Kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:32:18 (2108)

1996-12-12 17:32:18# 121. lþ. 42.96 fundur 138#B kennsla í iðjuþjálfun á háskólastigi# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:32]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu brýna máli. Eins og fram hefur komið er þörfin mjög augljós hér á landi fyrir það nám sem er til umræðu og ég vil taka undir þau rök sem hafa verið kynnt á því sviði. Það er í annan stað augljóst að fagleg þekking er til staðar og forsendur allar, þjóðhagslegar og menntunarlegar, eru til staðar.

Umræðan snýst að nokkru leyti um Háskóla Íslands og forgangsröðun innan veggja þeirrar mætu stofnunar. Það er ástæða til þess að taka einhvern tíma umræðu um forgangsröðun háskólans og ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið um nauðsyn þess að Háskóli Íslands efli starfsmenntun. Það mun ekki einungis skila sér út í atvinnulífið og vera þjóðhagslega hagkvæmt heldur mun það og hafa jákvæð áhrif á val nemenda í framhaldsskólum, en val þeirra í dag takmarkast mjög gjarnan við það nám sem tekur við af framhaldsskólanum. Því tel ég afskaplega brýnt að Háskóli Íslands taki innan sinna vébanda upp öfluga umræðu um forgangsröðun námssviða sem þar eru kennd.

Orðið sparnaður heyrist gjarnan nefnt og fram hefur komið að til að byrja með er ekki um að ræða nema 5 millj. kr. En það má líka halda því fram með rökum að sparnaður sé til lengri tíma litið hin mesta eyðsla, ekki síst ef mál eins og þetta eru skoðuð undir formerkjum forvarna. Það er alveg ljóst að með öflugum forvörnum á öllum sviðum má ná fram mikilli hagræðingu og sparnaði. Það er með öðrum orðum þjóðhagslega hagkvæmt. Það er enginn vafi að þeir hátt á annað hundrað iðjuþjálfar sem þörf er á nú munu með forvarnastörfum sínum til lengri tíma skila bættu mannlífi og þjóðhagslegum sparnaði. Því er ástæða til þess að brýna hæstv. menntmrh. að styðja þetta mál og jafnframt að Háskóli Íslands eða annar sá háskóli sem vildi taka þetta á sínar hendur geri það.