Minning Péturs Sigurðssonar

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:02:50 (2241)

1996-12-16 14:02:50# 121. lþ. 45.1 fundur 142#B minnst látins fyrrv. alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:02]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Pétur Sigurðsson, fyrrverandi alþingismaður, sjómaður og forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði, andaðist í gær, sunnudaginn 15. desember. Hann var 68 ára að aldri.

Pétur Sigurðsson var fæddur í Keflavík 1. júlí 1928. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Pétursson skipstjóri og útgerðarmaður þar og síðar í Reykjavík og Birna Ingibjörg Hafliðadóttir húsmóðir. Hann lauk gagnfræðaprófi í Reykjavík árið 1944, fiskimannaprófi hinu meira í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949 og farmannaprófi 1951. Árið 1961 stundaði hann nám í hagræðingartækni og stjórnunarstörfum hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands.

Pétur Sigurðsson var sjómaður á árunum 1943--1963. Hann var fyrst háseti, síðar bátsmaður og stýrimaður á vélbátum, togurum og farskipum, frá 1952 vann hann á skipum Eimskipafélags Íslands.

Við alþingiskosningar haustið 1959 var hann í kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og hlaut kosningu. Hann var þingmaður Reykvíkinga 1959--1978 og 1983--1987 og landskjörinn þingmaður 1979--1983, sat á 28 þingum alls. Hann var fyrri varaforseti sameinaðs þings árið 1980, kosinn í febrúar.

Erindreki Sjálfstæðisflokksins var hann milli þinga 1963. Frá 1977 til 1992 var hann forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði.

Pétur Sigurðsson var kjörinn til trúnaðarstarfa í samtökum sjómanna. Hann var í stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur 1962--1994 og í miðstjórn Alþýðusambands Íslands 1972--1976. Formaður sjómannadagsráðs var hann 1962--1994 og jafnframt stjórnarformaður Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðra sjómanna, Happdrættis DAS, Laugarásbíós, Bæjarbíós í Hafnarfirði og barnaheimilisins Hraunáss í Grímsnesi til 1992. Hann var í stjórn Fiskimálasjóðs 1983--1987 og formaður öryggismálanefndar sjómanna 1984--1986. Hann var kosinn í vinnutímanefnd 1961 og var formaður hennar og hann átti sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1963--1987, formaður frá 1983. Yfirskoðunarmaður ríkisreikninga var hann 1968--1975. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1967--1972 og 1975--1984, átti sæti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1972 og 1975, í Norðurlandaráði 1983--1987 og í Vestnorræna þingmannaráðinu 1986. Formaður bankaráðs Landsbanka Íslands var hann 1985--1989.

Pétur Sigurðsson var starfsamur röskleikamaður. Starfsferill hans, sem hér hefur verið rakinn, ber vitni um traust sem hann naut og er þó ekki allt talið. Meðal annars vann hann ötullega að stofnun Samtaka áhugafólks um áfengisvandamálið og var í fyrstu stjórn þeirra samtaka. Hæst ber starf hans í þágu sjómanna. Með stuðningi traustra samherja varð mikið ágengt undir forustu hans til hagsbóta fyrir sjómenn, ekki síst hina öldruðu. Á Alþingi átti hann frumkvæði að lögum og ályktunum um hagsmunamál sjómanna og annarra launþega, öryggismál og öldrunarmál. Fjöldi dvalarheimila aldraðra, stórra og smárra, er sýnilegasta vitni um árangur af ævistarfi Péturs Sigurðssonar.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Péturs Sigurðssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]