Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 14:52:31 (2154)

1996-12-13 14:52:31# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[14:52]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að bæði varðandi tekjur og eins varðandi tölur vegna sjúkrahúsa úti á landi, þá eru það mál sem verða til umræðu við 3. umr. málsins.

Þá vil ég taka fram að í frv. er gert ráð fyrir því að bótagreiðslur til almannatrygginga hækki um 2%. Það er ekkert vitað um kjarasamninga á þessari stundu. Það er að mínu viti ekki sjálfgefið að færa upp bætur eins og laun hreyfast, en það gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess eftir áramótin að laga þetta ef ástæða er til, enda eru til þess geymdir fjármunir hjá fjmrn. samkvæmt frv.

Jaðarskattanefnd er ætlað að ljúka sínum störfum fyrir áramótin. Ég get ekki lofað því að svo verði en það var í erindisbréfi nefndarinnar. En ég get sagt að ég á ekki von á því að störf þeirrar nefndar hafi áhrif á störf þingsins núna fyrir jól.

Það er rétt hjá hv. þm. að það má nokkurn veginn setja samasemmerki á milli viðskiptahalla og erlendra skulda, en þá verðum við að gæta okkur á því að sumar af þeim erlendu skuldum kunna að falla á erlenda aðila sem hér starfa og þær skuldir eru öðruvísi en skuldir sem verða til og þurfa að greiðast af innlendum aðilum því að ef um erlenda fjárfestingu er að ræða má gera ráð fyrir því að hún skili í þjóðarbúið verulegum verðmætum á næstu árum.

Og hvernig á að stöðva skuldasöfnunina? Í fyrsta lagi með því að hætta að reka ríkissjóð með halla. Í öðru lagi með því að lækka vexti sem er gert með skynsamlegri fjármálastjórn og í þriðja lagi með því að taka upp samtímagreiðslur í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna.

Varðandi frestun opinberra framkvæmda þá er það ekki eingöngu fjárhagslegt málefni heldur er það líka málefni sem tengist efnahagsmálunum yfir höfuð. Við áætlum að draga úr framkvæmdum við flugstöð, 400 millj. Við áætlum að lækka til vegaframkvæmda á suðvesturhorninu og greiða í staðinn niður erlendar skuldir til ferja. Við reynum að hafa áhrif á orkufyrirtækin til að draga það að fjárfesta meðan þarf og við viljum taka upp viðræður við sveitarfélögin og öllum meiri háttar áformum um framkvæmdir á næstu árum reynum við að stýra inn á árin 1999 og árið 2000.