Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 15:52:20 (2094)

1996-12-12 15:52:20# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. 1. minni hluta SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:52]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði hv. þm. Guðmund Hallvarðsson að umræðuefni vegna þess að hann hafði tjáð mér og fleirum að hann mundi skrifa undir nál. meiri hluta sjútvn. með fyrirvara vegna þess að hann hefði fyrirvara á um það að hann fylgdi ekki þeim þætti málsins er varðar frjálst framsal aflaheimilda utan fiskveiðilögsögu. En í nál. meiri hlutans, sem var prentað upp, skrifar hv. þm. undir án fyrirvara sem þýðir að hann hefur engan fyrirvara í þessu máli og styður málið eins og það er lagt fram, þ.e. hann styður frjálst framsal aflaheimilda utan fiskveiðilögsögu Íslands. Ef hann gerði það ekki hefði hann ritað undir þetta með fyrirvara. En þar brást hv. þm. og ekki í fyrsta skipti því hann var búinn að segjast ætla að gera það svona.

Kannski þarf hv. frsm. sjútvn. að beita sér fyrir því að þriðja útgáfan af nál. verði gefin út. Ég hvet hann til að leita eftir því við Guðmund Hallvarðsson hvort hann hafi ætlað að rita undir nál. með fyrirvara eða ekki, því ef undirskrift hans er fyrirvaralaust þá stendur það sem ég sagði hér. Staðreynd. Maðurinn skiptir um skoðun eftir því hvort hann stígur í hægri fótinn eða vinstri, eftir því hvort hann er að tala innan lögsögu eða utan.

Ég ætla svo, virðulegi forseti, að fagna því að hv. þm. dró í land þegar hann sagði að hann hefði ekki átt við annað en það að íslensk fiskiskip sem stunda veiðar á úthafinu utan fiskveiðilögsögu annarra ríkja eigi að fylgja íslenskum lögum. Hann sagði annað áðan. En auðvitað er rétt og skylt að taka leiðréttingum hans og ég geri það. Ég ætla bara að benda honum á að vegna þess að íslensk fiskiskip sem veiða á úthafinu utan fiskveiðilögsögu ríkja eiga að veiða samkvæmt þessum lögum, þá er verið að setja meiri hömlur á íslenska fiskimenn, úthafsveiðimenn, en settar eru með lögum annarra ríkja á úthafsveiðar fiskimanna.