Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 16:37:36 (2269)

1996-12-16 16:37:36# 121. lþ. 45.5 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv. 152/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[16:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. reyni að fullvissa okkur um að ekki standi til að láta þær breytingar koma niður á þeim þætti rannsóknanna. Ég vona að hægt sé þá að leysa þetta með leiguskipum eingöngu en einhvern veginn hefur það verið svo í mínum huga að mikilvægt væri að stofnun af tagi Hafrannsóknastofnunar gæti sjálf sinnt vissum verkefnum og sumir þessara hluta kunna nú að vera það sérhæfðir hvað varðar tækjakost og aðstöðu um borð að venjulegir fiskibátar, sem væntanlega er þá um að ræða til að nota í þessu skyni, fullnægja ekki öllum þeim kröfum. Ég held líka t.d. að það gæti verið ástæða fyrir Hafrannsóknastofnun að skoða samvinnu við ýmsa aðila um rekstur á minni rannsóknaskipum. Ég nefni þar sérstaklega Háskólann á Akureyri og sjávarútvegsstarfsemina þar og rannsóknastofnanirnar sem reyndar eru Hafrannsóknastofnun ásamt fleirum. Og aðalatriðið er auðvitað það að menn ætli sér ekki annað en að sækja fram í þessum efnum og það þarf auðvitað að auka rannsóknir og gera miklu betur en gert hefur verið. Það er mergurinn málsins. Hér var nú reyndar fyrir nokkrum árum samþykkt á Alþingi sérstök þáltill. um að stórefla rannsóknir á grunnslóð sem sennilega hefur nú ekki nema að litlu leyti gengið eftir, því miður. En við skulum að sjálfsögðu vona að þetta reynist allt saman mögulegt og ekki efa ég að vilji manna stendur til þess á Hafrannsóknastofnun og annars staðar að gera sitt besta í þessum efnum.