Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 14:39:53 (2151)

1996-12-13 14:39:53# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[14:39]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil staðfesta að það varð samkomulag um að breyta fyrirspurninni og reyna að snúa henni í annað form en það sem átti að beinast til hæstv. forsrh.

Ég vil koma að í ræðu minni þar sem segir að skilningsleysi birtist í að láta hvers kyns óréttlæti dafna í viðskiptum með sameign þjóðarinnar og hugmyndum um að heimila veðsetningu kvóta eins og hér er orðin staðreynd og afskiptaleysi um að lög séu brotin þegar sjómenn eru látnir taka þátt í rekstri útgerðar með þátttöku í kvótaleigu og verða að sæta brottrekstri ef þeir sætta sig ekki við það sem útgerð vill skammta þeim, eins og nýleg dæmi sanna. Ég vil þá kynna eftirfarandi dæmi fyrir hæstv. fjmrh. í stað forsrh. og spyr hann í framhaldi af þeim dæmum sem ég fer með nú.

Fyrra dæmið er eitt af mörgum, mörgum dæmum sem ég hef undir höndum um misferli að mínu mati varðandi hlutaskipti til sjómanna. Ég vitna þá til þess að í Fiskifréttum 22. nóv. sl. var viðtal við skipstjóra á Hafsúlunni hf. undir fyrirsögninni ,,Veiða rígaþorsk í 9 tommu net``. Í viðtalinu kemur fram að afli skipsins sé seldur til Fiskverkunar Sæunnar Axels hf. og þeir fái þrjú tonn af kvóta á móti hverju einu tonni sem skipið leggur til. Þetta þýðir að ef skipið landar fjórum tonnum af þorski til fiskverkunarinnar sé greitt fyrir aflann með peningum annars vegar og þremur tonnum af kvóta hins vegar. Ekki vildi skipstjórinn gefa upp hvaða peningagreiðslur fengust fyrir aflann, enda verðið sennilega það lágt að hann skammaðist sín fyrir að nefna töluna. Það er ljóst af þessu dæmi að áhöfn Hafsúlunnar HF 77 er að taka þátt í að fjármagna kvótakaup útgerðarinnar sem er brot á kjarasamningi sjómanna.

Það hefur ekki farið fram hjá mönnum yfirlýsing formanns Samtaka fiskvinnslustöðva um að fiskverð sé allt of hátt og það þurfi að lækka. Í framangreindu dæmi er líklega verið að greiða 70 kr. fyrir kílóið fyrir þorskaflann. Varla er það fiskverð að sliga vinnsluna fyrir rígaþorsk. Verð á veiðiheimildum er nú 70 kr. kílóið. Fyrir fjögur tonn af þorski er útgerðin að fá greiðslu fyrir afla sem hér segir: Það er greitt í peningum fyrir 4.000 kg eða 4 tonn, 70 kr. á kílóið, 280 þús. kr. Greitt er með kvóta 3.000 kg eða 3 tonn, 70 kr. á kílóið, 210 þús. kr. Það eru samtals 490 þús. kr. Meðalverð á hvert kíló af þorski sem útgerðin er að fá fyrir aflann er því um 122,5 kr. eða 490 þús. kr. deilt með fjórum tonnum, eins og ég gat um áðan, og er vinnslan að greiða það meðalverð fyrir þorskinn. Sjómennirnir fá hins vegar gert upp samkvæmt 70 kr. á kílóið og eru því, eins og dæmið sýnir, hlunnfarnir um 52,5 kr. pr. kg. Það þýðir að mínu mati að þeir fá þessum 52 kr. minna til skiptanna og það þýðir að ríkissjóður verður af skatttekjum af þessum sjómönnum sem munar þeim hlut sem þeir hefðu haft út úr þessum krónum. Þess vegna er verið að velta því fyrir sér hvort um skattsvik sé að ræða og ég tel að verið sé að brjóta lög og þurfi eitthvað að gera í þeim málum.

Ég ætla að tína fram annað dæmi. Ég ætlaði að beina spurningu um hvers konar lagabreytingar menn teldu sig þurfa að gera til að koma í veg fyrir þetta en ég tíni fram annað dæmi. Til Sjómannasambandsins leitaði annar stýrimaður á fiskiskipinu Hvannabergi HF-72. Hann bað um að réttur sinn yrði kannaður. Þannig var að skipverjar höfðu tínt úr Japansrækjunni og pakkað inn í sérstakar umbúðir og fengust 218--227 kr. á kíló fyrir þá pakkningu. 5. febrúar kom skeyti frá útgerðinni þar sem skipverjar eru beðnir um að hætta þessari úrtínslu þar sem fyrir iðnaðarrækjuna fengjust 230 kr. fyrir tvö kíló, sem sagt 115 kr. á kílóið í tonni á móti tonni í viðskiptum sem væri hagstæðara fyrir útgerðina. Viðkomandi stýrimaður taldi að framangreind ráðstöfun útgerðarinnar skerti sinn hlut sem er ekki að furða. Það munar helming á hlutaskiptum til þessa aðila, helming á hlutaskiptum. Þess vegna spyr ég: Telur hæstv. fjmrh. ekki ástæðu til að kanna hlut ríkisins í þeim tekjum sem hefði átt að greiða skatt af? Ég get ekki nálgast þessa spurningu á annan hátt. Það er til þess að reyna að koma, herra forseti, á móti því samkomulagi sem gert var um að ég gæti klárað mína ræðu.

[14:45]

Fyrirspurnin til hæstv. sjútvrh. var: Til hvaða aðgerða ætlar hæstv. ráðherra að grípa gagnvart þessum vanskapnaði sem hefur þróast með fiskveiðistjórnunarkerfinu?

Að lokum þetta, herra forseti. Fjárln. hefur nánast eingöngu fjallað um útgjaldahlið frv. og tekjuhlið þess bíður því 3. umr. Allt bendir til þess að tekjuhliðin sé vanáætluð, m.a. þar sem áætlunin byggir á röngum grunni og telur minni hlutinn að þar muni a.m.k. 1,5--2 milljörðum kr. Breytingartillögur meiri hlutans nema rúmlega 710 millj. kr. og minni hlutinn styður margar þeirra.

Minni hlutinn flytur nokkrar breytingartillögur við gjaldahlið frv. nú við 2. umr. sem rúmast fyllilega innan fjárlagarammans.

Að lokum þetta: Fjárlög markast af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er. Minni hlutinn getur ekki tekið ábyrgð á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrv. Undir nefndarálit það sem ég hef verið að gera grein fyrir rita auk mín, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. En ég vænti þess að eitthvert svar komi við þeim spurningum sem ég hef sett fram. Ég vil þakka þeim ráðherrum sem hafa setið undir ræðu minni frá því í morgun, hæstv. heilbrrh., hæstv. menntmrh., hæstv. félmrh. og nú frá hádegi hæstv. fjmrh.