Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 18:04:29 (2174)

1996-12-13 18:04:29# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þau eru ýmis spakmælin sem hrjóta af munni manna í tilefni þessarar umræðu. Það er vissulega ágætt að menn geti gerst skáldlegir í ræðustól þegar talað er um skiptingu í tengslum við fjárlagadæmið. Síst vil ég lasta það. Má segja að hv. formaður fjárln. hafi riðið á vaðið í morgun með tilvitnun í skáld, stórskáld, eins og hann orðaði það og var út af fyrir sig vel til fundið. Hitt er annað mál að svara má því með ýmsu móti sem fram hefur komið, bæði um þann vanda sem grefur sér djúpa farvegi og meiri hluti fjárln. hefur fest í, að því er virðist í sambandi við ýmis efni og hv. síðasti ræðumaður vék að, sem og um hinn vinafáa ríkissjóð sem hv. formaður fjárln. vék að fyrr í dag.

Virðulegur forseti. Auðvitað fer það eftir stuðningi og atfylgi hvernig fer um blessaðan ríkissjóðinn okkar. Ég hef oft lastað það að menn séu ekki nógu duglegir við það á Alþingi að fylkja liði um þennan sameiginlega sjóð landsmanna, safna í hann tekjum frá þeim sem eru aflögufærir í þjóðfélaginu, og þeir eru margir, og skipta þeim síðan réttlátlega. Þarna þyrfti núverandi stjórn sannarlega margt að læra. Ég ætla ekki að fara út í það frekar en að sjálfsögðu fer það eftir hug manna til tekjuöflunar í þennan sameiginlega sjóð hverju er úr að spila. Og þar eru deildar meiningar. Ég hef verið í hópi þeirra sem vilja taka talsvert á í sambandi við tekjuöflun og skattlagningu og tel ekkert eftir fólki sem hefur miðlungstekjur og þaðan af meira að leggja vel til samneyslunnar í landinu. Á það hefur hins vegar skort að menn hefðu þor til að taka á þeim efnum sem verðugt væri.

Vikið var að því af formanni fjárln., hv. þm. Jóni Kristjánssyni, í dag í umræðunni að tækjum framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins raunar um leið til að hafa stjórn á efnahagsmálum færi fækkandi. Ég get tekið undir að nokkuð er til í því sem hv. þm. sagði að vegna alþjóðlegra breytinga sem við fylgjumst með, svokallaðrar alþjóðavæðingar, þá eru þjóðirnar orðnar bundnari í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum en áður var og óháð því að þar háttar vissulega misjafnlega til. Allverulegur hluti af þeim vanda, sem menn standa í að þessu leyti, þ.e. hver þjóð, þar á meðal Íslendingar, er vegna okkar eigin ákvarðana. Við höfum gerst glaðbeittari í sambandi við alþjóðavæðinguna svonefndu en skyldi og bundið okkur í alþjóðlega samninga og skuldbindingar og svo virðist sem hluti manna á Alþingi vilji halda enn þá lengra í þeim efnum og ekki bara í núverandi stjórnarliði heldur líka hluti af stjórnarandstöðu, sem grætur það sáran að menn skuli ekki hafa gengið dýpra út í Evrópufenið svonefnda.

Það er ljóst að erfiðara er að verða að hreyfa til þýðingarmiklar hagstærðir í þjóðfélaginu vegna þess flókna gangverks sem menn eru njörvaðir í en þó huggaði hv. formaður fjárln. sig með því að enn þá væru þó eftir ríkisfjármálin. Það mætti þó nota þau sem hagstjórnartæki. Það væri í rauninni búið með það að menn gætu hreyft gengið og menn gætu hreyft vextina. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði þetta kannski ekki berum orðum en hann lét að því liggja. Vissulega er það svo að menn þurfa að horfa til margra átta þegar á slíkum stýritækjum er tekið vegna samtengingar okkar við alþjóðlegt hagkerfi og njörvunar okkar niður í samninga.

Það skyldi nú aldrei vera að ef menn gá ekki að sér kasti þeir jafnvel frá sér þessu eina haldreipi, sem hv. þm. hafði uppi, sem væri hægt að grípa til og ríkisstjórnin væri að reyna að beita í sambandi við ríkisfjármálin, þ.e. sjálft fjárlagadæmið, skattlagningin. Ætli það sé ekki svo að menn séu einnig að nálgast það að þurfa að stilla þar saman við þá sem hafa gengið í hvað nánast bandalag í efnahagsmálum og ég tala nú ekki um ef menn fara alþýðuflokksleiðina, sem mér sýnist að Framsfl. sé á góðri leið með að byrja að feta í sambandi við að gæla við aðild að Evrópusambandinu, þar sem mál eru að þróast með þeim hætti að einnig ríkisfjármálin, einnig tekjuöflunin er að verða bundin í vaxandi mæli. Ég heyrði ekki betur en formaður Framsfl. væri að tala um það á dögunum, og fékk reyndar gott orð frá þeim sem vinna fyrir Árvakur hf., að Íslendingar þyrftu að fara að huga að þessu gengisbandalagi, mynt- og gengissamstarfi, Efnahags- og myntbandalagi Evrópuþjóða, Evrópusambandsins. Og ég heyrði ekki betur en hreyft hefði verið við því úti í Lissabon á dögunum af hæstv. forsrh., sennilega hefur Jagland haft orðið, virðulegur forseti. Það kæmi mér ekki á óvart því ég held að hann sé allt öðruvísi stemmdur í Evrópumálum, meiri kappsmaður í Evrópusamrunanum en hæstv. forsrh. Íslands og segi ég það með jákvæðum huga að því er varðar hæstv. forsrh. okkar. En þeir höfðu orð á hvernig væri með þetta Efnahags- og myntbandalag. Er hugsanlegt að þeir sem eru ekki komnir alveg inn í klúbbinn geti bankað upp á og fengið aðild? Um þetta var spurt úti í Lissabon. Og það var ekki alveg dregið fyrir. Það var ekki harðlokað. Það mætti jafnvel skoða það þannig sem áhugaefni formanns Framsfl., hæstv. utanrrh., um að skoða þetta mál nánar með tilliti til Íslands. Ég veit ekki hversu langt hæstv. utanrrh. eða formaður Framsfl. vildi ganga í þessum efnum. Hann hefur ekki skýrt það svo ég viti. En það var talin þörf á því að rýna allverulega í þetta.

Á hvaða leið erum við, hæstv. forseti? Á hvaða leið erum við í sambandi við okkar ráð og okkar hag? Við sem byggjum jafnmikið á náttúruauðlindum og raun ber vitni, erum með sveiflukenndan þjóðarbúskap vegna þess hvernig okkar aðstæður eru. Við byggjum sem sagt mun meira á náttúruauðlindum, fiskinum í sjónum, orku fallvatna og framleiðslu í krafti hennar en gerist um þær þjóðir sem ráða ferðinni í Evrópusamrunanum. Og ætli það sé ekki betra fyrir slíka þjóð, smáa eins og við erum, fámenna, að reyna að halda í sem flest sín stjórntæki, a.m.k. gæta að sér áður en menn kasta þeim út í hafsauga og gefa sig aðstæðum og ákvörðunum meginlandsríkja á hönd.

Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Gísli S. Einarsson, sem flutti ágætt mál í dag og tók lungann af ríkisstjórninni á beinið, væri að finna að við breska þingið. Hann fann alveg sérstaklega að við breska þingið, hv. talsmaður Alþfl., að þar væru menn svo andsk... --- fyrirgefið, virðulegur forseti. Það var að fæðast hér orð sem ég skal draga til baka, --- að þeir væru svo staðir þarna í breska þinginu að síst mætti til þeirra horfa þegar við værum að taka ákvarðanir og móta okkar afstöðu til Evrópusamrunans. (Gripið fram í.) Já, það er rétt. Þeir eru eitthvað hikandi í breska þinginu að skella sér inn í Efnahags- og myntbandalagið, að kasta frá sér gjaldmiðlinum og þeim tækjum sem ein þjóð þó hefur með því að hafa ráð á honum þótt hv. formaður fjárln. telji að það sé nú orðið heldur veikburða tæki fyrir okkur Íslendinga og erfitt að hreyfa það á nokkurn hátt og helstu ráð ríkisstjórnar og þings séu því í höndum fjárln., þ.e. ríkisfjármálin. Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, en við hljótum, virðulegur forseti, að hugsa um þessi efni vegna þess að beðið er um það af formanni fjárln. að menn reyni að líta á fjárlagadæmið í eitthvað víðara ljósi en bara í skiptitölunum. Og ég tek undir að fyllsta ástæða er til þess að gera það og reyna að taka á í þeim efnum. En mér sýnist hins vegar að það mundi ekki verða sammæli um þau efni eins og haldið er á málum af hæstv. ríkisstjórn og að hluta af stjórnarandstöðunni sem þylur Evrópubænina daginn út og daginn inn og vill reyna að strika yfir eða kasta frá þeim fáu efnahagslegu stjórntækjum sem eftir eru hér á skerinu.

[18:15]

Menn hafa verið að taka á í þessum efnum vegna þess að aðstæður hafa breyst, jafnvel frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Hv. formaður fjárln. fór yfir þau efni fyrir utan allt þetta sem kemur rúllandi út úr hverjum stjórnarliðanum á fætur öðrum, þ.e. stöðugleikabænin sem ég kalla svo sem menn hafa lært alveg, ég held næstum, virðulegur forseti, eins og faðirvorið. T.d. kunni síðasti hv. ræðumaður, sem sagðist ekki vera orðinn reyndur stjórnmálamaður --- ég skil nú ekkert í slíkri hógværð, hann er búinn að vera hálft kjörtímabil bráðum á þingi --- stöðugleikabænina alveg utan að og þeir eru mjög drjúgir í Framsfl. sem tala við þessar umræður að hafa stöðugleikbænina uppi. Stöðugleikanum er ógnað og sú ógn kemur utan að með ríkum mönnum sem vilja bregða á það ráð að sinna kalli hæstv. iðnrh. og taka til við að fjárfesta í orkufrekum iðanði í landinu og raska hugsanlega stöðugleikanum þannig að nú liggur mikið við og hv. formaður fjárln. verður að kippa í þetta eina stjórntæki, ríkisfjármálin, til þess að allt fari ekki á hliðina. Menn sem ráða í hv. fjárln. eða kannski þeir sem ráða meiru en hv. fjárln. hafa verið að rembast við að finna möguleika á því að rétta skútuna af þannig að ekki velti á hliðina með því að draga saman í ríkisfjármálunum til þess að skapa borð fyrir báru fyrir Kenneth Peterson og co. Það er, virðulegur forseti, hið nýja ljós sem fæðst hefur og sem á að auka hér hagvöxtinn til verulegra muna á næstunni, fyrir utan hugmyndir sem uppi eru hjá forustu Íslenska járnblendifélagsins, þar sem ríkið er meirihlutaeigandi, um að bæta þar við framleiðsluna. Og þó að þar sé ekki á vísan að róa með hagnaðinn af járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga eins og dæmin sanna, þá held ég að það sé þó ólíkt líklegra til þess að gefa af sér að draumarnir rætist, það séu meiri líkur á því að menn hafi eitthvað upp úr þeirri fjárfestingu en þeirri álbræðslu Kenneth Petersons sem hugmyndin er að draga hér upp á landið. Það held ég að sé mikill óvissupeningur sem þar er á ferðinni. Þar held ég að ríki mikil óvissa og það er ekki alveg laust við að eitthvað vanti í sannfæringuna, bæði hjá hv. formanni fjárln., og varaformanni fjárln. jafnvel, þegar kemur að spurningunni um það sem mestu veldur í breytingunum í fjárlagafrv. og hefur valdið mestum heilabrotum hjá fjárln., þ.e. það sem varðar Kenneth Peterson og fyrirtæki hans, Columbia Ventures.

Það hefur reynst dálítið erfitt, virðulegur forseti, að finna hagfótinn á bak við þennan happadrátt, Kenneth Peterson. Hann virðist eitthvað haltur. Það er a.m.k. eitthvað djúpt á að sjáist í sporin frá hagfæti Kenneth Petersons og þá segja talsmenn ríkisstjórnarinnar í fjárln.: ,,Ef það fer nú svo að Kenneth Peterson svíkur okkur, þá ætlum við að færa þetta allt saman til baka.`` Hv. fjárln. má því reikna með því, ef svo fer að draumarnir rætist ekki varðandi Columbia Ventures, að það þurfi að kalla fjárln. í nýja lotu og færa allt dæmið til baka á fyrri hluta ársins náttúrlega. Það gengur ekki að láta marga mánuði líða því þá gæti á nýjan leik farið að raskast jafnvægið í hagkerfinu og stöðugleikinn, bara hinum megin frá, t.d. atvinnuleysið að vaxa sem kostar ríkissjóð geysilega mikið. Ég held því að það væri skynsamlegt að halda plöggunum a.m.k. til reiðu sem menn voru að breyta í hv. fjárln. til þess að þurfa nú ekki að vinna þetta allt saman upp á nýtt þegar Kenneth Peterson ekki birtist þegar kemur fram á útmánuði. En hann hefur lofað því að vera ekki seinna á ferðinni en á útmánuðum, kannski góunni, með sitt pund, með sína dollara þannig að þetta geti farið að snúast. Það skiptir allmiklu hvernig þetta fer, það ætla ég ekkert að draga í efa. Það skiptir allverulegu því að hv. formaður fjárln. fór yfir það hvað héngi á spýtunni. Það voru ekki núll komma eitthvað milljónirnar, það voru ekki tugir eða hundruð. Það voru tugir milljarða sem héngu á þessu dæmi, 37,7 milljarðar kr. sem hanga á þessari spýtu, meiri hlutinn vegna orkuframkvæmda, upplýsti hv. formaður fjárln. þannig að það er sannarlega allnokkuð í húfi. Það stendur víst ekki til að koma þessu öllu í lóg á næsta ári stöðugleikans vegna, en á þarnæsta og svo á að fara að taka til við hitt þegar árið 1999 rennur upp. Þá eiga menn að fara að gera aðra hluti sem nú verður að skera niður.

Hefur einhver spurt sig þeirrar spurningar uppi í Stjórnarráði eða í fjárln. hvort það gæti nú verið að það gæti skilað einhverju, jafnvel langleiðinni eins og hagfræðidæmið sem tengist Kenneth Peterson, að ráðstafa þessu fjármagni, m.a. því fjármagni sem fer í virkjanaframkvæmdir og annað sem er innlendur kostnaður, til þess að skapa auð í landinu á næstu árum og áratugum? Ég hef ekki heyrt mikið rætt um það. Ég hef ekki heyrt háværar kröfur um að þarna lægi fyrir samanburður á kostum í sambandi við íslenskan þjóðarbúskap. Nei, enn skal alveg óhikað bætt í áldæmið sem tengist þeim sveiflum sem fylgja þeim iðnaði og halda áfram þeirri frumstæðu framleiðslu sem þar er á ferðinni í raun, þ.e. framleiðslu á hrááli og tengja orkuverðið við heimsmarkaðsverð á þessari afurð og þar getur sitthvað verið uppi.

Virðulegur forseti. Ég hef með þessum orðum verið að reyna að bregðast við áskorun hv. formanns fjárln. um að líta á hlutina svolítið út fyrir skiptirammann. En nú skal ég ekki hafa þau orð fleiri þó að af mörgu sé að taka.

Talsmenn Albþ. og stjórnarandstöðunnar hafa rætt málin og kynnt breytingartillögur sem fyrir liggja, sameiginlegar að hluta, frá stjórnarandstöðunni. Þær vísa á þau atriði þar sem við alþýðubandalagsmenn og aðrir í stjórnarandstöðu teljum að of naumt sé skammtað, of lítið sé tekið á og viljum fá breytingar. Ég ætla ekki að fara yfir það dæmi. Það er búið að kynna það ágætlega. Ég vil bara minna á að þar er rauður þráður framlög til mennta og rannsókna á ýmsum skólastigum, leiðréttingar svo skiptir hundruðum milljóna samkvæmt fyrirliggjandi tillögum og menntun sem einnig tengist starfi í atvinnulífinu, starfsþjálfun, iðjuþjálfun og annað af þeim toga. Þar er einnig horft til þess að við Íslendingar ættum að vera aflögufærir fyrir þá sem minnst mega sín í samfélaginu, þar á meðal þá sem fatlaðir eru og einnig að hugsa aðeins til hinna mörgu úti í heimi sem hafa lítið fyrir sig að leggja og við ættum að minnast svolítið oftar en gert er, í tengslum við svonefnda þróunaraðstoð og örlitla hjálparhönd sem hefur verið ansi veikburða af okkar Íslendinga hálfu allt of lengi og þar sem mikil þörf væri á leiðréttingu. Um leið og ég segi þetta vil ég ekki taka undir þau sjónarmið sem mér fannst enduróma frá einum þingmanni Sjálfstfl. í dag, virðulegur forseti, hv. 16. þm. Reykv., Pétri H. Blöndal, í andsvari við formann fjárln., að löggjafarsamkoman ætti sem minnst að skipta sér af þessu dæmi þegar kæmi til skiptanna innan þess ramma sem við erum að gera hér upp. Ég get ekki tekið undir það vegna þess að ég lít svo á að okkur á löggjafarsamkomunni sem höfum fjárlagavaldið í reynd og er ætlað að fara með það, sé það ekki of gott að reyna að komast að niðurstöðu um skiptinguna fremur en að afhenda valdið þeim sem í ráðherrastólum sitja hverju sinni. Auðvitað er hægt að hugsa sér önnur málstök í ýmsum greinum en tíðkast. En hvar væru tengslin og hvað væri orðið um samband þessarar virðulegu stofnunar, herra forseti, ef við ekki reyndum að líta til með þeim þáttum í framkvæmdum, þjónustu, menningu og öðru, þar sem svörin sem héðan koma skipta afar miklu fyrir fólkið um land allt? Ég held að þessari stofnun veiti ekki af að rækta þau tengsl og fjárlagafrv. er eitt af því sem þar skiptir miklu.

[18:30]

Við höfum orðið vör við það, virðulegur forseti, hvernig viðbrögðin voru strax í haust þegar fjárlagafrv. kom fram og sá boðskapur sem því fylgdi þó að hann væri ekki útfærður nema að hluta til, t.d. í sambandi við skólamálin, menntamálin, framhaldsmenntunina og marga þætti sem lúta að menntamálum og það sama á við um þann stóra bálk, heilbrigðismálin. Við alþingismenn, hvar í flokki sem við erum, höfum heyrt ábendingar, óskir og aðfinnslur frá fjölmörgum sem þessi mál snerta og hér er um mál að ræða sem varða þjóðina alla. Það er mjög sérkennilegt, virðulegur forseti, að verða vitni að því að ríkisstjórn, sem leggur svo mikið undir í stóru eins og orkufrekum iðnaði nú um stundir og það í framkvæmdum sem tengjast fyrst og fremst höfuðborgarsvæðinu, skuli finna sig í því að þrengja kosti skóla, oft lítilla skóla víða um landið sem berjast í bökkum fjárhagslega til þess að sinna þeirri menntun sem nú er krafist, með því að skera niður og það oft án mikils rökstuðnings. Ég virði það við meiri hluta fjárln. að mér sýnist að þar hafi menn reynt að vinda svolítið ofan af þeirri stefnu og þeim hugmyndum sem uppi voru um skerðingar til þess að taka af sárasta broddinn í þeim efnum og ég vona að það séu merki um að menn séu hugsi, svo að ekki sé meira sagt, yfir þeim hugmyndum og tillögum sem fram hafa komið um þessi mál ofan úr menntmrn.

Ég vil heldur ekki gefa upp von um það að hæstv. menntmrh. hafi lagt við hlustir. Mér fannst örla á því þegar þessi mál voru rædd nú á haustmánuðum varðandi einstaka skólatofnanir að það væri kannski ekki allt skynsamlega ráðið sem gerðar voru tillögur um í haust. Ég fagna því að þarna er að finna breytingar í vissum greinum en það er þó langt frá því að öllum spurningum sé svarað í þeim efnum og auðvitað verður það seint gert. T.d. hafa málefni þeirrar litlu stofnunar sem heitir Hússtjórnarskóli og er á Hallormsstað og var rædd hér ekki alls fyrir löngu, fengið allt aðra úrlausn en á horfðist í haust og það er vel að það hefur tekist að snúa ofan af því þar sem þar var ekki stefnt í rétta átt. Ég vona líka að málefni þeirra framhaldsskóla sem mest var sótt að með fjárlagagerðinni fái sæmilegan framgang. 30 millj. kr. viðbótarframlag til að leiðrétta stöðu þessara skóla er mikilvægt. Þetta eru ekki stórar upphæðir en skipta máli fyrir þessar stofnanir og við megum treysta því, vænti ég, að þar verði skólahald án skerðingar á vormissiri. Hitt er aftur óráðið og felst í þeim textum sem fluttir hafa verið í dag, hvernig verður með framhaldið. Þar er ekki enn þá búið að svara öllum spurningum, virðulegur forseti og ég leyfi mér að spyrja hv. formann fjárln. þeirrar spurningar hvenær hann gerir ráð fyrir að botn fáist í þessi mál. Auðvitað mundi ég spyrja hæstv. menntmrh. beint og ef hann heyrir orð mín, þá þætti mér vænt um að heyra í ráðherranum um þetta efni. Hvenær verður búið að ganga frá málefnum þessara skóla þannig að á vísan sé að róa varðandi skólaárið 1997--1998? Ég tel mjög brýnt að meiri hluti fjárln. geti svarað skýrt um þessi efni. Þetta má ekki dragast fram eftir næsta ári. Það verða að liggja fyrir svör fyrir lok fyrsta fjórðungs ársins, fyrir marslok í allra síðasta lagi vegna þess að menn þurfa að búa sig undir næsta skólaár og það verður ekki gert meðan svörin liggja ekki fyrir frá Alþingi eða ráðuneyti.

Ég er auðvitað að hugsa m.a. um framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu í þessu sambandi, stofnun sem skiptir gífurlega miklu fyrir það byggðarlag sem var mikið í umræðunni í tengslum við þær náttúruhamfarir sem nýlega urðu og hittu fyrst og fremst fyrir þá sýslu, þó að ekki færi á versta veg í þeim efnum. En menntunin, möguleikar til framhaldsnáms og þróun skóla á þessu svæði, eins og auðvitað alls staðar annars staðar úti um allt landið, skiptir geysilega miklu fyrir viðspyrnuna til framtíðar litið og ég ætla sannarlega að vona að við berum gæfu til þess á þingi að ráða þessum ráðum að því er varðar framboð til menntunar úti um allt land, ekki aðeins hér á þessu þéttbýla svæði heldur úti um allt land þannig að fólk sé ekki svipt þeim möguleikum sem menntun felur í sér, möguleikum til þess að nesta sig til lífsins. En svo þurfa menn auðvitað að standa í því lífið á enda því að þannig eru tímarnir að þeim skóla lýkur aldrei og hefur kannski aldrei lokið þó að það sé kallað öðrum nöfnum nú og aðstæðurnar séu nokkuð aðrar.

Ég vænti þess líka, virðulegi forseti, að áður en við höldum til jólahalds hver hjá sér, þá verðum við búin að svara --- og það veldur mestu hvernig meiri hlutinn á þingi sem ræður ferðinni, heldur á málum --- hvernig haldið verður á málum í sambandi við heilsugæslu og þau efni. Auðvitað er sá mikli niðurskurður sem boðaður var með fjárlagafrv. og enn er á borðinu í sambandi við sjúkrastofnanir, þar á meðal sjúkrahúsin á landsbyggðinni, mikið áhyggjumál. Ég ætla að vona að allir þingmenn en ekki síst þingmenn landsbyggðarinnar, hugsi sitt ráð áður en gengið verður fram með hnífinn í þeim efnum gagnvart sjúkrastofnunum, heilsugæslu og því sem varðar þá grundvallarþjónustu við fólkið, áður en haldið verður upp á jólin.

Ég minni á viðbrögðin þegar fram kom gul skýrsla frá fyrrv. hæstv. heilbrrh. Ætli það sé ekki sá næstsíðasti, eða sá sem var þar á undan sem hafði látið vinna upp slíkt plagg sem fól það m.a. í sér að ekki var gert ráð fyrir bráðaþjónustu í framtíðinni á hálfu landinu, austan Húasvíkur að Selfossi. Ég sé ekki að til greina geti komið að fara að skerða möguleika á slíkri þjónustu á austanverðu landinu og hefja vegferð sem hver veit hvar endar ef menn byrja á því að veikja slíkar undirstöður. Ég hvet því mjög eindregið til þess að við reynum að leita annarra leiða ef rík nauðsyn er talin að draga saman segl í fjárveitingum.

Virðulegur forseti. Mjög víða er heldur laust undir hjá okkur úti um byggðir landsins. Við erum að fylgjast með því og bíðum kannski milli vonar og ótta eftir að heyra uppgjörið um hvernig útlitið er í sambandi við fólksflutningana miðað við fyrsta þessa mánaðar. Það veldur miklu hvernig við höldum á málum á Alþingi, hvaða boð koma héðan í sambandi við undirstöðuþætti fyrir mannlífið út um allt land. Og það er því miður svo að það er ekki bara í sambandi við þessa þætti sem ég hef verið að nefna, menntamálin og heilsugæsluna, sjúkraþjónustuna, þar sem verið er að boða samdrátt sem ekki sér fyrir endann á, heldur í sambandi við marga aðra þjónustuþætti þó þeir tengist ekki fjárlagagerðinni beint. Ég nefni þá endurskipulagningu sem kemur í kjölfar þess að breyta Pósti og síma í hlutafélag, það sem þar er á ferðinni og hvaða boðskapur hefur komið fram í sambandi við þjónustu þeirrar stofnunar. Og ég nefni frumvörp sem eiga eftir að koma upp á borðið hér, en við erum farin að heyra af, sem varða ekki heilsugæslu mannfólksins heldur heilsugæslu dýranna, húsdýranna, þ.e. dýralæknanna og þjónustu þeirra. Hvað skyldi vera þar á ferðinni í sambandi við þjónustu sem veitt hefur verið á landsbyggðinni? Ég er ekki að segja með þessu, virðulegur forseti, að ekki megi hrófla við neinu. Það er langt frá því en við þurfum að gæta okkar þegar verið er að breyta og gaumgæfa hvaða áhrif það hefur og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir mjög svo brothættar aðstæður sem víða ríkja í dreifbýli á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins.

Nú kemur, virðulegur forseti, nokkur kynning af minni hálfu, yfirferð yfir fjórar breytingartillögur við frv. til fjárlaga sem ég stend að í eigin nafni fyrir utan þær tillögur sem hv. fulltrúar okkar í fjárln. hafa flutt og kynnt. Það eru fjórar tillögur sem ég vil fara aðeins yfir. Sú fyrsta er á þskj. 343 og varðar Hollustuvernd ríkisins. Þar er um að ræða stofnun sem er undirstöðustofnun varðandi mengunarvarnir í landinu af hvaða tagi sem er, varðandi matvælaeftirlit, varðandi meðferð eiturefna og fjölmarga þætti sem snerta mannlíf um allt land. Mér finnst undralítill skilningur hafa verið á málefnum þessarar ríkisstofnunar á Alþingi. Ég botna bara ekkert í þessu miðað við heitstrengingar manna í sambandi við umhverfismál, umhverfisvernd og mengunarvarnir. Þessi stofnun er allt of mikið í Reykjavík með sína starfsemi eða er lýsandi dæmi um stofnun sem mætti skipta upp. Ég er ekki að mæla með því að fara að taka hana upp í heilu líki og flytja hana eitthvað annað. Það eru ekki mín ráð. En ég tel að starfsemi þessarar stofnunar gæti átt rætur og að það væri hægt að koma henni fyrir víða úti um landið, jafnvel í hverju kjördæmi með miðstöðvar umfram þá starfsemi heilbrigðisfulltrúa sem þar er að finna. Þetta segi ég vegna þess að menn hrökkva við þegar fyrir liggur það mat að það þyrfti, hvað svartalágmark snertir eins og það er orðað á stundum þegar menn eru búnir að fara yfir óskirnar.

[18:45]

Það liggur fyrir skýrsla, virðulegur forseti, unnin af stjórnvöldum, ekki af Alþingi heldur af ráðuneytum og í samvinnu við þessa stofnun sem dregur það fram að algert svartalágmark til að stofnunin geti rækt sín lögbundnu hlutverk sé að bæta við 21 stöðu hið fyrsta. Óskirnar voru um allt annað. Ég held milli 60 og 70 ef vel ætti að vera. Svo eru menn að reyna að þrýsta því niður. En við hverju er orðið? Ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það er ekkert brugðist við þessu. Menn höfðu uppi loforð í fyrra, hæstv. umhvrh., sem ég þurfti að panta í þingsal til þess aðeins að sýna lit, og feta í fótspor hv. 5. þm. Vesturl. og hafa einhvern hluta af ríkisstjórninni hér sitjandi. Það er heldur fámennt á bekkjum. En ég ætla ekki að fara að kalla eftir þeim því að hér hlusta grannt bæði formaður og varaformaður fjárln. og fylgjast með umræðum. Ég treysti þeim ágætu þingmönnum, virðulegur forseti, til þess að hugsa þessi efni og bera þau áfram, jafnvel banka á dyr hjá ráðuneytunum til að fá einhverja úrlausn.

Það er eitt stöðugildi sem er uppskeran af allri þessari skoðun mála um Hollustuvernd ríkisins. Það er vegna þess að ný lög voru sett um erfðabreyttar lífverur á síðasta ári og verið er að ráða einn mann til að reyna að fylgja því stóra máli eftir. Hinu er öllu saman sópað undir teppið. Það er eitthvað reynt að fylla upp í hallagötin, þ.e. stofninn frá fyrri árum og búið. Hvað voru þeir að hugsa, virðulegur forseti? Hvað voru þeir að hugsa sem samþykktu á árinu 1993 samning um hið Evrópska efnahagssvæði? Var það bara upp á punt? Var það til þess að hér kæmu streymandi milljarðarnir sem þáv. hæstv. utanrrh., --- nú fyrirlesari í Kína, hann er að mennta Kínverja, kannski í mengunarvörnum, ég veit það ekki. Og væri nú ástæða til að hv. 3. þm. Suðurl. sem leiddi sauðkindina fram í umræðu í gær eða fyrradag færi í aðra ferð þangað austur innan tíðar til að sjá hverju hv. þm., fyrrv. formaður Alþfl., hefði fengið áorkað í gestafyrirlesaraferð sinni í Kína. En sá ágæti þingmaður, fyrrv. formaður Alþfl., var í þessum ræðustól með mjög háar tölur um ávinninginn mikla af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Gæti verið að hann hefði ekki allur skilað sér, virðulegi forseti? Er það hugsanlegt? Er tregðan við að standa að útfærslu þessa máls, þessa stóra samnings, ástæðan fyrir því að ekki er staðið með öðrum og skilmerkilegri hætti að því að standa við efni þessa samnings --- milljarðarnir, sem áttu að koma í kjölfarið, og hæstv. þáv. utanrrh., nú hv. þm. Jón Hannibalsson, lofaði? Og hv. þm. taldi sig hafa Þjóðhagsstofnun og flesta hagfræðinga landsins að baki sér. Það sést heldur lítið af þessum krónum uppi í Hollustuvernd ríkisins. Ég er að leggja hér fram tillögu, virðulegi forseti, um óverulega úrbót miðað við þarfir, 12 millj. kr. til þessarar stofnunar merkt vegna EES-samnings, reglugerða og eftirlits. Þurfum við að fá vöndinn að utan til að rækja þau verkefni sem eru að mörgu leyti skynsamleg þó að ég mæli ekki með því að neinu leyti að menn séu að selja sig undir ok að utan til að segja sér fyrir hvernig eigi að haga hlutunum? En þegar menn eru einu sinni búnir að gera það hlýtur að reyna á að menn séu samkvæmir sjálfum sér. Og þær eru ekki ófáar gerðirnar sem eru óunnar, hvað þá útfærðar sem bíða í háum stöflum uppi í Hollustuvernd ríkisins því ekki vantar að þangað er öllu mokað frá umhvrn., beina leið þangað inn á borðin þannig að fólk er að kaffærast undir þessu og fær ekkert við ráðið vegna féleysis. Og þegar á næsta ári, a.m.k. þarnæsta, munu dómarnir koma að utan sem menn voru að panta með EES-samningnum frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að Íslendingar sýna lítinn lit á því að standa við það sem þeir gengust undir.

Ég ætla sannarlega að vona, virðulegur forseti, að einhver breyting verði á í þessum efnum. Annars hlýtur meiri hlutinn á Alþingi að skoða sitt ráð og koma sér út úr þessari flækju. Ekki skal sitja á mér að reyna að greiða fyrir því að menn losni úr þessari flækju sem þeir voru að binda sig í með aðild að þessu gangverki að utan. Ekki meira um það, virðulegur forseti.

Þá er tillagan sem snertir menningarmál, sem er á þskj. 344, um litlar 3 millj. kr. í undirbúning Náttúruhúss í Reykjavík. Þetta verkefni, að reisa hús yfir nútímalegt náttúrufræðisafn á höfuðborgarsvæðinu sem geti orðið landi og þjóð til sóma, bíður. Það er búið að bíða lengi. Það er búið að ýta á eftir því við mörg tækifæri af þeim sem málið er skyldast, þeim sem staðið hafa með mjög veikum mætti fjárhagslega fyrir því að halda uppi þessu merki og er falið það af ríkinu, tóku þar við af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi á sínum tíma, líklega á 7. áratugnum, því safni sem Bjarni Sæmundsson, Árni Friðriksson og fleiri góðir menn unnu við að koma hér upp og var í Safnahúsinu við Hverfisgötu lengi vel en síðan komið fyrir í húsi sem mætti nota sem getraun fyrir hv. þingmenn hvar sé að finna, hvað þá fyrir þá sem koma hingað í höfuðborgina utan af landi eða utan úr löndum. Þannig var að í tilefni af 100 ára ártíð, afmæli þess merka félagsskapar, Hins íslenska náttúrufræðifélags 1989, var efnt til þess af þáv. menntmrh. eftir hvatningu frá góðu fólki sem hafði bundist samtökum og unnið árum saman að því að hreyfa við þessu máli, að reyna að koma undir þetta fótum hugmyndalega a.m.k. Stjórnskipuð nefnd skilaði vönduðu verki, fullyrði ég, og þar hafði besta forustu í þeirri nefnd að málinu núverandi rektor Háskóla Íslands. Þó að ég væri við borðsenda í því nefndarstarfi var það núverandi rektor Háskóla Íslands, Sveinbjörn Björnsson, sem lagði mest til þessa máls. Og þannig var á máli haldið við þennan undirbúning með góðum stuðningi þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, ágætum stuðningi frá Davíð Oddssyni, þáverandi borgarstjóra, að hugmynd varð um það að þrír aðilar legðu saman um að reka af okkur slyðruorðið og koma upp sómasamlegu náttúrufræðisafni á þessu aðalþéttbýlissvæði landsins og í höfuðstað landsins. Þetta átti að vera þríþætt verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir hönd ríkisins, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Ég fullyrði að ekki er aðeins kallað eftir þessu af fjölda fólks sem hefur beðið lengi og horfir til ríkisins, ég fullyrði að hjá Reykjavíkurborg muni vera góður hugur enn til þessa máls, sem fyrrv. borgarstjóri og nú forsrh. landsins veitti ágætt brautargengi fyrir nokkrum árum og hjá Háskóla Íslands. Það er mér kunnugt af nýlegum samtölum við núverandi rektor og einn aðalhugmyndasmið að þeim tillögum sem birtust í grænu hefti um Náttúruhús í Reykjavík og auðvelt er að reiða fram fyrir þingmenn til upprifjunar.

Haldið var áfram eftir þetta nefndarstarf og samstarfshópur var að verki fram til 1992 a.m.k. til þess að reyna að koma fótum undir þessa hugmynd. Skilaði hann áfangaskýrslum og mun betur framreiddri skýrslu en þeirri sem ég held á, sem var fyrsta áfangaskýrsla, um þessa hugmynd. Í þeim hópi voru m.a. af hálfu Reykjavíkurborgar Hjörleifur B. Kvaran og Þórður Þorbjarnarson, þáverandi borgarverkfræðingur, sem var mikill áhugamaður um þetta mál. Ég bið þingmenn um að gefa þessari litlu tillögu gaum því ég held að það væri mjög gott veganesti og góð gjöf til þjóðarinnar allrar að koma þessu máli af stað á nýjan leik og áleiðis og reyna að gera þetta að veruleika. Einnig af því tilefni að við ræðum mikið um að menntun á þessu fræðasviði sé aldeilis ónóg og aðstaða skólanna til að sinna þessum málum sé ekki sem skyldi. Nóg eru gögnin til að reiða fram til styrktar þessu máli. Ég held að ríkið þurfi að gæta þess þegar stuðningur kemur frá sveitarfélögunum og svo öflugu sveitarfélagi sem Reykjavíkurborg og stofnun eins og Háskóla Íslands, sem hefur verulegan hluta sinna tekna af happdrættisfé, að slá ekki hendi á móti slíku samstarfi. Ekki meira, virðulegur forseti, um þá tillögu.

Aðeins um tillögu sem ég flyt á þskj. 342, sem varðar grunnkortagerð á Fljótsdalshéraði samkvæmt samningi. Þar er lagt til að veitt verði í það verkefni 5 millj. kr., verkefni sem búið var að samningsbinda milli Landmælinga Íslands, Skipulags ríkisins og heimaaðila fyrir austan sem unnu að því og hafa áfram áhuga á því mikla nauðsynjaverki að fá grunnkort í mælikvarðanum 1:25 000 af því ágæta svæði, af því góða héraði Fljótsdalshéraði, til að geta staðið þar með burðugum hætti að skipulagsgerð og ræktunarstarfi, þar á meðal skógræktarstarfi sem þar fer fram í auknum mæli en þarf auðvitað að vera vel skipulagt og þetta er undirstaðan. Auðvitað er þörfin víðar en þarna var búið að gera samning sem er í útideyfu, því miður, nú um stundir nema aðstoð komi við þau opinberu fyrirtæki sem höfðu bundist samningum með heimaaðilum sem áfram hafa áhuga á málinu og hafa minnt á það í sambandi við þessa fjárlagagerð.

[19:00]

Einnig er á þskj. 357 tillaga sem varðar fjárlagaliðinn Húsnæði og búnað sýslumanna, þ.e. framlag til sýslumannsins á Seyðisfirði til endurbóta á húsnæði embættisins að Bjólfsgötu 7. Þetta er tillaga um 10 millj. kr. til þess að koma af stað bráðnauðsynlegu viðhaldi á því húsnæði sem hýsir þetta sýslumannsembætti. Þarna er hægt að slá tvær flugur í einu höggi og stuðla að endurreisn eða varðveislu mjög merks húss, Bjólfsgötu 7. Ég rakti við fjárlagaumræðu í fyrra sögu þess nokkuð og ætla ekki að endurtaka hana hér. Þar var opnuð ein glæsilegasta verslun á Íslandi á fyrsta áratug aldarinnar og þar var prentsmiðja. Um það vélaði m.a. þingmaður Seyðfirðinga um skeið, Lárus Jóhannesson. Ég man vel eftir þegar hann sat á þingi fyrir Austurland eða fyrir Seyðisfjörð. Margir merkir menn voru þar þingmenn, ekki alltaf út á mjög digran stafla atkvæða eins og þeir muna sem eru á mínum aldri. Það er mjög nauðsynlegt að koma þessu máli af stað þó það yrði unnið á tveimur til þremur árum. Því miður hefur ekki verið haldið á undirbúningi þess og framkvæmdum eins og vonir stóðu til fyrir einu til tveimur árum þegar jákvæð svör komu frá dómsmrn. um það að alveg á næstunni yrði þetta til lykta leitt, þ.e. spurningin um það hver yrði framtíð embættisins, hvort nýtt húsnæði yrði keypt eða ráðist yrði í endurgerð þessa gamla húss sem embættið er nú í.

Ég tel það enga spurningu að menn eigi að vinda sér í það að endurgera þetta gamla hús og halda því við fyrir þetta embætti. Það fer vel um embættið þarna að öðru leyti en því að við núverandi aðstæður er það ekki boðlegt sem vinnustaður einfaldlega vegna aðstæðna, vegna kulda m.a. að vetri til þannig að ekki er hægt að ætla starfsfólki embættisins að búa við þetta stundinni lengur.

Virðulegur forseti. Mörg eru málin og ef hv. 16. þm. Reykv. hefði setið undir máli mínu mundi hann kannski koma og finna að því að menn væru að leita eins smátt í safninu og raun ber vitni af þeim tillögum sem ég hef verið að flytja. Margt fleira mætti telja en ég skal láta staðar numið. Ég veit að þeir sem að þessum málum vinna fyrir hönd þingsins og þingflokka í fjárln. leggja sig fram um að gera sem best þeir geta og mér sýnist að það sé mjög margt vel um störf fjárln. Ég held að sú vinna sem fagnefndirnar eiga að geta lagt af hendi og sem ég heyrði að hv. varaformaður fjárln. hafði góð orð um, sé vafalaust góðra gjalda verð. En ég tel þó að þar mætti betur gera, a.m.k. þar sem ég þekki til, til þess að auðvelda fjárln. það vandaverk að átta sig á aðstæðum í hinum einstöku málaflokkum. Við þurfum ef nokkuð er að bæta þar um frá því sem tekist hefur, líka til þess að það rætist sem menn ætluðu sér þegar þessi jákvæða nýbreytni var upp tekin, að láta fagnefndir þingsins horfa á dæmið með fjárln. Ég er ekki með þessum orðum að lasta það sem gert hefur verið en ég held að við þurfum að gera betur í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.