Tryggingagjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:25:52 (2258)

1996-12-16 15:25:52# 121. lþ. 45.3 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv. 156/1996, EgJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:25]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég talaði við 1. umr. þessa máls og í ræðu minni komu fram miklar efasemdir um málið. Ég beindi því sérstaklega til þeirra sem hefðu það til umfjöllunar í þinginu að skoðað yrði nákvæmlega hvernig hægt væri að komast að líðanlegri og skárri niðurstöðu. Það hefur ekki verið gert við afgreiðslu málsins í nefndinni og þar af leiðandi er erindi mitt hingað að undirstrika sérstöðu mína í þessu máli.

Nú vill svo til að hv. 3. þm. Vestf. sem talaði á undan mér hefur gert skýra og góða grein fyrir afstöðu sinni og ég held að ég hafi varla hlýtt á ræðu í þinginu, þann tíma sem ég hef átt hér sæti, sem ég hef verið svo algerlega sammála í öllum efnisatriðum eins og kom fram hjá þessum hv. ræðumanni. Ég vil þó sérstaklega árétta það sem hann lagði þunga áherslu á að auðvitað hljóta menn að þurfa að líta á afleiðingar þess að koma á þessum margumtalaða jöfnuði milli atvinnugreinanna í landinu í sambandi við skattlagningu sem tryggingagjaldið felur í sér. Þó rök finnist auðvitað með því að haga tryggingagjaldinu á þann veg að þeir sem það greiða séu jafnir fyrir lögunum, þá hljóta menn eigi að síður þegar breytingar eru gerðar að horfa til þess hverju þær kunna að valda. Og ég undirstrika það alveg sérstaklega að auðvitað er hægt að fara fleiri en eina leið til þess að ná þessum jöfnuði og þá með því að lækka tryggingagjaldið á þær greinar sem bera þar þyngri byrðar en hinar. Þá er fyrir því séð að ekki séu sköpuð vandræði með slíkum breytingum sem þessum.

[15:30]

Ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá neinum hv. alþingismanni, það er ég alveg sannfærður um án tillits til þess hvar hann er kjörinn á þing, hver afkoman er og hverjar horfur eru í landvinnslu í sjávarútvegi. Það getur ekki verið að það hafi farið fram hjá nokkrum einasta alþingismanni. Og áreiðanlega er hverjum einasta alþingismanni það fullkomlega ljóst hvað það boðar ef sú grein atvinnurekstrarins getur ekki gengið bærilega fyrir sig. En þrátt fyrir þessa vitneskju á að skattleggja sjávarútveginn, m.a. landvinnsluna, um kannski 1 milljarð kr. Það munar um minna. Það vekur reyndar nokkra eftirtekt hvernig menn tala til landbúnaðarins, alveg án tillits til þess úr hvaða flokki þeir koma og hvaðan þessir hv. alþingismenn eru kjörnir á Alþingi. Mönnum er farið að ofbjóða hvernig til hefur verið reitt í sambandi við landbúnaðinn á undanförnum árum. Auðvitað stenst það ekki orðið neinn venjulegan samskiptamáta í þessu þjóðfélagi og eiga menn áreiðanlega eftir að sjá gleggri merki um það þótt síðar verði.

Ég hef nýlega fengið tölur um það frá Hagþjónustu landbúnaðarins hvernig afkoma sauðfjárbænda hefur þróast á síðustu árum. Það kemur í ljós að frá árinu 1992 til ársins 1995 hefur launatekjusamdráttur í þessari grein verið um 40% og var þó ekki of beysinn fyrir, um 40%, hvorki meira né minna. Þetta kemur m.a. fram í því að höfuðstóllinn sem þessir bændur eiga og búa við hefur á þessum tíma rýrnað um 20%. Tekjurnar hafa dregist saman um 40%, höfuðstóllinn hefur rýrnað um 20%. Um 1/5 hafa bændur í sauðfjárrækt þurft að taka af þessum höfuðstól til þess að hafa getað lifað af þessi ár.

Ég benti á það við 1. umr. að tryggingagjaldið væri lagt á áætlaðar tekjur eða reiknaðar tekjur en ekki rauntekjur. Auðvitað er hægt að fá það leiðrétt þegar skattframtal liggur fyrir, ef menn þá hafa sig í það, þannig að álagningin er með þeim hætti að ég óttast að menn greiði þetta gjald af hærri upphæð en rauntekjurnar eru.

Ég vil að lokum, herra forseti, minna á það vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið í sambandi við atvinnuleysisbætur og rétt bænda í sambandi við þær bætur, að ég met að sjálfsögðu mikils þá viðleitni hæstv. félmrh. að taka á því máli eins og þingmál hans vitna um. Ég get ekki álasað ráðherranum fyrir það að hafa tekið í þá umfjöllun og þann undirbúning eitt og hálft ár. En hann er að koma því núna í kring sem var ákveðið fyrir fimm árum og er algerlega óskylt þeirri skattlagningu sem nú fer fram. Þessi ákvörðun um fyrri hækkun á tryggingagjaldi var forsvöruð með því að bændur ættu að fá aðgang að atvinnuleysisbótum. Það hefur hins vegar ekki orðið. Þar af leiðandi er út í hött að tengja þessa ákvörðun eða hugsanlegan árangur í þessum efnum við það að tryggingagjaldið sé núna hækkað.

Það er svo annað mál að miðað við það hvernig sú umræða fór fram og miðað við þær tillögur sem var verið að reyna að leggja fram í þeim efnum, óttast ég að það verði annmörkum háð að fara að borga atvinnuleysistryggingar í landbúnaði. Satt að segja finnst mér það svo sem ekki neitt sérstaklega smekkleg tilhugsun að rekstur landbúnaðarins eigi að vera slíkar að hann þurfi atvinnuleysisbætur til þess að komast af.

Það er rétt að ég árétti það sérstaklega og tek undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að ég mun ekki styðja þetta frv. og gildir einu þótt það sé stjfrv.