Fjárlög 1997

Laugardaginn 14. desember 1996, kl. 11:25:08 (2220)

1996-12-14 11:25:08# 121. lþ. 44.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:25]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið við 2. umr. fjárlaga er gert ráð fyrir því að þessar 100 millj. kr. verði notaðar til þess að koma til móts við kröfur námsmanna um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna. Gert er ráð fyrir því að breyta reglum um endurgreiðslur og það gert er ráð fyrir því að sögn að taka upp samtímagreiðslur. Það er alveg augljóst mál að þessi upphæð dugir ekki til þess að tryggja samtímagreiðslur á árinu 1997 og hafa engar upplýsingar komið um það með hvaða hætti að því máli verður staðið.

Ég kvaddi mér hljóðs í atkvæðaskýringu, hæstv. forseti, til að undirstrika þetta og leggja á það áherslu að það verður að tryggja það með viðbótarfjármunum að samtímagreiðslur verði teknar upp. En að sjálfsögðu hljóta menn að styðja það skref sem hér er stigið.