Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:16:36 (2101)

1996-12-12 17:16:36# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er ljóst að þörfin fyrir iðjuþjálfun er mikil, bæði sem fyrirbyggjandi meðferð og endurhæfing, sérstaklega vegna þeirrar stefnumótunar í heilbrigðismálum að veita sem mesta þjónustu utan stofnana og auka þannig heimaþjónustu.

Í dag eigum við ekki nægilega marga menntaða iðjuþjálfa til að anna slíkri þjónustu. Iðjuþjálfar hérlendis starfa því aðallega á hefðbundnum stofnunum. Á Norðurlöndum fer iðjuþjálfun ekki hvað síst fram á vegum heilsugæslunnar og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í íslenskum lögum um heilbrigðisþjónustu segir að iðjuþjálfun sé ein sú þjónusta sem veita skuli á heilsugæslustöðvum en svo er ekki í dag. Iðjuþjálfar leggja mikið upp úr því að vinna með sjúklingi sínum í daglegu umhverfi hans. Það er árangursríkara og ódýrara en að leggja hann inn á stofnun. Iðjuþjálfaþjónusta úti í samfélaginu getur því komið í veg fyrir tíðar innlagnir.

Í dag eru sjúklingar útskrifaðir af stofnunum eins fljótt og unnt er og eru oft ekki í neinu standi til að bjarga sér heima. Þeir geta þá átt kost á heimahjúkrun og heimilishjálp, en víðtækari þjónustu vantar eins og iðjuþjálfun, þjálfun til að takast sjálfir á við daglegar athafnir. Menntun iðjuþjálfa okkar hefur mestmegnis verið á Norðurlöndum. En þar verður sífellt erfiðara að komast inn í skólana sem eru yfirfullir og með biðlista. Víða eru Íslendingar þar með kvóta, en það kemur í veg fyrir að nægilega margir komist að. Bandaríkin eru einn kostur en þar er námið mjög dýrt svo að ekki hafa margir farið þangað undanfarið. Til að bæta heimaþjónustu sjúkra og fatlaðra hér á landi þarf að bjóða upp á iðjuþjálfun. Öll rök sýna að Háskóli Íslands hefur faglegar forsendur til að hefja kennslu þar, en fjármagn vantar. Og eins og kom fram hjá menntmrh. hér áðan setur háskólinn þessa kennslu ekki í forgang. Ég vil hvetja bæði menntmrh. og heilbrrh. til þess að beita sér fyrir því að háskólinn setji þess mál í forgang þannig að hægt verði að hefja kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands strax á næsta ári því að þörfin er mjög brýn.