Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 11:59:35 (2138)

1996-12-13 11:59:35# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[11:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir hugmyndir hv. formanns fjárln., hv. þm. Jóns Kristjánssonar, um breytingu á starfi fjárln. þannig að hún leggi ramma fyrir fjárlögin. Hins vegar verð ég að segja að þessi árlega, árvissa ræða hv. formanns fjárln. minnir mig sorglega mikið á stjórnarfund í meðalstóru bandarísku fyrirtæki. Hér er rætt um alls konar framkvæmdaratriði, t.d. launakostnað við rannsóknir á riðu og Kreuzfelt Jacob sjúkdóminn, það er rætt um úrbætur í öryggismálum og móttöku handrita, endurnýjun tölvubúnaðar, útgáfu á Íslendingasögum á ensku, kostnað vegna farar á Ólympíuleika og síðast en ekki síst sem er mikilvægast, kostnað við sólarhringsvakt vegna veðurathugana á Egilsstaðaflugvelli. Á þennan hátt grípur löggjafarvaldið óviðurkvæmilega inn í starf framkvæmdarvaldsins og skerðir jafnframt ábyrgð framkvæmdarvaldsins. Hvernig geta hæstv. ráðherrar borið ábyrgð á framkvæmdum sem Alþingi --- löggjafarvaldið hefur samþykkt?

Á sama hátt rignir yfir hv. Alþingi lagafrv. frá framkvæmdarvaldinu. Frumkvæði að lagasetningu er sjaldan eða aldrei hjá hv. Alþingi heldur felst starfið í því að endurskoða og leiðrétta lagafrv. sem framkvæmdarvaldið sendir okkur. Þannig grípur framkvæmdarvaldið inn í starfssvið löggjafarvaldsins og minnkar ábyrgð löggjafarvaldsins. Hversu oft höfum við ekki heyrt þá ræðu þegar upp koma mistök í lagasetningu: Ja, þetta kom nú svona frá ráðuneytinu. Ég spyr því hv. formann fjárln. hvernig hann sjái að skerpa megi skilin á milli framkvæmdar- og löggjafarvalds og auka ábyrgð beggja.