Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:49:01 (2170)

1996-12-13 17:49:01# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:49]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég virði hæstv. félmrh. fyrir að svara rækilega spurningum stjórnarandstöðunnar málefnalega og lið fyrir lið. Varðandi hans umsögn hver væri talsmaður stjórnarandstöðunnar þá erum við víst ekki alveg sammála um það, því að helsti talsmaður er sá sem talar fyrstur í hvert skipti og við munum væntanlega skipta þeim störfum á milli okkar framvegis meðan við erum a.m.k. svona þétt saman eins og raun ber vitni.

Ég vil líka þakka það að hæstv. félmrh. tók eftir því að undirritaður var ekki í salnum en var þó ekki langt undan og reiðubúinn að hlusta á svör sem ég vissi að mundu koma.

Það eru mörg vandamál sem þarf að taka á, t.d. hver framfærslan þarf að vera. Ég veit að hjá stúdentum sem eru á hótel mömmu er miðað við 38 þús. kr. á mánuði hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ég er reyndar búinn að fara fram á það að hæstv. fjmrh. setji sína menn eins og einn dag í vinnu til að finna út þann raunverulega grunn sem þarf að miða við. Ég er alveg sannfærður um að sú upphæð er einhvers staðar nálægt 60--65 þús. kr. að algjöru lágmarki á einstakling til að framfleyta sér. En ég sé að andsvarstíma mínum er að verða lokið en ég endurtek þakkir fyrir svörin. Ég get tekið undir margt af því sem hæstv. félmrh. sagði, þó ekki allt. Það eru einstaka atriði sem okkur greinir á um en ég er þess fullviss að hann hefur vilja til að taka á málunum eins og hann gerði grein fyrir áðan.