Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 23:04:27 (2196)

1996-12-13 23:04:27# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get tekið heils hugar undir margt af því sem félagi minn, Guðmundur Árni Stefánsson, sagði í ræðu sinni næst á undan mér og það er svolítið gaman að henda á lofti setningu sem hann rifjaði upp eða ræðu sem hann rifjaði hér upp við framsóknarmenn þegar hann var að minnast flokksþings þeirra og tilþrifamikillar ræðu ungrar framsóknarkonu þar þegar hún var að brýna sína menn til dáða, en þá sagði hún einmitt eitthvað á þá lund að menn veðji ekki tvisvar á vitlausan hest. Menn veðji ekki á vitlausan hest í tvennum kosningum. Og það er dálítið skemmtilegt til þess að hugsa hvað fólst í þessum orðum og það er dálítið merkilegt hversu lítið þau voru hent á lofti vegna þess að að sjálfsögu var hún að gera sér grein fyrir því að staðan var sú að þeir sem höfðu veðjað á framsóknarhestinn höfðu veðjað á vitlausan hest í ljósi þess sem fylgdi í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Fyrsta mál þingsins á hverju hausti er frv. til fjárlaga. Það er 1. mál og það er þá búið að vinna að því frá sumri. Það er lagt fram og í fyllingu tímans tökum við 2. umr. fjárlaga. Það hefur verið að koma í ljós hin síðari ár að það verður minna og minna að marka þetta fyrsta plagg sem lagt er fram að hausti. Það er nokkurs konar yfirlitsrit, vinnuplagg fyrir þá sem ætla að vinna með þessi mál. Staðan í málaflokkunum og framreikningur nokkurn veginn. Að nokkru leyti birtist þar niðurskurður en langflestu er vísað til 2. umr. af því sem máli skiptir, langflestu en þó alls ekki öllu, og þegar 2. umr fjárlaga rennur upp, þá hefur það verið þannig að langflest af því sem óljóst hefur verið fram að því hefur þá verið sett á blað, þá eru að hnýtast þeir endar sem lausir hafa verið og við sjáum eiginlega nokkurn veginn til enda hvernig sitjandi ríkisstjórn ætlar að fara með fjárlög sín og hvernig hennar framtíðarsýn er til næsta árs. En þetta er að breytast.

Það hefur verið að gerast hin allra síðustu missiri að skrefið er bara stigið til hálfs við 2. umr. fjárlaga. Mörgu af því sem máli skiptir er vísað til 3. umr. og þetta er slæmt. Þetta er slæmt vegna þess að það eru of margir hlutir óljósir þegar við tökum þessa löngu og þýðingarmiklu umræðu og það er ósanngjarnt gagnvart þeim sem fjalla um málin, bæði gagnvart okkur sem erum í þessum sal að takast á um fjárlögin og gagnvart þeim sem reyna að varpa ljósi á stefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess að myndin skýrist ekki fyrr en alveg er komið að jólum með 3. umr. og lokarispunni hér.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnir koma og fara og það sem er sérstakt hjá okkur hér á Íslandi er að það er oftast mismunandi hvernig þær eru samsettar. En það sem er staðreyndin hjá okkur er að þær eru samsettar. Það viðgengst ekki hjá okkur nokkur hefð um minnihlutastjórnir og það hefur ekki verið þannig fram að þessu að flokkur fái þann meiri hluta sem þarf til þess að geta setið við stjórnvölinn aleinn. En það sem er alveg eins ljóst og þetta, að ríkisstjórnirnar eru samsteypuríkisstjórnir, er að verkefni sem tekist er á við hverju sinni eru ólík. Þannig voru t.d. verkefni síðustu ríkisstjórnar í umhverfi mikils efnahagssamdráttar og öll hennar verkefni einkenndust af því á meðan sú ríkisstjórn sem hér situr og hefur setið 20 mánuði er ríkisstjórn sem býr við vaxandi hagvöxt og við gjörólík skilyrði hvað varðar bæði afla og stöðu á mörkuðum okkar þannig að það er dálítið gaman að hugsa til þess hversu ólík viðfagnsefni þessir tveir hópar hafa fengið sem hafa verið að takast á við ríkisfjármálin að undanförnu.

Á síðasta kjörtímabili var tekist á um pólitík. Það var svo sannarlega tekist á um pólitík og það var tekist á um grundvallaratriði og pólitísk viðfangsefni og það var horft til framtíðar. Það var litið á atvinnu- og efnahagsstöðu í landinu og til þeirrar þróunar sem var að eiga sér stað í nágrannalöndunum. Menn spurðu sjálfa sig: Hvað þarf að gerast hér og hvernig getum við nýtt þá nýju markaði sem eru að opnast í þeirri stöðu sem við erum í? Og menn spurðu sig: Hvernig getum við tryggt hagvöxt í landi við þessar erfiðu aðstæður? Hvernig getum við eflt atvinnulífið og hvernig getum við fjölgað störfum?

Það var ekki bara talað og það var ekki bara spurt vegna þess að maður fylgdi orðum með athöfnum. Það var ekki sá samstarfsflokkur Sjálfstfl. sem nú situr sem barðist í gegnum erfiðar efnahagstillögur og náði ákveðnum hagvexti í þessum efnahagsþrengingum. Nei, það var minn flokkur. En það var ekki minn flokkur eftir að búið var að ná upp undir og um það bil 2% hagvexti, sem fór fram í kosningum með auglýsingaskrum þar sem spurt var um hvernig ætti að efla atvinnustig í landinu og talað um og sýnd öll börnin sem ætluðu að verða hjúkrunarfræðingar, læknar, skipstjórar, flugstjórar o.s.frv. Og það er heldur ekki minn flokkur sem núna býr við þá smán að eiga engin svör við þeim sömu spurningum önnur en sífellt að vísa til þess að hagvöxturinn eigi að framkalla framkvæmd þeirra tillagna sem boðið var upp á þá.

Á síðasta kjörtímabili var svo sannarlega leitað möguleika á því að fá erlenda fjárfestingu hingað til landsins og kannaður var áhugi á uppbyggingu stóriðju sem nú er vonandi að skila sér. Þannig er margra ára aðdragandi og vinna við það að vekja áhuga á fjárfestingu í landinu að skila sér núna og það er þess vegna sem ég nefni það að ríkisstjórnir koma og fara, að þrátt fyrir að það sé mismunandi hvernig þær eru samsettar, þá er líka mismunandi hvernig verkefni er tekist á við. Og það er einu sinni þannig að sumar ríkisstjórnir eru óheppnar og sumar ríkisstjórnir eru heppnar. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir að þær ríkisstjórnir sem taka við við verulegar efnahagsþrengingar og fara í gegnum alla erfiðleika sem þarf við slíkar aðstæður uppskera ekki endilega af verkum sínum. En það getur önnur ríkisstjórn komið að málinu þegar búið er að hreinsa til og skapa grundvöllinn fyrir betri framtíð, sest niður eins og ekkert hafi í skorist og sagt: Ég þarf ekki að gera neitt. Ég meinti þetta ekkert. Hagvöxturinn sem búið var að leggja upp með mun skila þessu.

Þess vegna komu baráttumálin á síðasta kjörtímabili mínum flokki ekki endilega til góða, en þannig er það og við það verða menn að sætta sig. Menn verða að ganga til verka með opnum huga, gera það sem er ásættanlegt af því sem bíður, standa við það sem maður gerir og trúa því að horft sé á það raunsætt.

Ég held að á síðasta kjörtímabili hafi engum blandast neitt hugur um það hvernig ríkisstjórn sat í landinu. Það var líka ákveðin tilfinningasemi í þeirri ríkisstjórn. Það var tekist á í ríkisstjórninni. En síðan kom ný ríkisstjórn og það er oft verið að tala um hvernig hún birtist fólki. Fyrir mér er það alveg ljóst hvernig ríkisstjórn þetta er. Þetta er nefnilega ríkisstjórn doðans. Þetta er gjörsamlega tilþrifalaus ríkisstjórn sem rúllar einhvern veginn áfram í verkum sínum, algjörlega tilþrifalaus. Og það er eiginlega besta lýsingarorðið á ríkisstjórnina sem er með svo mikil deyfðarmerki yfir sér, tilþrifaleysi.

Hvað er það t.d. í hinum beinu samskiptum ríkisstjórnar og Alþingis sem á að vera til þess fallið að fanga athygli þjóðarinnar, sem á að vera til þess fallið að sýna þjóðinni hvaða framtíðarsýn viðkomandi ríkisstjórn ber fram? Ja, það er t.d. boðskapurinn sem settur er fram við stefnuræðu forsrh. og það er boðskapurinn sem birtist í fjárlögum hverju sinni. Þarna kemur boðskapur þeirrar ríkisstjórnar sem situr við völd og frá þeim skilaboðum sem koma við þessar aðstæður á þjóðin að geta áttað sig á hvert stefnir og á hverju hún á von.

En er það þá svo að þjóðin skynji framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn í stefnuræðu forsrh., í fjárlögunum sem borin eru fram? Við getum tekið fjárlögin í fyrra og fjárlögin núna. Mitt svar er nei. Nei, það er nákvæmlega engin framtíðarsýn t.d. í fjárlögunum í ár og hefur ekki verið á þeim 20 mánuðum sem ríkisstjórnin hefur setið. Engin tilþrif, engin framtíðarsýn, engar tilfinningar. Bara doði. Og það er það sem er svo merkilegt þegar maður er að ræða við fólk úti í þjóðfélaginu um pólitík að þegar maður ræðir um pólitískar áherslur, pólitísk viðhorf hjá því fólki sem maður spjallar við, þá skortir ekki á þau. En þegar maður spyr: Já, en hvers vegna? Af hverju líður þér svona eins og þér líður, þá er svarið: Það þýðir ekkert. Það þýðir ekkert að hafa áhyggjur af þessu. Það gerist ekkert. Ég skil þetta ekki. Það er ekkert að marka hvað stjórnmálamennirnir segja. --- Þetta er það sem við höfum uppskorið með þeirri ríkisstjórn sem var stofnuð fyrir 20 mánuðum. Það er ekkert að marka það sem stjórnmálamenn segja vegna þess að það er engin tenging frá orðum til athafna.

Er t.d. einhver boðskapur um áherslur í menntunarmálum að finna í tillögunum í þessu frv. til fjárlaga? Eru einhverjar nýjar áherslur? Er eitthvað sem rennir stoðum undir þau orð sem eru notuð svo fallega í hátíðarræðum ráðherranna um nýsköpun í atvinnulífinu? Um nýsköpun í menntun unga fólksins? Um fjárfestingu í mannauðnum, unga fólkinu í landinu --- upprennandi kynslóð sem sé að vaxa upp í þjóðfélagi sem er gjörbreytt, sem þurfi að búa sig undir að taka við verkefnum í gjörbreyttu þjóðlífi, sem þurfi að búa sig undir meiri tæknivæðingu, meiri verkmenntun o.s.frv.? Þetta eru allt bútar og setningar úr ræðum menntmrh. og forsrh., sem hafa verið fluttar úr þessum ræðustól, úr öllum hátíðarræðum í skólum landsins og við hin ýmsu tækifæri.

[23:15]

Það er nákvæmlega enginn boðskapur af þessu tagi í frv. til fjárlaga 1997. Hann birtist ekki heldur í fjárlagatillögunum núna nema síður sé vegna þess að á viðkvæmum stöðum er dregið úr framlögum til menntamálanna á enn annan hátt en áður hefur þekkst. Þetta er það sem blasir við.

Þá getum við spurt: Er einhver boðskapur í þessum fjárlögum um sértæk úrræði til almennrar atvinnuuppbyggingar? Einhver sértæk úrræði? Nei, það er ekkert slíkt að finna hér. Það voru bara tillögur Framsfl. fyrir kosningar þegar verið var að búa til þessa fallegu sjónvarpsauglýsingu um að öll börn mundu verða eitthvað þegar þau yrðu stór. En núna 20 mánuðum seinna eiga börnin sem eru að vaxa upp ekki að verða neitt sérstakt þegar þau verða stór nema ef svo vel tekst til að hagvöxturinn skili einhverju í menntakerfið og atvinnulífið og skapi fjölbreytni í störfum og fjölgi þeim.

Er verið að verja eitthvað sérstakt í þessu frv. til fjárlaga? Eru stjórnarflokkarnir að takast á á einhvern hátt af tilfinningu um verkefni sem eru að lenda undir niðurskurðarhnífnum og, við skulum segja að annar flokkurinn, sá sem heldur um útgjaldaráðuneytið, segir: nei þarna staldra ég við --- þennan málaflokk á að verja, þarna verður ekki skorið. Nei, það er heldur ekki svoleiðis. Það er ekki verið að verja málaflokk fatlaðra t.d., sem búið er að standa vörð um á átta ára samdráttarskeiði --- það er ekki verið að verja hann. Nú er ekki einu sinni staðið við löggjöf sem sett var og þýðingarmikil hefur verið um að erfðafjárskatturinn renni í framkvæmdasjóðinn. Það er öllu hent fyrir róða sem máli skiptir og snertir viðkvæma málaflokka. Það eru ekki nokkrar tilfinningar í pólitíkinni í þessari samsteypustjórn. Það lætur allt undan og það er ekkert sem er heilagra en annað.

Er þá verið að gera átak í uppbyggingu t.d. félagslegs húsnæðis eins og var á síðasta kjörtímabili og skipti verulegu máli á þeim tímum þjóðarsáttar þegar launin voru fryst og svo mikill fjöldi láglaunafólks bjó við mjög skertar tekjur og tók á sig miklar skerðingar í sameiginlegu átaki ríkis og stéttarfélaga til þess að ná niður verðbólgu? Nei, það er ekkert svoleiðis. Það þarf ekki að mati þessarar ríkisstjórnar. Að mati þessarar ríkisstjórnar er meira að segja búið að ákveða að nóg hafi verið gert. Svo mikið að það þurfi meira að segja að breyta þessu. Spurning sé hvort eigi ekki bara að afnema félagslega kerfið og skoða það að einkavæða þetta. Alla vega er boðskapurinn sá að það hafi streymt svo mikið út af félagslegum íbúðum að sveitarfélögin hafi ekki einu sinni vitað hvað þau voru að gera þegar þau pöntuðu þær þannig að það liggi eiginlega fyrir að of mikið sé af félagslegu húsnæði. Það er ekki svoleiðis átak í gangi. Er eitthvað annað sem er þá hægt að líta á þar sem ekki er um það að ræða að verið sé að verja málaflokk fatlaðra? Það er ekki verið að byggja upp félagslegt húsnæði, það er verið að gera það tortryggilegt. Er eitthvað annað sem verið er að verja í þessum málaflokki? Fatlaða? Sjúka? Nei, það er heldur ekki verið að verja sjúka. Það er ekkert í þessu fjárlagafrv. sem sýnir að verið sé að standa vörð um sjúklinga eða taka á þeim málum --- ekki á biðlistunum.

Þá komum við aftur að því sem ég nefndi áðan, að hefðin hefur verið að stóra umræðan verði við 2. umr. fjárlaga. Þá er búið að hnýta hnútana, þá liggur fyrir hvað á að gera í þeim málum sem ekki voru tilbúin 1. september þegar fjárlagafrv. var lagt fram en ekki núna. Við erum búin að heyra og fá sendar á faxi endalausar upplýsingar. Fara í heimsókn til sjúkrahúsanna, fá að vita hvernig staðan er og við vitum að það er búið endurskipuleggja og endurskipuleggja og hagræða og hagræða og enn þá vantar fjármagn. Og enn þá er ríkisstjórnin ekki búin að koma sér saman um hvernig hún ætlar að taka á málum varðandi sjúkrahúsin. Hvort á að veita fjármagni þangað inn og ef svo hve mikið. Það er enn óljóst og það er föstudagurinn 13. desember.

Er þá boðskapur í fjárlagafrv. eða í farvatninu frá þessari ríkisstjórn um bættan hag launafólks eða t.d. bættan hag þeirra sem hafa lent í erfiðleikum eða ógæfu eða fæðst með annað veganesti en sumir aðrir? Þeir eru þess vegna bundnir því að búa í landi þar sem er gott velferðarkerfi og gott tryggingakerfi. Af því að sumum er nauðugur sá kostur að lifa af tryggingabótum og eiga ekki kost á því að vera á vinnumarkaði og sækja sér laun eða sýna með kraft og dug að þegar 8 stunda vinnudagur dugir ekki lengur þá sé hægt að fara í 10 stundir eða 12 stundir ef vinnu er að hafa. Er boðskapur í þessu fjárlagafrv. um að það eigi bæta hag þessa fólks, t.d. að tengja tryggingabætur við launin eða t.d. að hækka þær sérstaklega --- að verja þar einhvern hóp? Nei, ekkert svoleiðis hjá þessari ríkisstjórn. Það er ekki verið að taka á því. Eða lagði þessi ríkisstjórn áherslu á það í einhverju af þeim skattalagafrv. sem komu fram á þessu hausti, og sem menn hafa verið að hamast við að afgreiða núna í desember, að breyta skattamálum einstaklinga og launafólks, breyta jaðarsköttunum sem allir voru sammála um að hefðu ekki þróast á réttan hátt fyrir kosningar, núverandi stjórnarflokkar, fyrrverandi stjórnarflokkar, núverandi stjórnarandstaða? Nei. Eftir 20 mánaða stjórnarsetu hefur ekki gefist tími til þess að skipa nefnd nægilega tímanlega til þess að fyrir þessi jól væri hægt að leggja fram frv. um breytingar á jaðarsköttunum. Það verður að bíða. Sú nefnd mun skila af sér, kannski einhvern tímann á útmánuðum. Það þýðir að frv. verður kannski lagt fram fyrir vorið --- kannski. Það þýðir að jafnvel þó það verði að lögum fyrir vorið þá mun það ekki koma til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. Og þá á þessi ríkisstjórn bara eftir u.þ.b. 16 mánuði af kjörtímabilinu.

Þetta eru framkvæmdirnar hjá ríkisstjórninni varðandi fólkið í landinu. Þannig setur þessi ríkisstjórn fólk í fyrirrúm eins og svo oft er búið að endurtaka hér. En það sem er merkilegt þegar maður horfir á ríkisstjórnina og umhugsunarefni að það eru engin átök um nokkurn skapaðan hlut því í raun reynist það sem hljómaði eins og ágreiningur á stundum vera eins og stormur í vatnsglasi. Hún er tilþrifalaus og tilfinningalítil og sumum finnst það e.t.v. gott en við eigum að setja spurningarmerki við það. Það er samstaða um niðurskurð, ekki bara sums staðar heldur alls staðar vegna þess að það er ekkert sérstakt sem á að verja og það er ekkert sérstakt sem er sett í forgang. Þess vegna er samstaða um niðurskurð alls staðar af því ekkert er heilagt. Þegar t.d. er blásið í lúðra yfir stórmáli á milli stjórnarflokkanna eins og veðsetning á kvótanum, þá er sett upp smáleikrit. Það eru átök um hvort eigi að veðsetja kvótann. Hvort eigi að veðsetja auðlindina --- óveidda fiskinn í hafinu. Og það eru miklar yfirlýsingar manna í stjórnarflokkunum og svo allt í einu er tjaldið dregið frá og tilkynnt að kvótinn verði ekki veðsettur, bara skipið með kvótann innan borðs. Auðlindin er komin inn í skipið, verður veðsett með skipinu. Auðlindin verður ekki framseld nema með leyfi veðhafans og þinglýstu leyfi veðhafans og allir hrópa hallelúja. Mjög góð lausn, málið leyst. En auðlindin verður veðsett með skipinu. Og heimildin til þess að framselja eða leigja, alveg óháð því hvað manni finnst um framsal og leigu, er háð bankastjórunum. Svo einfalt er það. Ef þetta heitir ekki Nýju fötin keisarans þá hef ég ekki skilið boðskapinn í þeirri sögu rétt sem barn og sem fullorðin manneskja lesandi hana fyrir mín börn.

Það er Sjálfstfl. sem ræður fullkomlega ferðinni í þessari ríkisstjórn. Framsfl. sinnir hlýðinn verkunum sem honum eru falin. Tilfinningaræður síðasta kjörtímabils eru alveg gleymdar. Þau eru alveg gleymd stóru málin sem var farið fram með hérna. Ég get nefnt eitt, greiðsluaðlögun. Það var eitt leikritið að leggja fram frv. í vor sem áttu að koma í staðinn fyrir greiðsluaðlögun. Ég held að sum úrræðin, m.a. þau sem sneru að hugsanlegri niðurfellingu skatta hafi hvergi verið kynnt enn sem komið er. Núna er allt svo gott sem gjört er og það er búið að fara rækilega í gegnum það í ræðum hér í dag hver kosningaloforð Framsfl. voru og hversu brosleg þau eru í dag vegna þess að þau eru algjört ómark. Það hvarflar ekki að mér að fara að tína þau upp. Mér fyndist það fullkomin tímaeyðsla. En það er Sjálfstfl. sem ræður ferðinni. Og Sjálfstfl., hver er hann? Já, ég sé að presturinn lyftir höndum, kunnuglegt handtak. Hann er stundum sagður flokkur verkamannsins. Ég minnist þess að hafa heyrt slíkar hátíðarræður að enginn flokkur njóti stuðnings eins stórs hlutfalls verkafólks og Sjálfstfl. Hann er flokkur allra stétta. Jafnvel hafa þingmenn Sjálfstfl. í gegnum tíðina sagt að hann sé eiginlega eins konar jafnaðarmannaflokkur, ef hann bæri sig saman við jafnaðarmannaflokka Norðurlanda. Hvað boðar þessi flokkur og hvað vill hann? Það er umhugsunarefni vegna þess að allir flokkar hafa verið að halda flokksþing eða landsfundi núna í haust nema Alþb. sem hélt slíkan fund í fyrra. Og það sem er flestum eftirminnilegast frá landsfundi Sjálfstfl. er hvað mátti og hvað mátti ekki. Það má tala um þetta, það má ekki tala um þetta. Það má flytja tillögu, það má ekki flytja tillögu. Ef forsetarnir héldu að það væri einhver vafi á að flokksþingið hefði fylgst vel með, þá var þess getið þegar tillögur voru bornar fram að forsrh. styddi þessa tillögu til að tryggja það að menn skildu að þessi mátti fara í gegn.

[23:30]

Það er Sjálfstfl. sem ræður fullkomlega ferðinni í þessari ríkisstjórn upp á gott og vont. En það er Framsfl. sem fékk bágt fyrir lögin sem voru sett á stéttarfélögin í fyrra, lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Það var Framsfl. sem fékk bágt fyrir það af því að Framsfl. er með félmrn. Þess vegna er það nú svo að meðan ég er að draga það fram að stefna þessarar ríkisstjórnar og sérstaklega Sjálfstfl. er stefnan hægt og hljótt, ýta varlega fram máli eftir máli sem vindur ofan af velferðarkerfinu hægt og hljótt, þá er það samt þannig að það er ekki Sjálfstfl. sem situr uppi með gagnrýnina hverju sinni um hvert skref sem er stigið. Það er samstarfsflokkurinn sem er ráðist heiftarlega á fyrir það að standa ekki vörð um málaflokk fatlaðra eins og gert var á átta ára þrengingartímabili. Það er ekki verið að tala við Sjálfstfl. um það. Það er Framsfl. sem fékk fyrst og fremst bágt fyrir að hafa sett lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, sett lög á liðið, eins og sagt var í vor. Sjálfstfl. var til hlés. Sjálfstfl. var svona ósýnilegur til hliðar og horfði annað, oft afskaplega fallega fram á veg eins og honum kæmi þetta ekkert við eða eins og sá sem varpað hefur syndum sínum bak við sig af því að það er annar sem er með þær og honum kemur þetta eiginlega ekkert við.

Af hverju er þetta? Þetta er vegna þess að það er samstarfsflokkurinn sem er með útgjaldaráðuneytin. Það er samstarfsflokkurinn sem er með félagslegu ráðuneytin þar sem útgjöldin eru og það er niðurskurðurinn þar sem er of erfiður og átakasamur. Það veit heilög hamingjan að það gekk oft mikið á í mínum flokki í vinnunni við fjárlög og það var ekki átakalaust að taka á í útgjaldaráðuneytunum sem við vorum með. Mér finnst eiginlega engin minnkun að því að það hafi verið tekist á og það hafi oft verið tilfinningaátök um það sem þurfti að gera. En Sjálfstfl. bæði þá og nú sat hjá og beið átekta eins og flokkur sem er mjúkur, hjalar og breiðir yfir og segir bara: Svona gerum við ekki, elskurnar mínar.

Hvernig má það vera að flokkurinn sem er með fjmrn. skuli sleppa svona auðveldlega frá fjárlagagerðinni og niðurskurði? Hér áður fyrr stóð fjmrh. í ströngu. Hann var eiginlega í myndrænni samlíkingu blóðugur upp fyrir axlir. Hann þurfti að verja stefnu og hann þurfti að verja aðgerðir vegna þess að hann var ábyrgur fyrir fjárlögunum og fjárlagaaðgerðunum en ekki nú vegna þess að það eru nýrri tíma vinnubrögð að búa til ramma fyrir öll ráðuneytin. Það er engin sérstök forgangsröð ríkisstjórnar eins og við sem höfum starfað í sveitarstjórn þekkjum úr sveitarstjórnarvinnunni þegar við sameinumst um það að ákveðnir málaflokkar verði annaðhvort sérstaklega varðir eða tekið sérstaklega á í málaflokkum af því að saman ætla menn að setja slík mál í forgang. Slíkt þekkist ekki í samsteypustjórnum eins og þeim sem Sjálfstfl. hefur stýrt undanfarin ár vegna þess að þar eiga allir að búa við sama rammann og þar er ekkert merkilegra en annað. Allir fagráðherrar skulu skera í sínum fjárlögum og þar er lagt að jöfnu hvort skera þarf sjúkrahús eða eitthvað annað. Þar er engu meiri áhersla lögð á byggingu sjúkrahúss eða barnaspítala en t.d. dómshúss nema síður sé og má þá vísa til þess hversu glæsilegt dómshús hefur risið hér á sama tíma og hefur verið erfiður niðurskurður á sjúkrahúsum í landinu.

Þannig verður forgangsröðunin þegar sami rammi er yfirfærður á öll ráðuneyti óháð því að ríkisstjórnin sem hópur setji sér markmið og ákveði að einhver mál bíði síðari tíma af því að önnur eigi að hafa forgang. Þetta er hagstjórn hins síðari tíma og þetta gerir það að verkum að þegar félagi minn Guðmundur Árni lýsir því yfir að hann þurfi ekkert á fjmrh. að halda í þessari umræðu vegna þess að þetta sé umræða Alþingis, 2. umr., þá skiptir það litlu máli fyrir fjmrh. vegna þess að hann situr yfir þessari umræðu þolinmóður, svolítið þreyttur á þrasinu í okkur. Hann svarar okkur svona eftir því sem verkast vill og verður eiginlega að gera það vegna þess að fagráðherrarnir eru yfirleitt ekki hér þótt þeir hafi setið hér á tímabili í kvöld. Þeir eru yfirleitt ekki hér og láta sig litlu varða hvað hér er sagt, enda eiga þeir eingöngu að vera hér til að svara spurningum. Þannig hafa þessi mál þróast á liðnum áru og breyst úr því að vera stefnumál fjmrh. sem ber ábyrgð á fjárlögum, svarar fyrir þau og tekur við gagnrýninni yfir í að verða þannig að fjmrh. situr hér sem þreyttur eftirlitsaðili tilbúinn að svara fyrirspurnum nokkuð tilþrifalítið vegna þess að þetta voru mál fagráðherranna.

Það hefur verið farið vel í gegnum viðhorf minni hlutans sem hann hefur sett fram í góðu nefndaráliti og hefði verið mikil ástæða til að staldra við mörg atriði, en ég ætla einungis að staldra við fá þeirra. Í kaflanum um fjárhagsstöðu heimilanna er vikið að gríðarlegri skuldasöfnun heimilanna og greiðslubyrði lánanna. Það er lögð mikil áhersla á að ráðstöfunartekjur heimilanna á heilu ári duga ekki til uppgreiðslu þegar alvarlegur vandi blasir við. Menn reyna að skýra þessa óhagstæðu þróun í fjármálum heimilanna og nefnt að stór hluti hennar stafi af því að einkaneysla sé fyrst og fremst fjármögnuð með lánum og undirrótin að einhverjum hluta óhófleg bjartsýni um framtíðartekjur. Þetta er hárrétt, en það sem er full ástæða til að staldra við jafnframt eru lágu launin. Lágu dagvinnulaunin eiga svo ríkan þátt í stöðu heimilanna en þjóðin er orðin svo slævð, það er orðin svo mikil slæving með þjóðinni út af launamálum að hún birtist í ótta við það að hér verða sett lög um styttri vinnutíma sem er sennilega mikilvægasta atriðið fyrir launamyndunina hjá okkur vegna þess að með því einu gæti það gerst að vinnutíminn styttist án þess að drægi úr launun vegna þess að launin eru svo lág að það eru eiginlega allir sem gera sér grein fyrir því að ef lögbundin verður styttri vinnuvika, þá verður að dreifa tekjunum á færri vinnustundir. Það blasir við. En ótti fólks er við lögin og við styttri vinnutíma vegna þess að eina leiðin til þess að hafa einhverja afkomu er að reyna að fá eins mikla vinnu og unnt er á hverjum vinnustað. Meðan við erum við aðrar aðstæður að ræða um vinnutíma í öðrum löndum, vinnutíma á bak við afkomu fjölskyldnanna eins og í samanburðinum við Danmörk sem við höfum rætt hér, um lífskjaraskýrsluna svokölluðu, þá verða viðbrögðin hér ótti við að lög verði sett á sem stytti vinnutímann. Þetta segir okkur allt um hversu þjóðin er orðin slævð í viðhorfum sínum til launamála og til vinnu. Við erum með svo ógagnsætt launakerfi og það er alveg óbærilegt hvað hægt gengur að breyta. Þess vegna er hægt að bæta við spurningar mínar hér áðan. Eru einhver merki um það í þessum fjárlögum að það eigi að taka á þessum málum með einhverjum hætti eða kjaramálunum, einhver boðskapur sem væri hægt að lesa út úr þessum fjárlögum um komandi kjarasamninga? Enn er svarið nei.

Í nefndaráliti minni hlutans er bent á góða spá þar sem er þjóðhagsáætlun til aldamóta. Þar sé gert ráð fyrir að fjárfestingar aukist verulega hjá fyrirtækjum og heimilum, að framleiðni í þjóðarbúskapnum aukist, heildarútflutningur aukist um 3,5% og aukning innflutnings um 3% og ef þessi spá gangi eftir muni viðskiptahallinn snúast og afgangur verða. Þetta er auðvitað mjög jákvæð og góð spá, en strax í kjölfarið er bent á litla fjármunamyndun sem alvarlega meinsemd í efnahagsstjórn okkar. Það er auðvitað umhugsunarefni um leið og bent er á hve lítil fjármunamyndun er og í raun og veru hvað það er alvarlegt mál varðandi fjárfestingar og nýsköpun í atvinnulífinu þannig að það verði unnt að fjölga störfum í gegnum fyrirtækin, að fyrir utan það hversu lítil fjármunamyndun er, þá er það umhugsunarefni að mörg einkahlutafélög virðast skila svo litlum hagnaði að rekstraraðilar þeirra bera varla nokkra skatta, leggja varla nokkurn hlut til hins opinbera. Þar sem um er að ræða einyrkja og lítil einkahlutafélög, þá virðist svo að hvorki fyrirtækin né eigendur þeirra leggi nokkurn hlut til samneyslunnar, ekki einu sinni þar sem um er að ræða verulega mikil umsvif, bæði í glæsihúsum, bílum, bátum og lífsstíl. Það er verulegt umhugsunarefni fyrir okkur.

Ég vil benda þingmönnum á það sem segir í nefndaráliti minni hlutans um laun og atvinnumál og vaxandi óþolinmæði og gremju launafólks varðandi kjör sín. Það er mjög mikilvægt að þingmenn haldi því til haga að þjóðarsáttarsamningarnir byggðust á því að verkafólk axlaði byrðarnar af því að koma stöðugleikanum á. Það voru allir sem trúðu því að ef það næðist að festa stöðugleikann í sessi, ná niður verðbólgunni og ná niður vöxtunum, þegar þessu átaki linnti mundi koma batnandi hagur til launafólks og verkafólks, þeirra sem minnst bera úr býtum. Það hefur ekki gerst og það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að við erum komin í skuld við þetta fólk. Það verður ekki nokkur leið að reyna að sannfæra þessa hópa um að þeir eigi enn að bíða átekta núna þegar er búið að hafa svona mörg orð um hagvöxtinn sem öllu á að bjarga, sem á að skapa störfin og sem á að framkvæma öll kosningaloforð Framsfl. Það verður ekki hlustað á það í þessum kjarasamningum þannig að það verður gengið hart eftir viðbrögðum stjórnarliða að þessu sinni.

[23:45]

Ég sagðist ekki ætla að fara inn á marga þætti í þessu nefndaráliti en ég ætla að víkja örlítið að heilbrigðismálunum og félagsmálunum. Það hefur hangið yfir umræðunni um fjárlög að ríkisstjórnin ætli bæði að selja ríkiseignir og að skera niður framkvæmdir svo sem í vegamálum og það flaug fyrir að þannig ætti að ná niður eins og þremur milljörðum af því að menn óttuðust þensluna sem yrði ef álver risi hér á næsta ári, jafnvel þótt það yrði ekki fyrr en margir mánuðir væru liðnir af því ári. Það lá svo mikið í loftinu að það gekk treglega að nýta tímann hjá fjárln. síðustu tvær helgar og við áttum von á því að þegar yrði loks tekið til við þessa fjárlagaumræðu, þá hefðu þau mál skýrst. Það hefur ekki heldur gerst. Það hefur ekki gerst að það liggi fyrir tillögur um sjúkrahúsin þrátt fyrir að dregist hafi að fara í 2. umr. Og það er óviðunandi þegar við tökum þessa svokölluðu stóru umræðu um fjárlög ríkisins að vera með óafgreidda slíka stóra þætti og vita hvorki hvað á að gera í sjúkrahúsmálunum, alveg eins og Guðmundur Árni Stefánsson benti á, vita ekki hvað á að gera í sjúkrahúsum úti á landi, vita ekki hvaða framlög verða til sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu, né hafa nokkrar hugmyndir um það hvort skera eigi niður í vegaframkvæmdum. En það sem blasir við, virðulegi forseti, er að á þessari stundu hafa þau mál ekki verið upplýst.

Það hafa aðrir farið í gegnum menntakerfið og þá upplausn sem það er í og ég ætla ekkert að staldra við það. Ég hef þegar nefnt að í þessu fjárlagafrv. finnist ekki boðskapur um þau fallegu orð sem viðhöfð eru um að það sé fjárfesting í menntuninni. Ég vil hins vegar nefna það varðandi menntunarmálin að miklar vonir eru bundnar við tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna og við skulum aldrei gleyma því, af því að það er svo oft talað um framhaldsskólana og háskólann í þessum sal, að menntamálin byrja í grunnskólanum og jafnvel enn þá fyrr. Við náum aldrei árangri í menntamálum nema grunnskólinn sé sterkur og þar sé lögð rétt áhersla. Ég er ein þeirra sem trúa að grunnskólinn hjá sveitarfélögunum sé það sem þurfi til þess að grunnskólinn eflist. En þá þarf jafnframt að hlúa að sveitarfélögunum og gera þeim kleift að axla þessa ábyrgð. Ég geri mér fullkomlega ljóst að það voru fluttir tekjustofnar til sveitarfélaganna með grunnskólanum, nákvæmlega það sem þurfti miðað við útreikning á því sem þeir þættir kostuðu sem nú fóru til sveitarfélaganna.

En það eru aðrir hlutir að gerast. Það er verið að setja ný og ný lög sem gera kröfur á sveitarfélögin. Hægt og sígandi hafa verkefni verið að þokast til sveitarfélaganna, verkefni sem hafa virst saklaus á einhverjum tíma. Síðan eru sett lög og reglugerðir sem gera miklar kröfur til sveitarfélaganna. Hægt er að nefna síaukin útgjöld sveitarfélaganna varðandi umhverfismál og umhverfisreglugerðir sem að sjálfsögðu verða að vera og varðandi holræsaframkvæmdir og annað slíkt. En þetta eru verkefni sveitarfélaganna þar sem þau fá enga sérstaka tekjustofna til að framkvæma. Mörg þeirra eru að fást við gífurlega þung verkefni sem hafa orðið til vegna laga sem við höfum sett og bara ávísað og ýtt yfir á sveitarfélögin án þess að huga af því hvort þau yfirleitt ráði við þessi verkefni. Það er afar hætt við því að ef menn gæta sín ekki að skoða hvað er hjá sveitarfélögunum af slíkum verkefnum, þá höfum við hagað verkum þannig að sveitarfélögin hafi þurft að taka yfir miklu stærri viðfangsefni en þau eiga auðvelt með að sinna með þeim takmörkuðu tekjustofnum sem þau hafa. Ég hef heyrt í mörgum sveitarstjórnarmönnum sem hafa áhyggjur af þessu. Það á eftir að byggja mjög mikið upp í grunnskólanum til að hann geti orðið heildstæður. Það er mikill vilji til þess og ég er fylgjandi því að málefni fatlaðra fari til sveitarfélaganna. Nú er verið að skera niður í þeim málaflokki og ef hann fer skertur til sveitarfélaganna þannig að það er búið að draga niður í málaflokknum þegar hann er fluttur, þá er hætt við að tekjurnar sem fara til sveitarfélaganna verði af skornum skammti. Að þessu verðum við að gæta og vera stöðugt á varðbergi vegna þess að sveitarfélögin eru með þýðingarmestu verkefnin, þau sem snúa að fjölskyldunni og nánustu verkefnunum sem snúa að einstaklingunum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um fjárlögin nema að geta um tvennt. Annað er álit minni hluta félmn. varðandi ráðstafanir í ríkisfjármálum og um fjárlögin sem lýtur að starfsmenntun í atvinnulífinu, Framkvæmdasjóði fatlaðra og niðurskurðinum þar. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um Framkvæmdasjóð fatlaðra né minna á það sem allir vita hér að erfðafjárskattur á samkvæmt lögum að renna óskiptur til sjóðsins. Framkvæmdasjóðurinn hefur ákveðin verkefni og hefur reyndar tekið á sig nokkur rekstrarverkefni sem eru fyrst og fremst ný og komu í lögum um málefni fatlaðra fyrir fjórum árum og miðuðu við að draga úr þörfinni fyrir byggingu stofnana og stuðluðu að sjálfstæðri búsetu fatlaðra og möguleikum þeirra til að vera úti á vinnumarkaði. Þess vegna var það samþykkt að slík liðveislu- og stuðningsverkefni væru hjá framkvæmdasjóðnum. Nú er búið að skera sjóðinn niður. Að vísu er búið að flytja þessi rekstrarverkefni út á svæðisskrifstofurnar, en það er líka búið að skera framkvæmdasjóðinn niður um 255 millj. Þetta er gjörningur sem ekki er ásættanlegur. Þessu hefur minni hluti félmn. harðlega mótmælt, bæði til efh.- og viðskn. og fjárln.

Ég vil líka rifja upp enn á ný sem ég er margoft búin að tala um í þessum stól og það er hversu mikilvæg starfsmenntun í atvinnulífinu er. Hún er mikilvægt úrræði fyrir fólk á vinnumarkaði og Starfsmenntasjóður hefur veitt þúsundum á vinnumarkaði stuðning við endurmenntun og símenntun. Hann gefið fólki tækifæri til þess að umskóla sig til að fara í önnur og öðruvísi verkefni en það áður var í. Alls staðar hjá þjóðum sem hafa verið að þróa sig hefur þetta verið einn þýðingarmesti þáttur menntakerfisins. Hann er öðruvísi og til hliðar við hefðbundið menntakerfi en gífurlega þýðingarmikill.

Nú er búið að ákveða að setja þennan starfsmenntasjóð inn í Atvinnuleysistryggingasjóðinn ásamt framlögum til atvinnumála kvenna. Það verður að segjast eins og er að upphæðin er á þessu hausti ekki skorin niður. Hún er 47 millj. í starfsmenntasjóðinn og hún er 20 millj. í atvinnumál kvenna. En það er búið að fella þetta undir Atvinnuleysistryggingasjóð og af því að sá sem stjórnaði því verki að smíða nýtt frv. um Atvinnuleysistryggingasjóð hefur látið í ljós þær skoðanir að ríkið eigi ekki að vera með námskeiðahald eða starfsmenntaverkefni önnur en hefðbundna skóla og námskeið fyrir atvinnulaust fólk, þá er ég sannfærð um að sá gjörningur að flytja starfsmennun í atvinnulífinu undir Atvinnuleysistryggingasjóð er fyrsta skrefið, e.t.v. af tveimur, e.t.v. af þremur, í að á næstu fjárlögum hverfi þessi úrræði. Það er stórmál að okkur takist að afstýra því að þessi mikilvægi sjóður verði felldur undir Atvinnuleysistryggingasjóð og hverfi þar með hægt og hljótt eins og svo margt gerist, hægt og hljótt, hjá þessari ríkisstjórn. Þess vegna eigum við að halda því vakandi að þessu verði breytt og ekki gefa okkur fyrr en í fulla hnefana.

Virðulegi forseti. Ég ætla í lok máls míns að mæla fyrir breytingartillögum á þskj. 339. Það eru breytingartillögur sem þingflokkur jafnaðarmanna flytur við frv. til fjárlaga, 2. umr. og þær eru í átta liðum. Fyrsti liður er um Byggðastofnun þar sem þingflokkurinn leggur til að framlag til Byggðastofnunar lækki. Sá boðskapur er í þessari tillögu okkar að við viljum stokka þessi mál upp. Við lítum á að tilraunin með að Byggðastofnun sé sú stofnun sem efli dreifbýlið og sé skapandi fyrir byggðastefnu í þessu landi, hafi runnið sitt skeið. Það hefur komið fram í umræðum um skýrslu Byggðastofnunar á liðnum árum þar sem yfirleitt er bara farið yfir verkefnið og sagt til hvers hefur verið veitt en hvorki gerð tilraun til þess að leggja mat á hvort úrræðin leiddu til þess sem vonast var til í upphafi né reynt að skilgreina hvort það hafi verið rétt mat að veita styrkina eða framlögin þangað sem þau fóru. Eins höfum fengið skýrslu Ríkisendurskoðunar um Byggðastofnun sem hlýtur að vera alvarleg ábending til okkar þingmanna. En fyrst og fremst er í þessari tillögu okkar boðskapur um að Byggðastofnun og Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sem er þriðja tillagan okkar, séu verkefni fortíðar sem er ástæða til að stokka upp.

Við erum með tillögur um að auka framlög til Kvikmyndasjóðs. Við erum með tillögu um að auka framlög í Lánasjóð ísl. námsmanna. Við erum með tillögu um að auka framlög til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi um 70 millj. kr. Íslendingar hafa aldrei staðið við sinn hlut varðandi þróunaraðstoð. Við erum alltaf að heyra að nú séu betri tímar, nú sé hagvöxtur og bjart fram undan og því hljótum við að leggja meira af mörkum í þróunarmál og sýna að við séum meðal þjóða hvað þetta varðar.

Við leggjum til nýjan lið, 20 millj., undir heilbrigðismál. Hann heitir vímuefnavarnir og ég ætla að fara örfáum orðum um þann lið. Mikil áhersla hefur verið lögð á það á undanförnum vikum að ríkisstjórnin sé með nýja stefnu í vímuefnamálum. Sú stefna hefur ekki komið inn á borð okkar þingmanna. Þó vitum við að forvarnasjóði er ætlað að gera mikil kraftaverk. Það hefur verið gagnrýnt mjög mikið hvernig forvarnasjóðurinn hefur verið nýttur þetta ár sem hann hefur starfað. Ég ætla ekki að vera með hrakspár eða rýra gildi hans. Það er alveg ljóst að meira þarf að koma til í vímuvarnamálunum. Í frv. sem jafnaðarmenn lögðu fram fyrir þremur árum og ekki náðist fram á Alþingi þó stjfrv. væri, var lögð mikil áhersla á að fara með fræðslu um áfengi og vímuefni inn í skólana og að veita bæði kennurum og nemendum í Fósturskóla Íslands, Lögregluskólanum og víðar ítarlega og skipulagða undirstöðumenntun í áfengis- og vímuefnafræðum. Það skortir mjög á í þessu enn þann dag í dag. Í skólunum er það fyrst og fremst Lions Quest verkefnið sem kennt er og það er að tilstuðlan annarra en menntakerfis okkar, þó það sé stutt af því. En í tillögum okkar sem eru um að undir heilbrigðismálunum komi nýr liður, 20 millj., vímuefnavarnir, leggjum við áherslu á að heilbrrn. t.d. í samvinnu við landlækni og heilsugæslustöðvar standi fyrir almennu forvarna- og upplýsingastarfi og að slík fræðsla taki sérstaklega mið af þörfum ýmissa hópa í samfélaginu svo sem ungmenna sem horfið hafa frá skyldunámi, foreldra og forráðamanna barna og unglinga, barnshafandi kvenna, stjórnenda farartækja, stjórnenda fyrirtækja og fjölskyldna ofneytenda. Og að það eigi að vera sameiginlegt hlutverk að samræma störf félagasamtaka jafnframt á þessu sviði. Lögð er áhersla á að þetta verk fari fram á vettvangi heilsugæslustöðva og að heilsugæslustöðvar leitist við að finna börn og ungmenni sem eiga við vandamál að stríða vegna neyslu áfengis og annarra vímuefna og koma þeim til aðstoðar í samvinnu við aðra sem starfa á þessum vettvangi.

[24:00]

Jafnaðarmenn hafa lagt fram tillögu að samræmdri heilbrigðisstefnu, þar sem mikil áhersla er lögð á heilsugæslustöðvarnar og þátt þeirra. Þess vegna er mjög mikilvægt að heilsugæslustöðvunum sé gefið tækifæri til að rækja þennan þátt. Ég legg áherslu á að verði þessi tillaga okkar samþykkt verði fjármagni veitt til heilsugæslustöðvanna til að sinna þessu verki. Við erum með tillögu, eins og áður hefur komið fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, um að inn á fjárlagalið fari nýr liður til byggingar barnaspítala. Við teljum ekki ásættanlegt að þetta sé eingöngu að finna í 6. gr. fjárlaga, en mér skilst að þegar sé komin fram einhver yfirlýsing um að koma eigi heimild til að nýta fjármagnið sem fæst með sölu Vífilsstaðalands og er það gott. En við leggjum mikla áherslu á að barnaspítali verði festur sem sérliður í fjárlögunum og að þar komi jafnframt inn að selja land í eigu Vífilsstaða og verja andvirði sölunnar til byggingar barnaspítala. Við setjum þarna fram yfirlit sem sýnir tillögurnar og áhersluatriði okkar. Lækkun framlaga eru til Byggðastofnunar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Við erum að hafna þessari fortíð og við viljum aukin framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna, Kvikmyndasjóðs, þróunaraðstoðar erlendis, til vímuefnavarna og til byggingar barnaspítala og viljum á þann hátt líta til framtíðar með verkefni sem brýn eru.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.