Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:21:28 (2103)

1996-12-12 17:21:28# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:21]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa ágætu umræðu og þau skýru svör sem hæstv. menntmrh. hefur veitt við þeim spurningum sem lagðar voru fram. Það er enginn vafi á að það hníga öll rök að því að kennsla í iðjuþjálfun verði hafin hér á landi. Það varð niðurstaða nefndar sem skipuð var árið 1973 og það varð niðurstaða nefndar sem var skipuð á árinu 1988. Fyrir liggur að hér skortir um það bil 200 iðjuþjálfa til starfa og það liggur enn fremur fyrir að iðjuþjálfar starfa í dag mjög óvíða. Þeir starfa einkanlega á sjúkrahúsum og endurhæfingarstöðvum en nánast ekki annars staðar.

Ég ætla að láta liggja á milli hluta hinn fræðilega ávinning sem margir telja af því að flytja þetta nám inn til landsins þó að hann sé auðvitað ótvíræður. Aðalatriðið í þessu sambandi tel ég vera að það er mikill þjóðhagslegur ávinningur af því að efla þetta starf hér á landi. Það hafa verið færð að því mikilvæg rök að yrði starfsemi iðjuþjálfa efld gæti það sparað til lengri tíma litið í heilsugæsluþjónustunni. Það skiptir mjög miklu máli fyrir utan auðvitað velferð sjúklinganna.

Það liggur líka fyrir að það hefur farið fram mjög vandaður og góður undirbúningur að þessu máli þannig að það er að verða mjög skýrt. Niðurstaðan í þessari umræðu er hins vegar sú sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. að það er ekki á óskalista Háskóla Íslands að raða þessu máli þannig í forgangsröð að það muni vera hægt að hefja nám í greininni við Háskóla Íslands á næsta hausti. Það liggur fyrir að ef viðbótarfé verður veitt til Háskóla Íslands þá mun það fara til annarra hluta. Þetta er sú staða sem menn verða að vinna út frá hér og nú. Ég hlýt sem einn af flm. þáltill. sem samþykkt var á vorþinginu 1995 að vekja athygli á því að hún miðaðist við að hæstv. menntmrh. yrði falið að hefja undirbúning að því að koma á námi í iðjuþjálfun hér á landi, ekki endilega við Háskóla Íslands. Í framhaldi af þessu er auðvitað augljóst að við verðum að skoða aðra kosti. Ég hlýt í því sambandi alveg sérstaklega að vekja athygli á möguleikanum á námi við Háskólann á Akureyri.