Fjárlög 1997

Laugardaginn 14. desember 1996, kl. 11:42:13 (2228)

1996-12-14 11:42:13# 121. lþ. 44.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:42]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Það er augljóst mál að sú reynsla sem fékkst af því að skerða Framkvæmdasjóð fatlaðra er slæm. Það hefur komið niður á þjónustu við fatlaða á undanförnum árum og mun koma niður á þjónustu við fatlaða í vaxandi mæli á næstu árum ef haldið verður áfram á þessari braut. Formaður Þroskahjálpar skrifaði nýlega grein í blað þar sem hann sagði: ,,Skerðing sjóðsins nú er hins vegar meiri en nokkru sinni fyrr og það þrátt fyrir að tekið sé tillit til þess að rekstri hafi verið létt af sjóðnum.``

Með öðrum orðum er hér greinilega um að ræða ljótari umgengni við Framkvæmdasjóð fatlaðra en nokkru sinni fyrr og það er augljóst að það mun koma niður á þjónustu við fatlaða í framtíðinni. Þess vegna styðjum við þá tillögu sem hér er flutt af minni hlutanum í fjárln. um að hækka fjármuni til framkvæmdasjóðsins þannig að hann geti gegnt sínum lögbundnu skyldustörfum á næstu árum með myndarlegum hætti sem hann mun ekki geta með þeim niðurskurði sem hér er gerð tillaga um.