Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 16:54:38 (2098)

1996-12-12 16:54:38# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:54]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka þann hlýhug sem forseti sýnir með því að leyfa mér að taka aðeins til máls.

Ég stend að 1. minni hluta ásamt hv. 4. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, og tek undir það sem hann sagði í ræðu sinni áðan. Það sem ég ætla að gera að meginmáli í minni ræðu og meginástæðan fyrir því að ég og hv. þm. getum ekki staðið að þessu frv. eins og það liggur fyrir er hið gríðarlega valdframsal sem er að finna í frv., valdframsal sem við teljum að standist vart ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að setja um þessar veiðar einhverjar leikreglur og þær þurfa að vera skýrar. En þær reglur sem hér á að fara að setja eru langt í frá að vera að nokkru leyti skýrar þannig að við getum alls ekki staðið að þeim.

Það sem ég vil fyrst gera að umtalsefni er 3. gr. frv. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra getur sett reglur um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu sem nauðsynlegar eru til að fullnægja almennum skyldum Íslands til verndunar lifandi auðlindum ...`` o.s frv.

Í fyrsta lagi: Hvað er átt við með þessu? Er átt við það að ef fjölþjóðastofnanir sem Ísland er aðili að taka einhverjar ákvarðanir, þá geti ráðherra sett um það bindandi reglur og bundið þannig íslenska ríkisborgara? Er átt við það að þetta sé nánast óútfyllt ávísun fyrir hæstv. ráðherra til að leiða í lög ákvarðanir alþjóðastofnana? Er það það sem átt er við hér? Meginreglan er sú að ákvarðanir alþjóðastofnana bindi ekki mikið umfram þjóðarétt og einstaklingar eru ekki þjóðréttaraðilar því það eru ríki fyrst og fremst. En ef ég skil þetta rétt, virðulegi forseti, þá er þarna verið að heimila ráðherra að setja reglur sem byggja á ákvarðanatöku erlendra eða alþjóðlegra stofnana.

Í öðru lagi vil ég benda á 2. mgr. 4. gr. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ráðherra skal með reglugerð binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauðsynlegt vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga Íslands, til þess að fullnægja almennum ákvörðunum sem teknar eru með stoð í 3. gr.``

Virðulegi forseti. Meginreglan í þessu hefur verið sú hingað til að alþjóðlegir þjóðréttarsamningar sem Ísland gerir binda Ísland að þjóðarétti. En hér virðist mér --- ég vona að ég skilji þetta rétt, ég vænti þess að hæstv. ráðherra leiðrétti mig ef rangt er --- að verið sé að heimila ráðherra, sem hefur farið ásamt utanrrh. með samningsvald Íslands erlendis á þessu sviði, að fara utan, gera alþjóðasamninga, koma heim og gefa út reglugerð til staðfestu þessa samnings. Þetta er alveg einstök aðferð, virðulegi forseti, við að veita þjóðréttarlegum samningum lagagildi á Íslandi. Sennilega er þetta einsdæmi. Virðulegi forseti. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, ég vil taka það skýrt fram, þá er ekki hægt að skilja þetta ákvæði öðruvísi en svo að verið sé að heimila ráðherra að lögleiða þjóðréttarsamninga fram hjá þinginu. Er það virkilega svo?

Í öðru lagi er í 4. gr. talað um mjög óskilgreint hugtak, þ.e.: ,,þar til bær yfirvöld``. Þar til bær yfirvöld geta bæði verið yfirvöld hér á landi eða yfirvöld í því ríki sem viðkomandi skip stundar veiðar í. Þetta er 4. mgr. 4. gr. Er átt við, virðulegi forseti, að til þess að stunda veiðar í lögsögu annarra ríkja þurfi bæði leyfi íslenskra yfirvalda og yfirvalda hins erlenda ríkis? Ef svo er, þá er gengið þar mun lengra en kveðið er á um í úthafsveiðisáttmálanum, ef þetta er skilningurinn.

[17:00]

Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að ekki er sjálfgefið að skilja þessi lög því þau eru þannig unnin og úr garði gerð að langt í frá er auðvelt við yfirlestur að átta sig á hvað þar er á ferðinni. En ef átt er við að leyfi þurfi bæði yfirvalda hér á landi og yfirvalda í viðkomandi ríki þá er gengið mun lengra en í þeim úthafsveiðisáttmála sem er meintur bakgrunnur þessa frv. Og af hverju erum við að ganga lengra í íslenskri löggjöf en nauðsynlegt er? Af hverju erum við að ganga lengra í að torvelda íslenskum útgerðum að stunda veiðar á úthafinu og í lögsögum erlendra ríkja en nauðsyn krefur? Ég vænti þess að frsm. meiri hluta sjútvn. eða ráðherra geri þinginu grein fyrir því.

Það er einu sinni svo, virðulegi forseti, að þegar maður les þetta yfir tekur talsverðan tíma að átta sig á hver meiningin er. Ég veit ekki hvort það er hroki hjá þeim sem hér stendur en ég hef ætíð álitið að ef ég áttaði mig ekki strax á 6--8 línum á íslensku máli hver meiningin væri sem kæmi fram væri það vegna þess að það væri illa sett fram en ekki að ég gæti ekki skilið nokkrar línur á íslensku. Það má vel vera að það sé hroki en það er þannig farið með þetta frv. að mjög erfitt er að átta sig á hvað verið er að fara í mörgum þessara greina, því miður.

Ekki er hægt að ræða frv. nema fjalla um 3. mgr. 5. gr. þar sem hæstv. sjútvrh. og meiri hluti sjútvn. virðist vera að leggja á einhvers konar veiðileyfagjald. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi þar sem kveðið er á um að ráðherra geti bundið úthlutun skv. 2. mgr. samkvæmt brtt. því skilyrði að skip afsali sér aflaheimildum innan lögsögu Íslands er nemi, reiknað í þorskígildum, allt að 15% af þeim aflaheimildum sem ákveðnar eru á grundvelli þeirrar málsgreinar. Þær útgerðir sem ekki geta uppfyllt skilyrði þessarar málsgreinar skulu sæta skerðingu á úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt greininni sem þessu nemur. Með öðrum orðum, ráðherra getur svipt útgerðir sem fara í úthafsveiðar allt að 15% af aflaheimildum. Hér er ekki kveðið á um nein skilyrði, ekki nokkur einustu. Það er reyndar ýjað að því eða vitnað til þess í nýjustu útgáfu, útgáfu tvö eða þrjú af nefndaráliti meiri hlutans að meiningin sé sú að þarna verði einhverjar leiðbeiningareglur þegar fram í sækir, en þær eru ekki til. Og það er hvergi kveðið á um hvernig þær skuli hljóða. Ætli ráðherra setji þær ekki líka? En þarna er kveðið á um að ráðherra sé heimilt eða geti ef honum sýnist svo --- það fer væntanlega eftir því hvernig hann fer fram úr á morgnana --- svipt skip allt að 15% af þeim aflaheimildum sem þau hafa.

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að þetta sé einhvers konar veiðileyfagjald. En ég geri ráð fyrir því að hv. frsm. meiri hlutans geri frekari grein fyrir því í umræðum á eftir.

(Forseti (GÁ): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni. Ef svo er biður forseti ræðumann að fresta ræðunni þar sem boðuð hefur verið utandagskrárumræða upp úr kl. 5.)

Virðulegi forseti. Ég get fúslega orðið við því að fresta ræðu minni um stund.

(Forseti (GÁ): Forseti þakkar fyrir það og ræðunni er þá frestað.)