögsögu eða í ríki annarra getur verið allt annað. Þar á einfaldlega annað við.

Hitt atriðið sem ég vil gera að umtalsefni eru orð hv. þm. um afstöðu Guðmundar Hallvarðssonar sem er ekki hér viðstaddur umræðuna. Sá hv. þm. hefur þegar lagt fram ásamt öðrum frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða vegna þeirrar afstöðu sem hann raunar hefur skilmerkilega lýst og var hér gerð að umtalsefni. Vegna þess að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur gert grein fyrir skoðun sinni innan hv. sjútvn. í umræðu um þetta mál og í umræðu um eigið þingmál varðandi þetta, þá tel ég algeran óþarfa að draga þannig fram eða inn í þessa umræðu að hann hafi hugsanlega aðra afstöðu eftir því hvaða efni er til umræðu. Hann hefur þegar sagt það og ég veit og man að þá var hv. síðasti ræðumaður viðstaddur fund í sjútvn. þar sem sá hv. þm. sagði þessa skoðun sína og tók fram að vegna þess að hún hefði skilmerkilega komið fram teldi hann ekki ástæðu til að taka sömu skoðun sína fram sem fyrirvara við þetta mál vegna þess að öðru leyti væri hann sammála því sem fram kæmi í frv. og nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.