Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 15:55:12 (2095)

1996-12-12 15:55:12# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[15:55]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta sjútvn., um frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Það er 57. mál og á að vera á borðum þingmanna sem þskj. 320.

Það er þannig, herra forseti, til að taka það fram strax í upphafi að 2. minni hluti, sá sem hér talar, er í aðalatriðum sammála efni þessa frv. Þegar sama frv. var afgreitt frá sjútvn. á síðasta vori átti ég aðild að áliti meiri hluta sjútvn. og stóð að flutningi brtt. með fyrirvara þó um afgreiðslu málsins á þeim tímapunkti og sérstaklega um efnisatriði eða innihald þáverandi 8. gr. frv. sem varðaði mikinn eftirlitsbálk sem kom inn í frv. á síðari stigum undir vinnslu þess í þinginu. Voru það einkum og sér í lagi rækjuveiðar á Flæmingjagrunni og nýlegt samkomulag innan NAFO sem kallaði á mikið eftirlit og gífurlög útgjöld sem þá var talið nauðsynlegt að sjá fyrir með gjaldtöku á útgerðina.

Nú er frv. eins og það var lagt fram á nýjan leik í haust í þeim búningi í öllum aðalatriðum. Nánast algjörlega var tekið tillit til þeirra brtt. sem unnar höfðu verið af meiri hluta í sjútvn. og hann stóð að í fyrravor. Í því fólust að mínu mati ýmsar lagfæringar á frv. frá því sem var í upphaflegri gerð eins og það var lagt fram á þingi í fyrra, þá óbreyttar tillögur eða óbreytt álit frá sérstakri nefnd á vegum hæstv. sjútvrh. sem unnið hafði að undirbúningi lagasetningarinnar eða frumvarpssmíðinni ásamt því að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um ýmis úthafsveiðimál á tveggja ára tímabili eða svo.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að þrátt fyrir allt hafi verið mikilvægt að standa með þessum hætti að málum á þessu tímabili. Það er fróðlegt að fara aðeins yfir það hversu gífurlega margt hefur breyst á ekki lengri tíma en þeim sem þessi nefnd starfaði eða þremur til fjórum árum ef farið er svo langt aftur. Ég vil láta það koma hér fram að ég tel að þrátt fyrir allt hafi verið gagnlegt að til var slíkur samráðsvettvangur með fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila í greininni og fulltrúum ráðuneyta. Það er ekki þar með sagt, þó svona hafi verið staðið að undirbúningi málsins, að það sé að öllu leyti orðin fullkomin smíð og verður sjálfsagt seint. Ég er þó þeirrar skoðunar að hér sé á ferðinni í öllum aðalatriðum lagarammi um úthafsveiðar sem eigi að geta þjónað sínum tilgangi. Ég er í öðru lagi þeirrar skoðunar að lögin frá 1976 hafi þarfnast og þarfnist mjög endurskoðunar. Þau eru satt best að segja nánast ekkert nema nafnið og heimild til handa ráðherra til að gefa út reglugerðir, lagasmíð af því tagi sem ég held að við hljótum almennt að vilja komast í burtu frá. Þau endurspegla auðvitað ekki á nokkurn hátt þann veruleika sem nú er orðinn í þessum efnum. Ég er út af fyrir sig ekki að segja að það hefði verið eitthvert neyðarástand að búa við þau og ljóst er að þjóðréttarlega séð erum við ekki skuldbundin enn sem komið er að gera neinar ráðstafanir sem slíkar vegna þess að ég býst við að lögin frá 1976 teldust fullnægjandi í aðalatriðum hvað varðar þær skuldbindingar sem nú eru orðnar gildar samkvæmt hafréttarsáttmálanum. (Gripið fram í.) En það er auðvitað hárrétt sem hér er bent á að úthafsveiðisamningurinn svokallaði sem er að stofni til viðauki við hafréttarsáttmálann er ekki orðinn fullgildur þar sem enn er langt í land að tilskilinn fjöldi ríkja hafi fullgilt hann.

[16:00]

Ég er eftir sem áður þeirrar skoðunar að nauðsynlegt og rétt sé fyrir okkur að reyna að lögfesta einhver rammaákvæði um þessar veiðar á úthafinu og eftir atvikum fiskveiðistjórnina þar, eftir því sem hún kemur til sögunnar. Ég er það ekki síst vegna þess að algjörlega burt séð frá úthafsveiðisamningnum og því sem leiða mun af fullgildingu hans, held ég að það sé okkur sjálfum fyrir bestu að hafa sæmilega skýrar leikreglur sem gilda um þessi mál. Óvissan sem nú ríkir gagnvart t.d. réttindaávinnslunni á grundvelli sóknar á úthafinu er auðvitað bagaleg. Það er auðvitað ekki heppilegt að menn renni meira og minna blint í sjóinn um það. Hvernig verður síðan farið með þau réttindi sem kunna að myndast á grundvelli sóknar okkar á tiltekin hafsvæði þegar eða ef, sem væntanlega verður tilfellið í flestum tilvikum, kemur til samninga og uppskipta á veiðiréttindum á viðkomandi svæðum. Þessi þróun er í gangi og þegar að hluta til orðin eins og til að mynda á Reykjaneshryggnum. Við væntum þess að það sama gerist á næstu missirum á fleiri svæðum, svo sem varðandi norsk-íslenska síldarstofninn og Smuguna í Barentshafi. Að nokkru leyti er það þegar orðin staðreynd á Flæmska hattinum. Ég held að við slíkar aðstæður sé auðvitað miklu betra að leikreglurnar liggi í aðalatriðum fyrir þegar réttindin eru að myndast og menn viti að hverju þeir ganga gagnvart því að taka ákvörðun um að stunda tilteknar veiðar eða stunda þær ekki.

Það er auðvitað alveg ljóst að einn drifkraftur úthafsveiðanna á undanförnum 2--3 árum, og þó kannski alveg einkum og sér í lagi á þessu ári, hafa verið væntingar manna um veiðiréttindin sem þar með væru að myndast og þeir fengju í sinn hlut. Menn hafa hiklaust stundað veiðar, jafnvel þó að þær væru reknar með tapi í þeirri trú eða von að þeir væru að mynda sér framtíðarréttindi. Með öðrum orðum menn hafa viljað spila í því happdrætti eða taka þá áhættu. Ég held að það væri miklu betra að breyttu breytanda að menn vissu betur að hverju þeir gengju, að fyrir væru í gildi lög sem vörðuðu a.m.k. leiðina og mörkuðu einhvern ramma utan um það hvernig með slík réttindi yrði farið. Þetta frv. er viss tilraun til þess. En ég segi tilraun vegna þess að auðvitað er frv. í veigamiklum atriðum eingöngu rammi, eingöngu umbúnaður um heimildarákvæði sem hægt er að beita með býsna mismunandi hætti. Það er stórkostlegt álitamál hvort frv. sé kannski að því leyti til of veikt, of almenns eðlis, of opið til þess að hægt sé að segja að í því sé fólgin einhver veruleg framför hvað þetta snertir.

Það liggur t.d. fyrir ef menn lesa megingreinarnar, 5. og 6. gr. um meðferð mála, annars vegar hvað snertir deilistofna, stofna sem eru utan og innan íslensku efnahagslögsögunnar, og hins vegar hreina úthafsstofna sem 6. gr. fjallar um, að ráðherra getur farið þar býsna mismunandi leiðir hvað varðar það hvernig skuli fara með fiskveiðiréttindi sem Íslendingar kunna að semja um við aðrar þjóðir eða taka þátt í að ganga frá með samningum innan alþjóðastofnana. Það er eiginlega allt til, að taka slík réttindi og kvótabinda þau umsvifalaust á skip, að láta menn endurgjalda eitthvað fyrir slík réttindi allt frá núlli og upp í 15 eða 7%, að hafa sóknina frjálsa, láta menn bara veiða þangað til tiltekið magn er komið, hafa bara ólympískar veiðar, að bjóða upp kvótann. Þetta er eiginlega hálfgert bögglauppboð. Þessar greinar eru að því leyti til mjög opnar þannig að ég segi hiklaust að ég hef efasemdir um að þetta sé nógu skýr frágangur á málinu til að mynda sæmilega skýrar leikreglur inn í framtíðina. En ég held þó að þetta sé til bóta því þarna eru markaðar ákveðnar meginlínur. Og ég held að það verði t.d. aldrei lesið annað út úr þessu samhengi hlutanna sem hér er sett upp heldur en það að veiðireynslan verður undirstöðuatriðið þegar kemur til uppskiptingar á þessum veiðum. Þarna eru líka atriði sem ég tel mikilvægt að liggi fyrir eins og t.d. síðasta mgr. 5. gr. og síðasta mgr. 6. gr., svonefnd frumherjaregla. Þar er beinlínis gefið í skyn og ég vænti í trausti þess að því yrði beitt af þeim sem brjóta ísinn, að þeim verði umbunað með einhverjum hætti, sem bera kostnaðinn af því að hefja sókn á nýjum miðum eða afla nýrra réttinda, taka þá áhættu sem slíku er samfara. Þetta er hvatningaratriði til þess að menn láti ekki staðar numið heldur verði áfram opnir fyrir nýjum möguleikum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um einstakar efnisgreinar frv. mikið að öðru leyti því ég hef talað um þetta mál áður, bæði í fyrra og endranær. Ég vil aðeins segja að ég tel að bæði 2. gr. frv. og upphaf 4. gr. séu mjög mikilvægar þrátt fyrir allt. Vegna gagnrýni á frv. frá ýmsum bendi ég á að þetta frv. á að fara í sama farveg og lögin um stjórn fiskveiða. Hér er ekki að myndast eignarréttur eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim auðlindum sem semjast kann um á grundvelli íslensks ríkisfangs fyrir hönd íslenskra aðila. Það þýðir að Alþingi, löggjafinn, getur hvenær sem er breytt þeim leikreglum sem gilda um úthlutun þessara réttinda. Upphaf 4. gr. er einnig mjög mikilvægt vegna þess að þar er tekin af allur vafi um það að við viljum festa í sessi almennu regluna um frelsi til veiða á úthafinu. Það er almenna reglan, það er grundvallarreglan. Við ætlum sem sagt að snúa þessu þannig að það sem ekki er bannað sé leyft. Ekki öfugt, allt sé bannað sem ekki er leyft. Það er stundum sagt að það megi svolítið þekkja nálgun eða stjórnlyndisstig þjóða út frá því hvernig löggjöfin hjá þeim snýr. Sums staðar sé þetta á annan veginn og annars staðar á hinn. Mér finnst mikilvægt að það er tekinn af allur vafi um það í upphafi 4. gr. að almenna reglan er frjálsar veiðar. Það er mjög leiðbeinandi fyrir framkvæmdarvaldið í framtíðinni. Það hlýtur að vera þannig að framkvæmdarvaldið þarf að hafa veruleg rök til þess að grípa til takmarkana ef löggjafinn gengur frá almennu grundvallarreglunni með þessum hætti. Það kemur inn á atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég vil segja þetta líka til að róa þá sem óttast að með þessu frv. væri verið að innleiða höft eða takmarkanir, jafnvel að ástæðu- eða tilefnislausu. Það fengi ekki staðist að mínu mati út frá þessu upphafsákvæði 4. gr. og þess samhengis sem eðlilegt er að sjá hana í.

Ég minni þá líka á ákvæði hafréttarsáttmálans um frelsi úthafsins í 87. gr. ef ég man rétt og sambærilegar greinar eins og 116. gr. og fleiri. Annars er svo langt síðan ég las úthafsveiðisáttmálann að ég er byrjaður aðeins að ruglast í greinanúmerunum.

Það sem ég vil hins vegar aðallega gera að umtalsefni hér, herra forseti, og er ástæðan fyrir því að ég skila séráliti, er að eftir þær umræður sem hafa orðið í sjútvn. og þá athugun sem þar hefur farið fram, auk lögfræðilegra athugasemda sem okkur bárust í nefndarstarfinu, og varða að mínu mati sérstaklega það sem langalvarlegast er, 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr., hef ég verulegar efasemdir eða áhyggjur af því, herra forseti, að þar sé kannski verið að ganga frá textanum með hæpnum hætti, það geti orkað mjög tvímælis hvort þar sé um nógu vandaðan frágang á lagatextanum að ræða. Mig langar að fara um það fáeinu orðum.

Í þessum málsgreinum er sem sagt kveðið svo á um að ráðherra getur bundið úthlutun á veiðiheimildum því skilyrði, hvort sem um er að ræða deilistofn í 5. gr. eða hreinan úthafsstofn í 6. gr., að skip afsali sér aflaheimildum á móti. Í 5. gr. sem nemi reiknað í þorskígildum allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirrar málsgreinar. Síðan geta þær útgerðir sem ekki geta uppfyllt þessi skilyrði, þ.e. vegna þess að þær hafa engar veiðiheimildir í efnahagslögsögunni, sætt skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum á úthafinu sem er jafngild hinu fyrra. En orðalagið er það, herra forseti, og ég vek athygli á því að þetta er orðað þannig: ,,Ráðherra getur bundið úthlutun skv. 2. mgr.`` o.s.frv. Síðan er sagt allt að 15% í fyrra tilvikinu og allt að 7% í seinna tilvikinu. Þetta er sem sagt í raun og veru algjörlega opið, bæði hvort og að hve miklu leyti. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það hefði þurft að athugast betur, líka í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt og vitnað í, að nýlega fallinn hæstaréttardómur í svonefndu Samherjamáli vekur upp spurningar um hvort ekki sé að eiga sér stað ákveðin réttarþróun þar sem svona rúmar framsalsheimildir á löggjafarvaldinu eða valds í hendur ráðherra eða framkvæmdarvalds til að beita íþyngjandi aðgerðum geti orkað mjög tvímælis. Ég held a.m.k. að það hefði verið betra. Það hefði þurft að skoðast hvort ekki væri óhjákvæmilegt að mæla nákvæmar fyrir um hvernig þessar heimildir yrðu notaðar, t.d. skilgreina eða binda þær aðstæður sem sjálfkrafa leiddu til beitingar ákvæðisins og þá með einhverjum tilteknum hætti þannig að þetta væri ekki algjörlega opið eins og það í raun og veru er. Þessu hafa m.a. hv. meirihlutamenn verið að reyna að bjarga í nefndaráliti sínu með því að setja inn í álit meiri hluta sjútvn. það sem kannski má með góðum vilja kalla ákveðna leiðsögn í þessu sambandi. Þar segir eins og kunnugt er, herra forseti, að nánari reglur um útfærslu á þessum málsgreinum, 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr., þurfi að liggja fyrir eða eigi að liggja fyrir áður en úthlutun fer fram. Útgerðir geti þá metið hvort þær sjái sér hag í því að sækja um rétt til veiða á úthafinu og það þurfi að taka tillit til þess við mat á verðmæti aflaheimilda hver sé sóknarkostnaðurinn á fjarlæg mið í samanburði við heimamið o.s.frv. Þetta er auðvitað allt góðra gjalda vert, en breytir í sjálfu sér ekki hinu að frumvarpstextinn sjálfur er afar rúmur og setur þarna vald í hendur ráðherra og hlýtur að orka mjög tvímælis að þetta sé góð lagasetning. Það þætti nú t.d. ekki mjög gott ef þetta væri hrein skattlagning sem þarna færi fram en ekki endurgjald, að hafa bara hvort tveggja galopið, hvort skatturinn skyldi lagður á og þá hve háa prósentu. Svo tæki ráðherrann um það ákvörðun á gamlársdag hverju sinni hvort hann hefði áhuga á að ná sér þarna í einhverja smálús. Það getur auðvitað ekki og má ekki verða tilviljanakennt eða breytilegt þannig að þetta sé gert stundum og stundum ekki.

[16:15]

Einu rökin fyrir því að hafa þetta ekki algjörlega bundið fast í prósentum frá byrjun þannig að engin óvissa sé eru að aðstæður geta verið breytilegar. Stundum geti verið réttlætanleg, efnisleg rök fyrir því, að beita heimildarákvæðum um endurgjald en stundum ekki. Út af fyrir sig fellst ég alveg á að þannig geta aðstæðurnar verið. Þær geta verið misjafnar. Stundum geta veiðar verið það álitlegar og líklegt að þær verði svo ábatasamar að það sé fullkomlega réttlætanlegt og þær standi vel undir því að eitthvert slíkt endurgjald sé greitt og sérstaklega þegar um deilistofn er að ræða eins og í 5. gr. Þá eru meginrökin að einhver hluti veiðiréttindanna myndast vegna ríkisins en ekki veiðireynslu skipanna og dæmið er Reykjaneshryggurinn. Það er alveg ljóst að talsverður hluti, væntanlega þriðjungur, miðað við þau samkomulagsdrög sem lágu til grundvallar skiptingunni í fyrra á Reykjaneshrygg, voru reiknuð Íslandi sem strandríkisréttur, réttur sem engin veiði hafði haft áhrif á og við hefðum fengið sem slíkan hvort sem einhver íslensk skip hefðu verið þátttakendur í veiðunum eða ekki. Þar með höfðu engir lagt í sjálfu sér neitt af mörkum til að mynda þann rétt með veiði og þegar því er úthlutað sem fæst út á ríkisfangið eða strandríkisréttinn, þá er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að það sé tekið inn í heildarsamhengi úthlutunar á veiðirétti í landinu. En aðrar aðstæður geta átt við í öðrum tilvikum og þá er spurningin: Var engin önnur leið fær en að ganga frá opnu heimildarákvæði til að taka á slíku? Það er mikið efamál hvort menn hefðu kannski þurft að staldra betur við og átta sig á hvort það gengi yfirleitt að ganga frá textanum svona eða hvort gera mætti bragarbót sem dygði a.m.k. til að draga úr áhyggjum manna af því að menn væru þarna komnir út á þunnan ís hvað varðar valdframsal.

Ég vísa svo í það sem fleiri hafa sagt hér og vitna í lögfræðilegar athugasemdir sem við höfum fengið um þessi efni. Ég hef ekki um það fleiri orð en segi að þessar efasemdir mínar valda því að ég mun ekki treysta mér til að styðja þessar málsgreinar frv., þ.e. 3. mgr. 5. og 6. gr., ég mun sitja hjá um þær en fylgja frv. að öðru leyti.

Varðandi aðrar athugasemdir sem komið hafa fram lögfræðilegs eðlis eins og þær hvort við höfum stöðu til að setja lagaákvæði sem eru virk gagnvart íslenskum skipum utan íslensku efnahagslögsögunnar, þá deili ég ekki efasemdum eða áhyggjum manna með það. Það geri ég ekki. Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því að við getum ekki í þessum efnum, eins og svo fjölmörgum öðrum, sett íslenskum ríkisborgurum eða íslenskum lögaðilum lög sem gilda að breyttu breytanda um þá og íslenskt skip og íslensk áhöfn og íslenskur fáni er íslenskur hvort sem hann er 190 mílur eða 250 frá landi. Það er út af fyrir sig alveg ljóst. Það er líka alveg ljóst að þróun réttarins er í þá átt að fánaríkin eigi að bera ábyrgð á sínum skipum, sínum mönnum hvar sem þeir stunda auðlindanýtinguna. Það er ekkert nýtt í því. Við höfum fullgilt alþjóðahafréttarsáttmálann. Hann leggur okkur ákveðnar skyldur á herðar sem ná út fyrir sérefnahagslögsöguna. Okkur ber að stunda ábyrga auðlindanýtingu hvar sem er í heiminum samkvæmt ákvæðum þess sáttmála sem við höfum fullgilt og gefið hér lagastoð með samþykkt á þingi. Að því leyti til held ég að í grundvallaratriðum séum við ekki að fara út á nýja braut í þessum efnum nema þá menn telji að þarna séu víðtækari ákvæði á ferð eða meira íþyngjandi o.s.frv. En í öllu falli er alveg ljóst að þetta er réttarþróun sem er að koma yfir okkur og um leið og úthafsveiðisamningurinn verður virkur lokast heimshöfin og það verða engin göt í hafréttinum lengur. Það er einmitt meiningin í úthafsveiðisamningnum að loka götunum sem urðu eftir 1982 þegar hafréttarsamningurinn sjálfur var gerður því þá náðist ósköp einfaldlega ekki samstaða nema um mjög almennt orðalag hvað varðaði meðferð mála utan sérefnahagslögsögunnar.

Að síðustu, herra forseti, vil ég aðeins nefna úthafsveiðarnar sem slíkar. Mér finnst að þær megi ekki alveg gleymast í öllum umræðunum um lagatextann og álitamál sem því eru samfara. Við erum þrátt fyrir allt að fjalla um hlut sem er orðinn gífurlega mikilvægur í íslenskum þjóðarbúskap. Það hefur kannski ekki fengið næga athygli hversu hratt og í hversu miklum mæli þessi þáttur hefur vaxið í sjávarútvegi og sjávarbúskap okkar. Á bls. 2 í nál. 2. minni hluta er gagnmerk tafla tekin upp úr merku riti þar sem eru sýndir lauslegir útreikningar á verðmæti úthafsaflans í tölum talið og sem hlutfall af heildaraflaverðmæti íslenska flotans. Það er þannig að á fjórum árum hefur þetta hlutfall, úthafsverðmæti úthafsaflans sem hlutfall af heildaraflaverðmæti íslenska flotans vaxið úr 3,4% á árinu 1993 í 10% 1994, 11,4% 1995 og hér er sagt 14--15% 1996 og verður nálægt lagi, því þó að Smugan í Barentshafi hafi gefið heldur minna af sér en vonir stóðu til og sett var á blað þá varð rækjuveiðin á Flæmingjagrunni enn þá meiri og þegar upp er staðið mun láta nærri að þetta hlutfall náist. Það hefði þó getað orðið meira því m.a. féll niður allnokkuð af þeirri síld sem í okkar hlut kom að veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir klaufaskap auðvitað, okkar sjálfra. Við byrjuðum veiðarnar of seint og höfðum þær ekki frjálsar eins og vænlegast hefði verið til þess að tryggja að við hefðum náð okkar hlut.

Ég vil að allra síðustu, herra forseti, leggja áherslu á að í mínum huga er það ekki svo að með því að samþykkja þetta frv. séum við að leggja einhvern stein í götu sóknar íslenskrar útgerðar á úthafið og það sé tilgangur með þessu frv. á nokkurn hátt að hefta eða draga úr möguleikum manna til að nýta áfram þá möguleika sem þarna eru í boði. Það má ekki verða, þvert á móti. Ég vil skoða þetta sem tilraun til að búa svo um í lögum að dregið sé úr þeirri óvissu sem fátækleg löggjöf og nánast engin löggjöf um þessi mál fram að þessu hefur leitt til og verið sé að koma á sæmilegum lagaramma en eftir standi að menn hljóti að hafa skilning á því a.m.k. nú orðið hversu mikilvægt það sé okkur áfram eins og hingað til á síðustu þremur til fimm árum, að stuðla að því að við nýtum okkur þá möguleika sem þarna eru fyrir hendi. Það er gríðarlega mikilvægt og menn munu þó síðar verði átta sig á því hversu gífurlega þýðingu það hafði að úthafsveiðarnar komust í gang, þó seint væri, á árunum rétt fyrir og eftir 1990, sem hófust með veiðum á Reykjaneshryggnum og síðan, þ.e. úthafsveiðar á seinni tímum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrirbæri í íslenskum sjávarútvegi. Það er alveg ljóst hvert stefnir. Við erum á síðustu árunum þar sem veiðar eru yfirleitt frjálsar og ósamningsbundnar væntanlega á öllum álitlegustu hafsvæðunum. Innan fárra ára má allt eins búast við að uppskiptingu þessara réttinda verði í meira og minna mæli lokið og þar með bundið til frambúðar í aðalatriðum hverjir verði þátttakendur í þessari auðlindanýtingu og hverjir ekki. Og það hefði verið harla nöturlegt, herra forseti, ef Íslendingar, fiskveiðiþjóðin í miðju Norður-Atlantshafinu, hefðu setið nánast einir hjá. En þannig stefndu málin allt fram að því að veiðarnar hófust t.d. í Smugu og á Flæmingjagrunni 1993.

Í framhaldi af þessari lagasetningu hefði ég gjarnan viljað sjá að menn tækju til við að endurskoða önnur ákvæði sem brýnt er að gera. Ég nefni þar alveg sérstaklega tvennt. Það eru lög og reglur um skráningu fiskiskipa og það eru lög um úreldingu fiskiskipa. Hvort tveggja er þannig úr garði gert í dag að það verkar verulega hamlandi á möguleika íslenskrar útgerðar til að nýta sér með sveigjanlegum og hagkvæmum hætti veiðimöguleika á úthafinu. Það er löngu tímabært að mínu mati að framkvæma heildarendurskoðun á þeim reglum sem við viljum hafa um skráningu fiskiskipa. Hún þarf að verða sveigjanlegri þannig að menn geti auðveldlega nýtt sér tímabundin verkefni utan landhelginnar eða í fiskveiðilögsögu annarra ríkja. Menn geti fært skipin milli útgerða eftir því sem verkefnin bjóða upp á með tiltölulega sveigjanlegum hætti. Síðan er að mínu mati ekki síður mikilvægt að endurskoða allt úreldingarreglugerðarverkið því það má ljóst vera að til að nýta ónýtta möguleika t.d. í úthafsveiðum er nauðsynlegt að menn hafi skip og menn geti auðveldlega ýmist haft þau skip í verkefnum utan eða innan efnahagslögsögunnar, þ.e. með veiðileyfi í efnahagslögsögunni eða ekki í efnahagslögsögunni. Þessir hlutir eru þess eðlis að brýnt er að taka þá til meðferðar með það í huga að auðvelda mönnum að nýta þessa möguleika því að sjálfsögðu mun það, sem mestu máli skiptir þegar frá líður verða það hvort þetta reynast hagkvæmar veiðar eða ekki, hvort við náum til frambúðar tökum á að gera þetta að arðvænlegum hluta af okkar útgerð. Það er ekkert að marka ástandið eins og það hefur verið fram að þessu, ekki neitt, vegna þess að menn hafa í stórum stíl verið tilbúnir til að greiða heilmikinn fórnarkostnað í þeirri trú að þeir væru að skapa sér varanleg veiðiréttindi og hefðu þannig síðan möguleika til að spila úr þeim síðar meir.

Ég held að úthafsveiðarnar verði þannig, a.m.k. þær sem liggja nær okkar landhelgi og er ég þá að hugsa um öll Norðurhöfin og Atlantshafið suður að miðbaug eða svo, að langhagkvæmast reyndist og sú útgerð mundi ganga best sem getur haft veiðar í úthafinu sem hluta af sínum verkefnum. Þetta geti verið tiltölulega ábatasöm viðbótarverkefni fyrir skip, en það verði erfiðara að byggja útgerð einhliða á úthafsveiðum með þeirri óvissu og þeim sveiflum sem kannski er líklegt að verði í þeim veiðum að breyttu breytanda. Það kallar á að auðveldara verði að koma við sveigjanleika í þessum efnum og menn geti skipulagt sig og beitt sveigjanlega flota sínum þar sem úthafsveiðar og verkefni utan landhelginnar af hvaða toga sem þau eru, veiðar fyrir aðra o.s.frv., eru hluti af umsvifunum.

Herra forseti. Þetta voru þau atriði sem ég vildi aðallega koma inn á og held að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það er sem sagt mín meginniðurstaða að þörf sé á því að lögfesta ákveðnar leikreglur og þó um ýmislegt megi deila í útfærslu þessa máls þá held ég að í aðalatriðum sé sæmilega vel fyrir hlutunum séð og þess vegna mun ég styðja þetta mál að slepptu því sem ég gerði grein fyrir varðandi 3. mgr. 5. og 6. gr.