Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 16:56:10 (2164)

1996-12-13 16:56:10# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:56]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1997 leggur meiri hluti hv. fjárln. fram brtt. við gjaldalið fjárlagafrv. og hefur hv. formaður fjárln. mælt fyrir þeim tillögum. Ekki hefur tekist að ljúka afgreiðslu allra þeirra erinda sem fyrir nefndinni liggja og verða þau að bíða 3. umr. Þar má einkum nefna tillögur um sjúkrastofnanir auk tillagna er varða tekjuhlið frv. eins og venja er, heimildarákvæði 6. gr. og B-hluta eins og gert er ráð fyrir.

Ég vil gera hér að umtalsefni þátt fagnefnda í þeirri vinnu sem unnin hefur verið við undirbúning þess að taka fjárlagafrv. til 2. umr. Eins og fram kemur í nál. meiri hluta fjárln. hafa fagnefndirnar lagt fram sín nál. og fulltrúar þeirra nefnda gerðu grein fyrir álitunum á fundum fjárln. og ber að þakka þá ágætu vinnu sem unnin var í fagnefndunum en hún auðveldar fjárln. vissulega þá vinnu sem hún þarf að leggja í. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að það hefur stundum verið gagnrýnt að fagnefndirnar komi ekki nægilega mikið að starfi og undirbúningi við setningu fjárlaganna en ég tel að sú vinna sem hefur farið fram í haust afsanni þá gagnrýni og það hafi komið í ljós hversu mikilvæg vinna fagnefndanna er og að hún er vissulega vel metin hjá hv. fjárln.

Eins og fram kemur í nál. meiri hluta nefndarinnar eru tillögur til hækkunar á 4. gr. frv. samtals 710 millj. kr. Er þess að vænta að við 3. umr. verði afgreiddar tillögur til breytinga á tekjum og gjöldum á þann veg að markmiðið um hallalaus fjárlög náist og tryggt verði eftir því sem afgreiðsla fjárlaga gefur tilefni til það mikilvæga markmið að halda stöðugleika í verðlags- og peningamálum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Með myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefst ný framfarasókn þjóðarinnar. Undirstöður velferðar verða treystar og sköpuð skilyrði fyrir bættri afkomu heimilanna í landinu. Áhersla verður lögð á samheldni þjóðarinnar, samvinnu vinnuveitenda og launþega, dreifbýlis og þéttbýlis. Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum eru forsendur framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis.`` Svo mörg voru þau orð en þau eru mikilvæg og auðvitað mikilvægt innlegg í alla umræðu sem lýtur að stefnumörkun og störfum ríkisstjórnarinnar. Allt starf stjórnarflokkanna hlýtur að miða að því að ná þessum markmiðum sem stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér.

Allt bendir til þess að alþjóðleg hagþróun verði hagstæð á næsta ári og spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 3,8% aukningu í heimsframleiðslu á þessu ári sem er meira en var árið 1995 og 4,1% á næsta ári. Skapa þessar aðstæður sterkari stöðu á mörkuðum útflutningsafurða okkar. Verulegur hagvöxtur hefur verið hér á landi í ár, eða um 5,5%. Í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,5% á næsta ári og 4% ef álvers- og stóriðjuframkvæmdir fara af stað eins og margt bendir til að geti orðið. Það bendir því allt til þess að fjárfestingar muni aukast og draga muni úr atvinnuleysi. Það hefur því vissulega rofað verulega til í efnahagsmálum og komið hefur í ljós að árangur þeirra aðgerða sem markvisst hefur verið unnið að á síðustu árum, bæði á vegum fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem nú ræður ferð. Það er vissulega verk að vinna, ekki síst hjá aðilum vinnumarkaðarins sem semja um skiptingu þess ávinnings sem hefur orðið og gæti blasað við ef vel verður á spilum haldið hjá atvinnufyrirtækjum landsins og ekki síður stjórnvöldum. Það skiptir því miklu máli að haldið verði fast við þau markmið í ríkisfjármálum sem að er stefnt svo stöðugleikinn haldist um leið og kjör verði bætt.

[17:00]

Markmið okkar í ríkisrekstrinum á að vera krafa um einföldun og ábyrgð og árangur í ríkiskerfinu. Með einföldun á ég ekki síst við eftirlitshlutverk ríkisins og það flókna eftirlitsstofnanakerfi sem sett hefur verið upp á mörgum sviðum, og stjórnsýsluna sem stýrir velferðarkerfinu. Einföldun hlýtur að geta falist í aukinni einkavæðingu og því að færa verkefni til sveitarfélaga og/eða stofnana sem næst þeim vettvangi sem sinna á með dreifðu valdi og ábyrgð en sem minnstri miðstýringu. Með ábyrgð vil ég vísa til þess að með skýrum hætti og samningum verði stofnunum gert ljóst hvert hlutverk þeirra er og stjórnendum veitt svigrúm til þess að stjórna innan ramma fjárlaga og þeirra samninga sem gerðir eru og árangur metinn á grundvelli samningsstjórnunar.

Árangurinn á að felast í því að skipulag og starfsemi ríkisins sé þannig að ríkið geti sinnt skyldum sínum við borgarana á eins hagkvæman, skjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur er. Meðal þess sem þarf að vinna að sem lið í úrbótum í ríkisrekstri er að gera þjónustusamninga við stofnanir og tryggja þannig markmið og árangur.

Það er von mín að stjórnarflokkarnir leggi áherslu á og standi áfram að úrbótum í ríkiskerfinu, sem eru nauðsynlegar, í góðri sátt og í samstarfi við starfsfólkið sem þekkir til þeirrar þjónustu sem veita þarf. Ég tel það vera meðal allra mikilvægustu viðfangsefna innan ríkiskerfisins að skapa öryggi og tiltrú hjá starfsmönnum gagnvart stofnunum ríkisins. Sífelldar breytingar og óstöðugleiki eru óviðunandi og ekki í takt við kröfur og áætlanir um árangur og skýr markmið í ríkisrekstrinum.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki nota tíma minn við þessa umræðu til að gera grein fyrir einstökum brtt. sem meiri hluti fjárln. hefur lagt fram. Það hefur hv. formaður fjárln. gert í ræðu sinni. Ég mun hins vegar fara nokkrum orðum um nokkra þætti og helstu áherslur sem ég tel að felist í tillögum meiri hluta fjárln. sem hér liggja fyrir.

Með færslu verkefna til sveitarfélaganna og skýrari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga hefur sameiginlegum verkefnum, sem ríkið leggur til fjármuni, fækkað. Samningar milli ríkis og sveitarfélaga hafa verið gerðir um margs konar framkvæmdir og uppbyggingu. Við umræðuna tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að mjög mikilvægt er að samningar milli ríkis og sveitarfélaga séu gerðir með þeim hætti að þeir séu vel undirbúnir og samræmi sé milli þeirra samninga sem eru gerðir við einstök sveitarfélög.

Það er óverjandi að gera samninga við sveitarfélög sem síðan er ekki hægt að standa við og þess vegna er nauðsynlegt að undirbúa málin og þar af leiðandi samninga vandlega og byggja þá á gildandi lögum um þau verkefni sem um er að ræða. Engu að síður getur það verið til hagsbóta fyrir báða aðila og í raun nauðsynlegt að taka til endurskoðunar samninga sem gerðir hafa verið vegna breyttra aðstæðna. Ég vil gera grein fyrir nokkrum tillögum sem meiri hluti fjárln. hefur lagt til og eru til umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég nefna og víkja að annarri brtt. meiri hlutans sem lýtur að embætti umboðsmanns Alþingis. Það embætti var, svo sem kunnugt er, stofnað með lögum nr. 13/1987 og tók umboðsmaður til starfa í byrjun ársins 1988. Ég tel að á þeim níu árum sem umboðsmaðurinn hefur starfað hafi embætti hans mjög rækilega sannað gildi sitt og starf hans haft geysimikil og góð áhrif á stjórnsýsluna í landinu. Ég tel að Alþingi beri að standa vörð um starf umboðsmanns og styrkja það og veita til þess þá fjármuni sem þarf svo embættið megi reka á sómasamlegan hátt. Ég tel mig geta fullyrt að fram að þessu hefur verið haldið vel á málum hjá umboðsmanni, fjárveitingum verið stillt í hóf og sparnaðar verið gætt í rekstri. En á hitt ber að líta að sá fjöldi mála sem kemur til úrlausnar hjá umboðsmanni hefur aukist á hverju ári. Það er þó mat umboðsmanns að nokkurs stöðugleika sé farið að gæta og með þeim ráðstöfunum sem hann leggur til megi grynnka á óafgreiddum málum hjá embættinu. En það hlýtur að vera mjög bagalegt fyrir borgarana sem til umboðsmanns leita að þurfa að bíða lengi eftir niðurstöðum mála. Á því er heldur ekki góður svipur. Á þessum níu árum hafa orðið mikil umskipti í stjórnsýslunni. Sett hafa verið ný stjórnsýslulög og upplýsingalög auk þess sem sett hafa verið lög og reglugerðir samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið, sem hafa kallað á endurskoðun og endurskipulagningu á starfsháttum stjórnvalda. Er mikilsvert að umboðsmaður geti með störfum sínum fylgst með og haft áhrif á þessar breytingar.

Þá er þess að geta að í frumvarpi sem forsætisnefnd mun flytja til nýrra laga um embætti umboðsmanns Alþingis er gert ráð fyrir því að víkka út starfssvið umboðsmanns Alþingis þannig að það taki einnig til starfa sveitarfélaga. Ekki er ljóst hversu málafjöldinn muni aukast ef það frumvarp yrði að lögum, en það er ljóst að þeim málum sem kæmu fyrir umboðsmann, ef af því yrði að sveitarfélagaviðfangsefnið bættist við, mundi fjölga sem þar þyrfti að vinna að. Meiri hluti fjárln. flytur tillögu um að hækka framlag til umboðsmanns Alþingis um 5,2 millj. kr., þ.e. að fjárveitingin verði 38,9 millj. í stað 33,7 millj. kr. í frv. Hækkunin skýrist af því að gert er ráð fyrir því að heimila fjölgun starfsmanna, þ.e. lögfræðinga, þannig að betur verði hægt að vinna að málum og ekki þurfi að safnast upp sá biðlisti sem í raun hefur verið þar á síðustu missirum. Með þessari afgreiðslu fjárln. og vonandi Alþingis er að mínum dómi vel og sómasamlega séð fyrir fjárveitingu til embættis umboðsmanns Alþingis. Ætti umboðsmaður þannig að geta sinnt betur sínu mikilvæga hlutverki í nafni Alþingis.

Þá vil ég nefna aðra tillögu um hækkun á framlögum en það er tillaga um hækkun á framlagi til Landsbókasafns -- Háskólabókasafns vegna ritakaupa. Það má öllum vera ljóst að mjög miklu máli skiptir fyrir Háskóla Íslands og þá sem njóta þjónustu Landsbókasafnsins að unnt sé að sinna ritakaupum svo Háskólabókasafnið geti sinnt þeim skyldum sínum sem því fylgir að veita vísindamönnum og námsmönnum þjónustu. Þess vegna var fallist á erindi um það að hækka framlag til bókasafnsins og er það gert í ljósi samkomulags sem hefur orðið á milli Háskóla Íslands og Landsbókasafns -- Háskólabókasafns um skiptingu fjármuna háskólans annars vegar og safnsins hins vegar vegna ritakaupa.

Þetta vil ég sérstaklega draga fram vegna þess að vissulega hafa orðið miklar umræður um málefni háskólans og við vitum að leggja þarf áherslu á að styrkja starf háskólans og allar ytri aðstæður og ég tel að með þessu sé lögð rík áhersla og þarna komi fram forgangsröðun sem snýr að starfi á háskólasviðinu.

Þá vil ég nefna hækkuð framlög til Stofnunar Árna Magnússonar í fjáraukalögum og brtt. meiri hluta fjárln. sem hér liggur fyrir. Með hækkun á framlagi til stofnunarinnar er henni gert kleift að sinna betur því mikilvæga verkefni sem henni er ætlað að sinna, ekki síst með tilliti til þess að síðustu handritin eru væntanleg til stofnunarinnar frá frændum okkar, Dönum, og er mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt í Árnastofnun auk þess sem leggja verður áherslu á að skapa henni möguleika til að sýna og vinna úr þeim merkilegu gögnum sem stofnunin varðveitir.

Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið mikilvægt og merkilegt starf við stefnumótun gagnvart því sem nefnt er íslenska upplýsingasamfélagið. Í ljósi þess er mikilvægt að íslenskum menningar- og menntastofnunum séu sköpuð skilyrði til þess að nýta tölvutæknina og skapa nemendum og öðrum sem njóta þjónustu þeirra aðstæður til að nema og nýta sér þá byltingu sem fylgir margmiðlun. Meiri hluta fjárln. vill leggja áherslu á þetta og í brtt. er m.a. gert ráð fyrir því að bæta tækjabúnað og tölvueign Myndlista- og handíðaskólans og Tækniskóla Íslands.

Ástæða er til að vekja einnig athygli á því að framhaldsskólarnir þurfa að sinna þessari þjónustu einnig og ekki er óeðlilegt að líta til þess að bæta aðstöðu framhaldsskólanna hvað þetta varðar og mun væntanlega verða fjallað um það nánar við 3. umr.

Rekstur framhaldsskólanna hefur verið til sérstakrar skoðunar og er því ekki að leyna að meiri hluti fjárln. hefur haft nokkrar áhyggjur af þeirri lækkun sem kemur fram í fjárlagafrv. til einstakra framhaldsskóla. Eftir ítarlega skoðun varð niðurstaðan sú að gerð er tillaga um að hækka sameiginlegan safnlið framhaldsskólanna og gera ráð fyrir því að hæstv. menntmrh. láti vinna ítarlega og rækilega athugun og úttekt á fjárhag framhaldsskólanna og nýti þennan óskipta lið til þess að bæta upp þeim skólum sem nauðsynlegt er að fái meiri framlög til rekstrar, að undangenginni athugun og endurmati á gildistölum skólanna.

Þá gerir meiri hluti fjárln. það að tillögu sinni að fjárveiting verði veitt til Hússtjórnarskólans á Hallormsstað þannig að rekstur hans verði á næsta ári svipaður og verið hefur en engu að síður er gert ráð fyrir því að unnið verði að endurmati þess skólastarfs svo treysta megi og tryggja þá starfsemi sem þar hefur farið fram.

Þá vil ég nefna að með tillögum meiri hluta fjárln. um hækkun á framlögum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er mörkuð stefna um breytingar á úthlutunar- og endurgreiðslukjörum sjóðsins og er það gert til að koma til móts við óskir og hagsmuni námsmanna. Ástæða er til að vekja athygli á því hve vel hefur tekist til með fjárhagslega endurskipulagningu á vegum lánasjóðsins.

Þá vil ég nefna hækkun á framlögum til jöfnunar á námskostnaði en það er ljóst að vegna mikils kostnaðar sem dreifbýlisbúar hafa af menntun framhaldsskólanema sem þurfa að sækja nám sitt langt frá heimabyggð er nauðsynlegt að hækka þennan lið og því er þessi tillaga meiri hluta fjárln. flutt.

Kvikmyndasjóður hefur jafnan verið nokkuð til umræðu við afgreiðslu fjárlaga og gerir meiri hluti fjárln. tillögu um að efla sjóðinn með því að framlög til hans verði hækkuð um 25 millj. kr. Með þessu vill meiri hluti fjárln. leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar og hljótum við um leið að gera kröfu til þeirra sem njóta styrkja að þeir efli menningu okkar og auðgi með vönduðu myndefni sem geti komið í staðinn fyrir óvandað efni sem er á boðstólum fyrir almenning, jafnt á myndbandaleigum sem í kvikmyndahúsum.

Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um nokkra hækkun á framlögum til íþróttahreyfingarinnar. Með því vill fjárln. leggja áherslu á það mjög svo mikilvæga starf sem íþróttahreyfingin gegnir. Það er ljóst að miklum fjármunum er kostað til þess æskulýðs- og ungmennastarfs sem fer fram á vegum íþrótta- og ungmennafélaga og er rík ástæða til að veita nokkurn stuðning, eins og hér kemur fram, þó ljóst sé að hið mikla sjálfboðastarf sem fer fram innan íþróttahreyfingarinnar og er innt af hendi þar er það sem ræður úrslitum um starf hjá íþrótta- og ungmennafélögum.

Ferðaþjónusta er stöðugt vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Framlög til ferðamála hafa verið takmörkuð úr ríkissjóði. Með tillögu um hækkun á framlögum til uppbyggingar fjölsóttra ferðamannastaða og til markaðsstarfs vill meiri hluti fjárln. undirstrika mikilvægi ferðaþjónustunnar og væntir þess að þeir fjármunir sem settir eru til þessara þátta megi verða til þess að efla ferðaþjónustuna sem atvinnugrein, ekki síst úti um hinar dreifðu byggðir en þess er að vænta að ferðaþjónustan geti skapað aukin atvinnutækifæri. Við markaðssetningu verði lögð áhersla á að lengja ferðaþjónustuvertíðina svo bæði hótel og önnur þjónustufyrirtæki nýtist sem mest og best allt árið um kring.

Þróun byggðar í landinu hefur verið á þann veg að stöðugt fjölgar íbúunum á suðvesturhorninu og ekki hefur tekist að skapa þau skilyrði sem þarf til að jafnvægi verði í byggðum landsins, þó seint verði ráðið við þá þróun sem í þeim efnum er. Skýringar á þessari þróun eru vafalaust margar og ekki eru allir á eitt sáttir um þær. Hins vegar fer ekki á milli mála að samdráttur í landbúnaði og minnkandi veiðiheimildir á undanförnum árum, m.a. hvað varðar þorskveiðar hafa skipt þar mestu máli um þróun byggðarinnar, auk þess sem aukin hlutdeild hvers konar þjónustustarfa og stjórnsýsluverkefna hefur dregið fólk að byggðinni við höfuðborgina og þá oft vegna aðgerða stjórnvalda.

[17:15]

Samt sem áður er það svo að bættar samgöngur og tölvu- og fjarskiptatækni breyta mjög miklu um möguleika á því að staðsetja þjónustustofnanir vítt og breitt um landið. Ég tel það vera eitt af mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að styrkja byggðirnar, leitast við að skapa með almennum aðgerðum betri skilyrði fyrir atvinnufyrirtækin til að starfa í hinum minni byggðum og fámennari og koma þannig í veg fyrir að óeðlilega stór hluti af íbúum landsins safnist saman á höfuðborgarsvæðið með þeim vandkvæðum sem því fylgir. Þess vegna þurfum við að greina þessa stöðu rækilega og gera áætlanir um það með hvaða hætti brugðist verður við og leitast við að standa að breytingum á ríkiskerfinu með þeim hætti að ekki ýti undir þá þróun sem hefur verið. Má þar til dæmis nefna skipulagsbreytingar í sjúkrahúsakerfi, í skólakerfi og öðrum þjónustuþáttum ríkisins. Þar verður að leitast við að efla þá þjónustu sem getur með góðu móti verið í hinum minni byggðum og þannig stuðlað að því að skapa atvinnutækifæri í þjónustunni sem víðast á landinu.

Ég tel að ríkisstjórnin eigi að hafa forustu um umræður um byggðamál, ekki með því formerki að því fylgi styrkjakerfi, heldur umræður um nýjar leiðir um eflingu atvinnulífsins á forsendum bættra samgangna og nýtingar margmiðlunar fyrir atvinnulífið svo nýta megi og efla íslenskt upplýsingasamfélag í þágu þjóðarinnar allrar.

Virðulegi forseti. Forsenda þess að lífskjör batni hér á Íslandi er að okkur takist að efla atvinnulífið og þannig fjölga atvinnutækifærum í landinu. Með stöðugt auknum samskiptum milli landa færumst við inn í samkeppni meðal þjóðanna um það hver veiti bestu lífskjörin. Okkar litla samfélag á vissulega á brattann að sækja þegar bornir eru saman þeir möguleikar sem vel menntuðum Íslendingum bjóðast meðal hinna vestrænu þjóða. Það er skylda okkar á Alþingi að beita ríkisfjármálum með þeim hætti að atvinnulífið fái notið sín, þjónustustofnanir eflist með eðlilegum hætti og við getum veitt vel menntuðu fólki tækifæri til starfa.

Við hljótum að setja okkur það markmið á þessu kjörtímabili, sem og í annan tíma, að nýta þá bættu stöðu sem blasir við og okkur hefur tekist að skapa í efnahagslífinu til þess að við getum með sanni sagt að við ætlum okkur og við getum staðist samkeppni meðal þjóðanna um að skapa góð lífskjör á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það bendir allt til þess að atvinnulífið og efnahagslífið sé að rísa úr öldudalnum. Við þær aðstæður eigum við og verðum að leggja allt í sölurnar og nýta þær hagsbætur til þess að skapa vinnufúsum höndum atvinnu og félagslegt öryggi, jafnt í hinum dreifðu byggðum sem hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er það verkefni sem fram undan er.