Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 20:53:58 (2184)

1996-12-13 20:53:58# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[20:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vænti þess að hér verði einhverjir fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar viðstaddir umræðuna. Er ekki meiningin að svo sé? Ef ekki hæstv. fjmrh., sem eðlilegt væri nú, þá einhver annar a.m.k., herra forseti.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. fjmrh. komi í salinn en hann er í húsinu.)

Herra forseti. Ég ætla fyrst að nefna lítillega almennar efnahagsstærðir og horfur í þeim efnum. Mönnum verður tíðrætt um góðærið og vissulega er að mælast mikill hagvöxtur á þá mælikvarða sem notaðir eru um slíkt og ýmsir hafa tilhneigingu til að draga umsvifalaust samasemmerki þar á milli og þess að þá sé allt á réttri leið og allt í góðu gengi. En það getur verið ástæða til að rýna svolítið í hvað á bak við slíkan hagvöxt eða tölur liggur og fer þá kannski mesta gleðin af þegar skoðað er hvað það er í raun og veru sem heldur uppi hagvextinum eða þenur út efnahagslífið á þessu ári. Staðreyndin er, því miður, að fyrst og fremst er um eyðsluvöxt að ræða. Á þessu ári er í raun ekki að sjá nein umtalsverð merki aukinnar verðmætasköpunar. Þetta er með öðrum orðum ekki framleiðslu- eða verðmætasköpunarhagvöxtur heldur eyðsluhagvöxtur öfugt við það sem var þegar fyrst gætti batamerkja í efnahagslífinu eftir langt samdráttarskeið á árinu 1993 og 1994. Þá var fyrst og fremst um að ræða vöxt eða betri útkomu en spáð hafði verið, sem kom til vegna aukinnar verðmætasköpunar fyrst og fremst aukinnar framleiðslu í sjávarútvegi, ekki síst sprottna frá úthafsveiðum.

En á síðari hluta ársins 1994 og á árinu 1995 fór þetta að snúast við og á þessu ári hefur orðið sú dapurlega breyting á að allur vöxturinn og jafnvel rúmlega það er tilkominn vegna aukinnar eyðslu. Auðvitað vega þarna fjárfestingar eitthvað inn í, fjárfestingar í atvinnulífinu, en því miður er að langmestu leyti um stóraukin eyðsluútgjöld að ræða. Það er því miður þannig að svo ófullkomnir eru mælikvarðarnir, eða þannig virkar þeir, að einmitt þetta mælist mjög snöggt sem mikill bati og sérstaklega hjá ríkissjóði sem bólgnar út af tekjum sem aldrei fyrr, einmitt við þær aðstæður að þjóðin er farin að eyða um efni fram.

Auðvitað hafa menn af þessu áhyggjur og Seðlabankinn er að velta því fyrir sér þarna niður við Kalkofnsveg hvað eigi að gera í málinu. Hann hefur gripið til þess ráðs að hækka vextina verulega og raunvextir hafa farið upp á við á Íslandi sem þýðir náttúrlega að vaxtamunurinn milli Íslands og annarra landa hefur aukist til mikilla muna á síðustu missirum, einu til tveimur missirum vegna þess að raunvextir hafa almennt verið á niðurleið í helstu nágrannalöndum okkar. Þetta er, herra forseti, því miður rétt að hafa í huga þegar menn ræða góðærið og alveg sérstaklega þegar menn velta fyrir sér góðærinu inn í framtíðina. Þá vaknar strax spurningin: Hversu varanlegt verður þetta góðæri úr því að það er svona til komið og byggir ekki nema að mjög litlu leyti á aukinni verðmætasköpun í þjóðfélaginu?

Við getum t.d. spurt okkur að því hversu eyðsluþolið endist lengi hjá almenningi við þær aðstæður sem eru orðnar, samanber ótrúlega skuldaaukningu heimilanna á síðustu árum og áframhaldandi á þessu ári. Ég held að það sé stórkostlega vafasamt að gefa sér að aukin eyðsla og einkaneysla muni t.d. allt næsta ár, ég tala nú ekki um lengur, halda uppi hagvexti á Íslandi á sama hátt og hún hefur gert á þessu ári og að hluta til á hinu síðasta. Ég hef ekki trú á því að það verði. Af hverju ekki? Vegna þess að við erum að tala um allt annað umhverfi heimilanna í landinu en nokkurn tíma fyrr við sambærilegar aðstæður. Heimilin á Íslandi hafa aldrei verið skuldsett neitt í líkingu við það sem þau eru nú þegar áður hafa komið tímabil þenslu og eyðslu. Og einhvers staðar eru endamörk þess hvað menn geta slegið lengi lán. Ég held að þess muni sérstaklega sjá stað í því að draga fari úr kaupum á dýrari neysluvarningi strax á næsta ári. Hinu mega menn ekki gleyma að mjög mikil uppsöfnuð þörf var orðin í þjóðfélaginu eftir fimm til sex ára samdráttar- og stöðunarskeið þar sem t.d. bílafloti landsmanna eldist um hátt í hálft ár að meðaltali á hverju ári. Þá gaf auga leið að orðin var mikil uppsöfnuð eyðsluþörf, endurnýjunar- og fjárfestingarþörf á heimilunum, í atvinnulífinu og annars staðar þar sem menn höfðu haldið að sér höndum um langt skeið. Og þess vegna átti það ekki að koma neinum á óvart þegar boðaðir voru betri tímar, þegar hæstv. forsrh. hafi sett upp sólgleraugun og sagði við þjóðina: Nú er þetta allt í góðu lagi. Nú er bjart við sjóndeildarhring. Hæstv. forsrh. leit á klukkuna eða dagatalið og sá að hálft ár var til kosninga og tilkynnti þjóðinni að nú væri allt komið í lag, það væri bjart við sjóndeildarhring. Síðan hefur góðærisplatan verið spiluð og ýtt undir það m.a. af ráðamönnum að nú sé bjart fram undan.

[21:00]

Það eru helstu úrræði Framsfl. þegar þeir eru spurðir um efndir á kosningaloforðum að þetta sé allt í lagi og auðvitað hafa menn vissa tilhneigingu til að trúa því og það er kunnara en frá þurfi að segja að efnahagsástandið er ekki síst spurning um sálarástand, tilfinningu og væntingar manna um það sem fram undan er. Slíkt ræður mjög miklu um það hvort fólk leggur út í eyðslu og fjárfestingar í þeirri góðu trú að nú muni það ráða við hlutina og kljúfa slíkt. Ég tel, herra forseti, að þessa hluti þurfi að hafa í huga þegar menn eru að gera hagvaxtarspár og framreikna slíka hluti inn í framtíðina, án þess að taka afstöðu til þess hvort þetta sé heppileg þróun að öllu leyti sem við erum að horfast í augu við, tala um það hvort það sé raunhæft að reikna með að hún haldi áfram. Svo kemur að hinu: Er þetta mjög farsæl sigling sem við erum að lenda hér í? Það efast ég mjög mikið um. Ég held að þvert á móti, því miður, sé ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af þróuninni, m.a. vegna þess hvernig peningapólitík og efnahagsstefna er rekin í landinu um þessar mundir. Hún byggir á því að númer eitt þurfi að halda genginu föstu og látum það nú vera. Ekki ætla ég að fara að gerast talsmaður þess að lækka gengið þó að við horfumst í augu við aðstæður sem að mörgu leyti hefðu á árum áður verið taldar alveg raktar forsendur þess að gengið væri orðið of hátt, þ.e. bullandi taprekstur, t.d. í fiskvinnslunni og viðskiptahalli. Þá hefðu menn einhvern tíma sagt: Þetta er greinilega mjög slæmt mál. Það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir einni mikilvægustu útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar og það er bullandi viðskiptahalli. Ergó: Við erum að reyna að bremsa þetta niður, skapa aftur rekstrargrundvöll og draga úr eyðslunni.

En það eru fleiri tæki sem eðlilegt er að menn staldri við í þessum efnum og Seðlabankinn, væntanlega með stuðningi ríkisstjórnarinnar og þá ekki síst hæstv. fjmrh., hefur greinilega ákveðið að beita aðeins einu þeirra, þ.e. vöxtunum. Það er augljóst mál að Seðlabankinn ætlar að reka þá peningapólitík og efnahagsstefnu við þessar aðstæður að nota eingöngu vextina til að verja gengið fyrir þrýstingi og reyna að halda aftur af þenslunni. Hann hefur fírað upp vöxtunum og gerir það væntanlega áfram eftir því sem þörf krefur. Og hver eru líkleg viðbrögð Seðlabankans við því að nú er verið að spá 15 milljarða, jafnvel 20 milljarða viðskiptahalla á næsta ári? Ef reikna má út frá því sem hingað til hefur verið gert þá er að enn frekari vaxtahækkun og það held ég að sé býsna alvarlegt mál vegna þess að vextina borga þeir sem skulda. Þarna er verið að flytja til fé í stórum stíl, í enn ríkari mæli en fyrr, frá þeim sem skulda í þjóðfélaginu yfir til hinna sem eiga peningana og þannig eru að færast til alveg gífurlegir fjármunir.

Vonandi leiðir það út af fyrir sig til einhvers aukins sparnaðar því að það er hugsunin. En mér er til efs að þetta hafi þau áhrif sem tilætluð eru og oft hefur maður efast um að þessi hagstjórnartæki væru jafnnæm og hefðu sömu verkan hér og þau gera víða annars staðar. Ég er t.d. ekkert viss um að mörg skuldsett heimili geti dregið úr lántökum sínum á næsta ári þó að vextir hækki. Ég er ekki viss um að menn sitji þar á bæjum við að lesa vaxtatöflurnar í blöðunum og velta svo fyrir sér hvort þeir eigi að eyða þessu eða hinu. Staðreyndin er sú að þúsundir og tugir þúsunda heimila á Íslandi ná ekki endum saman og brúa bilið með lántökum. Það er svo einfalt, því miður. Það skýrir auðvitað stærsta hluta skuldasöfnunar heimilanna að endar ná ekki saman og það fólk hefur ósköp einfaldlega ekki efni á því og getur ekki pælt í vaxtatöflunum því að það er að taka lán til að framfleyta sér og lifa.

Þetta held ég, herra forseti, að geti átt eftir að reynast býsna ótraustar forsendur fyrir þessu hagvaxtatali inn í framtíðina nema að það gerist að atvinnulífið og framleiðsustarfsemin nái að skila verulega auknum verðmætum inn í þjóðarbúið á næstu árum. Og þá er ég að tala um í raunverulegum verðmætum, ekki tímabundna hluti sem koma til e.t.v. vegna fjárfestinga, sem eru kannski ekki ávísun á raunverulegan arð fyrr en áratugum seinna eins og þær fjárfestingar sem menn eru mest að tala um núna í stóriðju.

Herra forseti. Skuldir heimilanna eru hlutur sem við hljótum að staldra dálítið við þegar við erum að ræða um þessi mál og í stærra samhengi, fjárlögin, skattamálin og kjarasamningana sem fram undan eru og lífskjörin almennt í landinu. Þá verða menn að horfast í augu við að einn rauður þráður gengur í gegnum öll síðustu ár og sker sig alveg úr öllu öðru og það er skuldaaukning heimilanna. Hún er svo gífurleg að menn verða að staðnæmast aðeins við og spyrja sig: Ætlum við að láta þetta halda svona áfram? Menn höfðu tilhneigingu til þess að afsaka skuldaaukningu heimilanna á fyrstu árunum eftir að lán voru verðtryggð með því að segja að þetta væri eðlilegt vegna þess að í verðbólgunni hefðu t.d. húsnæðislánin brunnið upp og þar af leiðandi hefði skuldsetning heimila á Íslandi verið langtum minni en alls staðar annars staðar og það var nokkuð til í því. En hver er munurinn núna ár eftir ár á annars vegar öllum veittum húsnæðislánum og síðan skuldaaukningu heimilanna hins vegar. Hann er nálægt því að vera þrefaldur. Skuldaaukning heimilanna er nálægt þreföld veitt húsnæðislán á hverju ári og stefnir í að verða langleiðina það á þessu ári þannig að jafnvel öll húsbréfin sem búið er að dæla út undanfarin ár duga skammt til að skýra skuldaaukningu heimilanna. Það er annað eins og jafnvel tvisvar sinnum það sem liggur annars staðar. Og hvar liggur það? Væntanlega almennt ekki í löngum lánum því að þau löngu lán sem almenningur er fyrst og fremst að taka eru vegna húsnæðisskuldbindinga. Það liggur í skammtímaskuldum. Það liggur í raðgreiðslum og boðgreiðslum. Það liggur í yfirdráttum, það liggur í víxlum og það liggur í vanskilum og öðru slíku. Þannig er það. Þetta geta menn skoðað ef þeir fara í tölur frá bönkunum og slíkum aðilum. Það eru skuldir sem eru fyrst og fremst að myndast á heimilum þar sem endar ná ekki saman.

En ætla menn þá að keyra sama efnahagsprógramm ár eftir ár inn í framtíðina eins og þeir taki ekki eftir þessum staðreyndum? Ég spyr. Ætla menn að láta það halda áfram að fyrirtækin séu að borga niður skuldir sínar sem er út af fyrir sig gott --- en fyrirtækin hafa samfellt borgað niður skuldir í líklega ein sex til átta ár, hagnast líka um hundruð milljóna og alveg upp undir milljarð, þau best settu --- á sama tíma og mikilvægasta undirstaða samfélagsins, heimilin og fjölskyldurnar eru reknar með þessum bullandi halla? Þetta eru alvöruhlutir, herra forseti. Þetta eru staðreyndir sem ekki þýðir að horfa fram hjá. Og það er dálítið merkilegt að menn skuli svo koma hver um annan þveran og tala um góðæri. Af hverju? Jú, væntanlega af því að það er hagnaður hjá fyrirtækjunum og af því að það mælist hagvöxtur. En er það góðæri í reynd? Er slíkt góðæri í reynd að það mælist hagvöxtur vegna þess að við erum að eyða um efni fram, vegna þess að hlutaskiptin í þjóðfélaginu eru þannig að heimilin verða að slá lán í stórum stíl fyrir eyðslu sinni og það er gefið upp sem hagvöxtur? Ég held ekki, herra forseti. Ég set mikið spurningarmerki við slíkt.

Skattamálin koma eðlilega næst upp í hugann þegar um samhengi þessara hluta er rætt því það eru nefnilega fleiri tæki til heldur en vextirnir einir, að vísu kannski ekki sem þeir í Seðlabankanum ráða yfir. En ef á Íslandi væri rekin samræmd efnahagsstjórn þar sem ríkisstjórn og Seðlabanki legðu hendur saman, væri að sjálfsögðu hægt að beita þessum tækjum öllum samsíða. Og þá komum við að sköttunum. Það er hægt að taka peninga úr umferð, það er hægt að slá á þenslu, líka með sköttum. Og það er hægt að slá á þá með sparnaði, með því að örva sparnað, t.d. skyldusparnað eða hvetja til sparnaðar á annan hátt. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich er flutningsmaður að ágætu frv. um að hætta við að leggja niður húsnæðissparnaðarreikninga. Ég tek undir það sem hann sagði þegar hann mælti fyrir því máli. Það væri að mörgu leyti mjög skynsamleg aðgerð við þessar aðstæður þó ekki kæmi annað til, fyrir utan að ég held að það sé skynsamlegt gagnvart húsnæðispólitík að auðvelda fólki að leggja eitthvað til hliðar til að undirbúa þessa stærstu fjárfestingu lífs síns sem hún yfirleitt er hjá hverri venjulegri fjölskyldu, þ.e. húsnæðið. En þetta er ekki stjfrv. Nei, það eru óbreyttir þingmenn að baksa með þetta af því að það er meira og minna búið að slá af og henda út úr skattkerfinu skynsamlegum, hvetjandi aðgerðum af þessu tagi. Nú er enginn skyldusparnaður ungmenna lengur í gangi, enginn húsnæðisskyldusparnaður og enginn hátekjusparnaður eða annað því um líkt sem allt ætti að koma til skoðunar við aðstæður af þessu tagi.

Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur oft sagt: ,,Já, en við erum að taka á þessu með því að komast fyrir hallarekstur ríkissjóðs. Það er mikilvæg aðgerð til þess að slá á þensluna.`` En hvernig er það gert? Það er aðallega gert með niðurskurði, með því að beinskera t.d. velferðarkerfið. En það er ekki gert með því að nota góðærið og tekjuaukann í þjóðfélaginu til þess að taka auknar tekjur inn í ríkissjóð og standa sæmilega að samneyslunni og borga svo niður skuldir fyrir afganginn ef einhver yrði. Eitt er t.d. mjög athyglisvert: Er sá aðili, sem besta afkomu hefur haft í íslenska þjóðfélaginu við þessar aðstæður undanfarin ár og hefur enn á þessu ári, að leggja eitthvað af mörkum í þessu samhengi, gróðafyrirtækin í landinu? Svarið er nei. Á sama tíma og skattálögur almennings aukast um marga milljarða, eru fyrirtækin að borga svipað ef ekki minna í tekjuskatt. Er það skynsamleg ráðstöfun? Er það réttlætanleg dreifing á byrðunum? Er það skynsamlegt út frá þessum prinsippum um efnahagsstjórn sem ég hef verið að fara aðeins yfir? Ég held ekki. Mér finnst að við þessar aðstæður ættu menn að leita eftir því að t.d. afkomutengdir skattar fyrirtækjanna verði látnir skila meiru í ríkissjóð og þeim fjármunum varið til þeirra hluta sem ég hef nefnt.

Það er nú loksins að verða viðurkennt eftir margra ára baráttu að eitt mesta óréttlætið sem við stöndum frammi fyrir í dag í íslenska skattkerfinu séu jaðaráhrifin gagnvart barnafjölskyldunum og þeim sem hafa verið að reyna að koma sér upp húsnæði. Er verið að nota góðærið að einhverju leyti til að jafna lífskjörin gagnvart þessu fólki? Eru einhverjar aðgerðir í gangi, herra forseti, nákvæmlega núna í frv. um tekju- og eignarskatt eða því sem tengist fjárlagafrv. um að taka eitthvað á í þessum efnum? Svarið er nei. Það var nánast sýndarmennskuaðgerð í fyrra, sýndarmennskuaðgerð þar sem lítillega var hreyft við tekjutengdri skerðingu barnabótaaukans. Skerðingin vegna fyrsta, annars og þriðja barns var færð niður um eitt prósentustig. Búið. Það er allt og sumt sem þessi ríkisstjórn ætlar sér á tveimur árum, fyrri helmingi kjörtímabilsins, að gera í þessu illræmda máli sem allir hafa talað um, en ekkert fæst svo að gert. Það er að mínu mati, herra forseti, í öllu þessu góðæristali alveg hneykslanlegt að ekki skuli a.m.k. sýndur einhver litur í þessum efnum. Það er ekki eins og vantað hafi fögur fyrirheit og hástemmd loforð og ég hef haft fyrir því, reyndar einu sinni sem oftar, herra forseti, að koma hingað með bæklinginn góða, Fólk í fyrirrúmi. Ég sé að hv. formaður fjárln. færir gleraugun neðar á nefið til þess að hann sjái þetta betur úr fjarlægð. Fólk í fyrirrúmi, herra forseti.

Það er ágætt að rifja þetta aðeins upp þegar maður er að ræða skuldir heimilanna og fjárlagaafgreiðsluna. (RG: Hvað er þetta?) Þetta er kosningastefnuskrá Framsfl., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. (Gripið fram í.) Jú, ekkert annað, fyrir kosningar 8. apríl 1995. Það var tekið fram af öryggisástæðum að þetta væri fyrir kosningar og stendur á forsíðunni. (RG: Í fyrra?) Já, í fyrra. Og það var nú hyggilegt hjá þeim framsóknarmönnum því ekki var ástandið gott þegar þeir voru að lýsa þessu rétt fyrir kosningar eins og ég efa ekki að hv. þm. Alþfl. muna því að þeir hafa örugglega tekið eftir þessu. (Gripið fram í.) Það væri nú gaman, herra forseti, ef t.d. hæstv. utanrrh. væri á landinu um þessar mundir --- það gerist nú endrum og sinnum að hann kemur við --- og við fengjum hann hingað til umræðunnar. Það hefur farið frekar lítið fyrir honum í pólitískum umræðum á þinginu í vetur og það liggur við að maður sakni þess --- ég segi það nú kannski ekki; maður á ekki að taka of stórt upp í sig --- að hafa hann hér ekki stundum til þess að reyna að standa fyrir máli Framsfl.

Í kosningaloforðunum var myndarlegur kafli um endurreisn heimilanna, hvorki meira né minna og það var sitt af hverju sem átti að gera. Það átti að fara út í víðtækar skuldbreytingar. Það átti að taka á í sambandi við skattamálin sem höfðu stórhækkað á almenningi, sögðu þeir. Það átti að ráðast á þessar auknu álögur í heilbrigðis- og menntamálum og það átti að taka á lækkun barna- og vaxtabóta o.s.frv. Svo var náttúrlega húsbréfakerfið meingallað, allt of stuttur lánstími, vextirnir of háir og allt þar fram eftir götunum. Þetta var um endurreisn heimilanna.

[21:15]

Svo var annar og ekki síðri kafli þar sem þeir framsóknarmenn höfðu fengið ágætis fyrirsögn að láni frá ónefndum flokki um lífskjarajöfnun. Þar er m.a. fjallað sérstaklega um skuldir heimilanna. Hvað er sagt, með leyfi forseta:

,,Á næsta kjörtímabili þarf ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins að vinna að lífskjarajöfnun.`` --- Þeir framsóknarmenn höfðu áttað sig á því á síðasta kjörtímabili að lífskjaramunur hafði aukist í þjóðfélaginu. --- ,,Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnulífsins, launþeganna og ríkisvaldsins að öflugt atvinnulíf blómstri svo að heimilin og fyrirtækin geti greitt niður skuldir sínar.``

Heimilin geti greitt niður skuldir sínar. Það hlýtur þá að hafa verið alveg sérstaklega á stefnuskrá Framsfl. --- er það ekki, herra forseti? --- að heimilin ættu að greiða niður skuldir sínar. Nú standa þeir framsóknarmenn frammi fyrir því, hafandi verið í ríkisstjórn hátt á annað ár, að í lok fyrsta heila ársins sem þeir eru í ríkisstjórn eru skuldir heimilanna að aukast um 30 milljarða kr. Þau eru því aldeilis ekki að greiða niður skuldir sínar, því miður. Og það bólar ósköp lítið á því að maður sjái þess stað í ráðstöfununum, í skattamálum, í ríkisfjármálum eða annars staðar að það verði yfir höfuð að veruleika á næstunni að heimilin greiði niður skuldir sínar. Ég held því að það sé a.m.k. alveg ljóst að þetta kosningaloforð Framsfl., eitt af mjög mörgum, er úti í kuldanum. Það er sérkennilegt, herra forseti, að þeir skuli vera jafnborubrattir, framsóknarmenn, og raun ber vitni núna t.d. á þessum dögum þegar verið er að afgreiða skattafrumvörpin og fjárlögin því að í raun og veru er ríkisstjórnin með allt niður um sig hvað þetta varðar. Það er ekki einu sinni verið að sýna lit gagnvart þó þeim ranglætismálum þar sem tiltölulega er óumdeilt hvað brýnast sé að ráðast á eins og jaðarskattagildruna sem unga barnafólkið er fast í o.s.frv. Þannig að þetta er nú heldur dapurlegt, herra forseti, heldur dapurlegt.

Ég ætla að hverfa frá kosningaloforðum Framsfl. í bili, sérstaklega í von um að hugsanlega komi hæstv. utanrrh. til fundar. Það getur vel verið að hann hafi verið að halda eitthvert hanastélsboðið núna á milli sjö og níu. Þau eru oft á milli sjö og níu eða sex og átta og þá ætti því að vera lokið núna og hugsanlegt að hæstv. ráðherra geti komið til fundar.

Við síðustu fjárlagaafgreiðslu, herra forseti, hóf hæstv. ríkisstjórn að framkvæma stefnu sína í ýmsum grundvallarmálum. Sennilega var stærstu pólitísku sveðjunni brugðið á loft hér í fyrra þegar ríkisstjórnin afnam viðmiðun milli launaþróunar og bóta til atvinnulausra og lífeyrisþega. Það fór mjög lítið fyrir því máli, allt of. Hvers vegna var það? Það tókst ekki að ná upp almennilegri pólitískri umræðu í þjóðfélaginu af því að ríkisstjórnin notaði að sjálfsögðu það lævísa bragð að læða kerfisbreytingunni í gegn á fyrsta árinu án þess að skerða bæturnar í leiðinni. En hún bjó sér til forsendur til að skerða þær í framtíðinni og það er hún nú byrjuð að gera nákvæmlega eins og við sögðum í fyrra. Þá vantaði ekki, herra forseti, að þessir sannorðu heiðursmenn komu í ræðustól hver á fætur öðrum og sögðu: ,,Nei, nei, nei. Það stendur ekki til. Þetta er bara tæknileg breyting. Þetta er fagurfræðileg kerfisbreyting. En það stendur ekki til að skerða atvinnuleysisbæturnar eða lífeyristryggingarnar. Það er ekki það sem hér er á ferðinni. Nei, þetta er tæknileg kerfisbreyting og það geta allir verið vissir um að við meinum það frá dýpstu hjartans rótum að þetta verður ekki notað til að skerða atvinnuleysisbætur eða ellilífeyri eða örorkulífeyri eða annað slíkt.`` En hvað er nú að gerast? Nú er ríkisstjórnin að nota nákvæmlega þetta tæki sitt sem hún bjó sér til í fyrra og sór og sárt við lagði að ekki yrði gert, til að skerða þessa hluti þannig að nemur á milli tvö og þrjú hundruð millj. kr. en sennilega miklu meiru. Sennilega gæti það orðið um hálfur milljarður kr. ef það tekst að semja um einhverjar, þó ekki verði nema minni háttar, kjarabætur í komandi kjarasamningum og launahækkanir verða t.d. 5% á næsta ári, þá yrði skerðing á ferðinni gagnvart þessum hópi sem nemur einhverju af þessari stærðargráðu. Ég segi, herra forseti: Þetta var löðurmannlegt. Það var aumingjalegt hvernig hæstv. ríkisstjórn stóð að þessu. Að vera ekki menn til að koma hreint fram og segja: ,,Við teljum þessar bætur of háar. Ríkissjóður þolir ekki þessi útgjöld. 50 þús. kr. atvinnuleysisbætur eru of mikið, ellilífeyririnn er of hár og við ætlum að skerða þetta sisvona um 5--10%.`` Og gera það þá og taka pólitískum afleiðingum af því. Nei. Það þorðu hetjurnar ekki. Það passaði illa inn í kosningaloforðin þannig að sú leið var valin að smíða sér þarna tæki, setja upp svikamyllu sem síðan yrði hægt að láta ganga væntanlega út kjörtímabilið. Og ef svo heldur sem horfir að á hverju ári sem eftir er kjörtímabilsins verði 1,5--3% munur á milli þess hvernig þessar tölur verða færðar upp í fjárlögunum og launaþróunarinnar, þá sjá menn alveg hvað er að gerast. Mér finnst, herra forseti, satt best að segja dálítil ósvífni að ríkisstjórnin skuli í ljósi svardaganna í fyrra setja hlutina þannig fram að spáð sé 3,5% launaþróun en ekki nema 2% uppfærslu á þessum bótum. Það er ekkert annað en ósvífni. Og þetta er gert af þeim mönnum sem sóru og sárt við lögðu í fyrra að slíkt væri ekki á dagskrá.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur farið prýðilega yfir það í sinni framsöguræðu hvaða fjárhæðum þetta geti skipt, herra forseti, miðað við mismunandi forsendur, annars vegar þær sem gefnar eru upp í fjárlagafrv. og hins vegar launaþróun eins og hún gæti mjög vel orðið. Ég vísa til þess og þarf ekki að endurtaka það.

Þá, herra forseti, langar mig til að staldra við fáein efnisatriði fjárlaganna og/eða breytingartillagna og nefna aðeins fáeina þætti sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi er það útreiðin á framhaldsskólunum. Í raun og veru mætti segja á skólamálunum og menntamálunum almennt. Einhver hefði haldið að hæstv. ríkisstjórn hefði séð sóma sinn í því að endurskoða þá hluti eitthvað, m.a. í ljósi nýjustu upplýsinga og umræðna um stöðu okkar í þeim málum. En svo er ekki. Þvert á móti er að mínu mati staðfestur í brtt. meiri hlutans alveg fáheyrður fjandskapur liggur mér við að segja, t.d. við allt skólahald og menntun á framhaldsskólastigi á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin er í raun að lýsa því yfir að framhaldsmenntun í afskekktari byggðarlögum landsins eigi ekki rétt á sér. Það virðist mæta afgangi hvort það tekst að halda uppi einhverju skólahaldi eða ekki við þær aðstæður, t.d. í Austur-Skaftafellssýslu, Þingeyjarsýslum eða víðar. Hverjar eru kveðjurnar sem skólahald á þessum svæðum fær frá hæstv. ríkisstjórn? Jú, það er alveg sérstakur niðurskurður. Það er sérstaklega níðst á þessum litlu og veiku einingum í menntakerfinu þar sem verið er að reyna að halda uppi skólahaldi við erfiðustu aðstæður í landinu, þar sem eru fámennir og litlir framhaldsskólar í strjálbýli. Það er alveg sérstaklega níðst á eina hreina heimavistarframhaldsskóla landsins, skólanum að Laugum í Reykjadal. Alveg sérstaklega. Ég verð að segja að mér finnst það ótrúlegt geðleysi, t.d. þingmanna stjórnarflokkanna af landsbyggðinni, að láta bjóða sér þetta. Þvílíkar lyddur, herra forseti, með leyfi að segja, ef það leyfist. Ég sé að forseti er efins um að það leyfist. En gungur hlýtur þó að mega nota. Þeir eru gungur að láta þetta ganga yfir sig og reyna ekki t.d. að nota stöðuna í fjárln. til að lagfæra þetta. En hver er niðurstaðan? Jú, hinn vélræni hugsunarháttur hæstv. menntmrh. á að ráða, róbótahugsunarhátturinn sem gengur út á það að í menntmrn. séu til einhverjar heilagar vísitölur þar sem mældur er kostnaður á nemanda og að þær eigi að gilda jafnt í stærstu framhaldsskólum í þéttbýlinu sem í minnstu framhaldsskólum landsins, t.d. í heimavistarframhaldsskólum í afskekktustu byggðarlögum. Normin eiga að ráða. Þau skipta meira máli þrátt fyrir allt heldur en starfið sem þarna er, heldur en staða fólksins í þessum byggðarlögum. Og Framsókn skrifar upp á þetta. Hún skrifar upp á þetta. Svo er settur upp einhver aumingjalegur óskiptur pottur sem ráðherrann á að ráðskast með. Mér liggur við að kalla það einhvers konar mútufé sem ráðherrann hefur í sínum höndum til að fara með í viðræður við þessa aðila sem hafa enga samningsstöðu gagnvart sínum yfirmanni, yfirmanni menntamála, og ef þeir verða þægir og eru ekki með röfl þá fá þeir kannski eitthvað úr pottinum. Þetta eru ömurlegir stjórnunarhættir, herra forseti. Við höfum séð þessa hluti áður, m.a. í heilbrigðiskerfinu þegar menn eru skornir niður við trog, menn eru settir niður á hnén og svo kemur valdið með dúsu í annarri hendinni og hamarinn í hinni og býður þeim til viðræðna. Og auðvitað verða menn að sæta þeim afarkostum sem þar er boðið upp á, hverjir sem þeir eru. Svona á ekki að koma fram við menn. Það er miklu heiðarlegra að taka þá hreinlega af heldur en að knésetja menn svona. Mér finnst leggjast lítið fyrir menn að láta þetta ganga yfir sig.

Sömu sögu mætti því miður segja af ýmsu fleiru. Það er mikið umhugsunarefni, herra forseti, að stofnanir landsbyggðarinnar skuli alveg sérstaklega núna fá að finna til tevatnsins. Það er alveg með ólíkindum hvernig þeim málum er komið nú í tíð þessarar ríkisstjórnar sem aldrei fyrr því að á sama tíma og menn sofa ekki vegna þess að þeir hafa svo miklar áhyggjur af þenslu út af öllum stórframkvæmdunum og það verður að draga úr framkvæmdum, hver eru þá skilaboðin úti um land í hinum afskekktu byggðum? Þau eru sérstakur niðurskurður gagnvart framhaldsnámi á landsbyggðinni. Það er sérstakur niðurskurður gagnvart sjúkrastofnunum á landsbyggðinni o.s.frv. Þetta er mjög merkilegt, herra forseti, og í raun og veru alveg stórbrotið að menn skuli leggja upp með þessa hluti. Það getur vel verið að Framsókn sé hætt að halda leiðarþing sem svo voru víst kölluð í gamla daga. Þannig var það að minnsta kosti á Austurlandi í gamla daga þegar Eysteinn Jónsson var upp á sitt besta í kjördæmi að hann fór jafnan heim á vorin. Það er gott að rifja þetta upp fyrir hv. þm. Jóni Kristjánssyni ef hann skyldi ekki vita það að forveri hans fór heim á vorin og fór í hvern einasta hrepp og hélt þar það sem kallað var leiðarþing eða fund með heimamönnum þar sem hann skýrði frá afrakstri vetrarins og helstu ákvörðunum. Tímarnir voru aðrir og fjölmiðlunin öðruvísi en nú og þá voru það vel þegnar heimsóknir þegar þingmenn kjördæmanna komu heim af þingi og fluttu fréttir og ræddu við menn. Það væri gaman að vita hvernig viðtökurnar yrðu hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni ef hann færi nú heim og héldi leiðarþing og ræddi við menn þar, t.d. framgönguna gagnvart framhaldsnámi á landsbyggðinni og sjúkrahúsunum á landsbyggðinni. Ég vildi gjarnan vera fluga á vegg þegar hv. þm. fer t.d. að útskýra fyrir þeim í Nesjaskóla og í Austur-Skaftafellssýslu hvaða sérstaka réttlæti sé í því að þjarma svona að þeim.

Auðvitað er útkoma skólanna og sérstaklega framhaldsskólanna, herra forseti, almennt mikið áhyggjuefni. Ég geri ekki heldur lítið úr niðurskurðinum sem beinist almennt að þessu skólastigi í heild sinni, svo að ég tali nú ekki um rökstuðninginn sem er einhver sá dásamlegasti sem lengi hefur heyrst. Þegar hæstv. forsrh., og að sumu leyti hæstv. menntmrh., komu með þau rök að það yrði að skera niður hjá framhaldsskólunum núna vegna þess að ekkert væri lengur að hafa af háskólanum. ,,Það er ekkert lengur af honum að hafa``, sagði hæstv. forsrh. ,,og þess vegna verðum við að bera niður í menntaskólunum og framhaldsskólunum.`` Það er stórbrotið. En í heildina er þetta þannig að það er verið að fara aftur á bak, það er verið að draga úr framlögum til menntunar og gera starfsskilyrði skólanna til muna lakari. Fyrst er búið að þjarma að háskólunum undanfarin ár og nú er framhaldsskólinn tekinn fyrir. Þetta virðist vera kerfisbundið hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún tekur vissa aðila fyrir og þjarmar sérstaklega að þeim og sker af þar til ekkert er lengur af þeim að hafa eins og hæstv. forsrh. segir og þá er farið í næsta aðila og skorið af honum inn að beini þar til ekkert er eftir.

[21:30]

Almennt í samhengi við byggðamálin, herra forseti, eru þessir hlutir sannast að segja alveg ótrúlegir. Ég verð að segja að ég hugsa talsvert mikið um hvernig það sé að verða í almennri umræðu á Íslandi að orðið byggðamál, byggðastefna, byggðapólitík, er orðið skammaryrði. Það er orðið samasemmerki við spillingu, sóun, óráðsíu í fjármálum o.s.frv. Þannig er málum komið. Það er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að taka sér í munn að byggðaþróun í landinu sé óheppileg eða byggðamálin séu í ljótu horfi o.s.frv.

Ég held að hér sé að mörgu að hyggja. Enginn vafi er á því að ýmsar mislukkaðar aðgerðir í byggðamálum, töpuð útlán og ýmislegt annað hefur átt sinn þátt í þessu. Menn á landsbyggðinni verða að sjálfsögðu að líta í eigin barm og spyrja sig: Að hvaða leyti höfum við gert mistök? Hvers vegna er meiri hluti þjóðarinnar sem býr á suðvesturhorninu að verða þessarar skoðunar? Ég dreg ekki úr því hollt er að stunda ákveðna sjálfsgagnrýni í þeim efnum. Málið er grafalvarlegt vegna þess að ef þetta heldur svona áfram, þá mun það hraða enn frekar þeim snjóboltaáhrifum sem eru í gangi. Ég held líka að landsbyggðin gjaldi alveg sérstaklega fyrir að hún byggir á tveimur undirstöðuatvinnuvegum í þjóðfélaginu sem menn hafa þrátt fyrir allt orðið pólitískt sammála um að verði að ganga. Það hefur ævinlega reynst svo að stjórnmálamenn hafa orðið sammála um að það verði þrátt fyrir allt að halda sjávarútveginum á floti og landbúnaðinum líka að einhverju leyti. Það hefur alla vega enn sem komið er verið meirihlutaskoðun. Hvað hefur það þýtt? Jú, það hefur þýtt að menn hafa gripið til aðgerða og menn hafa rekið pólitík til að ná þessum markmiðum, sem hefur verið umdeild og landsbyggðin líður fyrir það. Það er enginn vafi á því t.d. að landbúnaðurinn hefur goldið þess alveg stórkostlega að í gegnum hann hafa menn að hluta til verið að reyna að reka byggðapólitík og öfugt og sjávarútvegurinn hefur líka goldið þess.

Herra forseti. Ég held í þriðja lagi að ekki nokkur vafi sé á því að landslagið í fjölmiðlum hefur þarna stórkostleg áhrif. Fjölmiðlum þjóðarinnar er stýrt úr höfuðborginni. Allir öflugustu og voldugustu fjölmiðlar landsins starfa þar. Þeir senda sínar fréttir úr höfuðborginni. Og það er líka svo komið að menn leggja það nokkuð að jöfnu, hvort heldur er í fréttatímum eða auglýsingum, ef menn fara í ferðalög hvort þeir fara út á land eða til útlanda samanber auglýsinguna frægu. Það var alveg ljóst hvar sá maður bjó þegar verið var að gylla fyrir honum einhver tæki eða tól í sambandi við ferðalög, þá var spurt: Þarftu í ferðalag út á land eða til útlanda? Þjóðin býr sem sagt eðlilega hér, meiri hlutinn gerir það og fjölmiðlunin kemur héðan, hún leggur mat á hlutina í gegnum gleraugun sem sett eru upp hér. Það er ekki nokkur vafi að landsbyggðinni er það mjög mótdrægt. Það er hluti af því t.d. hvernig búið er að stimpla allt sem heitir byggðamál eða byggðastefna, svo ekki sé minnst á svona skelfileg ósköp eins og Byggðasjóð eða Byggðastofnun, menn krossa sig þegar það er nefnt. Svona er staðan. Við þessar aðstæður blasa við okkur tölur, eins og við höfum í höndunum um t.d. beina fólksfækkun í nánast öllum kjördæmum landsbyggðarinnar. Mikla á Vestfjörðum og Vesturlandi og einhverja á Austfjörðum og öflugasta þéttbýlissvæði landsbyggðarinnar, Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið, heldur rétt í horfinu hvað fólksfjölda snertir. Það missir sem sagt algerlega af þeim vexti í íbúatölu sem er í landinu. Við nákvæmlega þessar aðstæður kemur fjárlagafrv. með boðskap af þessu tagi. Lánsfjárlagafrv. er á borðum þingmanna og nál. meiri hlutans. Hvað er lagt til þar? Hækka lánveitingar til Landsvirkjunar úr 4,8 milljörðum í 9 vegna stórframkvæmda sem eigi að fara í á suðvesturhorninu. Það munar um minna. Og hverjar eru jafnvægisaðgerðirnar á móti til að þetta sporðreisist ekki endanlega, t.d. hvað þrýsting á vinnumarkaði snertir? Jú, þær eru sérstakur niðurskurður á framhaldsskólana og sjúkrastofnanir á landsbyggðinni. Það er jafnvægið sem á að hafa í þessu.

Ég, herra forseti, hefði gjarnan viljað að hæstv. heilbrrh. léti sjá sig því ég trúi ekki að óreyndu, að menn ætli að láta málin ganga þannig fyrir sig að hlutunum verði skáskotið í gegnum þingið með 160 millj. kr. niðurskurði, sérstaklega eyrnamerktum niðurskurði á sjúkrastofnanir á landsbyggðinni án þess að nokkrar einustu skýringar verði gefnar á því hvernig eigi að framkvæma það, hvar eigi að skera niður, hverju eigi að loka og hverja eigi að slá af. Mér finnst það vera svo fyrir neðan allar hellur að ég trúi því ekki að menn ætli að láta niðurlægja sig þannig. Hvers konar löggjafarvald er þetta orðið ef menn afgreiða hlutina þannig? Kemur það þá Alþingi ekki lengur við, a.m.k. ekki meiri hlutanum hvernig staðið er að þessum hlutum? Eru hv. þm. stjórnarliðsins alveg sáttir við að fá tilkynningar í pósti í febrúar um það hvort sjúkrahúsið í þeirra kjördæmi eða heimabyggð verður slegið af eða ekki? Eða vita þeir kannski eitthvað um þetta á bak við tjöldin þó ekki sé sagt frá því hér? Ekki gerir það málið betra. Svona pokagangur, herra forseti, á ekki að líðast. Það er langt fyrir neðan virðingu okkar allra. Og af því að hæstv. forseti er jafnframt hv. varaformaður fjárln. þá skora ég á hann að taka á sig rögg og leggja sitt af mörkum til að þetta verði ekki látið ganga svona fyrir sig. Því frágangurinn á málinu öllu í heild sinni er náttúrlega slíkur að engu tali tekur. Að loka fjárlögunum með óútskýrðum niðurskurði af þessu tagi og taka svo inn í bandorm einræðisvald til handa hæstv. heilbrrh. til að gera það sem hæstv. ráðherra sýnist á grundvelli þessarar heimildar. Þetta eru engin vinnubrögð heldur niðurlæging fyrir alla sem í hlut eiga.

Það er einnig svo, herra forseti, að það undrar mann líka af því það er ofan á allt annað, að mínu mati, algjör skortur á pólitískri skynsemi. Það liggur við að kalla verði það pólitíska heimsku að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni rænu á að merkja sér einhver jákvæð atriði sem hún gæti bent á, þar sem væri þó í einhverjum tilvikum sýnt að menn hefðu einhverja meðvitund í þessum efnum og væru t.d. að þoka fram einhverjum framfaramálum á landsbyggðinni sem tengdust þessari umræðu um byggðaþróun og atvinnumál, en svo er ekki. Eitt helsta flaggið sem við höfum bundið vonir við um norðanvert landið í byggðamálum á síðustu árum er Háskólinn á Akureyri. Okkur hefur fundist það vera virkilega metnaðarfull tilraun til að reyna að sýna að það væri þrátt fyrir allt hægt að gera slíka hluti, sem væru ekki bara einhver styrkja- og aumingjapólitík heldur vísuðu til framtíðar og þess að menn vildu sækja fram og tryðu á að í menntuninni og þróuninni lægju möguleikarnir. Og til að landsbyggðin væri ekki algjörlega afskrifuð í slíkum efnum væri þó a.m.k. hægt að vísa til þess að slíkur fáni væri við hún þar sem væri nám á háskólastigi og það að miklu leyti hagnýtt nám, starfstengt nám á Akureyri, stærsta þéttbýlisstaðnum á landsbyggðinni. Þar hefur t.d. átt að vera alveg sérstakt forgangsmál, uppbygging hvað varðar rannsóknir og fræðslu á sviði sjávarútvegs. Hvaða ákvarðanir er svo hæstv. ríkisstjórn að taka í þeim efnum? Jú, að staðsetja sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna, sem kemur til Íslands, í Reykjavík. Ekki nóg með það heldur er Háskólinn á Akureyri sveltur í fjárveitingum við þessar aðstæður. Eitt af því sem hvað brýnast er að byggja upp þar er raunveruleg akademísk stofnun hvað varðar getu til að sinna rannsóknum og slíkum þáttum, sem auðvitað verða að vera við þá háskólastofnun ef hún á að verða einhver háskóli. Því háskóli er ekki akademía nema hægt sé að stunda rannsóknir jafnframt kennslu. Háskólinn á Akureyri fór fram á að framlög til rannsókna tvöfölduðust en þeirri beiðni er hafnað af meiri hluta fárln. Það er hægt að segja kannski með góðum vilja að háskólinn fái lágmarksfjárveitingar til að mæta aukningu sem er sjálfvirk vegna þess að þar hefur nám verið tekið upp á nýjum brautum og eru að bætast við árgangar og út af fyrir sig er hægt að þakka fyrir það. En að öðru leyti er algjörlega daufheyrst við óskum Háskólans á Akureyri hvað varðar fé til raunverulegrar uppbyggingar á sviðum, sem auðvitað þarf að byggja þar upp, eins og í sambandi við rannsóknir og auðvitað þyrfti háskólinn líka á verulegu fé að halda á næstu árum einfaldlega vegna þess að þar er verið að byggja upp bæði í efnislegum og andlegum skilningi stofnun. Þarna hefði hæstv. ríkisstjórn haft tækifæri, þó ekki væri nema eitt einasta dæmi um að einhvers staðar væri þróun í rétta átt líka hvað þetta snertir en það er ekki notað. Ekki enn sem komið er, herra forseti.

Herra forseti. Ég vil að lokum mæla fyrir tveimur brtt. sem ég hef flutt, ekki kannski með heitri sannfæringu fyrir því að þær verði afgreiddar þó hógværar séu og skynsamlegar báðar, heldur vegna þess að mig langar til að vekja athygli á þeim málum. Ég er auðvitað orðinn svo gamall í hettunni hér að ég veit að þau örlög bíða sárasjaldan brtt. frá minni hlutanum að þær fáist samþykktar. Það er nú einu sinni gangur lífsins í þessu. En ég leyfi mér nú samt að mæla fyrir tveimur brtt. á þskj. 341.

Sú fyrri er við 4. gr. lið 03-390, Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Og það er hvorki meira né minna, herra forseti, en að þessi liður hækki um heilar 10 millj. kr., úr 172 millj. kr. í 182 millj. kr. Og af hverju er ég að þessu? Nú veit ég að þessar 10 millj. draga ekki langt til að hækka skammarlega, smánarlega lág framlög okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu sem hefur verið rakinn smánarblettur á okkar ríku þjóð um langt árabil. Nei, ég er að þessu í samhengi við það að við höfum lagt fram tillögu, ég og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, um að tekið verði á í þessum málum og það verði gert að langmestu leyti á grundvelli sjálfstæðrar tekjuöflunar til að standa undir auknum útgjöldum til þróunarsamvinnu af hálfu okkar Íslendinga. Ég er satt best að segja orðinn ákaflega vondaufur um að það náist nokkurn tíma stuðningur við að hækka beinar fjárveitingar úr ríkissjóði til þessa verkefnis. Við hjökkum þar í sama farinu, oftast í kringum 0,1% af landsframleiðslu þar sem viðurkennd og samþykkt markmið, m.a. af okkar hálfu, eru 0,7%. Við þyrftum að sjöfalda þessi framlög til að ná því markmiði sem velmegandi þjóðir heimsins hafa samningsbundið sig til að gera. En ég tel að ef menn vildu skoða það í einhverri alvöru að leggja í sjálfstæða tekjuöflun sem samkvæmt okkar tillögu er þannig að álag yrði lagt á bæði hátekjuskatt einstaklinga og tekjuskatt lögaðila eða fyrirtækja, þá mætti ná umtalsverðum árangri og kannski tvöfalda eða þrefalda þetta framlag á tveimur til þremur árum og ná því þannig a.m.k. í eitthvert horf, sem miklu skárra væri að kynna meðal þjóða heimsins um aldamótin.

[21:45]

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að það er einn póstur sem ég vildi hvað síst vera á sem fulltrúi Íslands --- ég veit ekki hvar ég vildi ekki frekar vera --- og það er að vera fulltrúi Íslands hjá OECD og standa frammi fyrir þeim ömurleika að þurfa að sýna framlög Íslands til þróunarsamvinnu í töflum OECD, en af tillitssemi við okkur var því að vísu lengi sleppt að hafa okkur með. Ég vildi ég ekki þurfa að vera talsmaður eða málsvari Íslands þar þegar miklu fátækari ríki en við eru farin að leggja mun meira af mörkum í upphæðum og einnig í prósentum en við gerum. Svo ekki sé nú talað um nágrannalöndin sem við viljum auðvitað bera okkur saman við að öllu leyti eins og Danmörku, Noreg, Svíþjóð og önnur slík ríki. Norðmenn hafa um árabil lagt talsvert meira af mörkum en hin alþjóðlegu samningsbundnu viðmið gera ráð fyrir. Í Noregi hafa talsvert á annað prósent af vergri landsframleiðslu farið í þróunarsamvinnuframlög. Þeir eru að vísu ríkir vel og eiga mikla olíu en þeir voru ekki svo ríkir þegar þeir voru byrjaðir á þessu og komnir langt fram úr flestum öðrum þjóðum. Þeir voru með lægri þjóðartekjur á mann en við Íslendingar þegar þeir náðu 0,7% markinu og þjóðir sem standa okkur langt að baki hvað varðar þjóðartekjur á mann ná að mestu leyti sínum skuldbindingum að þessu leyti.

Þetta er hreinn smánarblettur á okkur, herra forseti, ekkert annað en smánarblettur. Og ef ekki er pólitískur vilji til þess að taka fjármuni í þetta af óskiptum tekjum ríkissjóðs þá skora ég á menn að skoða það í alvöru að fara í sjálfstæða tekjuöflun til að standa straum af þessum útgjöldum. Ég er sannfærður um að þjóðin mun styðja það --- mér liggur við að segja næstum því hvernig sem það væri gert. Jafnvel þó það væri einn af hinum illræmdu nefsköttum, þá held ég að menn mundu borga hann tiltölulega glaðir enda greiðir fjöldi fólks af frjálsum og fúsum vilja ýmiss konar framlög til hjálparstofnana eða til ýmiss konar þróunarfélaga, tekur að sér að fóstra börn í útlöndum eða standa straum af rekstri einstakra stofnana o.s.frv. Það er gott og þannig á það að vera vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir því að til viðbótar hinum opinberu framlögum upp á 0,7% af landsframleiðslu komi umtalsverð frjáls framlög einstaklinga og framlög hjálparstofnana. Viðmiðunin var 1%, þar af kæmu a.m.k. 0,7% frá hinu opinbera eða að hið opinbera ábyrgðist 0,7% og ekki yrði krafist reikningsskila á því þótt hin 0,3 skiluðu sér ekki. En frammistaða Íslands hefur sem sagt verið sú að þegar best lét, eftir að þessi framlög höfðu verið hækkuð þrjú ár í röð í tíð ríkisstjórnarinnar sem sat að völdum 1988--1991, og voru þó hennar aðstæður ekkert sérstakar eins og kunnugt er, þá komust þessi framlög 0,13% af landsframleiðslu og eru núna á bilinu 0,1--0,12%.

Ég vísa, herra forseti, í þessa tillögu. Hún er fyrst og fremst hugsuð sem undirbúningsfjárveiting í tengslum við það að hér á Alþingi yrði unnin sú vinna að lögfesta markaðan tekjustofn til að standa undir hækkuðum fjárframlögum okkar Íslendinga til þróunarsamvinnu.

Seinni liðurinn á brtt. mínum, herra forseti, er líka mjög hógvær tillaga. Ég legg til að þarna komi bein fjárveiting upp á 20 millj. kr. til þess að hefja undirbúning að og eftir atvikum framkvæmdir við Barnaspítala Hringsins. Mér er kunnugt um það að til skoðunar hefur verið í fjárln., og kannski er það þegar komið í brtt., að heimildarákvæði verði sett í 6. gr. fjárlaga um að selja hluta af eignum Vífilsstaða, þ.e. af landinu sem þar er, og að þeim fjármunum skuli varið til að undirbúa framkvæmdir við byggingu barnaspítala. Ég styð þær hugmyndir af heilum hug. Ég tel það góða ráðstöfun og sé ekki eftir annars fallegu landi í kringum Vífilsstaði til þessa göfuga verkefnis en ég tel það náttúrlega smánarlegt að þá sé ekki jafnframt einhver fjárveiting í hendi til að hefja undirbúning þessara framkvæmda. Og blessuð veri nú framsýni Hrafnkels bónda á Vífilsstöðum sem varði túnið í kringum Vífilsstaði með því snjallræði að stinga því að mönnum í Garðabæ eða Hafnarfirði eða hvar það nú er að það væri skynsamlegt að stofna golfklúbb, sem var gert. Þegar menn sáu byggðina æða í átt að staðnum og óttuðust að þeir mundu lenda undir malbikinu fyrr en varði þá datt bóndanum, þeim höfðingja, þetta snjallræði í hug og fyrir vikið hafa menn nú þarna eitthvað að selja. Og því er svo sannarlega vel varið í þetta verkefni.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki mikil deila um það, satt best að segja, að eitt allra brýnasta málið hvað varðar sérhæfða heilbrigðisþjónustu í landinu um þessar mundir, og þó fyrr hefði verið, sé það að byggja fyrsta almennilega barnaspítalann á Íslandi, sérhæfða stofnun í takt við kröfur tímans hvað aðstöðu snertir. Að vísu er að koma góð barnadeild við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í nýju húsnæði og það er rétt að geta þess sem vel er gert. Þar höfðu menn haft barnadeild í stigahúsi, í stigauppgangi. Og vissulega er breytingin mikil. Ég sé að þeir vita af því hér ýmsir sem brosa út í annað að það verður vel búið að hinni nýju deild þarna, en ég sé heldur ekki eftir því.

En það væri fróðlegt að vita hve margir hv. alþm. hafa hugsanlega lent í því að fara með barn sitt á barnadeild Landspítalans. Það rétta hér nokkrir upp hendur og ræðumaðurinn er einn í þessum hópi. Það er lífsreynsla út af fyrir sig. Að lenda með barn inn á fulla barnadeildina og búa þar með hinum foreldrunum á göngunum, svo maður segi nú ekki í tröppunum eða að reyna að sofna á stól. Aðstaðan er slík að það er með hreinum ólíkindum hvernig tekst þó þrátt fyrir allt að halda uppi því metnaðarfulla starfi sem þar er gert. Það er með hreinum ólíkindum. Og ef ætti að vera að veita verðlaun eða orður þá dettur manni stundum í hug blessað ófaglærða starfsfólkið og ýmsir aðrir sem þar vinna undir miklu álagi og við alveg ótrúlega erfiðar aðstæður.

Staðreyndin er líka sú, herra forseti, að þróunin í þessum efnum kallar mjög á úrbætur að þessu leyti. Það hefur orðið heilmikil þróun í þá átt að sérhæfing og aðgreining í sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er alltaf að aukast og kallar að sjálfsögðu á það að fyrir hendi sé aðstaða til þess að taka við slíku. Framfarirnar í læknavísindum byggja ekki síst á því að menn eru að sérhæfa og aðgreina þjónustuna og ná meiri og meiri árangri út á slíka hluti. Það er hægt að gera ótrúlega hluti sem menn létu sig ekki dreyma um fyrir fimm eða tíu árum og eitt ágætt dæmi sem ég veit að allir hv. þm. þekkja er t.d. þeir fyrirburar sem nú tekst að bjarga sem menn létu sér ekki til hugar koma fyrir ekkert löngu síðan að væri hægt. Þannig velta menn nú meira fyrir sér því siðferðilega vandamáli hversu neðarlega á að fara í þeim efnum.

En þetta kallar á ýmislegt. Við getum ekki bæði sleppt og haldið. Við getum ekki bæði ætlast til þess að íslensk heilbrigðisþjónusta sé áfram í fremstu röð, innbyrði allar þær nýjungar og þá möguleika sem eru að skapast með tækni, með lyfjum og með sérhæfingu en búi áfram við aðstöðu sem heyrir til liðnum áratugum. Það gengur ekki upp, það er ekki samrýmanlegt. Og ég held að það sé ekki mikil deila um það, herra forseti, að eitt það allra brýnasta í þeim efnum nú um stundir sé bygging á barnaspítala. Ég hef í allri hógværð, herra forseti, leyft mér að leggja fram þá brtt. að til byggingar Barnaspítala Hringsins verði settar 20 millj. kr. á fjárlögum auk þeirrar heimildar sem komi í 6. gr. að ráðstafa tekjum af sölu eigna á Vífilsstöðum í sama skyni. Ég hef enga trú á því að fjárhagur íslenska ríkisins fari mjög á skjön út af 20 milljónum eða einhverju slíku. Mér fyndist það miklu myndarlegri frágangur á málinu að það væri þó a.m.k. einhver föst fjárveiting í þessu skyni þannig að tekin væri pólitísk ákvörðun við afgreiðslu fjárlaga um að þarna skuli hefjast framkvæmdir. Ég skora á menn að íhuga það mjög vel að samþykkja einhverja slíka tillögu eða leysa úr málinu með einhverjum slíkum hætti. Ég er meira en fús til að kalla brtt. aftur til 3. umr. ef menn vilja fá einhvern tíma til að skoða málið. (Gripið fram í: Það er óþarfi.) Er það óþarfi? Vill hv. þm. endilega fá að fella hana eða hvað? Nú eða ef hv. þm. er búinn að safna liði og ætlar að tryggja tillögunni hér stuðning þá er það líka gott en ég bið hann að láta mig vita hvort er á ferðinni. Ég held satt best að segja að hv. þm. mundi ekki hafa svona gaman af þessu eins og hann vill vera láta ef hann væri með það í huga að fella tillöguna. Alla vega er það alveg ljóst að það stóð ekkert um það um það hér í kosningaloforðum Framsfl. að ekki yrði byggður barnaspítali á kjörtímabilinu. Ef eitthvað er þá mundi maður heldur lesa hið gagnstæða út úr plagginu.

Herra forseti. Mér til mikillar hryggðar hefur hæstv. utanrrh. ekki látið sjá sig og tilgáta mín um að hann hafi hugsanlega verið upptekinn í hanastélsboði sem yrði kannski búið um níuleytið hefur reynst röng. Ég verð því að geyma mér það til betri tíma að eiga orðastað við þann góða mann. En ég kem því í framhjáhlaupi til þeirra framsóknarmanna sem eru hér tvist og bast úti í salnum að þeir ættu að láta formanninn sinn vita af því, hæstv. utanrrh., að það sé svo komið, og hefði það einhvern tímann þótt langt til jafnað, að menn séu jafnvel farnir að sakna hans hér.