Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:28:10 (2106)

1996-12-12 17:28:10# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:28]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa verið látin falla um að mikil þörf sé á starfi iðjuþjálfa hér á Íslandi og full ástæða til þess að taka upp nám í iðjuþjálfun hér á landi. Það er alveg ljóst að það eru forsendur til að taka þetta nám upp. Þær eru fyrir hendi í Háskóla Íslands og þær eru einnig fyrir hendi í Háskólanum á Akureyri. Það er hins vegar ekki rétt að aðeins skorti fé til þess að málinu verði hrundið í framkvæmd. Til þess að málinu verði hrundið í framkvæmd, þá veit það einnig að háskólastofnunum sjálfum. Þær verða að hafa metnað til þess að hafa áhuga á þessu máli og raða því framarlega í forgangsröð.

Það er ljóst af því bréfi sem hæstv. menntmrh. vitnaði hér í áðan að Háskólinn á Akureyri hefur sýnt þessu máli áhuga. Það hefur verið gerð athugun á því á vegum háskólans af hálfu Sigríðar Halldórsdóttur, forstöðumanns heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri, og dr. Ingvars Teitssonar, lektors við deildina, hvaða möguleikar séu að koma á fót námi í iðjuþjálfun í tengslum við heilbrigðisdeild háskólans. Niðurstaða þessarar athugunar er sú að mögulegt sé að samkeyra eins og það er kallað a.m.k. 70% af bóklega náminu í iðjuþjálfun með núverandi námi í hjúkrunarfræði við heilbrigðisdeildina. Þetta er því fjárhagslega mjög hagkvæmt, bæði fyrir iðjuþjálfunarnámið og eins fyrir núverandi hjúkrunarfræðinám við háskólann. Ég vil því endurtaka það sem ég sagði áðan að það skiptir máli að stofnanirnar hafi áhuga á að takast á við þetta verkefni. Það er ljóst að Háskólinn á Akureyri hefur áhuga á þessu máli og ég hygg að Félagi iðjuþjálfa sé kunnugt um þennan áhuga.