Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Fimmtudaginn 12. desember 1996, kl. 18:13:49 (2117)

1996-12-12 18:13:49# 121. lþ. 42.4 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:13]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Margumrætt lögfræðiálit Ketils Sigurjónssonar er vissulega ekki hluti af þessu máli, það er alveg hárrétt. En þarna er á ferðinni sérfræðingur á sínu sviði, líklega okkar fremsti maður á sviði hafréttar nú um stundir. Þess vegna er ekki óeðlilegt, þegar viðhorfum hans og skoðunum er hafnað, að eftir því sé leitað að meiri hluti sjútvn. rökstyðji niðurstöðu sína. Það er alveg ljóst, eins og ég vitnaði til í ræðu minni áðan, að Alþingi hefur verið að fá upp á síðkastið æ ofan í æ skömm í hattinn frá dómstólum, þar sem þeir segja að Alþingi hafi ekki staðið nægilega vel að löggjöf sinni. Þess vegna er full ástæða til þess, þegar meiri hluti hafnar jafngóðum fræðimanni og þarna á í hlut, að hann setji fram rök. Verði frv. að lögum, sem ég geri fastlega ráð fyrir, þá er alveg ljóst að mjög fljótlega munu verða höfðuð nokkur mál til þess að láta á það reyna hvort þessi löggjöf standist atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi vandi eins og kostur er til vinnu sinnar við löggjafarsmíðina og kasti ekki til þess höndunum. Þess vegna er ekki óeðlilegt þrátt fyrir að álitið sé ekki hluti af frv. að meiri hlutinn setji fram rök þegar hann hafnar jafnþungum rökum og eru sett fram í margumræddu áliti.