Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 12:01:49 (2139)

1996-12-13 12:01:49# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[12:01]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Í hugleiðingum mínum um störf fjárln. í framsöguræðu minni áðan gerði ég grein fyrir því að meiri umræða þyrfti að fara fram hér á Alþingi um meginlínur fjárlagafrv. Hins vegar er það skylda okkar að gera grein fyrir þeim brtt. sem við gerum við frv. og fara um þær einhverjum orðum. Við gætum náttúrlega ósköp vel framselt til framkvæmdarvaldsins þær skiptingar og aukið safnpotta, falið framkvæmdarvaldinu að framkvæma allar skiptingar og talað bara um heildarramma hér. Ég átti nú ekki við það í framsöguræðu minni að ganga svo langt og ég reikna varla með því að löggjafarvaldið vilji afsala sér öllum rétti í þessum efnum. En ég tel að vinnubrögðin við fjárlagagerð þurfi eigi að síður að taka til endurskoðunar og auðvitað þarf einnig að skoða það í hve miklum mæli löggjafarvaldið á að afsala sér valdi á skiptingu fjármuna til ráðherra. Það er einn þátturinn í þeirri endurskoðun. Ég hef ekki setið fundi í bandarískum fyrirtækjum, hvorki litlum né stórum. Hins vegar er það skylda mín sem formanns fjárln. að gera grein fyrir þeim atriðum sem fjallað er um í nefndinni.