Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:06:00 (2175)

1996-12-13 19:06:00# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:06]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir málefnalega ræðu og góð orð í garð fjárln. Hann beindi til mín einni spurningu varðandi samninga menntmrn. við framhaldsskólana og hvenær þeim þyrfti að vera lokið. Ég legg áherslu á, og ég hygg að þau sjónarmið séu uppi í nefndinni, að þeim þurfi að vera lokið áður en skólarnir fari að skipuleggja nám á haustönn eða í apríl til maí í síðasta lagi.

Varðandi önnur atriði sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni, eins og almenna umræðu um efnahagsmál, þá er ég ekki alveg sammála hans sýn í því efni. Hann gerir heldur lítið úr mönnum sem eru að tuldra bænir um stöðugleika og telur að það sé mögulegt að leggja á meiri skatta og að það sé ekki svo nauið með gengið. Ég held að við þurfum ekkert að líta til alþjóðlegs samhengis í þessu sambandi. Verðlagsáhrif, áhrif á skuldir landsmanna setja okkur skorður varðandi gengið. Vissulega stend ég við það sem ég sagði í framsöguræðu minni að okkar efnahagskerfi er í vaxandi mæli hluti af efnahagskerfi samkeppnislandanna.