Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:30:26 (2107)

1996-12-12 17:30:26# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:30]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ljóst að Háskóli Íslands er í spennitreyju, hann stendur mjög illa fjárhagslega og fjárveitingar til hans á nemanda hafa farið hratt lækkandi á undanförnum árum. Raunvirði fjármuna þar er miklu minna núna en var fyrir nokkrum árum. Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er að ég harma að háskólinn skuli ekki hafa fallist á að taka upp kennslu í iðjuþjálfun í Háskóla Íslands úr því að farið var fram á það af menntmrn. Mér finnst að Háskóli Íslands þurfi á því að halda að vera með í gangi dálítið af starfstengdu námi af ýmsu tagi og hann þurfi að vera virkari í því að sumu leyti en hann hefur verið. Það eykur breidd í skólanum og skapar honum annan sess með þjóðinni en ella væri og þess vegna harma ég þá niðurstöðu ef hún er sú sem hér liggur fyrir.

Það er mín skoðun --- en ég hef ekkert um þetta mál að segja nema hér í þessum stól --- að háskólinn hefði átt að fallast á það úr því að ráðuneytið kaus að fara þessa leið. Málið liggur þannig fyrir að þar er bersýnilega um að ræða tregðu en hins vegar verður að vinna að málinu áfram og þess vegna teldi ég eðlilegast að veita til þess fjármunum á fjárlögum ársins 1997, að ráðuneytið fái einhverja fjármuni samkvæmt eigin ákvörðun til þess að tryggja að kennsla í iðjuþjálfun verði hafin hjá viðeigandi stofnun á árinu 1997. Það er ákvörðun sem þarf að taka og ég tel að Alþingi ætti að treysta ráðuneytinu til að verja fjármunum skynsamlega í þeim efnum.