Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 14:57:58 (2250)

1996-12-16 14:57:58# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[14:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða frv. til laga um breyting á lögum um tryggingagjald, með síðari breytingum, og því nefni ég það að á undanförnum árum hafa verið gerðar allmargar breytingar á þessum lögum og þá einkum til hækkunar á tryggingagjaldi. Það vekur þá spurningu: Undir hverju á tryggingagjaldið að standa og hvað er það sem atvinnulífið á að borga?

Þær tillögur sem við sjáum hér tengjast ráðstöfunum á öðrum vettvangi þar sem m.a. er verið að færa ný og ný verkefni undir Atvinnuleysistryggingasjóð en tryggingagjaldið rennur sem kunnugt er þangað auk þess að standa undir Vinnueftirliti ríkisins.

Ég get tekið undir það meginsjónarmið að samræma beri tryggingagjaldið. Mér finnst það eðlilegt að atvinnugreinar beri sama gjald, hverjar sem þær eru, en það er auðvitað ekki sama hvernig slíkri breytingu er komið á. Við vitum að þegar verið er að hækka tryggingagjald eins og hér er verið að gera í ákveðnum greinum og það meira að segja þeim greinum sem standa hvað verst að vígi, þá er afar mikilvægt að varlega sé farið og menn hugi að því að draga sem mest úr því höggi sem einstakar greinar verða fyrir.

Mér finnst, herra forseti, að það sé sérstaklega einn hópur umfram aðra sem muni verða illa fyrir þessari hækkun og það eru bændur. Það er sá hópur sem fer langsamlega verst út úr þessu. Og það tengist því að bændur hafa orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu á undanförnum árum. Þeir eru bundnir af samningum við ríkið bæði um að draga saman framleiðslu og að lækka verð á sinni vöru. En með þeirri breytingu sem hér er verið að gera og reyndar á að koma á á fjórum árum verða bændur að taka á sig hækkun á tryggingagjaldi upp á 80--100 millj. að mati Bændasamtakanna. Það er augljóst að þetta lendir á einstökum heimilum, einstökum bændum og ég hlýt að spyrja: Telja menn virkilega að landbúnaðurinn geti tekið þetta á sig? Hvað þýðir þetta fyrir einstaka bændur, heimili þeirra og fjölskyldur? Hafa menn ekki í hyggju að skoða sérstaklega hvernig þetta kemur niður og hvort ekki þurfi að grípa til einhverra hliðarráðstafana varðandi þennan hóp sérstaklega?

Ég hlýt að vekja athygli á þessu máli, herra forseti, þó að reyndar megi velta fyrir sér hvernig þessi hækkun kemur við aðra. Hér hefur mikið verið talað um fiskvinnsluna. Það er komið að hluta til til móts við hana en við vitum að hún stendur víða mjög illa að vígi. Og hvað þýðir þetta t.d. fyrir þá sem stunda kvikmyndagerð og eiga afar erfitt uppdráttar hér? Ég held að þegar menn eru að reyna að jafna gjaldi með þessum hætti, og þetta er gjald sem er algjörlega óháð því hvort fyrirtæki eru rekin með tapi eða hagnaði, þá hljóti menn að verða að skoða það hvernig þetta kemur niður og hvort það þurfi að grípa til annarra ráðstafana. Nú veit ég að við samþykktum á laugardaginn allnokkra hækkun á fjárframlögum í Kvikmyndasjóð sem kemur kvikmyndagerð í landinu til góða, en hún á reyndar í miklum erfiðleikum. Það er erfitt að fjármagna kvikmyndir hér á landi og menn eru að leggja í mikla áhættu við það að hefja gerð kvikmyndar. Ég hygg að þetta geti sett nokkurt strik í reikninginn þó að það komi ekki fram hér í upplýsingum og ekki var eftir því kallað í efh.- og viðskn. hvað þetta þýddi fyrir kvikmyndagerðina sem vissulega veitir mörgum vinnu.

Ég vil líka nefna hótel- og veitingahúsareksturinn, þ.e. þann hluta ferðaþjónustunnar. Og reyndar kemur fleira til. Tryggingagjald á bílaleigu hækkar. En þetta eru greinar sem standa ekki alls staðar jafn vel að vígi eða mjög misjafnt að vígi. Það sem ég er hér að reyna að segja, herra forseti, er að um leið og við gerum svona breytingar, sem vissulega eru réttlætanlegar, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því hvað þær þýða. Hvaða afleiðingar þær geta haft fyrir viðkomandi greinar á komandi árum. Ég held að við þurfum að hafa það í huga að þetta getur kallað á aðrar aðgerðir síðar meir.

Hér hefur nokkuð verið rætt um bændur, svo ég komi nú að þeim aftur, og því að þeir hafa um árabil greitt tryggingagjald án þess að hafa nokkur réttindi þar á móti. Nú er búið að leggja fram frv. sem gera ráð fyrir því að bændur öðlist rétt til atvinnuleysisbóta og það er gott og blessað að tryggja þeirra réttindi. En það breytir ekki því að hér er fyrst og fremst um kjaraskerðingu til bænda að ræða. Það verður aldrei nógsamlega undirstrikað.

Hvað varðar önnur atriði vil ég taka undir það að sú lagasetning sem er verið að leggja til í 2. lið brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. er fráleit. Hér er að mínum dómi um algjörlega fráleita lagasetningu að ræða. Ég minnist þess ekki að hafa séð það á undanförnum árum að menn væru að tína upp í lagagreinar einstök fyrirtæki sem skuli hljóta svo og svo mikið í sinn hlut til að þjóna ákveðinni starfsemi. Við spurðum að sjálfsögðu um það í efh.- og viðskn.: Hvað um önnur fyrirtæki? Hvað ef önnur fyrirtæki á þessu sviði verða til? Á þá að koma viðbótarlagagrein, breyting á lögum? --- Hvar lenda menn með svona vitlausri lagasetningu? Auðvitað á bara að orða þetta almennum orðum ef það er vilji meiri hlutans hér á Alþingi að tryggingagjaldið standi undir því að semja staðla, þá á bara að orða það í almennri lagagrein. Eins og gert er t.d. með Vinnueftirlitið að 0,008%, eins og mér telst til að þetta sé hér eða 0,001%, eða hvað menn vilja hafa það, renni til þessarar starfsemi. En ég vil reyndar draga það í efa að það sé hlutverk atvinnulífsins eitthvað frekar en opinberra aðila að standa undir þessari staðlagerð vegna þess að ég veit ekki betur en að það sé verið að setja staðla um allt milli himins og jarðar. Rafmagnstæki, rafmagnseftirlit og allt mögulegt sem líka viðkemur opinberum stofnunum og því hlutverki sem ríkið sinnir. Ég vil því líka draga það mjög í efa að það sé rétt að tryggingagjaldið standi undir þessari starfsemi. Það er að segja annars vegar það sjónarmið að þetta eigi ekki heima undir tryggingagjaldi og hins vegar það að mér finnst þetta algjörlega lagasetning.

Hér hefur aðeins verið komið inn á Atvinnuleysistryggingasjóð og hvað er verið að gera með honum. Það var reyndar farið út í allverulega leikfimi í upphaflegu frv. Það átti að hækka tryggingagjaldið til þess að mæta lækkun á vörugjöldum en síðan komst ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu að þess þyrfti ekki vegna þess að það væri að draga úr atvinnuleysinu. Ég vil benda á það ýmsir þeir aðilar sem sendu inn umsögn um þetta frv., m.a. Landssamband íslenskra útvegsmanna, bentu á að það væri kannski óhóflega mikil bjartsýni af ríkisvaldinu að fara núna strax að taka það inn í dæmið að atvinnuleysið væri búið spil. Hver veit hvernig þróunin verður hér á næstu árum? Hver veit það? Þó að það virðist blása byrlega í bili þá er þetta sjóður sem á að vera viðbúinn því að taka áföllum sem upp kunna að koma og mér segir svo hugur um að staðbundið atvinnuleysi verði á þeim nótum sem verið hefur. Það er margt sem bendir til þess og spá Þjóðhagsstofnunar bendir til þess að við séum því miður nokkuð föst í prósentutölunni í kringum 4% og það er margt sem veldur því. Ég held því að það sé ekki rétt að fara þá leið sem hér er verið að gera, að lækka framlögin sem eiga að standa straum af atvinnuleysi og taka í staðinn ný verkefni inn í Atvinnuleysistryggingasjóð sem koma upphaflegum tilgangi þess sjóðs sáralítið við eins og hefur verið rakið í umræðum að undanförnu og á eftir að koma betur til umræðu síðar í dag, eða kvöld væntanlega, þegar við förum að ræða um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er því margt hæpið á ferðinni, herra forseti, og þó ég sé í grundvallaratriðum sammála því að samræma tryggingagjaldið þá er ég ekki ánægð með það hvernig að þessu er staðið og ég held að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á hinu háa Alþingi verði að bera ábyrgð á þessum breytingum.