Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 17:54:17 (2173)

1996-12-13 17:54:17# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. 2. umr. frv. til fjárlaga fer nú fram. Á þessum árstíma er það háttur stofnana að setja sér fjárhagsmarkmið og fjárhagsramma fyrir komandi ár. Þetta á við um okkur sem störfum í fjárln. og einnig þá sem með fjármál sveitarfélaga hafa að gera. Fjárhagsáætlanir sem virkt hagstjórnartæki eru að verða æ algengari í fyrirtækjum, stofnunum og hjá einstaklingum. Verðbólgulítið samfélag og stöðugleiki í efnahagsmálum á sinn stóra þátt í því. Í yfirfærðri mynd er lítill mismunur á ríkisfjármálum og t.d. fjármálum sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila. Þarna þurfa að vera sömu gildi til staðar þ.e. viðunandi tekjur, hagsýni, aðhald og að eyða ekki um efni fram.

Mikið starf fjárln. milli umræðna er að baki. Starfið er unnið undir styrkri stjórn hv. formanns og hv. varaformanns nefndarinnar. Full ástæða er til að þakka hv. stjórnarandstæðingum í nefndinni fyrir málefnalega vinnu. Málefnaleg vinna skilar alltaf árangri og skilar meiru en núningur, karp og þras. Nú bregður svo við að í fyrsta sinn frá árinu 1985 setjum við fram fjárlög þar sem gert er ráð fyrir tekjuafgangi, þrátt fyrir óvænt útgjöld milli umræðna, m.a. vegna náttúruhamfara.

Eitt aðaltakmark ríkisstjórnarinnar er að ná tökum á ríkisfjármálum. Það bendir allt til þess að það ætli að takast. Ef okkur tekst það verður allt okkar starf léttara í framtíðinni. Það er óþolandi að vaxtaútgjöld skuli vera næsthæsti einstaki útgjaldaliður þess málaflokks eða 13--14 milljarðar. Fyrir þá upphæð er ýmislegt þarflegra hægt að gera, eins og margoft hefur verið bent á. Þegar frv. til fjárlaga er lagt fram skoða menn kosti þess og galla ekki síður en það að velta fyrir sér debet- og kreditliðum fjárlaganna. Útgjaldarammi fjárlaga er í stórum dráttum þessi: Til rekstrar og útgjalda fara um 37% tekna, til fjárfestinga um 7% tekna, til rekstrartilfærslna, eins og í tryggingakerfi o.fl. um það bil 42%, til viðhaldsverkefna um 3% og vaxtagjöld vegna skulda eru um 11%. Þessi tala sker sérstaklega í augun, eins og ég benti á áðan.

Þrátt fyrir að ýmilegt mætti fara betur í fjárlagagerð okkar eru kostir fjárlaganna fleiri en gallarnir. Fjárlagafrv. stuðlar að áframhaldandi stöðugleika, áframhaldandi hagvexti, áframhaldandi kaupmáttaraukningu, sem þyrfti þó að vera enn meiri fyrir þá sem lægst launin hafa. Frv. skapar meiri framtíðarmöguleika fyrir komandi kynslóð og spornar við áframhaldandi skuldaaukningu ríkissjóðs sem leiðir til meiri ráðstöfunartekna í framtíðinni. Ekki má gleyma því að gert er ráð fyrir áframhaldandi atvinnusköpun samkvæmt frv. Það skiptir miklu máli að dregið hefur verulega úr atvinnuleysi í landinu og það bendir allt til þess að liðlega 12 þúsund störf verði að veruleika fyrir næstu aldamót og reyndar gott betur.

Hæstv. félmrh. orðaði þetta ágætlega á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga ekki alls fyrir löngu þegar hann benti á að nú virtist allt benda til að störfin í landinu yrðu a.m.k. 12 þúsund fyrir næstu aldamót. Hann sagði að stjórnarandstaðan væri hætt að sproksetja framsóknarmenn varðandi þetta kosningaloforð.

Herra forseti. Efnahagshorfur nú eru ekki ósvipaðar og þær voru 1987. Efnahagsstjórnin okkar þá var ekki til eftirbreytni. Þá voru miklar opinberar framkvæmdir, miklar fjárfestingar í verslunar- og iðnaðarhúsnæði sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, mikil fjárfestingargleði hjá borginni og mörgum sveitarfélögum og verðbólgan fór úr böndunum. Starfsmannahald margra fyrirtækja raskaðist verulega og mikið ójafnvægi skapaðist milli höfuðborgar og landsbyggðar. Í framhaldi af þessu greip um sig mikil fjárfestingargleði. Þetta leiddi síðan allt til þess að þegar til verulegs samdráttar kom varð hrunið mikið. Kollsteypur eru ein af þjóðareinkennum okkar. Allir hlutir gerast fullhratt og við verðum að gera allt sem við getum til að reyna að breyta því.

Ég er ekki reyndur stjórnmálamaður en það kom mér á óvart á dögunum þegar menn urðu mjög sorgmæddir yfir því að hjólin virtust vera farin að snúast ögn hraðar en áður hafði gerst. Við eigum auðvitað að gleðjast yfir batnandi og betri tíma í stað þess að gráta ofan í bringuna en við verðum að fara varlega og varfærni er vissulega þörf. Grundvallarmál okkar er að sporna við því að verðbólgan fari að nýju af stað. Ekkert kemur sér verr fyrir allt of skuldug heimili í landinu. Ekkert kemur sér verr fyrir fyrirtækin í landinu, sveitarfélögin og ríkisfjármálin. Þess vegna verðum við að taka höndum saman og gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við verðbólgunni.

[18:00]

Nú höfum við vanist því um árabil að vera í verðbólgulitlu landi og við kunnum því vel. Við verðum að reka ríkissjóð með þeim hætti að geta gripið inn í athafnalífið þegar samdráttarskeið á sér stað með því að auka opinberar framkvæmdir en til þess að svo sé hægt verðum við að draga úr þenslu þegar uppsveifla er. Möguleikar okkar Íslendinga eru miklir á flestum sviðum. Við erum dugmikil þjóð og höfum mikla möguleika. Við megum aldrei láta úrtöluraddir draga úr okkur þrótt og kjark.

Ég gleðst sérstaklega yfir framlögum í fjárlagafrv. til íþrótta- og æskulýðsmála, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og fleiri félagasamtaka. Ég gleðst líka yfir framlögum til forvarnastarfs, fjárframlögum til ýmissa félagasamtaka eins og Landsbjargar, Slysavarnafélags Íslands og fleiri smærri framlaga til annarra félaga. Allt þetta hefur mikið gildi fyrir framtíð okkar.

Herra forseti. Við erum föst í viðjum vanans. Vaninn getur orðið að sið og siðirnir getað orðið að ósiðum. Benedikt Árnason leikstjóri orðar þetta skemmtilega, með leyfi forseta:

,,Vandinn getur orðið manni að byrði. Hann er eins og vatnsfall, grefur sig dýpra og dýpra í farveg sinn og með árunum verður erfiðara að rífa sig upp úr þeim farvegi.`` (HG: Hver sagði þetta?) Benedikt Árnason leikstjóri. Mér dettur þetta í hug, herra forseti, þegar fjallað er um störf fjárln. Þess vegna tek ég heils hugar undir orð hv. formanns fjárln. að breytinga sé þörf í störfum nefndarinnar. Ég vonast til að okkur takist það. Um leið vonast ég til að fjárlagafrv. leiði til framfara og bættra lífskjara.