Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:21:58 (2256)

1996-12-16 15:21:58# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, Frsm. 1. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:21]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af síðustu orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um afstöðu okkar jafnaðarmanna um þetta mál. Hún byggist í sjálfu sér ekkert á því að styðja þessa ríkisstjórn eða ekki. Við höfum lýst því mjög skilmerkilega í umræðunni um hvað þetta mál snýst. Það snýst um það hvort menn vilji hafa mismunun gagnvart atvinnugreinum hér á landi eða ekki. Vilja menn viðhalda því kerfi sem hefur verið hér og hefur byggst á ívilnunum til handa tilteknum atvinnugreinum? Þessar atvinnugreinar hafa verið undanfarin ár sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður. Um þetta snýst málið. Það snýst ekki um neitt annað. Okkur jafnaðarmönnum finnst að slík ívilnun gagnvart einstökum atvinnugreinum sé stefna sem heyrir fortíðinni til og eigi ekki að vera hér í löggjöf. Með þessu frv. er lögð til breyting í máli sem við teljum vera réttlætismál. Það er gefinn fjögurra ára aðlögunartími sem er fullkomlega eðlilegur. Bændur geta lifað alveg með þeim breytingum á aðlögunartíma og það er landbúnaði og sjávarútvegi fyrir bestu að búa við sambærileg skattaleg skilyrði og aðrar atvinnugreinar. Það á ekki að draga atvinnugreinar í dilka hvað varðar skattalög. Þá geta menn flutt hér sérstakar tillögur um aðstoð við tilteknar atvinnugreinar eða starfsstéttir ef menn telja það eiga við hverju sinni og hægt er að rökstyðja þann þátt en menn eiga ekki að mismuna með skattalögunum. Um það snýst þetta mál.