Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 16:52:29 (2271)

1996-12-16 16:52:29# 121. lþ. 45.6 fundur 57. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (heildarlög) frv. 151/1996, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[16:52]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Sem 1. flm. brtt. sem birt er á þskj. 369 vil ég gera grein fyrir henni. Hana flytja auk mín hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Stefán Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson og Hjálmar Árnason. Auk okkar er í meiri hluta sjútvn. Vilhjálmur Egilsson sem er fjarstaddur þingstörfin nú.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að inn í frv. bætist ákvæði um verulegar tafir frá veiðum og að inn í 5. gr. og 6. gr. komi samhljóða málsgreinar og verði í báðum tilvikum næstar á eftir núv. 2. mgr. beggja þessra greina þannig orðaðar, með leyfi forseta:

,,Hafi skip, sem reglulega hefur stundað veiðar úr stofni sem varanleg veiðireynsla er á, tafist frá veiðum í a.m.k. sex mánuði samfellt vegna meiri háttar tjóns eða bilana skal við ákvörðun aflahlutdeildar á grundvelli veiðireynslu skv. 2. mgr. reikna skipinu afla á því tímabili sem frátafirnar verða. Skal aflinn fyrir hvert heilt veiðitímabil talinn nema sama hlutfalli af heildarafla og nam meðaltalshlutfalli skipsins í heildarafla af viðkomandi tegund á þeim tveimur veiðitímabilum sem næst liggja því tímabili eða þeim tímabilum sem frátafirnar verða. Verði frátafirnar aðeins hluta veiðitímabils skal reikna aflareynsluna hlutfallslega að teknu tilliti til almennra aflabragða þann hluta veiðitímabils sem frátafirnar verða.``

Málsgreinarnar sem bætast eiga við 5. og 6. gr. eru eins, herra forseti, og því mun ég ekki lesa þær báðar en legg til að þær verði samþykktar.