Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:03:31 (2189)

1996-12-13 22:03:31# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:03]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína þar sem hv. síðasti ræðumaður endaði sína, þ.e. að ræða hér örlítið um málefni barnaspítala. Ástæðan fyrir því að ég hyggst fara þá leiðina að þessum málum er sú að ég átti orðastað við hæstv. fjmrh. fyrr í dag og óskaði ekki eftir nærveru hans við þessa umræðu því að mitt mat er það að á þessum tímapunkti við umfjöllun fjárlaganna sé þetta fyrst og síðast málefni þingsins. Nú erum við að fjalla um tillögur meiri hluta fjárln. og hæstv. ráðherrar eru svo sem ágætir með en þeir gegna ekki því lykilhlutverki sem þeir eru vanalega í að þessu sinni.

Ég ætla að gera langt mál stutt í þessu sambandi. Ástæðan fyrir því að ég nefni barnaspítalann er sú að ég vil gjarnan gera undantekningu á þessari beiðni minni og biðja hæstv. fjmrh. að leggja nú við hlustir. (Gripið fram í.) Það er ágætt líka að hæstv. heilbrrh. sperri eyrun.

Sannleikurinn er auðvitað sá að nú á nýjan leik hefur birst á vettvangi stjórnmálanna heilbrrh. sem vill byggja barnaspítala. Sá sem hér stendur kom að því máli árið 1994 og hef ég greint frá því hér í þessum ræðustól og opinberlega annars staðar að það gekk á ýmsu við undirbúning og umræður um þau mál í þeirri ríkisstjórn sem þá sat að völdum. Það var þá einkanlega hæstv. fjmrh. sem þvældist þar fyrir. Ég held að það sé óhætt að orða það þannig. Þess vegna hlýt ég að kalla eftir því núna eftir mjög afdráttarlausar yfirlýsingar hæstv. heilbrrh., nú síðast á aðalfundi Ríkisspítalanna þar sem hún gaf loforð um það, hrein og bein loforð um það að hafist yrði handa við þessa byggingu á næsta ári, hvort hún njóti atbeina hæstv. fjmrh. í þeim efnum eða hvort hann sé enn fastur í gamla farinu og ætli að þvælast fyrir þessu máli og koma í veg fyrir að af stað verði farið. Þetta segi ég vegna þess að ég hef reynslu af þessu máli og náði um það samkomulagi í fyrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þar sem samþykkt var að ganga til þessara verka. Síðan þá, eftir að síðari ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, helmingaskiptaríkisstjórnin, tók við, hefur hæstv. fjmrh. haft hér á orði í þessum ræðustóli að það sé rangt, engar slíkar samþykktir hafi verið gerðar í fráfarandi ríkisstjórn. Það er hins vegar rangt af hans hálfu eins og staðreyndir sýna. Það liggur fyrir að umtalsverðir fjármunir eru nú þegar til í sjóði til þessa verkefnis. Kvenfélagið Hringurinn hefur yfir að ráða fjármunum sem nema eitthvað á annað hundrað milljónum króna. Ríkisspítalarnir sjálfir hafa safnað í sjóði, sérstaka byggingarsjóði til byggingar barnaspítala sem ég kann ekki skil á upp á síðkastið en ég tel að í séu 30--50 millj. kr. Þannig er umtalsvert fé til í þetta starf. Það liggja einnig fyrir þau áform Hringskvenna að fara í sérstaka söfnun meðal landsmanna til þessa sérstaka verkefnis þannig að ljóst er að það er almennur vilji og það eru líka fjárhagslegar forsendur til þessa verks.

Nú hefur að því er virðist hæstv. heilbrrh. gripið guð í fótinn með því að finna fjármuni þegar kemur að sölu lands við Vífilsstaðaspítala og það er út af fyrir sig allt gott og blessað og í 6. greinar heimildum í fjárlagafrv. því sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir því að fjmrh. sé heimilt að selja þetta land. Nú bið ég hæstv. heilbrrh. að hlusta. Hvers vegna í veröldinni er ekki bætt við þessa heimild þeirri einföldu setningu að andvirði þeirrar fjárhæðar sem fæst fyrir þetta land verði jafnframt varið til byggingar barnaspítala? Um það er ekki eitt einasta aukatekið orð, ekkert nema einfaldar yfirlýsingar hennar og vilyrði. Því höfum við í þingflokki jafnaðarmanna viljað taka af öll tvímæli í þeim efnum og gert hér viðaukatillögu við þessa umræddu 6. greinar heimild sem er að finna í fjárlagafrv. þar sem það liggur alveg ljóst fyrir að þeir fjármunir sem fást fyrir sölu á þessu landi renni beinustu leið til byggingar nýs barnaspítala. Ég spyr beint á nýjan leik --- og ég gef mér það í fyrsta lagi að það hlýtur að vera hæstv. heilbrrh. þóknanlegt að tekin séu af öll tvímæli þannig að vilyrði hennar og loforð séu grundvöllur og byggi á einhverju öðru en lausum loforðum --- ég spyr hins vegar hæstv. fjmrh. beint hvort hann leggist gegn slíku, hvort það sé eitthvert samkomulag um það í ríkisstjórninni að andvirði þessarar sölu renni til byggingar barnaspítala. Ég gæti tekið það gott og gilt, virðulegi forseti, mín vegna mætti hæstv. ráðherra nikka eða hrista höfuðið eftir efnum og ástæðum því að spurningin er svo einföld. En hann gerir það ekki því að hann ætlar að svara í flóknu máli. Það er augljóst mál. En þetta er nauðsynlegt að fá fram.

Ég tek heils hugar undir með hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að á þessu stigi málsins er ekki það eitt nægilegt að hér séu almenn orð höfð upp um það að nauðsynlegt og æskilegt sé að byggja nýjan barnaspítala. Við þurfum að festa inn í þessa bók hér með skýlausum hætti þann vilja Alþingis að þetta verkefni sé komið inn í fjárlög. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur lýst tillögu upp á 20 millj. kr. stofnframlag. Þingflokkur jafnaðarmanna var með töluna 10 millj. Það skiptir engu höfuðmáli. Þessi tala gæti verið 5.000 kr. þess vegna. En meginatriðið er það að hæstv. fjmrh., þó einkanlega og hæstv. ríkisstjórn átti sig á þeim vilja þingsins að í þetta verkefni á að ráðast hvað sem tautar og raular því að ég hef af því verulegar áhyggjur, virðulegi forseti, að þegar allt kemur til alls, þá ætli menn að láta allt næsta ár --- og leggi nú hæstv. heilbrrh. við hlustir --- að láta allt næsta ár líða án þess að nokkuð gerist. Og af hverju spái ég þessu, virðulegi forseti? Vegna þess að ég hjó eftir því í einhverri orðræðu hæstv. heilbrrh. að nú ætlaði hún að fara að láta teikna og menn ætluðu að verja næstu missirum, sennilega einu eða tveimur í það að fara að undirbúa og fara að teikna þetta mannvirki. Það fannst mér vera fyrsta undanhaldið og klár og kvitt vísbending um að það ætti ekki að hefja neinar framkvæmdir á næsta ári heldur ætluðu menn að setja á enn eina undirbúningsnefndina, enn eina byggingarnefndina til þess að gaumgæfa þessi mál og kanna.

Það er fullkomlega ástæðulaust, virðulegi forseti, því að þetta gerði ég, sá sem hér stendur, fyrir tveimur árum síðan og þessu verki er lokið. Það er búið að þarfagreina þetta sjúkrahús, þennan barnaspítala. Það er búið að fara í gegnum hvern einasta þátt í væntanlegri starfsemi og gaumgæfa það hvaða rými þarf til. Það er búið að skoða það í krók og kima hvernig þessi nýja þjónusta mun passa við aðra þjónustu Ríkisspítalanna þannig að menn hafa allar þessar forsendur á hendi og geta eins og upp var lagt með þess vegna strax á morgun, eftir hádegi á morgun auglýst útboð, alútboð um byggingu nýs barnaspítala. Útboðsskilmálar í þessu alútboði eru klárir þannig að það er ekki eftir nokkrum hrærandi hlut að bíða. Og með kvitta og klára heimild hér í fjárlögum komandi árs, bæði 6. í gr. með einhverri nómínal tölu í fjárlagafrv. sjálfu með þeim fjármunum sem koma sannarlega fyrir Vífilsstaðalandið, frá Hringskonum, frá byggingarsjóði Ríkisspítalanna. Það mætti auglýsa þetta útboð núna. Það mætti hefjast handa í mars nk. Málið er ekki flóknara en það. Og ég kalla mjög ákveðið eftir svörum við þessu. Ég vil engin undanbrögð og það fólk sem hefur barist fyrir þessu mikilvæga máli þolir ekki nein undanbrögð lengur. Ég krefst skýrra svara. Í fyrsta lagi frá hæstv. fjmrh., um hans afstöðu í málinu. Er hann að þvælast fyrir eða hefur hann fyrir sitt leyti gefið grænt ljós? Og ekki síður vildi ég heyra frá hæstv. heilbrrh. í þá veruna, hvort hún sé ekki ánægð með í fyrsta lagi þetta tal okkar hér, þennan áhuga okkar hér og þá aðferðafræði sem ég hef hér lýst. Að svo komnu máli, herra forseti, er mér nákvæmlega sama hvort hæstv. fjmrh. situr hér lengur undir minni ræðu eða ekki. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Menn hafa haldið því fram að það sé rólegra yfir pólitíkinni nú um stundir en oft áður og margir hafa haldið því fram að stjórnarandstaðan hafi sig minna í frammi en áður eða að allt sé á svo góðri vegferð og allt horfi svo vel í okkar ágæta þjóðarbúi. Vissulega er það þannig að peningarnir streyma inn í ríkissjóð og ég sé að fjármálaspekúlant stjórnarmeirihlutans hér á þingi, Pétur H. Blöndal, nikkar. Hann er búinn að reikna það út í krók og kring. Ríkissjóður græðir á tá og fingri og það gerir vitaskuld verkefni fjárln. og meiri hluta hennar miklum mun léttara en nokkru sinni hefur verið um langt árabil og þessar brtt. og fjárlagafrv. bera þess auðvitað merki að þetta er býsna létt verk sýnist mér í fljótu bragði sem þeir eru að vinna hér. Ég mun koma að því nánar á eftir hvernig þeir skauta svo létt yfir þetta svið sem raun ber vitni. Menn halda því fram að það sé góðæri í landinu og vissulega má að sumu leyti taka undir það.

Hins vegar verð ég dálítið var við annan tón hjá ýmsum öðrum, hjá fólki úti í bæ sem maður á orðastað við. Það verður ekkert vart við þetta góðæri. Það spyr: Hvar er góðærið? Er það þarna inni á Alþingi við Austurvöllinn eða í Stjórnarráðinu, uppi í Arnarhvoli? Hvar er þetta góðæri? Ekki er það heima hjá mér. Og svona til undirstrikunar á því að ég er kannski ekki einn um að skynja þetta með þessum hætti, þá barst mér í hendur, virðulegi forseti, blað sem gefið er út í Kópavogi. Það er svo sem misjafnt að gæðum, heitir Vogar og er blað sjálfstæðismanna í Kópavogi, 4. tölublað, 46. árgangur og þetta er jólablað, desember 1996. Í þessu blaði sem er býsna pólitískt er svona gegnumheilt verið að tala um þetta góðæri en svo allt í einu verður stílbrot því að þá er viðtal við mann sem þekkir til. Hann heitir Aðalsteinn Sigfússon og er félagsmálastjóri í Kópavogi, í þessu bæjarfélagi sem íhald og Framsókn fara með völd, þessir tveir hinir sömu flokkar og ráða nú ríkjum í landsstjórninni. Aðalsteinn Sigfússon félagsmálastjóri segir í fyrirsögn, með leyfi forseta: ,,Tvær þjóðir í þessu landi --- og önnur veit ekki af hinni.`` Einhvern veginn minnir þetta mig á stjórnarmeirihlutann annað slagið. ,,Tvær þjóðir í þessu landi og önnur veit ekki af hinni.`` Og þessi ágæti maður, sem auðvitað er með puttann á púlsinum, er að fást við það í vinnunni sinni dag frá degi að leysa úr vanda fólks í þessu næststærsta sveitarfélagi landsins á eftir Reykjavík.

Ég held að það sé full ástæða til þess, virðulegi forseti, að þeir stjórnarliðar sem hér eru heyri það hvernig þessi maður, félagsmálastjórinn í Kópavogi, í bæjarfélagi sem stjórnað er af Sjálfstfl. og Framsfl., lýsir ástandinu í sinni vinnu frá degi til dags, á þessum tímum góðæris og efnahagsbata á Íslandi, í blaði sjálfstæðismanna í þessum bæ. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,Efnahagsbatinn undanfarin missiri hefur ekki skilað sér til stóru bæjanna í landinu. Ekki samkvæmt niðurstöðum félagsmálastofnana í Kópavogi, Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri svo dæmi séu tekin. ,,Þessi svokallaði efnahagsbati sem allir eru að tala um hefur ekki skilað sér til þeirra lægst launuðu, til þeirra sem mest þurfa á honum að halda. Það sýna tölur frá okkur,`` sagði Aðalsteinn.`` Og hann heldur áfram: ,,Það er vert að hafa í huga að þeir sem verst eru settir í þjóðfélaginu núna eru í raun búnir að éta sig inn að beini. Efnahagsbatinn, ef hann verður, þarf að verða mjög mikill fyrir þetta fólk til þess að það komist aftur á viðunandi framfærslustig. Sjálfsagt eru mjög margir í þjóðfélaginu sem hafa farið út í að taka bankalán, enda hafa skuldir heimilanna aukist óskaplega, skuldir sem efnt var til vegna framfærslu. Það er óeðlilegt að bankarnir séu þannig notaðir sem launastofnanir.``

Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri í Kópavogi, þessum bæ sem íhaldið og Framsókn stjórnar --- (Gripið fram í: Til fimm ára.) og hefur stjórnað síðustu fimm árin, það er rétt að halda því til haga --- hann segir: ,,Framhaldið er að fólkið ræður ekki við afborganir og vexti af lánum. Síðan er gengið að þessu fólki og það litla sem til er taka bankarnir. Aðalsteinn segir að þetta eigi bankar að vita. Þeir eigi ekki að lána fé gagnrýnislaust. Bankarnir fríi sig ævinlega með því að ganga að eignum ábyrgðarmanna, sem í flestum tilvikum eru ættingjar.``

Áfram segir í þessu blaði, með leyfi forseta, og hlusti nú hv. þm. Jón Kristjánsson með athygli og kannski e.t.v. hæstv. heilbrrh. líka:

,,Aðalsteinn segist verða var við það að fólk í vanda sé með skuldir þar sem innheimtukostnaður og dráttarvextir séu jafnháir eða hærri en skuldin. Hópur fólks lifi bókstaflega á lítilmagnanum og maki krókinn. Slík skuldabyrði eyðileggi fólk.`` Orðrétt segir hann síðan, með leyfi forseta: ,,Við kynnumst mörgum dæmum þess að fólk er hreint og beint í öngum sínum. Það eru andlegir og líkamlegir erfiðleikar sem hrjá þetta fólk. Það hefur í rauninni aldrei getað um frjálst höfuð strokið vegna fjárhagsáhyggna,`` segir Aðalsteinn.

[22:15]

Ég minnist þess fyrir hálfu öðru ári síðan að tilteknir stjórnmálamenn höfðu áhyggjur af þessu fólki. Ég horfi á tvo þeirra. Höfðu stór orð um nauðsyn þess að hjálpa þessu fólki sem er hreint og beint að drepast vegna skuldanna og sögðu: Léttum skuldabyrði heimilanna. Hvar finnum við og sjáum við úrræði til handa þessu fólki í þessu fjárlagafrv. eða í öðrum störfum núv. ríkisstjórnar? Ég spyr hv. þingmenn stjórnarflokkanna og ekki síst hæstv. heilbrrh. og aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ég bið um eitt lítið dæmi um það. Hvar eru bjargráðin gagnvart því fólki sem þessi maður, sem þekkir jafn vel til og raun ber vitni, lýsir? Þetta er ekki flóknara en svo, og það veit ég að þessir hv. þm. stjórnarinnar vita, að á sama tíma og bregður til betri tíðar í ríkisbúskapnum, þá erum við að tala um að fjölskyldurnar í landinu auka skuldir sínar um 25 milljarða kr. Verður þá satt að segja býsna léttur í vasa jákvæður rekstur ríkissjóðs upp á 1 milljarð eða þar um bil, þegar þjóðarbúið, heimilin í landinu eru að auka skuldir sínar upp á 25 milljarða kr. Hver ætlar að borga þessar skuldir? Auðvitað verðum við öll að taka á í þeim efnum. Þetta fólk sem félagsmálastjórinn í Kópavogi er að lýsa er ekki borgunarmenn fyrir þessum stóru skuldum. Hér þarf að koma til úrræðna af hálfu hins opinbera. Svo einfalt er það. Ég kalla mjög eindregið eftir svörum við þessum staðreyndum sem við okkur blasa. Ég ætla ekki að fara að setja á neinar ræður um svik framsóknarmanna. Ég segi þetta bara í fyllstu einlægni og bið stjórnarliða að gefa einhver svör til handa því fólki sem hér er lýst, einhver svör til handa því fólki sem er að safna skuldum upp á 25 milljarða kr. í bullandi góðæri. Hvert á þetta fólk að leita? Hvert á það að snúa sér? Og er að undra þó það skilji ekki upp né niður í því að Friðrik græði á tá og fingri en það sjálft tapi dag frá degi, horfi á þann veruleika að gluggabréfin eru kannski tvöfalt á við þær tölur sem launaumslagið sýnir. Vonleysið algjört. Og ég hlýt að spyrja enn og aftur: Hver eru úrræðin gagnvart þessu fólki? Þessi hópur er því miður sívaxandi og sístækkandi og það á tímum góðæris. Svarar þetta frv. til fjárlaga 1997 ákalli þessa fólks? Getur til að mynda hv. formaður fjárln. gefið mér nikk upp á að svo sé? (JónK: Já.) Hann segir já. Hann gerir þá væntanlega betur grein fyrir því hér á eftir því að í hans inngangsræðu varð ég ekki sérstaklega var við það að sá hópur, sem er að auka skuldir sínar upp á 25 milljarða á þessu ári hefði fengið sérstaklega vísbendingar um að það ætti að taka á vanda hans. Það er þá vandlega grafið í þessari þykku bók sem ég hef ekki fundið né nokkur annar.

Þetta er umtalsvert áhyggjuefni og er kjarni þessa máls, þessarar efnahagsmálaumræðu sem hér á sér stað því að við erum ekki einasta að ræða um stöðu ríkissjóðs sem slíks, þröngt skoðað, heldur erum við að ræða um lífskjör í landinu og það er vitaskuld dálítið merkilegt til þess að hugsa og er sannarlega ekki nýtt af nálinni. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi fundið upp á sinni tíð að byrja á því að ákvarða útgjöldin og síðan taka tekjurnar í restina. Ég minnist þess þegar ég sat í ríkisstjórn með hæstv. fjmrh. að mér fannst þessi vinnubrögð dálítið kúnstug stundum, að menn stemmdu af með því að ákvarða tekjurnar þegar útgjöldin voru fyrir fram og niður njörvuð eftir 2. umr. fjárlaga. En meginatriðið er það að þær vísbendingar til fólks í landinu um betri tíð með blóm í haga eru ekki finnanlegar. Það eru engin svör til þessa fólks sem er að leita að góðærinu sem maður síðan les um og heyrir af í fjölmiðlum en ekki finnur.

Þá víkur talinu eðlilega að þeim kjarasamningum sem fram undan eru og miklar vonir eru bundnar við hjá tugþúsundum launamanna í landinu. Og það var merkileg yfirlýsing sem ég heyrði einmitt hjá hæstv. fjmrh. þegar hann kynnti þessa bók í byrjun október. Hér er að finna fixeraðar tölur eða ákveðnar framreiknitölur á laun í landinu og þar á meðal á opinbera starfsmenn. Ég man ekki töluna lengur, gott ef hún er ekki 3%. Hæstv. fjmrh. var spurður af fréttamanni sjónvarps um það hvort þetta væri ekki naumt skammtað og hann svaraði því til efnislega að það skipti svo sem ekki miklu máli því að ef laun opinberra starfsmanna hækkuðu eitthvað meira, jafnvel 10 eða 15%, þá næði hann því strax til baka í gegnum skattana þannig að afkoma ríkissjóðs breyttist í sjálfu sér ekki svo mikið. Þetta fékk mig til þess að hugsa um þessa nýju hagfræði hæstv. ráðherra, að þegar kemur að opinberum starfsmönnum þá skiptir það engu máli hvað varðar afkomu ríkissjóðs því hann nær því öllu til baka aftur í gegnum skattana þannig að þetta er svona inn og út kerfi hjá honum. Ég hef aldrei heyrt þessa hagfræði svona afdráttarlausa. Vissulega gefur það auga leið að einhverju verður skilað til baka, en ef þetta er svona í huga hæstv. ráðherra, þá vekur það upp þessa spurningu: Eru skattarnir orðnir slíkir að það þjóni engum tilgangi að hækka laun? Er þetta allt tekið til baka með jaðarsköttum og óbeinum sköttum og öðru slíku? Erum við komin algjörlega út á endimörk skattheimtunnar og eru menn eitthvað að reyna að vinna í því að vinda ofan af því eða eiga eitthvað við skattkerfi í þessu frv. til fjárlaga? (Gripið fram í: Það eru fleiri skattgreiðendur en opinberir starfsmenn.) Jú, en ég er að tala um þá núna, hv. þm. (Gripið fram í.) Ég skal tala um aðra starfsmenn og þjóðarbúið Ísland rétt á eftir, en nú er ég að ræða um ríkisstarfsmenn sérstaklega.

Þessi kona á Akranesi t.d. sem hafði sig mjög í frammi á þingi Framsfl. um daginn, ég man ekki nafnið hennar lengur, ætli hún sé hýr og kát með þetta frv. og þessar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar? Ætli það sé komið sérstaklega til móts við hana, hæstv. heilbrrh.? (Heilbrrh.: Hún heitir Guðný Rún.) Guðný Rún ku hún heita. Ætli hún sé kát og hress með þessa afgreiðslu sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara fram með núna á síðustu dögum fyrir jól, á aðventunni? Ætli hún sé hæstánægð og sé alveg staðráðin í því að kjósa Framsfl. um aldur og ævi? Ég er hræddur um ekki. Ég er hræddur um að hæstv. heilbrrh. yrði nú að setjast yfir hana og gefa henni einhverjar vonir sem ekki er að finna í þessu frv. því að þar er ekki punktur eða prik um það hvernig menn ætla að fara að því að vinda ofan af þessum jaðarsköttum sem ég hygg að allir stjórnmálaflokkar séu núna orðnir sammála um að þurfi að vinda ofan af og að menn hafi gengið þar allt of langt. En hvar er sú vinna stödd? Jú, hún er í nefnd stjórnarflokkanna með aðilum vinnumarkaðarins.

[22:30]

Auðvitað spyr maður sig líka: Er það hugmynd stjórnarflokkanna að þessi nefnd klári nú og ljúki einhverjum tillögum til betrumbóta í þessum efnum í upphafi næsta árs og enn og aftur eigi að leika þennan sama, gamla leik og nota eigi breytingar á skattalögum sem einhvers konar skiptimynt í kjarasamningum? Mér finnst það ljótur leikur og mér finnst það ekki skynsamlegt. Ég átti satt að segja von á því miðað við hástemmdar yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna að við fengjum einhverja vísbendingu um það núna þegar nálgast mitt þetta kjörtímabil hvað þeir ætli að gera í þessum efnum. Það er ekki orð um það. Og það, virðulegi forseti, veldur mér hvað mestum áhyggjum, þ.e. hvað þetta frv. til fjárlaga og þessar breytingartillögur meiri hluta fjárln. eru rýrar í roðinu, hvað þær svara í raun litlu til um það hvernig menn sjá fyrir sér þjónustu ríkisins til lengri framtíðar á ýmsum vettvangi, hvort heldur það er í heilbrigðismálunum eða hinni félagslegu þjónustu. Það eru engin svör. Það eru bara kyrr kjör. Þetta er bara framlengt lauslega og við skulum bara hafa þetta eins og í fyrra í grófum dráttum. Nú getum við það af því að það eru komnir nýir peningar í ríkissjóð og við skulum bara stemma af og hreyfa eitthvað á milli liða en að öðru leyti skulum við ekkert vera að eiga við þetta. En auðvitað er þetta engin stjórnsýsla af því að við verðum að nýta góðærið, ekki síður en þegar vindar blása á móti, til þess að fara ofan í þjónustu ríkisins.

Ég hef verið talsmaður þess að halda úti öflugri samneyslu og verið talsmaður hinna félagslegu lausna. Á hinn bóginn hef ég líka verið þeirrar skoðunar að við þurfum ævinlega og aftur að skoða það og meta mjög kalt og ákveðið hvernig þeirri þjónustu er best fyrir komið, hvar og hvernig og í hve miklum mæli. Það er ekki verið að gera hér, því er nú verr og miður. Og mér finnst það sjást best í þeim vandkvæðum sem þó hafa birst í starfi stjórnarmeirihlutans og þá á ég við þessar margumtöluðu 160 millj. kr., það að stjórnarmeirihlutinn skuli vera að velkjast með það núna mánuðum saman hvernig eigi að koma fyrir kerfisbreytingu eða einhvers konar breytingu á starfsemi sjúkrahúsa úti um land upp á 160 millj. kr. Er það sparnaðarhugmynd sem þar er að baki, því að þetta eru auðvitað algjörir smáaurar í þeirri stóru tölu sem er að finna í frv., eða er hér í gangi einhver ný hugsun hvað varðar þjónustu þessara sjúkrahúsa úti um landið? Eða verður þetta bara afgreitt með þeim einfalda hætti að búið er að fækka þeim sjúkrahúsum sem eiga að lenda í þessum niðurskurði? Hv. þm. Árni Mathiesen upplýsti það, mér til nokkurrar ánægju, að sjúkrahús á landsbyggðinni væru ekki sjúkrahús í Hafnarfirði og ekki í Keflavík. Ég var farinn að bíða eftir því að Akranes væri varla á landsbyggðinni heldur þannig að þeim fækkaði bara. Það væri kannski helst Austurlandið sem sannanlega væri á landsbyggðinni, á Egilsstöðum og í Neskaupstað og sannanlega eru Ísafjörður og Patreksfjörður á landsbyggðinni. Væntanlega er Stykkishólmur enn þá landsbyggðinni, að ógleymdum þremur sjúkrahúsum í kjördæmi hæstv. félmrh., á Blönduósi, Siglufirði og Sauðárkróki og eitthvað er af sjúkrahúsum í kjördæmi hæstv. forseta, á Suðurlandi. En samt sem áður eru þetta ekki svo mörg sjúkrahús.

Ég hlýt að spyrja eftir því ef þetta er orðið lykilatriði til þess að hægt sé að reka ríkissjóð hallalausan, 160 millj. kr. niðurskurður á sjúkrahúsaþjónustu úti á landi, hvort þetta sé spurning um krónur og aura, hvort þetta sé virkilega spurning um það að rammi heilbrrn. fari á annan endann ef ekki komi til þessa 160 millj. kr. niðurskurðar eða hvort hér sé alveg ný stefnumörkun, alveg ný sýn hvað varðar þjónustu sjúkrahúsa úti á landi. Birtist hún hugsanlega í því að loka einhverjum sjúkrastofnunum? Það er fræðilega alveg mögulegt og ekkert útilokað (Gripið fram í.) og ýmsir hafa bent á það. Nei, nei, hæstv. heilbrrh. Ég reyndi ekkert í þá veruna. (Heilbrrh.: Gunnarsholt.) Gunnarsholt? Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. nefndi Gunnarsholt til sögunnar. Þá kveður nú alveg nýtt við. Á bls. 327 í fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta:

,,Út frá úttekt á rekstri nokkurra sjúkrahúsa á landsbyggðinni hefur verið gerð áætlun um hagkvæmustu nýtingu sjúkrastofnana miðað við þarfir á hverjum stað og er áætlað að sameining stofnana og breytt verkaskipting skili 160 millj. kr. sparnaði á næsta ári.``

Er Gunnarsholt í þessum hópi? Heyrði ég ekki rétt að heilbrrh. væri að nefna Gunnarsholt til sögunnar? Eru það ýmsar stofnanir aðrar sem þarna koma til álita? (Gripið fram í.) Nei, það er víst ekki.

Sitthvað gerði ég í heilbrrn. og ég sé að eitthvað hefur hæstv. ráðherra lært. (Heilbrrh.: Af þér.) Eitthvað hefur hæstv. ráðherra lært af mér því að ég sé ekki betur en hún feti mjög ákveðið í mín fótspor hvað varðar sparnað og hlutdeild ríkisins í rekstri leikskóla spítalanna. Það kvað nú við eilítið annan tón hjá hæstv. ráðherra 1993 þegar hún á svipuðum tíma ársins, í október, nóvember og desember, rak hér upp ramakvein hvað eftir annað þar sem henni fannst það ekki taka nokkru tali og fyrir neðan allar hellur að láta sér detta í hug að gera breytingar á starfsemi leikskóla sjúkrahúsanna. En svo lengi lærir sem lifir.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að kalla mjög eftir því engu að síður í almennri umræðu um þessi mál, því að ég vil gjarnan koma að því á þessu stigi máls hvernig hv. fjárln. ætlar sér að fara í þessi mál, og ég kalla eftir almennri umræðu um það hvernig á að ganga til þessara verka. Hæstv. heilbrrh. hlýtur að leggja línur í því sambandi. Það getur ekki gengið þannig fram að ágætir hv. þm. á borð við Jón Kristjánsson eða Sturlu Böðvarsson takist á um það sín á milli hvort eigi að skera Egilsstaði minna eða meira eða Stykkishólm minna eða meira. Þetta eigi að vera einhvers konar kapp landshorna á milli án þess að hæstv. heilbrrh. komi með einhverja klára og kvitta stefnumörkun í þessa veru. Og hún hlýtur að koma núna. Hún hlýtur að vera klár núna því að öðruvísi er hv. fjárln. fullkomlega ómögulegt að ganga til þessa verks. Það er ekki flóknara. Nema það eigi að gerast með þeim hætti sem ég var að lýsa að menn bara tutla hér, tutla þar, 10 millj. hérna, 15 millj. þarna og síðan sé þetta sé togað og teygt. Er það verklagið sem hæstv. heilbrrh. leggur til að verði á þessum 160 millj. sparnaði? Þetta verðum við að fá að heyra núna við 2. umr. Ég geri kröfu til þess, virðulegi forseti, að það verði upplýst með hvaða hætti verði farið í þessa vinnu núna við 2. umr. fjárlaga, ekki þegar þessu verki verður lokið og menn fá hér tölur á blaði fyrir 3. umr. Þetta eru eins og ég sagði sáralitlar tölur í hinum stóru tölum fjárlagafrv. en mjög stórar tölur fyrir þær tiltölulega smáu sjúkrastofnanir sem hlut eiga að máli jafnvel þó að þessu væri deilt út á allar sjúkrastofnanir jafnt eða hlutfallslega þannig að í þessu hlýtur að búa eitthvað meira, einhvers konar hugsun, einhvers konar kerfisbreyting á starfsemi einstakra sjukrahúsa úti um landið. Það gefur auga leið. Annað væri hrein og klár fíflska.

Ég vil með örfáum orðum, í litlu þó, drepa á allt annað mál. Það lýtur að menntamálum þjóðarinnar. Ekki hefur farið fram hjá nokkrum manni að sönnu sú umræða sem átt hefur sér stað meðal lærðra og leikra um þá niðurstöðu sem kom út úr samanburðarfræðum í alþjóðlegri rannsókn á stöðu Íslands hvað varðar grunnskólaþekkingu og menntun og ýmsar skýringar vafalaust til á því. Ég vil þó við þessa umræðu nefna eina sem er út af fyrir sig ákaflega einföld og skýr og snertir þráðbeint það viðfangsefni sem við erum að fást við á þessum klukkustundum og það eru fjárveitingar til Námsgagnastofnunar ríkisins. Margir þingmenn, eða einhverjir þeirra, hafa vafalaust fengist við kennslu á árum áður og þekkja hvernig þau mál ganga til. Ég á hins vegar börn á grunnskólaaldri og ætla með örfáum orðum ef mér leyfist að lýsa þeirri mynd sem við mér blasir hvað varðar raungreinakennslu. Ég hef upplýsingar um það frá til að mynda kennurum þeirra barna sem nú koma í fyrsta sinn í skólann, sex ára barna og eru að stauta sig áfram í að læra að reikna.

Ég heyrði eina góða sögu frá ágætum forfallakennara sem var gripinn inn í einn sex ára bekkinn og honum sagt að kenna börnunum að reikna. Þetta var, nota bene, forfallakennari. Hann sagði börnunum, þau voru með einhver fjölrit í höndum, að reikna nú eins og hver gæti betur gert. Það gerðu þau samviskusamlega eins og barna er háttur og skiluðu síðan afrakstrinum í tímalok en þá var það sem eitt barnið segir: ,,Já en kennari, þú gleymdir að setja stoppmerki í bókina.`` Þá áttaði forfallakennarinn sig á því að sennilega hafði hann gert það að verkum að hinn venjubundni kennari þyrfti að eyða allri næstu helgi í það að vinna upp nýtt námsefni fyrir næstu viku því að hann hafði við þessa einu kennslustund notað út alla vikuna. Það gleymdist nefnilega að setja stoppmerki. Og það þýddi í raun að þeir nemendur sem gátu mest og best kláruðu sín verkefni á 10 mínútum, aðrir á kannski 20 en þarna fengu þau bara að reikna hömlulaust. Þessi sami forfallakennari sagði mér það að hann hefði fengið litlar þakkir fyrir frá umsjónarkennaranum, frá þessum stærðfræðikennara. Hann hefði þurft að fara í blöð og bæklinga og búa til nýtt kennsluefni fyrir næstu viku því að vikuskammtur hefði gengið þarna út. Það eru svona dæmi, virðulegi forseti, sem segja manni það að hér eru hlutir ekkert í lagi. Og þeir eru ekki í lagi m.a. vegna þess að Námsgagnastofnun er svelt. Hún er hreinlega svelt.

Annað praktískt dæmi af þessum toga sem birtist mér um daginn þegar ég ætlaði fara að reyna að aðstoða 10 ára gamlan son minn við heimanám og hlýða honum yfir landnám Íslands. Hann hafði lesið sjálfur, en ég komst fljótlega að því að hann botnaði hvorki uppi né niður í þeim texta sem honum var skaffaður. Þar voru m.a. setningar á borð við þessa, og drengurinn er í 5. bekk, 10 ára: ,,Frá öndverðu hefur sjávarafli verið drjúgt búsílag hérlendis. Fuglaveiði er einnig til búdrýginda. Sumir bændurnir hafa leigt frjálsum mönnum sem skorti jarðnæði.`` Svona var textinn meira og minna allur. Bókin er frá 1982. Kannski hafa börnin verið svona miklu greindari þá og betur að sér í íslensku máli. En dettur nokkrum manni það í hug að 10 ára gömul börn skilji upp né niður í texta á borð við þennan? Ekki nokkrum. En hann er frá 1982. Ég spurði umsjónarkennarann dálítið um þetta og hann sagði mér það einfaldlega að ástandið í þessum málum væri fyrir neðan allar hellur.

Virðulegi forseti. Þó að sú ákvörðun hafi verið tekin, sem ég var og er fullkomlega sammála, að færa grunnskólann til sveitarfélaganna, þá er sú skylda eftir sem áður á ríkissjóði að útvega grunnskólabörnum nauðsynleg kennslugögn. Og það er ekki boðlegt þegar nú bregður svo við að fjárveitingar á nemanda eru þær lægstu sem þær hafa verið sl. tíu ár, eru núna 5.847 kr. á hvern nemanda, voru fyrir tíu árum 7.570 og þetta er á tímum góðærisins. Meira að segja á tímum þrenginganna þegar erfiðleikarnir voru hvað mestir í þjóðarbúinu þá skaffaði ríkissjóður mun betur. Og ég segi enn og aftur að ég man ekki betur en einhver ónefndur stjórnmálaflokkur hafi ekkert síður talað um menntamálin heldur en það að hjálpa skuldugum heimilum. Er þetta myndin sem þeir vilja draga upp í þeim efnum? Nei.

Virðulegi forseti. Ég segi enn og aftur: Ég er ekkert að skamma einn né neinn í þessu. Ég bið menn bara að hugsa sinn gang. Margir hv. þm. í þessum sal runnu inn á Alþingi í krafti slíkra loforða. Þeir hljóta að fá hiksta annað slagið. Ég trúi ekki öðru. Því þeir eru ekkert að skila þeim loforðum hér í handföstu sem þeir gáfu tilefni til.

Virðulegi forseti. Ég vil í bláendann lýsa tveimur pínulitlum tillögum sem ég flýt hér ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Ágústi Einarssyni og snúa að hæstv. heilbrrh. Ég ætla enn og aftur að reyna að koma henni til hjálpar og aðstoðar í erfiðu starfi. Önnur lýtur að heilsugæslunni í Hafnarfirði. Þannig er mál með vexti, virðulegi forseti, að í 6. greinar heimild er fjallað um stækkun á húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarfirði. Það húsnæði er nú þegar til staðar og hefur staðið ríkissjóði til boða um nokkurt árabil. Ég held að það séu ein tvö ár síðan byggingarframkvæmdum lauk. Hæstv. heilbrrh. hefur haft vitneskju um þetta og sýnt því áhuga á stundum að festa kaup á þessu húsnæði sem liggur mjög vel að húsnæði heilsugæslunnar að öðru leyti. Hér er að finna heimild sem var einnig að finna í 6. gr. yfirstandandi fjárlaga þar sem fjmrh. er heimilað að taka nauðsynleg lán til kaupa á þessari húseign. Og ég spyr beint eftir því, virðulegi forseti: Af hverju var þessi heimild ekki notuð á yfirstandandi ári, hæstv. heilbrrh.? Og hvaða gagn er í því fyrir hæstv. heilbrrh. að hafa svona heimildir ár eftir ár eftir ár eftir ár og svo er það bara hæstv. fjmrh. eða einhverjar aðrar ástæður sem gera það að verkum að ekkert verður úr verki? Og til þess að taka nú af öll tvímæli í stíl við að sem ég sagði um barnaspítalann áðan, þá styðjum við vitaskuld þessa heimild. En til þess að festa þessa stefnumörkun í sessi hér á hinu háa Alþingi, þá legg ég til að 10 millj. kr. verði látnar renna til þessa verkefnis. Ég hygg að þessi húseign sé einhvers staðar á bilinu 40--45 millj. kr. þegar allt er talið.

Hitt snýr að annarri fyrirmyndarstofnun í Hafnarfirði, Sólvangi í Hafnarfirði, sem einnig hefur uppi áform um að byggja þar hjúkrunarheimili. Þar er þröngbýli hvað mest þegar miðað er við velflest önnur hjúkrunarheimili vítt og breitt um landið. Þar hefur rekstur verið til mikillar fyrirmyndar um mjög langt árabil og skoðun á nýtingu þessa spítala hefur leitt í ljós, og það var einmitt starfsmaður heilbrrn. sem hafði frumkvæði að slíkri athugun, að það er full þörf á þessari stækkun. Allar teikningar eru kvittar og klárar. Til þess bærir aðilar hafa farið yfir málið þannig að ekkert er í veginum annað en hinn pólitíski vilji.

Nú veit ég það vitaskuld að beiðnir af þessum toga er að finna víðar, en ég held að þegar skoðuð er sagan aftur í tímann, sem er býsna löng í þessum efnum, þá sjái menn það fljótt að hér er um hagkvæma aðgerð að ræða. Það liggur ljóst fyrir að á þessu svæði þarf að fjölga hjúkrunarrýmum. Það er jafnvel meiri þörf á því hér heldur en Fáskrúðsfirði þó að ég fagni því mjög eindregið að Fáskrúðsfjörður skuli nú vera kominn inn. Til hamingju, hv. þm. Jón Kristjánsson. Það hafðist, þó það væri svikið í fyrra. Til að taka af öll tvímæli í þessu vil ég festa þetta í sessi með 10 millj. kr. framlagi og flyt brtt. ásamt áður greindum hv. þm. þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Þau gætu verið langtum fleiri en af tillitssemi við hann læt ég þessu lokið.