Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:15:07 (2255)

1996-12-16 15:15:07# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:15]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá talsmanni meiri hluta efh.- og viðskn. er nafnið mitt ekki undir því nál. og rétt og skylt að gera grein fyrir því. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef verið mjög andsnúinn þessu frv. Ég hef talið það rangt og þess vegna er afstaða mín sú að ég mun greiða atkvæði gegn því.

Það er í sjálfu sér alvarlegt mál að greiða atkvæði gegn stjfrv., frv. stjórnar sem ég svo sannarlega styð eins dyggilega og nokkur kostur er á. En ástæður mínar eru þær að frá upphafi umræðna um þetta tryggingagjald hef ég mælt gegn því og talið það mjög hættulegt.

Sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem sat þar áður, fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar, þær stjórnir hafa fylgt mjög gæfulegri efnahagsstjórn sem hefur borið ríkulegan ávöxt og ég tel að lykillinn að því hafi einmitt verið að allan þennan áratug hafa ríkisstjórnirnar gætt þess að halda raungengi íslensku krónunnar eins neðarlega og frekast væri unnt til að tryggja afkomu þessa þjóðarbús, til að tryggja afkomu atvinnuveganna þannig að við ættum möguleika á nýrri atvinnusókn og byggja upp þetta þjóðfélag til betri afkomu.

Ég tel engum vafa undirorpið að með því að hækka tryggingagjaldið núna erum við að vísu ekki að tala um mjög stórar upphæðir, það er alveg rétt. Stóru upphæðirnar er annars staðar að finna. En það er samt táknrænt, táknræn athöfn. Það er verið að þyngja stöðu allra samkeppnisgreina í landinu. Þetta er verið að gera núna nokkrum klukkustundum eða nokkrum vikum áður en gengið er til samninga á almennum grundvelli að semja um kaup og kjör í landinu. Það er eitt að greiða skatta og annað að bera þá. Það er eitt að greiða laun og annað að bera þau. Og samkeppnisgreinarnar á Íslandi hafa löngum mátt þola það að aðrir hafa greitt skattana, greitt launin en velt því yfir á aðra, velt því yfir á útflutningsgreinarnar, velt því yfir á samkeppnisiðnaðinn, þeir sem verða að standa uppi og borga. Ég tel því að þetta hafi verið ófær leið vildu menn samræma tryggingagjaldið. Ef menn vildu samræma það var eina færa leiðin að fara lækkunarleiðina, að lækka smám saman hin hærri gjöld þar til jöfnuði væri náð. Það eru vissulega rök fyrir því að æskilegt sé að tryggingagjöldin séu þau sömu. Það eru vissulega til rök fyrir því þó að mér finnist þau ekki mjög þung. Þau eru léttvæg. Og það sem mér finnst verra í þessu máli er að það var engin nauð sem rak ríkisstjórnina til þess að flytja þetta mál. Það var engin nauð sem rak til þess, engin, þannig að það hefði betur verið látið eiga sig. Við eigum núna mjög erfiða stöðu. Vaxtarbroddurinn í iðnaðinum hefur verið þó nokkur undanfarin ár en við höfum áður lifað það að iðnaðurinn hefur smám saman verið að rétta úr kútnum. Síðan hafa komið hágengistímar og hágengið hefur virkað á iðnaðinn rétt eins og frostnótt á nýgræðinginn á vorin. Þannig höfum við hvað eftir annað unnið iðnaðinum hina mestu skemmd með óvarlegri efnahagsstjórn.

Það þarf ekkert að fara yfir það hvernig staða sjávarútvegsins er. Ég tel að landvinnslan sé núna í einhverri dýpstu og erfiðustu kreppu sem hún hefur lent í um áratugi og ekki séð fyrir endann á því. Við heyrum núna í hverri viku að þessi landvinnsla sem þorpin og bæirnir allt í kringum landið hafa meira og minna byggt afkomu sína á er að gefast upp. Það er mjög alvarlegt. Ég veit að ríkisstjórnin og stjórnvöld geta ákaflega lítið í því máli gert og er ekki ætlast til þess, en þess vegna er ákaflega óheppilegt að koma með slíkt gjald. Þó að menn segi að það sé ekki mikið, þá er það samt táknrænt svona rétt áður en við förum að ræða um kaup og kjör.

Um landbúnaðinn hefur verið rætt. Það þarf ekki að fara neitt í grafgötur með það. Eini niðurskurðurinn sem hefur átt sér stað í ríkisútgjöldum á undanförnum árum er til landbúnaðarins, sama hvað menn eru að hrópa og kalla um niðurskurð hingað og þangað þá hefur enginn niðurskurður átt sér stað nema til landbúnaðarins. Og íslenskir bændur, ég tala nú ekki um sauðfjárbændur, eru fátækasta fólk þessa lands, langsamlega fátækast og það hefur þurft að þola mjög miklar búsifjar lengi þannig að það er ástæða til að biðja íslenskum bændum griða, það er mikil ástæða til þess og vonandi eru nógu margir hér inni á hinu háa Alþingi sem hafa skilning á því.

Ég geri það sem sagt ekki að gamni mínu heldur þykir mér mjög leiðinlegt að þurfa að ganga gegn minni ágætu ríkisstjórn í þessu máli en annað er óhugsandi. En það er nú svo, herra forseti, að mín góða ríkisstjórn er ekki á flæðiskeri stödd þrátt fyrir það að einhverjir okkar geti ekki stutt hana. Það hefur komið fram að hvorki meira né minna en heil breiðfylking jafnaðarmanna ætlar að styðja stjórnina til þessa verks þannig að ekki mun þetta trufla fyrirætlanir stjórnarinnar þó að mér sé það aldeilis útilokað að styðja hana í þessu máli.