Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:03:10 (2160)

1996-12-13 16:03:10# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:03]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er vissulega svo að að nokkru leyti hafa áform um niðurskurð í menntakerfinu verið dregin til baka og ég tók það sérstaklega fram. Þó að hv. 2. þm. Vesturl., Sturla Böðvarsson, hafi séð ástæðu til að ítreka það sérstaklega, þá taldi ég mig draga það einmitt fram og lýsti yfir ánægju minni með það í ræðu minni. Það er hins vegar ekki nema örlítill hluti af þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er engu að síður.

Varðandi það sem nefnt hefur verið goðsögnin um gjaldþrot Lánasjóðs ísl. námsmanna, þá vil ég vísa enn og aftur í þessa ágætu skýrslu sem samstarfsnefnd námsmannahreyfingarinnar tók saman þar sem þessi fullyrðing er hrakin og það hafa reyndar fleiri gert sem hafa fjallað um þessi mál, m.a. þeir sem komu beinlínis úr þessum málum úr röðum alþýðubandalagsmanna. Ég hef ekki tíma til þess í stuttu andsvari að rekja þessa sögu hér, en vil vísa hv. þm. á að fara ítarlega ofan í þessa greinargerð þannig að ég vísa því á bug að sjóðurinn hafi beinlínis stefnt í gjaldþrot á þeim tíma sem breytingin er gerð. Það hefur aldrei verið sýnt fram á það með óyggjandi rökum og m.a. er það hrakið í þessari skýrslu sem og víða annars staðar. Ég get því ekki fallist á þær skýringar fyrir þessari aðför að námsmönnum sem gerð var með lögunum frá 1992, engan veginn. Hins vegar fagna ég því ef núv. ríkisstjórn hyggst ætla að snúa við þeirri óheillaþróun sem átt hefur sér stað í málefnum námsmanna frá því á árinu 1992.