Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:09:57 (2115)

1996-12-12 18:09:57# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:09]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi nefna hér í stuttu andsvari. Í fyrsta lagi dró síðasti ræðumaður í efa réttmæti þeirra skoðana sem fram koma hjá Katli Sigurjónssyni lögfræðingi og lögð voru fyrir sjútvn. Það er í sjálfu sér eðlilegt að menn dragi skoðanir annarra í efa. Það er eðlilegt og menn eru ætíð að takast á með rökum. En því miður hafa ekki verið sett fram hér í þessari umræðu af fulltrúum meiri hluta sjútvn. nein rök sem réttlæta að setja fram þá skoðun að þeir séu bara ekki sammála vegna þess að það hafa ekki verið sett fram nein rök, ekki ein einustu, um að það sé ástæða til að draga niðurstöðu Ketils Sigurjónssonar í efa.

Í öðru lagi talaði hv. síðasti ræðumaður um vansæmd af því að bíða. Í hverju felst sú vansæmd og hver er nauðsyn þess að setja þessi lög nákvæmlega núna? Það hefur hvergi komið fram. Það er hægt að skella fram einhverjum frösum sem hljóma líkt og hjá síðasta ræðumanni, það væri vansæmd að því að bíða, það skaðaði okkar hagsmuni o.s.frv. Það er ekkert á bak við það. Það eru engin rök sett fram.

Í þriðja lagi, virðulegur forseti, ef Kanada hefur sett lög þess efnis að þau eigi við utan lögsögu Kanada og heimili þeim að ganga í skip annarra þjóða utan þeirra lögsögu þá er framsögumaður meiri hluta sjútvn. að bera hér inn nokkuð merk tíðindi. Hann er að bera hér inn að lög Kanada gangi þá framar gildandi þjóðréttarreglum á opnu hafsvæði.