Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:19:20 (2245)

1996-12-16 14:19:20# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:19]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. en þann minni hluta skipar sá sem hér talar.

Þetta frv. er eitt af nokkrum skattamálum hæstv. ríkisstjórnar sem meira og minna hanga saman eins og reyndar er farið yfir í stuttaralegri greinargerð með frv. Þá þarf að skoða þetta mál m.a. í tengslum við breytingar á vörugjöldum sem gerðar voru í fyrra og fleiri mál eru þarna samhangandi. Þetta tengist einnig tilfærslu á fjármunum frá Atvinnuleysistryggingasjóði yfir í tryggingagjaldshluta tryggingagjaldsins, þ.e. þann hlutann sem rennur til Tryggingastofnunar ríkisins eða í ríkissjóð í reynd. Sömuleiðis er þetta auðvitað í tengslum við aðrar tilfærslur í skattkerfinu sem við höfum gagnrýnt margar hverjar mjög harðlega. Þá nefni ég sérstaklega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við húsbyggingar og viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði á byggingarstað. En tekjuöflunin sem felst í þessu frv. sérstaklega er merkt lækkun vörugjalda og þar með er með þessum breytingum, herra forseti, skattbyrðin í landinu að færast til, frá neyslusköttum og yfir í launatengd útgjöld. Og þó að ekki séu stórir fjármunir á ferðinni kannski í þessu tilviki, þá hlýtur maður að staldra fyrir það fyrsta við slíka áherslubreytingu. Það er auðvitað nokkuð sérstakt, m.a. í ljósi þess að nú hafa menn miklar áhyggjur af þenslu og vaxandi viðskiptahalla og öðru slíku, að einmitt við þær aðstæður skuli menn vera að færa skattbyrði til í skattkerfinu frá neyslusköttum og yfir í launatengd útgjöld.

Í öðru lagi er gefin upp sem meginástæða þessara breytinga, herra forseti, sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar að samræma tryggingagjald milli atvinnugreina í áföngum. Það felur einfaldlega í sér að hækka gjaldið á þær útflutnings- og framleiðslugreinar í landinu sem búið hafa við lægri álagningu tryggingagjalds en aðrar, þ.e. þær greinar sem verið hafa í lægra þrepi, og lækka það að sama skapi á hinar ef ekki eiga að vera nein nettótekjuöflunaráhrif samfara breytingunum fyrir ríkissjóð.

Það er, herra forseti, eðlilegt sjónarmið í sjálfu sér að samræma þessi hlutföll og því er ekki á móti mælt að að mörgu leyti sé það eðlilegast að a.m.k. almenn skattlagning af þessu tagi sé höfð jöfn en að um sértækar aðgerðir, sem miða þá að starfskjörum einstakra greina að breyttu breytanda, sé búið í skattalögum eða fjárlögum með öðrum hætti. En það breytir ekki hinu að með þessum breytingum verða íþyngjandi áhrif fyrir þær sem taka á sig hækkunina og samræmingin felur það óumflýjanlega í sér að skattlagningin færist með auknum þunga yfir á þær greinar sem eru mannaflsfrekar. En það er almennt talinn helsti ókosturinn við launatengd útgjöld af hvaða tagi sem er að þau koma þyngra niður á þeim greinum þar sem launahlutfallið er hátt í tilkostnaðinum og þar sem mannaflsfrek starfsemi er á ferðinni.

Spurningin hlýtur einnig að vakna á hvaða grundvelli þessi samræming er byggð því þar getur komið ýmislegt fleira til greina heldur en sú formúla sem hér er notuð, að um sé að ræða sömu prósentu á launaútgjöldin sem slík. Eins og bent er á í mörgum umsögnum um málið frá ýmsum aðilum á vinnumarkaði geta þar margar aðrar formúlur komið til greina, svo sem þær að um einhverja meðaltalsviðmiðun sé að ræða á hvert starf eða vinnustundir.

Herra forseti. Það er eðlilegt að við þessar breytingar sé skoðað hvernig aðstæður eru hjá hverjum og einum, sem þarna verður fyrir breytingum, að taka þær á sig. Það er staðreynd sem ekki verður falin að þær greinar sem verða kannski fyrir hvað mestum breytingum eru einkum tvær, það er landbúnaðurinn og það er fiskvinnslan. Það gerist vegna þess að í þessum greinum er um mannaflafreka starfsemi að ræða og því verður tæplega haldið fram, held ég, að aðstaða þeirra sé þannig um þessar mundir að þær séu sérstaklega vel í stakk búnar til að taka á sig þessar álögur.

Við sem stöndum á bak við álit 2. minni hluta teljum að óvarlega sé farið í þessar breytingar og hæstv. ríkisstjórn verði að bera ábyrgðina á því hvernig þetta er upp sett því að ekki fer mikið fyrir því einhverjar hliðarráðstafanir eða mótvægisaðferðir séu á ferðinni gagnvart þessum greinum og þarf væntanlega ekki að fjölyrða hér við hv. alþingismenn um til að mynda ástandið í hefðbundinni bolfiskvinnslu. Innan fiskiðnaðarins er það bolfiskvinnslan sem er með langhæst launagreiðsluhlutfallið. Ýmsar aðrar greinar í fiskvinnslu eru meira vélvæddar eða með lægra launahlutfall, t.d. rækjuiðnaðurinn, en hefðbundna bolfiskvinnslan og frystingin eru sá hluti fiskvinnslunnar sem hvort tveggja í senn fær þetta á sig af mestum þunga og býr einmitt um þessar mundir við langverstu afkomuna.

Um landbúnaðinn þarf heldur ekki að fjölyrða, enda leggjast þeir sem tala fyrir hans hönd í þessu máli mjög hart gegn þessum breytingum og ég vísa þar í fskj. I með þessu nefndaráliti sem er umsögn Bændasamtaka Íslands frá 22. nóv. 1996. Þar er ekki síst rætt um stöðu sauðfjárbænda og sauðfjárframleiðslunnar og þá stórfelldu kjaraskerðingu sem menn hafa tekið á sig þar á undanförnum árum. Og því er haldið fram, og verður sjálfsagt ekki mótmælt, að tæpast hafi nokkur önnur stétt í landinu mátt sæta annarri eins skerðingu á sínum kjörum undanfarin ár en einmitt sauðfjárbændur. Það er talið að þetta þýði lauslega áætlað 80--100 millj. kr. auknar árlegar álögur á greinina þegar hækkunin er öll komin fram.

Sömuleiðis nefna þeir hjá Bændasamtökunum í sinni umsögn þetta sama álitamál og ég gerði hér að umtalsefni í upphafi máls míns, þ.e. þessa tilfærslu á skattbyrði frá neysluskatti yfir á atvinnureksturinn eða launatengd útgjöld atvinnulífsins. Síðast en ekki síst nefna þeir, og af eðlilegum ástæðum, að bændur hafi undanfarin fimm ár greitt tryggingagjald, og þar með talið atvinnuleysistryggingagjald, þann hluta gjaldsins sem rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að njóta réttinda í þeim sjóði og fer nú að verða einhver mesti skandall, herra forseti, sem lengi hefur verið uppi hversu hörmulega það hefur gengið að koma vægi á þau mál. Það var mjög harkalega gagnrýnt hér á síðasta kjörtímabili að þáverandi félagsmálaráðherrar stóðu sig illa í þessu máli og komust hvorki lönd né strönd með það að útfæra reglur sem tryggðu einyrkjum eins og bændum, trillusjómönnum og vörubifreiðastjórum eðlileg réttindi til atvinnuleysisbóta. Menn þvældust með þetta fram og til baka og gáfu út gagnslausar reglugerðir og guð má vita hvað sem voru svo illa úr garði gerðar að þær komu fyrir ekki.

Einn af þeim sem hvað vasklegast gengu fram í því að gagnrýna þáv. hæstv. félmrh. var núv. hæstv. félmrh., þáv. óbreyttur hv. þm. Páll Pétursson, (Gripið fram í: Vaskur og reifur.) Vaskur og vígreifur hér, dögum oftar í ræðustóli og hafði hin hörðustu orðum þetta sleifarlag hjá hæstv. félagsmálaráðherraum Alþfl., en þeir voru allmargir eins og kunnugt er á því kjörtímabili og man ég ekki röðina lengur. Það voru endalausar hrókeringar og ýmsir menn urðu meira að segja umhverfisráðherrar og ég veit ekki hvað og hvað. (Gripið fram í.) Þetta var skógarferð, já, ekki Kínaferð heldur skógarferð. En nú er það svo, herra forseti, að hæstv. núv. félmrh. er búinn að vera í embætti sínu í rúmlega eitt og hálft ár, er það ekki, og enn er hæstv. ráðherra að baksa með þetta. Að vísu er hér komið frv., hygg ég, eða a.m.k. veit ég að til er slíkur pappír, er sennilega hér á borðum okkar, um atvinnuleysistryggingasjóð einyrkja og það er viðleitni til þess að koma loksins einhverju í gegn sem tryggir stöðu þessa hóps, en eftir stendur þetta mikla hneyksli að þarna hafa heilar atvinnugreinar, heil stétt eins og bændur, greitt árum saman í þennan sjóð án þess að njóta þar nokkurra réttinda. Vonandi verður þetta mönnum eitthvert umhugsunarefni en svona á auðvitað ekki að ganga frá hlutunum, að byrja á því að skella álögunum á og hefja gjaldtökuna og ætla síðan að leysa það eftir á að úfæra réttindi manna. Auðvitað hefði verið eðlilegt að landbúnaðurinn hefði verið gjaldfrír í einhver ár í nýja kerfinu til þess að vega þetta upp.

[14:30]

Herra forseti. Í öðru lagi vísa ég til umsagnar Samtaka fiskvinnslustöðva sem er fskj. II með þessu nefndaráliti. Þar er komið inn á þá þætti sem ég var að nefna, bæði afkomu fiskvinnslunnar og það hversu mannaflafrekar sumar greinar þar eru og þar af leiðandi hversu íþyngjandi þetta er við þær aðstæður sem við búum við hvað afkomu þeirrar greinar snertir.

Þar er reyndar einnig komið inn á mjög sérkennilegan anga þessa máls sem er tengsl þessara breytinga við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Það hefur satt best að segja verið afar misvísandi og furðulegt hvernig það mál hefur verið notað því að hæstv. ríkisstjórn gaf það út sem eina af meginástæðunum fyrir sínum breytingum að þessu leyti að Eftirlitsstofnun EFTA, sem miklu ræður eins og kunnugt er, hefði verið með aðfinnslur og jafnvel haldið því fram að mishátt tryggingagjald samrýmdist ekki samningnum um Evrópskt efnahagssvæði því það mætti hugsanlega jafna því til einhvers konar ríkisstyrkja að hafa lægra gjald á sumar greinar. Og þvílík svívirða. Það er von að þeir verði þungir á brún úti í Evrópu ef menn eru farnir að ríkisstyrkja sjávarútveg. Þeir þekkja ekki það fyrirbæri, er það, og von að þeir standi alveg á haus af reiði yfir slíkri ósvinnu. Hæstv. ríkisstjórn gaf þessa alveg sérstaklega upp sem ástæðu. Þeir hjá fiskvinnslunni vildu fá um þetta nánari skýringar og skrifuðu hæstv. ríkisstjórn og báðu um að fá það á pappír, svart á hvítu, hvað það væri í EES sem gerði það að verkum að þessu yrði að breyta. Og þar vísuðu þeir m.a. í fréttatilkynningu frá fjmrn., dags. 25. júní sl., en þar var einmitt skýrt frá viðræðum milli íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. En þá gerist það skrýtna að í svarbréfi fjmrn. til Samtaka fiskvinnslustöðva kom fram að þessi fyrirhugaða hækkun á tryggingagjaldi á sjávarútveg væri alfarið innlend pólitísk ákvörðun og þá eingöngu réttlætt með því að óeðlilegt væri að láta skattheimtu eins og tryggingagjald hafa áhrif á innbyrðis stöðu atvinnustarfsemi í landinu. Þá var allt í einu ESA-röksemdin gufuð upp, bara fallin fyrir borð. Auðvitað er það hið sanna í málinu að hæstv. ríkisstjórn er hér að langmestu leyti til að hækka þessi gjöld á greinum sem koma ekkert við EES-samninginn og eru þrælríkisstyrktar í öllum helstu samkeppnislöndum okkar. Það er því alveg út úr kú að nota þau rök að lægra skattþrep þarna geti talist ígildi ríkisstyrkja þegar greinarnar falla alls ekki undir samkeppnisákvæði EES-samningsins eða Evrópuréttarins og eru bullandi ríkisstyrktar í þeim löndum. Hæstv. ríkisstjórn verður að finna sér einhver haldbærari rök og þau eru þá fagurfræðileg aðallega, ef svo má að orði komast, að það fari í hinar fínu taugar hæstv. ríkisstjórnar að tryggingagjald sé eitthvað lægra eða eitthvað öðruvísi skattalegt umhverfi á t.d. höfuðútflutningsatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum, eða landbúnaðinum sem býr við mjög sérstakar aðstæður eins og menn þekkja. Ég get ekki kallað það annað, herra forseti, þegar ESA-röksemdin er gufuð upp en að þetta séu þá aðallega orðnar fagurfræðilegar röksemdir hjá hæstv. ríkisstjórn, að það fari í fínu taugarnar á þeim að þetta sé mismunandi.

En alvarlegast finnst mér, herra forseti, að málafylgja hæstv. ríkisstjórnar, t.d. hvað snertir fiskvinnsluna og bolfiskvinnsluna, sem berst fyrir lífi sínu víða um land einmitt þessa mánuðina, fjölmörg frystihús hafa sagt upp fólki og það mun ekki mæta til starfa eftir áramótin á mörgum stöðum á landinu, fólk sem er að vinna út sinn uppsagnarfrest. Ég hygg að það sé t.d. þannig bæði í Ólafsfirði og í Skagafirði. Og hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera í þeim efnum? Það sem snýr að fiskvinnslunni eða hefur snúið að henni er mörg hundruð millj. kr. útgjaldaaukning annars vegar í formi hækkunar á tryggingagjaldi og hins vegar átti í frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins að festa þar gjaldtöku á fiskvinnsluna langt fram á næstu öld. Nú hefur meiri hlutinn að vísu ákveðið að láta annað duga, það sé nóg að hækka þetta öðrum megin og það mun vera á ferðinni brtt. sem tekur fiskvinnsluna út undan þróunarsjóðsgjaldtökunni frá og með næsta ári. En eftir stendur að það sem hér er á ferðinni er stórlega íþyngjandi fyrir fiskvinnsluna og ekki verður séð að ríkisstjórnin hafi af því nokkrar minnstu áhyggjur að hefðbundin bolfiskvinnsla til að mynda er á stórfelldu undanhaldi og mjög víða að leggjast af. Menn eru að gefast upp á því að halda úti vinnslu í bullandi taprekstri og loka húsunum hverju á fætur öðru.

Nú er ég ekki að segja, herra forseti, að það sé mjög einfalt mál að ráða fram úr þessu og það er ljóst að ekki eru á dagskrá neinar allsherjaraðgerðir eða almennar aðgerðir af því tagi að breyta gengi krónunnar eða fara í víðtækar efnahagslegar aðgerðir sem slíkar, enda að mörgu leyti ekki sömu efnahagslegar forsendur fyrir því þar sem raungengi er frekar lágt og afkoma ýmissa annarra útflutningsatvinnugreina allgóð, þá ber þetta vandamál að okkur með nokkuð öðrum hætti en oft áður hefur verið. En það breytir ekki hinu að þetta er staðan. Það er grafalvarlegt mál út frá atvinnuhagsmunum í viðkomandi byggðarlögum. Það er stóralvarlegt mál út frá langtímamarkaðshagsmunum okkar þar sem við höfum byggt upp markaði á grundvelli þessarar vinnslu og við þekkjum það af biturri reynslu, t.d. þegar dró mjög úr framleiðslu á Bandaríkjamarkaði á síðasta áratug, að þá geta tapast landvinningar á skömmum tíma sem tekið hefur ártugi að byggja upp og vinna. Og þeir verða ekki auðveldlega endurheimtir þó að menn vilji aftur snúa á fyrri slóðir.

Mér finnst satt best að segja alveg merkilegt tómlæti ríkja um þessa stöðu, herra forseti. Það er eins og maður sé að tala í tómu húsi þegar maður reynir að ná eyrum hæstv. ríkisstjórnar og ráðamanna um þetta vandamál. Það er eins og enginn hafi áhuga á þessu, öllum sé bara skítsama, herra forseti, með leyfi, hvort fiskvinnslan í landinu lifir eða deyr. Það er nokkuð mikið umhugsunarefni, satt best að segja. Kannski er ekki bara stór hluti þjóðarinnar, eins og manni stundum finnst, búinn að gleyma því á hverjum við lifum heldur líka sjálfir ráðamennirnir og farnir að trúa því að við lifum á verðbréfabraskinu og öðru slíku, þar sé uppspretta verðmætanna, eða að peningarnir verði til í Seðlabankanum eins og einu sinni var sagt. Ég held samt að enn sé ekki svo komið, þó að það kunni einhvern tíma að verða, að þar verði til verðmæti af sjálfu sér, þau spretti bara upp úr gólfinu, þó að sökkullinn sé þykkur undir Seðlabankanum, þá getur það vel verið að þar opnist einhverjar lindir. En enn held ég að þetta sé þannig að frumframleiðslan og verðmætasköpunin sé að stærstum hluta framleiðslugreinanna. Það eru fáar þjóðir í heiminum sem byggja afkomu sína í hlutfallslega jafnmiklum mæli á slíkri starfsemi og við og þess vegna held ég að það gætu verið ýmis rök jafnþung ef ekki sterkari eins og þessi fagurfræðilegu skattatæknirök sem hér eru flutt fyrir því að hækka sérstaklega launatengd útgjöld þessara mannaflafreku greina, fiskvinnslu og landbúnaðar. Ég hef a.m.k. ekki tekið þá trú, herra forseti, ég er ekki sannfærður og tel þessar breytingar þar af leiðandi ekki tímabærar.

Ég get svo að lokum hvað þetta snertir vísað í fskj. III sem er umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna og hnígur mjög í sama farveg og tvær þær fyrri. Þar er þó sérstaklega bent á það að greiðslurnar verða mjög þungar á útveginn vegna þess að launin þar eru hærri vegna hlutaskiptakerfisins og af slíkum ástæðum kemur prósentuálagning af þessu tagi hvað upphæðir snertir mjög þungt niður hjá útgerðinni. En hæstv. ríkisstjórn hefur sjálfsagt ekki áhyggjur af henni frekar en öðru í þessu samhengi.

Þá vil ég, herra forseti, gera aðeins að umtalsefni stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég veit ekki hversu vandlega menn hafa skoðað það hér í þinginu, t.d. í þeirri nefnd sem Atvinnuleysistryggingasjóður heyrir undir, hvernig staða hans er að verða, hvað verið er að gera við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég held að það sé afar mikið umhugsunarefni. Hvað er verið að gera? Jú, það er verið að gefa sér það að vegna þess að sem betur fer er kominn a.m.k. tímabundinn bati í atvinnuástandið þá verði um varanlegar breytingar að ræða. Menn reikna sem sagt ekki með því að það geti farið svo að atvinnuleysið fari upp á við á nýjan leik í skammdeginu og menn reikna að fullu inn í áætlun sjóðsins fyrir allt næsta ár þennan skammvinna bata sem orðinn er varðandi atvinnuástandið. Ég er ekki viss um að þar sé á vísan að róa. Ég er t.d. ekki viss um að þetta gangi eftir ef öll fiskvinnslan í landinu meira og minna lokar nú um áramótin og endurræður ekki sitt fólk. Er hæstv. félmrh. búinn að reikna það inn í útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs ef engin vinna verður í landi í Skagafirði, Ólafsfirði og víðar, og víða á Vestfjörðunum?

Svo er í öðru lagi verið að hengja alls konar pinkla á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er verið að gera hann að einhverjum tekjustofni fyrir ríkið fyrir meira og minna óskyld verkefni. Það er hengd á hann starfsfræðsla, námskeið og guð má vita hvað sem í mínum huga er mikið umhugsunarefni hvort er skynsamleg ráðstöfun. Og fleira í þessum dúr er hér á ferðinni sem er mjög sérkennilegt. Nú hélt ég að ríkisstjórnin, og ekki síst þeir flokkar sem að henni standa, væru ákaflega kaþólskir flokkar, ekki í trúarlegum skilningi, herra forseti. Ég veit að þetta eru góðir lúterstrúarmenn upp til hópa, en kaþólskir í þeim skilningi að þeir væru strangtrúaðir varðandi prinsippin í skattamálum og væru yfirleitt á móti svona eyrnamerkingum og mörkuðum tekjustofnum. Það er eins og mig minni að ég hafi einhvern tíma heyrt það, sérstaklega hjá Sjálfstfl. Það er þess vegna dálítið merkilegt að hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, sem var einu sinni talinn tilheyra frjálshyggjuliðinu og stuttbuxnadeildinni í Sjálfstfl. og hefur þá örugglega verið mjög mikið á móti svona eyrnamerkingum og mörkuðum tekjustofnum og svoleiðis jukki, hann er hér að flytja alls konar frumvörp og breytingar sem í raun eru stórbrotin nýmæli í þessum efnum. Að taka inn á tekjustofn Atvinnuleysistryggingasjóðs og lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar alls konar verkefni, Staðlaráð og eitthvað sem heitir Icepro, því fallega íslenska nafni, --- og væri nú gaman ef hv. formaður efh.- og viðskn. væri hér til staðar til að þýða þetta, segja okkur hvað þetta þýðir, Icepro. Það er spurning hvort þetta er ekki brot á nafnalöggjöfinni, herra forseti, að taka lögaðila inn í fjárlögin eða lög um tryggingagjald sem heitir erlendu nafni. Eiga ekki slík fyrirbæri að skírast á íslensku sem fá fjárveitingar í gegnum skattkerfi hins opinbera og koma inn á fjárlög? Ég óska eftir því að hæstv. forseti hugleiði þetta, hvort þetta sé a.m.k. ekki jafnslæmt fagurfræðilega og mismunandi hátt tryggingagjald.

En það er eitt það kostulega sem hér er á ferðinni að allt í einu skýtur upp kollinum í efh.- og viðskn. ósk frá hæstv. fjmrh. um það að taka 16 millj. inn á þennan tekjustofn fyrir Staðlaráð og það má þá alveg skýra frá því að þá sagði hv. formaður efh.- og viðskn.: Ja, þá verður Icepro að koma líka. Hann mundi bara ekki eftir fleirum í bili til að taka með. Annars hefði það örugglega gerst. Það er svo sem allt í lagi að auglýsa eftir því ef það eru einhverjir fleiri sem hafa áhuga á að koma þarna inn að þeir gefi sig þá fram. Það hljóta að vera ýmsar fleiri snotrar stofnanir sem heita annaðhvort innlendum eða erlendum nöfnum sem hægt er að tína þarna inn úr því að hæstv. fjmrh. er búinn að vera svo vinsamlegur að opna þennan reikning á annað borð. Staðlaráð og Icepro og ýmsir slíkir aðilar.

[14:45]

Þannig er það, herra forseti, um efndirnar á stóru og fallegu yfirlýsingunum, t.d. um átak í starfsmenntun, endurmenntun og ýmiss konar námskeiðahaldi og þjálfun af því tagi, að það eru að verða örlög þeirra hástemmdu loforða að velta þessu yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er kostulegt. Og svo er verið að gera þetta tryggingagjald sem í grunninn átti eingöngu að vera til þess að kosta tvo þætti, útgjöld almannatryggingakerfisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs, að allsherjarruslakistu þar sem eru tíndir inn svona smáaðilar og fá heilar 2 millj. kr. eins og Icepro. Ég verð að segja alveg eins og er að litlu verður Vöggur feginn. Mér finnst það nokkuð mikið mál að vera að tína inn smátölur af þessu tagi. Hvers vegna er þetta ekki sett á fjárlög og haft þar? Af hverju er verið að leggja hér á 0,000-eitthvað prómill til þess að reyta út úr þessu 2 millj. handa Icepro? Mér finnst þetta satt best að segja svo smásmugulegt að engu tali tekur. Er hæstv. fjmrh. svona nískur eða illa haldinn, (Fjmrh.: Nema hvort tveggja sé.) nema hvort tveggja sé, að honum finnist það fagurfræðilega verjandi að taka þarna --- hér er þetta komið, herra forseti. Það er 0,00l% sem fer í þetta Icepro. Nei, auðvitað á þetta að vera þannig, herra forseti, að ef svona útgjaldaliðir eru annaðhvort kostaðir alfarið eða styrktir af ríkinu, þá eiga þeir að sjálfsögðu að vera á föstum fjárlögum. Og það er alveg furðulegt að við skulum vera með í höndunum þingmál annars vegar þar sem hæstv. ríkisstjórn notar það sem rök að afnema sjálfvirkni og það megi ekki vera með svona markaða tekjustofna, það megi ekki vera með tengingu bótaliða, t.d. við launaþróun eða annað því um líkt því það sé sjálfvirkni og eyrnamerkingar og annað því um líkt sem ekki megi viðhafa. En þegar kemur að svona hlutum, þá er það í lagi. Þá eru tíndir inn hreinir smámunir og gerðir að sjálfstæðum aðila gagnvart álagningu tryggingagjalds og fá bara heil 0,001%. Það er ekkert smáræði. Það er ljótt ef einhver þarf eina milljón. Þá hlýtur það að vera 0,0005 o.s.frv.

Ég held að það væri hreinlegast, herra forseti, að henda þessu út og ég vara að lokum hvað þennan þátt snertir alveg sérstaklega við því að hér sé verið að veikja Atvinnuleysistryggingasjóð miklu meira en nokkurt vit er í. Það ætti frekar að láta hann njóta vafans ef atvinnuástandið verður eitthvað skárra, sem við skulum svo sannarlega vona, heldur en það var t.d. sl. vetur, ef skammdegiskúfurinn í atvinnuleysinu og útmánuðirnir, sem oft hafa verið okkur erfiðir, verða skárri, Atvinnuleysistryggingasjóður fengi þá að njóta þess vafa og safna í sarpinn. Ætli það geti ekki komið sér vel, því miður, eins og oft hefur orðið raunin.

Að lokum, herra forseti, felur þetta mál í sér að gjaldstofninn sjálfur er breikkaður og greiðslurnar taka mið af öllum launaútgjöldum, þar með talið 6% atvinnurekenda í lífeyrissjóð, og það felur í sér að prósenturnar eru lækkaðar á móti af eðlilegum ástæðum. Ég hef að vísu vini mína í fjmrn. grunaða um að vera pínulítið að svindla þar líka. Þeir ætla að ná sér í smáaura í viðbót með því að breikkun gjaldstofnsins muni gefa aðeins meira en fer út á móti vegna lægri prósentu. Og þegar þetta var borið á þá ágætu reiknimeistara, þá þvertóku þeir ekki fyrir að það gætu komið aðeins meiri tekjur út úr þessu. Ég hef því þann fyrirvara á að þarna gætu menn verið að ná sér í pínulitla klípu í viðbót, en það er væntanlega ekki stórt mál. Ég held að þessi breyting sé að mörgu leyti eðlileg. Það sé að mörgu leyti eðlilegt að miða við allan launagreiðslustofninn en ég vek athygli á því að með þessu er þarna að eiga sér stað aftur örlítil tilfærsla. Það liggur í hlutarins eðli að það verður einhver tilflutningur á greiðslubyrði milli greina eða milli aðila, þar sem greidd hafa verið meira en 6% og yfir til hinna sem eingöngu hafa greitt þau. Það eru sjálfsagt ekki stórar fjárhæðir og ekki ástæða til að hafa af því þungar áhyggjur en um þetta var engar upplýsingar að hafa þegar eftir var spurt aðrar en þær að það var að vísu viðurkennt að þarna væru væntanlega á ferðinni einhverjar minni háttar færslur. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til, herra forseti, að gera athugasemdir við þennan lið en hef þennan fyrirvara á að um það var í sjálfu sér engum upplýsingum skilað hvaða hreyfing yrði á grundvelli þessarar breytingar.

Að öðru leyti, herra forseti, hef ég ekki fleira um þetta að segja en vísa til þess sem þegar hefur komið fram og gefur að líta á nefndaráliti 336 um afstöðu mína.