Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Mánudaginn 16. desember 1996, kl. 17:24:35 (2286)

1996-12-16 17:24:35# 121. lþ. 45.11 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv. 140/1996, Frsm. meiri hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[17:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. á þskj. 328 og breytingartillögur á þskj. 329.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Ólaf Davíðsson frá forsætisráðuneyti, Magnús Pétursson, Halldór Árnason og Ólafur Hjálmarsson frá fjármálaráðuneyti, Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti og Þórð H. Ólafsson frá umhverfisráðuneyti. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá meiri og minni hluta félagsmálanefndar, meiri og minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar, iðnaðarnefnd, landbúnaðarnefnd, meiri og minni hluta menntamálanefndar, samgöngunefnd, meiri og minni hluta umhverfisnefndar, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Verslunarráði Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

1. Lagðar eru til breytingar á 2. gr. sem fjallar um lög nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til að leggja á viðbótargjald vegna innritunar utan auglýsts innritunartíma verði hækkuð, en að mati Skólameistarafélags Íslands er slík hækkun nauðsynleg til þess að stuðla að markvissari innritun í framhaldsskóla. Jafnframt er skólanefndum heimilað að láta gjaldið renna til skólasjóðs enda verði sjóðnum ráðstafað í þágu nemenda. Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði gildandi laga um að efnisgjald skuli miðast við þriðjung af raunverulegum efniskostnaði. Ákvæði um hámark efnisgjalds, 12.500 kr. á önn, verði óbreytt. Enda þótt efniskostnaður á matvælabrautum framhaldsskóla hafi reynst nokkuð hærri ber að geta þess að hluti hans er fæðiskostnaður nemenda. Í öðru lagi er lagt til að heimild ráðherra samkvæmt frumvarpinu til að kveða á um gjaldtöku vegna endurinnritunar í bekkjardeildir eða áfanga verði gerð skýrari. Breytingin miðar að því að sérstakt gjald verði innheimt við endurinnritun í áfanga eða bekkjardeild og nær því ekki til upptöku- eða sjúkraprófa. Lagt er til að endurinnritunargjaldið verði 500 kr. fyrir hverja einingu. Þannig þyrfti t.d. að greiða 1.000 kr. fyrir endurinnritun í tveggja eininga áfanga og 1.500 kr. ef um þriggja eininga áfanga er að ræða. Ráðherra er falið að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

2. Lagt er til að 10. gr. verði breytt þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður fjármagni einnig starfsmenntun fiskvinnslufólks. Þannig verður öll starfsmenntun í atvinnulífinu á vegum hins opinbera fjármögnuð með sama hætti með framlögum frá sjóðnum.

3. Til samræmis við tillögur meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar er lagt til að 17. gr. verði breytt þannig að ráðherra verði skylt að leita samráðs við hlutaðeigandi sveitarfélag, auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, áður en hann ákveður að setja reglugerð um að breyta skiptingu heilsugæsluumdæma, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra.

4. Á 19. gr. er lögð til sambærileg breyting og á 17. gr. frumvarpsins um samráð við hlutaðeigandi sveitarfélag, sbr. umsögn meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.

5. Lagt er til að 25. gr., um sérstakt áfrýjunargjald til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, falli brott.

Meiri hlutinn tekur fram að þar sem enn eru óleyst tiltekin mál er varða þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu o.fl. atriðum muni nefndin taka málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umræðu.

Með þessu nál. eru nokkur fylgiskjöl varðandi umsögn meiri hluta félmn., umsögn minni hluta félmn. III. fskj. er umsögn meiri hluta heilbr.- og trn. IV. fskj. er umsögn minni hluta heilbr.- og trn., V. er umsögn iðnn., VI. er umsögn landbn., VII. er umsögn meiri hluta menntmn., VIII. fskj. umsögn minni hluta menntmn., IX. fskj. er umsögn samgn., X. umsögn frá meiri hluta umhvn. og XI. umsögn 1. minni hluta umhvn. og loks er XII. fskj. umsögn 2. minni hluta umhvn.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa eitt fskj. frekar en annað þar sem þetta liggur allt fyrir hjá hv. þingmönnum. Undir nefndarálitið skrifa auk mín Gunnlaugur M. Sigmundsson, Pétur H. Blöndal, Valgerður Sverrisdóttir, Sólveig Pétursdóttir ásamt formanni nefndarinnar, Vilhjálmi Egilssyni.