Listamannalaun

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:08:53 (2277)

1996-12-16 17:08:53# 121. lþ. 45.8 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv. 144/1996, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:08]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 335 um frv. til laga um breyting á lögum um listamannalaun, nr. 35/1991. Nefndarálitið er frá menntmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila til viðræðna. Enn fremur bárust nefndinni margar gagnlegar umsagnir um málið.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um listamannalaun sem felast helst í því að gera lögin skýrari en nú er. Þannig er í frumvarpinu kveðið skýrar á um tilgang með listamannalaunum og heimild sjóðstjórnar til að fella niður starfslaun komi í ljós að viðkomandi listamaður sinnir ekki list sinni. Enn fremur felur frumvarpið í sér nokkrar breytingar á 9. gr. laganna er fjallar um Listasjóð. Þær miða að því að þrengja ákvæði laganna þess efnis að helmingur úthlutunarfjár sé bundinn við einn hóp án tillits til þess hversu margir sækja um. Þannig er lagt til að leiklistarráð fjalli um veitingu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna vegna þátttöku í uppfærslum leiksýninga á vegum leikhópa og að allt að þriðjungi fjárveitingar Listasjóðs verði varið til þeirra.

Nefndin leggur til þá breytingu við 9. gr. frumvarpsins að við úthlutun úr Listasjóði hafi stjórn listamannalauna heimild til að fela framkvæmdastjórn leiklistarráðs að fjalla um veitingu starfslauna til leikhúslistamanna vegna þátttöku þeirra í uppfærslum leikhópa. Þykir eðlilegt að leiklistarráð, sem kveðið er á um í leiklistarlögum, komi að úthlutun á þessum hluta starfslaunanna. Er breytingartillaga þessi gerð til að taka af öll tvímæli um framkvæmd úthlutunarinnar.

Þá vill nefndin benda á að huga þarf sérstaklega að stöðu höfunda fræðirita þegar úthlutað er úr Launasjóði rithöfunda.

Menntamálanefnd mælir með samþykkt frumvarpsins með þeirri breytingu við 9. gr. frv. sem mælt hefur verið fyrir.

Menntmn. er einróma í þessari afstöðu sinni. Hér er á ferðinni mál sem mikil samstaða er um bæði í þinginu og á meðal listamannanna sjálfra. Það er lagt fram í þeim tilgangi að sníða helstu vankanta af lögunum sem hafa komið fram við framkvæmd þeirra.