Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:23:38 (2257)

1996-12-16 15:23:38# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ef menn telja að æskilegt sé að sama tryggingagjaldið sé á öllum atvinnugreinum, þá vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan að það er aðeins ein leið fær til þess; að hefja þá aðgerð að lækka þau tryggingagjöld sem eru hæst eftir því sem ríkissjóður telur sig hafa efni á og gera það á þann veg ef menn vilja ná þessum jöfnuði, sem eru kannski einhver rök fyrir að sé hægt að hafa en þau eru ekki mikil né þung.

Það liggur fyrir að ekki er verið að skaða neitt samkeppnisstöðu fyrirtækjanna í dag þó að tryggingagjald sé mismunandi. Við erum að versla með íslenska og erlenda vöru og það er ekki sama tryggingagjaldið. Þetta er ekkert að rekast á. Það er langt frá því. En það er allt í lagi, það er óhætt að taka undir það ef menn endilega vilja. Við skulum stefna að því einhvern tíma að hafa sama tryggingagjaldið ef mönnum finnst það snyrtilegra og eðlilegra og ég ætla ekkert að mæla sérstaklega gegn því. En þessi leið sem hæstv. ríkisstjórn er að fara í dag er ófær. Hún er ófær. Það er það sem ég er að nefna hér. Og þetta skiptir máli vegna þess að ég fullyrði að viðfangsefnin á næstu missirum, viðfangsefni efnahagsstjórnarinnar verður að fást við hækkun raungengisins. Þess vegna erum við að vinna gegn okkur sjálfum og gegn þeirri efnahagsstefnu sem hefur verið svo farsæl með því að fara núna að hækka tryggingagjaldið og á þann veg mun samkeppnisstaðan versna. Það er það sem ég er að hafa áhyggjur af og það er fyrir því sem ég er að berjast, að við gerum þetta ekki.