Vörugjald

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 15:42:56 (2261)

1996-12-16 15:42:56# 121. lþ. 45.4 fundur 142. mál: #A vörugjald# (gjaldflokkar, lækkun gjalda) frv. 148/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[15:42]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Frv. sem hér er til 2. umr. hangir saman við frv. um tryggingagjald sem við vorum að ræða áðan vegna þess að með þessu frv. er vörugjald lækkað af tilteknum vörum sem felur í sér tekjutap fyrir ríkissjóð upp á einar 300 millj. kr. Hins vegar kom fjármögnunin fram í frv. sem rætt var áðan, þ.e. tryggingatillagið í Atvinnuleysistryggingasjóð var lækkað vegna minni fjárþarfar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði en almenni hlutinn var hækkaður og þá til að standa undir þeirri vörugjaldslækkun sem hér er.

Við í þingflokki jafnaðarmanna styðjum þá lækkun sem kemur fram í þessu frv., þ.e. lækkun á vörugjaldi. Við teljum það eðlilega stefnu sem þar kemur ram. Við bendum á að þetta er lækkun á útgjöldum heimilanna. Að vísu er þetta ekki tekjuskattslækkun í því formi sem við þekkjum vegna þess að þetta er fjármagnað með öðrum hætti, en okkur finnst hins vegar eðlilegt að þessi leið sé farin. Ástæða þess að við skilum ekki sérstöku nefndaráliti er að tryggingagjaldið festist inni í efh.- og viðskn. vegna ágreinings stjórnarliða um nokkurn tíma. En meiri hlutinn kaus að taka þetta mál út úr nefndinni þó að þessi tvö mál hangi saman og ættu að vera í umræðu á sama tíma. Það var í sjálfu sér ekki ágreiningur, ekki minnist ég þess, í efh.- og viðskn. um þetta mál eða lækkun á þeim vöruflokkum sem hér eru taldir til. Ég held að mönnum hafi fundist eðlilega að verki staðið og það má benda á að lækkun vörugjalds er einnig í anda skattbreytinga sem hafa rutt sér til rúms erlendis þannig að við sjáum þessu máli síður en svo nokkuð til foráttu og munum styðja það þegar það kemur til atkvæðagreiðslu, enda er það nátengt tryggingagjaldinu sem ég fjallaði um áðan. Ég lýsti þá yfir stuðningi okkar við meginþætti þess máls þannig að það er samfella í málflutningi okkar um að þær skattalækkanir sem hér er lagðar til þar sem þær eru fjármagnaðar í öðru frv. sem við styðjum einnig. Afstaða okkar er því í samræmi við fyrri yfirlýsingar.