Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:12:21 (2116)

1996-12-12 18:12:21# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:12]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að segja að ég teldi það ekki við hæfi að ræða hér fram og til baka með rökum eða ekki rökum, hvers vegna við komumst að þeirri niðurstöðu sem við höfum gert um athugasemdir lögmanns, sem við berum vissulega virðingu fyrir, en erum ekki sammála. Athugasemdir hans eru ekki hluti af þingmálinu. Þær hafa komið fyrir okkur og við höfum vegið og metið hver eftir því sem við teljum efni til.

Ég tel að ef við bíðum með að samþykkja að þetta frv. verði að lögum, það verði látið dragast, eins og síðasti ræðumaður m.a. hefur tekið undir og aðrir flutt hér sem munnlegar tillögur, í allt að þrjú ár þá yrði vansæmd okkar fólgin í því að hafa ekki lögleitt ákvæði sem gerði okkur kleift að framfylgja samningum sem við höfum þegar gerst aðilar að og eru í gildi. Þar er ég ekki að tala um úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna heldur beina samninga okkar við aðrar þjóðir við Atlantshaf. Það yrði mjög miður.

Ég trúi ekki að hv. þm. muni ekki eftir þeim áhyggjum sem við höfum haft af karfastofninum á Reykjaneshrygg. Ég tel að nái þetta frv. ekki fram að ganga nú séum við ekki lagalega fullbúnir til að framfylgja þeim samningum sem við höfum gengið eftir við aðrar þjóðir og höfum talið mest í þágu okkar hagsmuna.