Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:19:07 (2102)

1996-12-12 17:19:07# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:19]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á sl. vori ákvað háskólaráð að taka upp kennslu í iðjuþjálfun við Háskóla Íslands. Það var enda löngu orðið tímabært því að mikil þörf er í þjóðfélaginu fyrir störf þessa sérmenntaða fólks sem starfar að því með vísindalegum aðferðum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, auka færni þess til að takast á við vandamál daglegs lífs og gera því þannig kleift að dvelja utan stofnana þó að það hafi orðið fyrir miklum áföllum.

Það er mjög mikilvægt að fjölga iðjuþjálfum og það verður ekki gert nema þetta nám geti farið fram hér á landi. Það fólk sem búið er að læra slíkt fag erlendis hefur vanist að vinna í öðru kerfi og skilar sér því miður ekki vel til starfa hér á landi. Allt of algengt er að það ílendist þar sem það hefur lært.

Iðjuþjálfun hefur reynst mjög árangursrík víðar en í heilbrigðisgeiranum. T.d. hefur hún reynst föngum sem þurfa að taka líf sitt nýjum tökum eftir fangavist mjög vel, að ekki sé minnst á hve brýnt er að grunnskólarnir hafi aðgang að iðjuþjálfum, ekki síst vegna aukins fjölda misþroska barna en með slíkri þjálfun má bæta líf þeirra og líðan umtalsvert. Það urðu því mikil vonbrigði öllum þeim sem bera velferðarmálin fyrir brjósti þegar í ljós kom í haust að háskólinn treysti sér ekki til að hefja kennslu í iðjuþjálfun vegna fjárskorts og átti þó námsbrautin aðeins að kosta um 5 millj. fyrsta árið. Þarna er hægt að segja að hæstv. ríkisstjórn sé að spara eyrinn en kasta krónunni. Eitt af því sem mundi gera umtalsverðan sparnað í heilbrigðiskerfinu mögulegan í framtíðinni er að efla mjög iðjuþjálfun. Þess vegna er mjög brýnt að kennsla sú sem fyrirhugað var að hefja í haust verði hafin nú strax eftir áramót og ríkið leggi út þá peninga sem til þarf í þetta verkefni, eyrnamerkta ef þess þarf.