Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 17:57:49 (2114)

1996-12-12 17:57:49# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:57]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Mér hefur komið svolítið á óvart að í umræðunni hafa hv. þm. spurt um atriði sem ég taldi liggja mjög ljós fyrir. Ég vil gera nokkur þeirra að umtalsefni vegna þess að mér þykir óþarfi að spyrja um þau efni, en þá er sennilega rétt að fram komi svör.

Spurt var hvað orðið hentifáni merkti. Það er rétt að það er ekki sérstaklega skilgreint í frv. né heldur í athugasemdum við það. Orðið hefur fyrir löngu fengið sérstaka merkingu í umræðu um fiskveiðimál og um farskip, um fána sem skip eða útgerð skips grípur til að skrá skip undir í þeim tilgangi að forðast lög og reglur og aðrar skuldbindingar. Það er hin einfalda skilgreining sem er þekkt og hefur verið við lýði alllengi.

Önnur atriði voru rædd á svipaðan veg og spurt var hvort verið væri að ganga langt eða óvenjulangt í löggjöf, þar á meðal um það að veita ákvæðum samkvæmt þjóðréttarsamningum lagastoð og ákvörðunum sem aðilar að slíkum samningum taka á grundvelli samningsins. Um það verður að segjast að á undanförnum árum, ekki aðeins á þessu kjörtímabili, hefur mótast sú regla í hinu háa Alþingi að í lögum um sama málaflokk er gert ráð fyrir því að þegar Ísland hefur fullgilt samning þá geti framkvæmdarvaldið sett í reglugerð ákvæði í samræmi við ákvarðanir sem aðildarríkin, þar með talið Ísland, taka á grundvelli samningsins. Samningur hins vegar verður ekki fullgiltur nema hann sé sérstaklega borinn upp hér í þingi. Eins er um breytingar á samningnum sjálfum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði álitið að þetta þekktu þingmenn þegar af þeim málum sem hafa verið til umfjöllunar það sem af er þessu kjörtímabili.

[18:00]

Atriði sem varðar 3. mgr., bæði í 5. og 6. gr., var líka rætt. Ég verð að viðurkenna að ég hafði álitið að það hefði komið fram og það er rétt ég orði það svo, að í nál. meiri hluta kæmi fram sú leiðsögn sem hann telur eiga við. En hitt er rétt að fram komi að það er ekki venja að fyrir liggi í orðanna hljóðan textar að væntanlegum reglum eftir ákvæðum í frv. sem ekki eru orðin að lögum. Það er ekki venjan.

Herra forseti. Hér hefur verið rætt allítarlega um dóm Hæstaréttar um mál nr. 110/1995, þar sem niðurstaða Hæstaréttar er sú að á tiltekin lög hafi skort til að þau gætu staðist við löggjöf um heimild til framkvæmdarvalds til að skerða atvinnufrelsi sem á sér stoð í stjórnarskrá. Dómurinn er birtur sem fylgiskjal í nál. 1. minni hluta. Ég hefði talið að það væri næg birting og hefði ekki þurft að lesa upp úr honum.

Hitt skal ég taka fram aftur, sem ég gerði í fyrri ræðu minni, að ég hef kynnt mér þennan dóm. Og ég tel að hann geti átt við um þau lög sem nú eru í gildi um fiskveiðar utan lögsögu. Nákvæmlega þar er eins ástatt og um lögin sem dómurinn fjallar um. Í þeim lögum eru ekki takmarkandi ákvæði um umfang þeirrar skerðingar sem fram má koma. Það er hins vegar gert ráð fyrir að verði með þessu frv. þegar það verður að lögum.

Þá hefur enn verið rætt um athugasemdir sem fram hafa komið fyrir hv. sjútvn. frá Katli Sigurjónssyni, lögmanni og fræðimanni. Um það skal ég segja að ég og fleiri þm. í meiri hluta hv. sjútvn. höfum kynnt okkur þær athugasemdir. Við erum alls ekki sammála hv. þm. í 1. minni hluta og talsmanni Kvennalistans í þessu máli um vægi þeirra athugasemda og jafnvel ekki um réttmæti þeirra. Um það verð ég að segja eins og er að mér finnst svolítið sérkennilegt sem kom fram fyrr í þessari umræðu, ekki í máli hv. síðasta ræðumanns heldur fyrr, hjá samflokksmanni hans og formanni flokks hans, að skoðanir annarra þingmanna á slíkum atriðum sem væru ekki aðeins í ósamræmi við hans skoðun hlytu þá að vera rangar. Mér finnst það afskaplega sérkennilegt sjónarmið um álitaefni að álit annarra hljóti að vera rangt ef það er ekki samhljóða hans eigin.

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að við stöndum frammi fyrir því að þróun hefur þegar orðið og er á hraðferð í þjóðarétti og einnig í lögum þeirra ríkja sem eru aðilar að þjóðarétti, einmitt á sviði laga og alþjóðasamninga um veiðar á úthafi, um veiðar á fiskstofnum sem standa beggja megin við mörk lögsögunnar og fiskstofna sem eru hreinir úthafsstofnar, ég tala nú ekki um farandstofnar. Um þetta vil ég segja að mér virðist í þessu máli skipta mjög miklu fyrir okkur Íslendinga að verða ekki eftirbátar annarra þjóða. Við eigum gífurlega mikla hagsmuni undir því að sem fyrst verði gildur þjóðarréttur, þær almennu reglur sem eru skilgreindar í úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna, samningnum sem við köllum svo, og verður væntanlega til umfjöllunar að fullgilda hann hér á hinu háa Alþingi á næstu dögum. Vegna tillögu og orða hv. þm. jafnaðarmanna og kvennalistans um að það sé rétt að tefja þetta mál verð ég að segja að það finnst mér og sýnist ganga gjörsamlega í bága við hagsmuni okkar Íslendinga. Mér finnst sérkennilegt af forustumönnum slíkra stjórnmálaafla að mæla fyrir þeim skoðunum þar sem hagsmunir okkar eru í húfi. Það hefur oft verið rætt hér á hinu háa Alþingi að einmitt það að koma á almennum reglum um stjórn fiskveiða utan lögsögu, skipti okkur mjög miklu máli vegna stofna sem fara út og inn í okkar lögsögu, stofna sem hafast við á mörkum hennar og rétt utan, og eru mjög sóttir af öðrum þjóðum. Slíkir samningar og reglur, eins og við setjum með þessu frv., byggðar á ákvæðum og heimildum í alþjóðasamningum til þess að ríkið geti haft afskipti út fyrir lögsögu sína, einmitt það er sá réttur sem við höfum óskað eftir. Og aðeins fyrir fáum árum höfðu talsmenn sömu flokka uppi einmitt þær skoðanir í hinu háa Alþingi. Mér finnst snúningur þeirra sérkennilegur. Ég hlýt að taka það fram, herra forseti, vegna þeirra orða sem höfð hafa verið uppi um að engin nauðsyn sé til þessarar löggjafar og að hún muni verða til að skerða athafnafrelsi íslenskra úgerða á úthafinu umfram útgerðir annarra ríkja eða þjóða. Ég tel það vera misskilning. Og ég tel það mikinn misskilning ef menn álíta að þetta frv., ef að lögum verður, komi í veg fyrir að sjómenn okkar og útgerðir geti sótt á fjarlæg úthafsmið sem ekki hefur þegar verið samið fyllilega um stjórn veiða á. Ég vænti þess að við höfum öll skilning á því þegar um er að ræða svæði sem þegar hefur verið samið um veiðar á, samið um stjórn, veiðar og stofna sem þar eru nýttir. Þar höfum við ekki rétt til að hegða okkur eins og allt sé öllum opið og að ríki fullt frelsi.

Herra forseti. Haft var á orði fyrr í umræðunni að einhver grannríki okkar væru skemmra á veg komin í þessum málum heldur en við ætlum nú að fara og það væri okkur til sóma að bíða þeirra. Ég tel það ekki okkur til sóma. Ég tel það í bága við hagsmuni okkar og það væri okkur til vansæmdar að bíða öllu frekar. Vegna þess að eitt ríki var sérstaklega nefnt vestan Atlantshafsins, Kanada, og haft á orði að þar væru ekki í lögum ákvæði lík þeim sem við erum að setja, verð ég að viðurkenna að mér hefur verið það ljóst í nokkur ár að það er ekki nýmæli. Það er meira að segja gamalt ákvæði í lögum í Kanada að stjórnvöldum þar er heimilt að hafa afskipti af skipum, meira að segja skipum annarra ríkja utan lögsögu Kanada. Ég minnist deilna milli Kanada og Evrópusambandsins einmitt vegna þessa. Þar kom fram að Evrópusambandið gat ekki gengið eftir einhverju sem það taldi sinn rétt vegna þess að lög Kanada voru alveg hrein og klár og hafði ekki verið mótmælt.

Ég tel, herra forseti, að við ættum ekki að bíða eftir fordæmi Evrópusambandsins sem sérstaklega var nefnt. Það á ekki slíka sögu eða slíkt orðspor í sjávarútvegsmálum og fiskveiðum að það sé skynsamlegt fyrir okkur að fara að fordæmi þess, þ.e. þeirra sem hafa gengið miklu verr fram á fiskimiðum heldur en við þó gerum.

Við höfum velt því fyrir okkur nokkrum sinnum undanfarin ár hvers vegna við höfum lent í deilum við næstu grannríki okkar og vinaþjóðir um fiskveiðimál. Hvers vegna aðrar þjóðir hafa gagnrýnt okkur Íslendinga fyrir framgöngu okkar á sameiginlegum miðum utan við lögsögu okkar og annarra. Ég tel að það sé vegna þess að okkar lög um þessi efni hafa ekki verið nægjanlega skýr og að við, útgerðir okkar eða sjómenn, höfum gengið fram með þeim hætti að öðrum hefur verið misboðið. Það er alveg skýrt að næstu grannþjóðir okkar telja framkomu okkar á Flæmingjagrunni gagnrýni verða. Það er okkur öllum ljóst hvers vegna við deilum við Norðmenn og Rússa um Smuguna í Barentshafi.

Ég er ekki að segja að við höfum farið gjörsamlega rangt að. Ég tel samt sem áður ljóst að þessar grannþjóðir okkar telja okkur ámælisverða fyrir það hvernig við höfum gengið fram. Ég tel einfaldlega, herra forseti, að með ákvæðum þessa frv. sé ekki verið að skerða möguleika okkar eigin fiskiflota til að sækja ný úthafsmið eða að sækja í nú ónýtta stofna utan lögsögunnar. Ég tel það misskilning að halda slíku fram.

Ég tel það alveg fáránlegt að halda því fram að með þessu frv. sé verið að færa lögsöguna, eins og sagt er, yfir öll heimsins höf. Ég tel augljóst að þar sem ekki gilda lög annarra ríkja frekar en okkar, hljóti að gilda íslensk lög um íslenska starfsemi, það er augljóst. Það er ekkert eðlilegt frelsi fólgið í því að hafa lögleysu. Á það get ég ekki fallist. Ég tel einfaldlega, herra forseti, að ef við mundum bíða frekar með samþykkt þessa frv. og að það verði að lögum, þá værum við að fórna mikilvægum hagsmunum Íslendinga og það yrði okkur til vansæmdar.