Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:09:19 (2177)

1996-12-13 19:09:19# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:09]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil endurtaka það að meiri hluti fjárln. leggur áherslu á að fyrir liggi eins fljótt og unnt er niðurstaða í sambandi við framhaldsskólana.

Ég vil aðeins segja í viðbót við það sem ég sagði áðan um efnahagsmál almennt að ég ræddi ekki mikið um tekjuhliðina í framsöguræðu minni í morgun enda verður það mál rætt við 3. umr. þegar tekjuáætlun liggur fyrir. Það er alveg ljóst að ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki gengið öllu lengra í skattheimtu. Það verður að endurskoða jaðarskattadæmið sem oft hefur verið rætt í Alþingi. Hins vegar vil ég ganga lengra í því að reyna að ná öllum þeim sköttum inn sem ríkið á rétt á. Ég hef rætt um það áður í ræðum á Alþingi, m.a. við 1. umr. fjárlaga. Það finnst mér vera verkefni sem þarf að ganga í og þar megum við ganga lengra en gert hefur verið og ég legg á það mikla áherslu.